21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

331. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Ég geri ráð fyrir að þessi svör, þó að þau fullnægi ekki að öllu leyti því sem víðs vegar er vænst í þessu máli, verði til þess að róa marga sem bíða í óþreyju eftir að geta notið sjónvarps hér á landi.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ellert Schram, að ég tel að það sé rétt stefna að þær tolltekjur af sjónvarpstækjum, sem til falla, fari til dreifingar sjónvarps um landið og til þess að byggja upp sjónvarpið sem stofnun. Á því er mjög mikil þörf. Ég vil í leiðinni einnig vekja athygli hv. alþm. á vanda hljóðvarpsins, sem á örugglega eftir að koma á borð þm., þar sem langbylgjukerfið, sem við búum við í dag, er að verða ónothæft. Þetta verður áreiðanlega stórt verkefni mjög fljótlega, og nauðsynlegt er að það verði tekið föstum tökum strax og fyrir liggja þær endurnýjunaráætlanir sem þar eru á ferðinni. — Ég vil endurtaka þakkir til ráðh. fyrir svörin.