22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Við höfum hér á þskj. 47 gamlan uppvakning. Að vísu er draugur þessi ekki vakinn upp nú af sömu mönnum, en mér sýnist að særingarþulan sé með sama hætti og áður. Við höfum tekist á um þessi mál og þessa skipan mála hér á hinu háa Alþingi um alllanga hríð og um mörg undanfarin ár og hvati þess aðallega verið skrif fjölmiðla og umræður í fjölmiðlum um kaup og kjör alþm.

Það er rétt sem fram kom í umr. hér á dögunum, að alþm. munu ævinlega verða í sviðsljósinu og þess vegna munu verk þeirra háð gagnrýni, svo sem vera ber, og ekki karlmannlegt að víkja sér undan því að einu eða neinu leyti, síst því, sem lýtur að þeim sjálfum.

Ég vil í upphafi, þó ég ætli raunar ekki að hafa hér langt mál um, áminna menn um það sérstaklega að rugla ekki saman, svo sem þeim hættir til og kom skýrlega í ljós hér í umr. fyrir tveimur dögum, beinum launum til hv. alþm. og öðrum kjörum þeirra. Þegar menn ræða nú um að með frv. þessu sé lagt til að vísa ákvörðun um laun alþm. til Kjaradóms, þá er þess að geta að þau eiga þar heima og hafa átt um alllanga hríð og Kjaradómur hefur kveðið upp úrskurð sinn um beinar launagreiðslur alþm. Á annan áratug hefur skipan mála verið sú, að þingfararkaupsnefnd hefur einvörðungu haft með að gera ákvarðanir um önnur kjör þm., svo sem bifreiðastyrk, húsaleigustyrk, fæðispeninga o.s.frv. Þarna þurfa menn að gera skörp skil í milli vegna þess að þann veg er þessu háttað, en ég minnist þess að í umr., sem urðu um þetta mál á s.l. vetri, var því slegið föstu að alþm. hefðu þá tekið ákvörðun um það sjálfir að hækka sig í launum einna mest af öllum þjóðfélagshópum milli ára sem þá væru dæmi finnanleg um eftir þær miklu kauphækkanir sem urðu í þjóðfélaginu. Þessu var slegið föstu og ég gat ekki betur séð en þó skýringar væru gefnar, þá hefði það litla stoð. Menn vildu trúa þessu, að þm. hefðu tekið ákvarðanir um það sjálfir að hækka sjálfa sig hlutfallslega meira en vel flesta aðra.

Þessu var ekki þann veg háttað. Ákvörðunin um kaup okkar fór eftir lögum þar sem segir að þm. skuli launaðir eftir þriðja hæsta launaflokki starfsmanna ríkisins. Að vísu, eins og bent var á, höfðu alþm. á sínum tíma tekið um það ákvörðun að skipa þennan flokk, þannig að auðvitað mátti til sanns vegar færa að með þeirri ákvörðun bæru þeir frumábyrgð á þeim úrslitum sem urðu í þessu máli. En þannig er það raunar um öll mál sem lög ganga um, að auðvitað eiga alþm. í upphafinu frumkvæðið og bera ábyrgðina. Því er það, að enda þótt menn vilji nú axla fram af sér þessari ábyrgð, þá komast þeir aldrei hjá því, að þeir verði kallaðir til ábyrgðar um það hver sem úrslit verða, að hafa þann veg skipað þessum málum. Til hvers mundi augljóslega leiða að við kölluðum til Kjaradóm eða vísuðum okkar málum öllum til meðferðar í þeim ráðum og nefndum sem hafa með skipan þessara mála að gera, og á ég þá sérstaklega við þá þætti sem enn eru í höndum þingfararkaupsnefndar?

Ég held það fari ekkert á milli mála til hvers þetta mundi leiða. Það kemur ekki til nokkurra greina að ætla þeim embættismannanefndum, sem hafa með úrskurði að gera varðandi dagpeninga, bifreiðakostnað og aðra launataxta ríkisstarfsmanna, að þær mundu ákveða þm. önnur kjör en öðrum ríkisstarfsmönnum. Og til hvers mundi það leiða? Ég hef e.t.v. ekki í höndum nýjustu upplýsingar um þetta efni, en þær sem ég hef eru, að nú eru ríkisstarfsmönnum ætlaðar 2.800 kr. til að kaupa sér fyrir gistingu í einn sólarhring og til framfærslu sér að öðru leyti 5.200 kr. Þm. eru nú eftir síðustu ákvörðun þfkn. ætlaðar 4000 kr. til þess að greiða fyrir húsaleigu. Mismunur á því og þeim reglum, sem ríkið hefur sett fyrir aðra starfsmenn sína, er 1200 kr. á dag, 36 000 kr. á mánuði. Og ég vil skjóta því hér inn í, að því sem mál okkar ern afflutt og við verðum undir því að liggja, sbr. það að þegar við gerðum tilraun til þess í fyrra að bera af okkur sakir í þessu efni, þá skrifaði Morgunblaðið í leiðara að slíkt ætti ekki við, að þegar þfkn. tók um það ákvörðun nú á dögunum að hækka þessi kjör þm. ári eftir nokkuð til samræmis við verðlagsþróun í landinu, en þó ekki alveg, þá berast nú lesendabréf til dagblaðanna þess efnis, að nú hafi alþm. tekið upp á því að hækka laun sín um þetta frá 25 % til 30 og eitthvað %. Og mér er nær að halda að meginþorri alls almennings standi í þeirri meiningu að þetta hafi verið gert. Þannig hefur málið verið flutt. Og ef menn halda, þó að ýmsir af klárvígustu gagnrýnendum alþm. undanfarin ár hafi nú skroppið inn í Alþ., að það verði ekki einhverjir til þess að taka við af þeim í kolakjallara Dagblaðsins t.d., þá er það líka misskilningur.

En hvað þá um dagpeningana? Þar er úrskurður hinn nýjasti sem ég hef frá 1. maí að vísu. Það kann að vera, að nýr úrskurður hafi verið kveðinn upp um þetta efni 1. okt., en ég vil þó ekkert um það fullyrða. Þar eru ríkisstarfsmönnum ætlaðar 5200 kr. um þetta gat ég. En það var gistingin sem ég ætlaði að víkja að, þar er þetta 2800 kr. á dag eða 84 þús. kr. á mánuði. Nýjasta ákvörðun þfkn. hljóðar upp á 55 þús. kr. þannig að hér er mismunur 29 þús. kr. Ef við leggjum nú þessa tvo þætti saman, fæðispeninga og húsaleigustyrk, þá er mismunur þarna 65 þús. kr.

Nú er það ljóst, að þfkn. hefur ekki á undanförnum árum tekið alfarið tillit til verðlagsþróunar. Hún er ævinlega neðar en sem henni hefur numið, þannig að stofninn nú, þegar hækkað er eftir verðlagsvísitölu, er miklu lægri en hann ætti að vera. En ég er þess fullviss, að yrði þetta frv. samþykkt, þá yrði auðvitað tekin um það ákvörðun að við skyldum njóta sömu kjara og allir aðrir starfsmenn ríkisins.

Menn munu nú e.t.v. spyrja sem svo: Hvernig stendur á því að alþm. fara ekki eftir sömu reglum í þessu efni og ríkið ætlar öllum öðrum starfsmönnum sínum? Því er til að svara, að enda þótt einstaka þm. búi þann veg að þeir ættu skilið að hafa þessi kjör, þá er svo ekki um velflesta, og fyrir því er það að menn hafa farið þennan milliveg. Það er ekki svo um velflesta. Allmargir þm. eiga orðið íbúðir í borginni sem þeir geta búið í og komist þannig miklu betur af en ef þeir þyrftu að leigja sér húsnæði. Enn fremur er þess að gæta, að hér er um dagpeninga til handa ríkisstarfsmönnum að ræða og að öllum líkindum er dýrara að bregða sér örfáa daga frá heimili sínu. Menn þurfa þá að kaupa dýrari dómum fæði og annað sem tilheyrir heldur en ef menn geta sett sig niður lengri tíma á sama stað, eins og við þingstörf hér í 7–8 mánuði ársins. Þessi er skýringin. En auðvitað getur embættismannanefnd ekki gert þennan stigsmun á, þannig að menn verða að ganga að því með opin augu, að þetta frv., ef að lögum verður, leiðir til stórfelldra kjarabóta þm., og til þess eru máske refirnir skornir. Ekkert skal ég um það segja. Og ef menn halda að af því að alþm. ákveði með lögum að axla þessu fram af sér, þá lækki í þeim röddum sem hafa gagnrýnt þá fyrir of háar aukagreiðslur til að mynda, þá er það alger misskilningur. Okkur hélst ekki einu sinni uppi í vetur er leið að halda því fram, að við hefðum ekki tekið ákvörðun um þessa miklu launahækkun okkar sem varð, af því að við höfum fyrir 15 árum eða svo tekið ákvörðun um að svona skyldi þessum málum skipað og við mundum hafa svo sem séð það fyrir til hvers það mundi leiða okkur til góða.

En þetta er auðvitað ekki meginatriðið í afstöðu minni til þess að ég hef löngum verið því fylgjandi að þm. tækju ákvarðanir um öll laun sín og öll kjör. Þetta, sem ég nú hef rakið, er ekki meginástæða þess. Ég vil nefna það sem dæmi, að það er sannfæring mín að þau laun, sem okkur var gert að fá samkv. kjaradómi sem síðast gekk, mundu ekki hafa verið stimpluð inn í fundargerðabók þfkn. ef okkur hefði verið sjálfrátt í málinu. Ef við hefðum átt að ákveða hver hækkun okkar skyldi verða að gengnum kjaradómi, þá liggur alveg ljóst fyrir að við hefðum athugað um það, hversu mikil hækkun okkar var í samanburði við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Þetta gerðum við ekki, því að ekki er á valdi þfkn. að taka um þetta ákvörðun. Það eru lög sem gilda um hvaða laun við skulum taka, og það er samkv. þriðja hæsta flokki í launastiga starfsmanna ríkisins. Þess vegna er það ekki lengur nema bókunaratriði hjá þfkn., hvaða laun þm. taka, því að hún hefur ekkert um það að segja. En þar með rötuðum við í þá ógæfu, sem ég vil kalla, að stimpla hér, þótt eftir kjaradómi væri, laun sem að vísu voru ekki þau hæstu á milli ára sem um gat í þjóðfélaginu, því að vitanlega eru fjölmargir aðrir í sama flokki og við og njóta auk þess ómældrar yfirvinnu, sem þýðir óunna yfirvinnu 20% ofan á sama skala og við erum í, þingmenn. Það fundust auðvitað sambærileg og ögn hærri dæmi. En allt að einu, þá var þetta afar óskapfellilegt, svo að ekki sé meira sagt. Gerðu menn raunar tilraun til þess, þegar þetta lá ljóst fyrir, að ná samkomulagi um að bera fram breytingu á þingfararkaupslögunum, þar sem við tækjum nýja ákvörðun, ákvörðun um annan launaflokk en þennan þriðja hæsta. En ekkert samkomulag varð um það og því hlaut þessi niðurstaða að verða.

Ég er þeirrar skoðunar, að hið háa Alþingi eigi að hafa manndóm í sér til þess að taka þessar ákvarðanir allar sjálft og eiga þær ekkert undir embættismenn að sækja. Hið háa Alþingi tekur vitaskuld örlagaríkustu ákvarðanir sem teknar eru í málefnum allrar þjóðarinnar, og ef alþm. eru ekki menn til þess að standa fyrir máli sínu varðandi eigin hag, kaup og kjör, þá gef ég ekki mikið fyrir þann manndóm.

Eins og hv. þm. Halldór E. Sigurðsson gat um, munum við ævinlega vera í sviðsljósinu og liggja undir harðri gagnrýni. Það er auðvitað misjafnt hvílíkt skaplag menn hafa og með hvaða hætti þeir beita vopnum sínum, eins og ég vil meina að hafi verið gert á nokkuð svo óvæginn máta og jafnvel gagnrýnisverðan, óheiðarlegan næstum að segja, á undanförnum missirum í garð okkar þm. að þessu leyti. En allt að einu, enda þótt menn hafi skapsmuni til þess, þá er að taka því.

Ég legg, án þess að vilja lengja mál mitt miklu meira, höfuðáherslu á það, að samþykki þessa frv. til l. um breyt. á lögum um þingfararkaup alþm. þýðir stórfelldar hækkanir á aukagreiðslum til þm. vegna dagpeninga, vegna húsaleigustyrks og bifreiðastyrks. Það er t.d. þess að geta varðandi bifreiðastyrkinn, að þfkn. hefur ævinlega tekið ákvörðun um það, að þm. skyldu fá á ekinn km. það lægsta sem tíðkast hjá ríkinu, og lægsti taxti hjá því er á olíubornum eða malbikuðum vegum og er nú samkv. þeirra skala 53 kr., á ekinn km. En á öllum öðrum vegum, og í mínu kjördæmi ek ég enga aðra, nema 1.5 km á einum stað eða svo, eru 65 kr. greiddar á km. Þm. t.d. í Austurlandskjördæmi ferðast ekki mikið um ef hann ekur ekki 10 þús. km í kjördæminu á ári. Ég hef einu sinni á 39 daga ferðalagi þar utan kosninga ekið 11 þús. km og það mundi gera mér til handa 650 þús. kr. núna, þegar við höfum nýverið tekið ákvörðun um 500 þús. alls á ári. Ég veit að ýmsir aðrir hafa þessa sögu að segja, og mætti segja mér, að þar sem vegir eru hvað lengstir og veganetið þéttriðnast, eins og á Suðurlandi, ækju menn tvöfalda þessa vegalengd á árinu. Ég efast ekkert um það, en aðrir geta borið um það. Og þá sjá menn að það er ekki lengi gert að taka inn eina millj. kr. eða svo á ári, og það er alveg ástæðulaust að einn eða neinn þm. þurfi að falla í þá freistni að skrá og gefa upp sjálfur, sem yrði að vera í þessu tilfelli, þann kílómetra fjölda, sem hann ekur. Ég er hins vegar viss um að hver og einn mundi skrá það upp á hálfan km. Ég efast ekkert um það. En það er alveg ástæðulaust að vera að beita slíku fyrir menn eða egna, og þess vegna er rétt að hafa þetta ákveðna fjárhæð.

Það kom fram í máli hv. 1. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, að hann endurtók það sem hann hafði áður sagt, að hann væri andstæður því að menn tækju laun nema fyrir eitt fullt starf, eins og fyrir þingmannsstarfið. Auðvitað er þetta skylt þeim umr. sem hér fara fram um það, að þm. eigi ekki að gegna öðrum störfum. Að því ætla ég ekki að víkja nú. En hann nefndi dálítið sérkennilegt dæmi um það, hvort menn væru t.d. reiðubúnir til þess að gjalda einum og sama manninum full læknislaun og prestslaun. Ef einhver sæti nú svona vel að málum að vera þetta hvort tveggja í senn, þá geri ég ráð fyrir að það væri nóg að borga lækninum full laun, því að hann getur þá útvegað hinum slíkar aukatekjur, að ekki þyrfti sérstaklega að hafa föst laun í því efni. En þetta er annað mál, en að vísu þessu skylt.

Að lokum vil ég svo aðeins víkja að atriðinu varðandi skattframtalið, og ég verð að játa að það hefur verið nokkur fleinn í holdi mínu. Að vísu eru alveg skýr ákvæði um það í skattalögum, kostnaður vegna ferðalaga og annars, sem að þessu lýtur, er ekki framtalsskyldur. En það er eins og áður, að við höfum sett þessi skattalög og berum ábyrgð á þeim. Það er líklega alveg rétt líka, að við mundum geta talið fram kostnað með því móti sem lægi yfir þeim greiðslum sem við fáum vegna þessa. En allt að einu, þá er ég þeirrar skoðunar, að þann sið ætti að taka upp að telja allt saman fram. Það er ákaflega óskapfellilegt að draga nokkurn hlut undan sem máli skiptir í skattframtölum, og hér er vissulega um verulegar fjárhæðir að tefla.

Ég þarf ekki að segja meira, svo að menn megi skilja það á máli mínu, að ég er andstæður þessu frv. Ég hef hins vegar reynt á það á undanförnum þingum, að ekki hefur verið samstaða um það að þm., eins og ég hef viljað, tækju þessi mál alveg í sínar hendur. En það er mér langsamlega skapfelldast, að svo verði og við öxlum alla ábyrgðina. Þm. eiga að bera ábyrgð á sínum launakjörum og vera óhræddir við það. Það er svo annað mál, hvort þann hátt eigi að hafa á um það, að 7 manna n. hafi á þessu alræðisvald. Í raun og veru er svo ekki, því að þá tíð sem ég hef setið í þessari n. hefur ævinlega verið sótt til þingflokkanna og undir þá bornar tillögur til breytinga sem þfkn. hefur verið með milli handanna. En ég legg höfuðáherslu á það, að við mönnum okkur nú upp og berum fram frv. um að slíta allri kjaradómsaðferð og taka málin öll í okkar hendur. Á hinn bóginn er þessi skipan mála, þessi tvískipting í þessu efni, ekki nógu góð, ég skal játa það. Og ef meiri hl. verður fyrir því á hinu háa Alþ., að þessu skuli öllu saman vísað í hendur embættismannanefndar og Kjaradóms og svo þeirra nefnda sem hafa með ákvarðanir um dagpeninga og aðrar aukagreiðslur að gera, þá er auðvitað að taka því. En ég endurtek það enn einu sinni, að með þeirri ákvörðun er beinlínis verið að taka ákvörðun um stórhækkun þessara aukagreiðslna til hv. þm.