22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

95. mál, leiklistarlög

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil láta þá skoðun í ljós, að eðlilegt sé að flytja þetta frv., og ég mun styðja þetta frv.

Þegar frv. til leiklistarlaga var lagt fram á sínum tíma, mér er kunnugt um það, þá var það nokkuð snöggsoðið frá minni hendi. Þá voru líka ekki mjög áberandi þau samtök sem nú eru að eflast, þ.e. samtök fagfólks í leiklist sem varla heyra undir áhugastarfsemi.

Ég hygg að það sé bæði nauðsynlegt og eðlilegt að setja þetta ákvæði inn í leiklistarlögin. Okkur er vissulega vandi á höndum með stuðning við leiklistarstarfsemina í landinu. Það er kannske ekki sérstaklega eitt form fremur en annað, því það er svo mikil gróska í þessu öllu saman og hefur verið það á undanförnum árum. Áhugaleikfélögin hafa blómstrað, og að mínum dómi er það ótrúlega mikið menningaratriði að slíkur félagsskapur sé starfandi í hinum ýmsu byggðarlögum og hann geti fengið viðunandi skilyrði. Einnig, eins og vikið er að í grg., hefur það gerst með tilkomu Leiklistarskólans, sem raunar starfar í framhaldi af öðrum skólum sem voru starfandi hér áður en hann tók til starfa, að leikurum fjölgar mjög, svo það er hæpið að fólk fái alltaf fulla vinnu í sínu fagi. Látum það liggja á milli hluta. En það er a.m.k. eðlilegt að veita þessu fólki þann stuðning sem við megnum. Hitt er svo, að það verður sjálfsagt seint stutt við bakið á öllum, hvort sem það er fagfólk eða áhugafólk, eins og menn raunar vilja, því að almenningur sýnir þessari starfsemi mikinn áhuga og þess vegna blómstrar hún. Það verður náttúrlega seint gert, því að þarfirnar eru alls staðar miklar. En alveg sérstaklega er kannske erfitt að fást við svona mál, lykta fjárveitingum af þessu tagi, þegar það gerist sem hér hefur gerst, að það verður svona snöggur fjör-og vaxtarkippur í viðkomandi starfsemi.

Ég get ekki stillt mig um að láta það fljóta með þessum orðum, að það hefur verið afskaplega vandræðaleg af greiðsla á ýmsum menningarfjárveitingum að undanförnu hjá okkur hér á hv. Alþ. Sumar þessara fjárveitinga, þó að enginn vilji út af fyrir sig fella þær niður, hafa staðið í stað í krónutölu árum saman. Ég lét gera lista fyrir einum tveimur árum, held ég, um þessar fjárveitingar, þær eru nokkuð margar á vegum menntmrn., og það var raunar hörmulegt að sjá þá útfærslu á stuðningi til ýmissa ágætra menningarmála sem þar var fjallað um og höfðu kannske fengið verulegan styrk fyrir nokkrum árum, en síðan staðið í stað í krónutölu eða hvergi nærri hækkað í samræmi við verðlag.