16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hér hefur verið spurt um það, hver sé stefna íslensku stjórnarinnar um sjónvarpssamvinnu Norðurlanda. Hæstv. menntmrh. hefur svarað og sagt að því sé fljótsvarað, að það sé engin stefna mörkuð önnur en að taka þátt í athugun málsins. Þetta er út af fyrir sig skýrt og gott svar. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að segja það, að ég tel mjög æskilegt og ég er talsmaður þess, að við tækjum menningartengsl okkar við Norðurlandaþjóðir, og ég er svo gamaldags í mér að ég gæti vel hugsað mér að þessi menningartengsl yrðu eitthvað á svipaðan hátt og verið hefur gegnum norrænu félögin og á annan slíkan hátt. Hins vegar er það svo um mig hvað snertir sjónvarpssamvinnu Norðurlanda, að ég held að við megum ekki fara að líta á það samstarf sem einhvern sjálfsagðan hlut. Ég held að við verðum að spyrja okkur að því, á hverju þetta samstarf eigi að byggjast, hver eigi að vera tilgangur slíks samstarfs og hvert eigi að vera innihaldið í þessu samstarfi. Ég held líka að við ættum að spyrja okkur að því, að hvaða gagni þetta geti komið okkur, hvort við verðum þarna veitendur eða hvort við verðum kannske eingöngu þiggjendur eða í senn veitendur og þiggjendur. Ég er ekki búinn að gera mér fyllilega grein fyrir því, hvernig þetta mál verða, því að svör við þessum spurningum liggja alls ekki á lausu. Auk þess er, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, áberandi hvað þetta mál hefur verið lítið rætt hér á landi. Ég held að ég megi fullyrða að þetta mál hefur naumast komið til umr. á Alþ. eða verið borið undir Alþ. Er út af fyrir sig dálítið skrýtið að þetta skuli ekki vera rætt meira hér á Alþ. í einhverju öðru formi en í fsp.

Þess vegna er það, að við Íslendingar erum ákaflega ókunnugir þessu máli, þm. ekkert síður en aðrir. En þeir, sem hafa þó reynt að fylgjast svolítið með þessu, vita að um þetta mál, samstarf Norðurlanda í sjónvarpsmálum, eru talsvert miklar deilur á Norðurlöndum og menn eru engan veginn á eitt sáttir, eins og fram hefur komið hér, t.d. í ræðu hæstv. menntmrh. Það er augljóst mál, að hér er reyndar um afar stórt mál að ræða fyrir okkur alla, fyrir Íslendinga, fyrir allar Norðurlandaþjóðir. Þetta er augljóslega stórt menningarmál, en líka stórt fjárhagsmál. En sem sagt, jafnvel þótt ég sé þessa sinnis og svo gamaldags í mér að ég álíti að við eigum að rækja alveg sérstaklega menningarlega samvinnu við Norðurlönd og gera það á hinn hefðbundna hátt, eins og verið hefur, með góðu samstarfi innan norrænu félaganna og með alls konar öðru samstarfi, vinabæjasamstarfi o.s.frv., þá held ég að við ættum að stinga dálitið við fótum og athuga vel okkar gang áður en við leggjum út í það að taka að fullu þátt í því samstarfi sem fyrirhugað er í sambandi við þennan gervihnött.