16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

322. mál, öryggisbúnaður smábáta

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh. fyrir svör við þessari þýðingarmiklu spurningu. Ég er minnugur þess frá umr. um þáltill. í vetur leið, að raunar var brugðið fæti fyrir framgang þessa máls með tilvitnun til þess, að þetta atriði heyrði undir Siglingamálastofnun. Eftir því var sótt af hálfu þeirra Slysavarnafélagsmanna, að því væri hraðað að búa svo um hnútana, að þeir bátar við heiðarvötnin okkar og í höfnunum, sem þar eru tiltækir jafnt fyrir kunnáttumenn sem óvita, yrðu þannig útbúnir að ekki gætu talist manndrápsbollar.

Ástæðan fyrir því, að till. var breytt í meðferð allshn., var beinlínis sú, að af hálfu Siglingamálastofnunarinnar var gerð krafa til þess, að hún fjallaði um þetta mál, og látið var í það skína, að á næsta leiti væri reglugerð sem mundi ná til þessara atriða. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé miklu eðlilegra að Slysavarnafélag Íslands fjalli um þetta mál heldur en við knýjum það undir hatt Siglingamálastofnunarinnar. Mér hafa sagt löggæslumenn, að þeir hefðu á liðnum árum efalaust tekið úr notkun fjölmarga báta af þessari stærð, jafnt við fjallavötn sem í höfnum, ef þeir hefðu haft lagaheimild til þess. Við, sem förum dálítið á milli fjallavatnanna og eins lítum á skeljarnar við bryggjurnar í höfnunum, vitum fullvel að bátar af þessari tegund, hvort heldur þeir eru settir upp eða liggja fyrir festum, bjóða raunverulega þeim sem að kemur að nota sig: Hér er bátur, gerið þið svo vel, — og þá sama hvernig þeir eru útbúnir og hver það er sem að garði ber. Ég veit að það hafa orðið fjölmörg slys vegna þess að þarna eru bátar sem alls ekki ættu að vera þar og vegna þess að það er enginn aðili sem umboð hefur til þess að taka þá úr notkun. Sumir þeirra eru raunar þannig, að það ætti að vera þegnskylda hvers og eins, sem að kemur, að brjóta þá.

Ég legg mjög mikla áherslu á að þessu máli verði hraðað og leitað verði til Slysavarnafélags Íslands í þessu sambandi.