20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

10. mál, þingsköp Alþingis

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt um liðið síðan ég bað um orðið í þessari umr. og ég er ekki alveg viss um að ég muni það í dag sem ég ætlaði að segja fyrir helgina, en þó ætla ég að fara um þetta mál örfáum orðum áður en það fer til nefndar. Að öllum líkindum, eða samkv. till. flm., fer það til n., sem ég á sæti í, svo ég get verið stuttorðari fyrir þá sök en ella mundi.

Ég vil segja það í upphafi, að þetta mál er að mörgu leyti áhugavert. Það er hollt að gera sér grein fyrir hlutverki þingnefnda og ég vil ekki útiloka að þær eigi að hafa meira verksvið en tíðkast hefur með margar þeirra hingað til. Hitt er svo annað mál, og ég get sagt það strax, að mér þykir þetta frv. allt of víðtækt og að það þurfi verulegra breytinga við, ef ég á að geta samþykkt það. Ég skal koma að því örlítið síðar.

En í þessu sambandi er rétt að hugleiða hvaða hlutverk og hvaða vald þingnefndir hafi samkvæmt þingsköpum eins og þau eru. Fyrir frumkvæði hv. l. flm., Vilmundar Gylfasonar, hv. 7. þm. Reykv., hefur nokkur athugun farið fram á því í allshn. Nd. — þessarar hv. d. — hvaða verksvið og hvaða vald sú tiltekna n., og þá væntanlega aðrar ekkert síður, hafi samkvæmt núgildandi þingsköpum. Ég mun ekki gera grein fyrir starfi n., það er ekki mitt hlutverk hér, en tel það geti engan skaðað þó greint sé frá því, að þessi skoðun hefur átt sér stað að undanförnu og að við höfum fengið fyrir forgöngu formanns til skrafs og ráðagerða nokkra mjög færa sérfræðinga í þessum málum. Ég hygg að niðurstaðan sé, að þingnefndir hafi talsvert vald ef þær vildu beita því, þó að engin breyting á þingsköpum komi til.

Hér var því haldið fram, í framsögu að mig minnir, að frv. þetta væri m.a. flutt í þeim tilgangi að skerpa skilin á mill: hins þrískipta valds í þjóðfélaginu, framkvæmdavaldsins, löggjafarvaldsins og dómsvaldsins. Alþ. fer að sjálfsögðu með löggjafarvaldið. Ég er ekki viss um að það verði til að skerpa þessi skil, að alþingisnefndir fari að taka að sér hluta af rannsóknum, jafnvel að kveða upp úrskurði eða láta í ljós álit á framkvæmd laga. Samkvæmt mínum hugmyndum heyrir það til framkvæmdavaldi annars vegar og dómsvaldi hins vegar að framkvæma lögin. Hitt er auðvitað rétt, sem hv. flm. sagði, að það er ekki til mikils fyrir Alþ. að samþykkja lög sem ekki eru framkvæmd. Þarna þarf sem sagt að fara einhvern þann milliveg sem getur gert hvort tveggja, að tryggja Alþ. þann rétt sem það á, að lög þess séu virt, og hins vegar að Alþ. fari ekki yfir á verksvið hinna þátta valdsmeðferðarinnar í þjóðfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu langa, herra forseti, en ég ætla að segja tvær til þrjár setningar í viðbót. Mér finnst að samkv. 1. gr. gæti nokkurs tvískinnungs í textanum. Greinin byrjar þannig: „Þingnefndum er skylt að fylgjast með framkvæmd laga,“ en stuttu síðar segir: „Einfaldur meiri hluti þingnefndar getur ákveðið að taka einstök framkvæmdaratriði laganna til meðferðar.“ — Ég sé ekki betur en að þetta sé algerlega óþarft. Ef þingnefnd er skylt að fylgjast með framkvæmd allra laga þá hún auðvitað að gera það, þá er það hennar verk og það á ekki að þurfa minni eða meiri hluta í henni til þess að taka ákvörðun um það sem búið er að skylda n. til að taka að sér. Þess vegna tel ég að þessi setning a.m.k. þurfi endurskoðunar við. Og satt að segja finnst mér það of langt gengið ef setningin eða lagagreinin á að hljóða þannig, að það sé skilyrðislaus skylda þingnefnda að fylgjast með framkvæmd laga. Hitt vil ég alveg fallast á, að þingnefndir hafi vissa heimild til þess.

Ég held að það væri okkur öllum fyrir bestu að við skoðuðum þetta frv. án mikilla umræðna nú og reyndum að komast að þeirri niðurstöðu, hvernig við gætum orðað þessa lagagrein þannig að hún næði þeim tilgangi, sem ég hef verið að reyna að lýsa, án þess að hún yrði allt of víðtæk.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að svo stöddu.