21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

334. mál, útgerð Ísafoldar

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir greinargóð svör við þeirri fsp. sem hér er til umr., og ég fagna yfirlýsingum hans um það, að fyllsta ástæða sé til að hafa mjög mikla aðgát varðandi allar hugsanlegar rannsóknir tengdar olíuleit á sjávarbotni.

Að mínum dómi er alveg sérstök ástæða til þess að láta ekki dragast úr hömlu að afla sem ítarlegastra upplýsinga um það, hvaða hættur kynnu að fylgja borunum á sjávarbotni, ef til kæmi, hættur fyrir fiskimiðin og lífríki sjávar. Ég hygg að það sé tímabært að unnið verði að sérstakri grg. í þessum efnum af hálfu íslenska ríkisins, þannig að þær upplýsingar, sem þar yrði safnað, gætu á síðari stigum auðveldað okkur ákvörðun í þessum efnum, því að ég hygg að full ástæða sé til að gera ráð fyrir því, að svo kunni að fara að nokkuð fast verði eftir því leitað að fá hér heimildir til borana í könnunarskyni, sem er að sjálfsögðu miklu stærra mál en sú heimild sem upplýst var af hæstv. iðnrh. að veitt hefði verið af fyrrv. ríkisstj. fyrr á þessu ári. En það kom skýrt fram í máli hæstv. iðnrh., að hann hefur fullan hug á að þessar undirbúningskannanir af hálfu okkar sjálfra fari fram sem fyrst, og ég fagna því, og þá ekki síður vil ég láta í ljós ánægju með þá áherslu sem hæstv. ráðh. lagði á það, að við hefðum sjálf, okkar stjórnvöld og okkar vísindamenn, alla forustu um það sem aðhafst kynni að verða í þessum efnum og af okkar hálfu yrði um mjög vandað og öflugt eftirlit að ræða varðandi athafnir erlendra aðila í tengslum við könnun á jarðlögum á sjávarbotni við strendur lands okkar.