22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á að fara að eyða tíma deildarinnar í að endurtaka það sem hér hefur verið sagt í dag, því að það er nánast búið að segja allt það sem hægt er að segja um þetta mál. En ég hafði kvatt mér hljóðs áður en fundi var frestað í dag og kann ekki almennilega við að bregðast þdm. þannig að segja ekki nokkur orð, fyrst ég glæptist til þess að biðja um orðið. En ég mun ekki hafa þau orð mörg með hliðsjón af þeim aðstæðum sem hér eru í fundarsalnum í kvöld.

Þetta frv. er ekki nýtt, það er gamall húsgangur hér á Alþ., nokkuð svo, en þó er það nú þannig að ég hef aldrei átt þess kost að segja álit mitt á því. Það hefur nefnilega aldrei komist til þeirrar d. þar sem ég hef átt sæti undanfarin nokkur ár. Þess vegna vil ég gjarnan láta þá skoðun mína koma fram, að ég er þessu frv. ekki samþykkur. Ég tel, að hér sé ekki breytt til bóta. Auðvitað má segja að það geti verið til þæginda fyrir alþm. að víkja þessum kaleik frá sér, eins og var sagt í síðustu ræðu. En það eru ýmsir kaleikar sem þm. verða að súpa á og geta ekki vísað frá sér, og ég sé ekki neina ástæðu til þess að þm. vísi þessu máli til embættismanna frekar en mörgum öðrum sem menn hér verða að takast á við.

Ég er út af fyrir sig sammála síðasta ræðumanni um það að annaðhvort á að gera breytinguna, stíga skrefið til fulls, eða láta það vera. Það, að Kjaradómur eigi að kveða upp úrskurð um laun þm. og aðrar greiðslur til þeirra að fengnum till. þfkn., tel ég næsta furðulega tilhögun. Annaðhvort er þetta kjaradómsmál eða það er mál alþm. sjálfra, en ekki hvort tveggja. Og ég endurtek það, að ég álít að þm. verði að taka afstöðu til þessa máls eins og margra annarra, eins og ég áðan sagði.

Því hefur verið haldið hér fram, að mikil leynd hafi á undanförnum árum hvílt yfir kjörum alþm. Þetta kannast ég alls ekki við. Ég veit ekki betur en ávallt hafi verið birtar fregnir af því í upphafi þings, hvaða ákvarðanir þfkn. hefur tekið í þessum málum. Hitt er svo rétt, að umr. um þessi mál hefur ekki verið ýkjamikil fyrr en nú á síðari árum, af hvaða ástæðum sem það kann að vera. En að þm. eða Alþ. hafi nokkru sinni farið í felur með kjör alþm. á ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Fyrrv. formaður þfkn., hv. þm. Sverrir Hermannsson, hefur margsinnis í sinni formannstíð gert grein fyrir þessum málum, og satt að segja á ég mjög erfitt með að trúa því, að það hafi staðið á honum eða hann hafi verið tregur til að veita tilteknum aðilum upplýsingar um þessi mál. Ég álít að það sé ekkert líkt honum að vera tregur til að segja frá því sem hann er að gera, hvorki í þessu máli né öðrum, og ég kannast ekki við þessa leynd. Ég held að það sé tilbúningur, gerður til þess að rýra álit alþm. eins og ýmislegt fleira af svipuðum toga spunnið, og mál er að því linni.

Það er út af fyrir sig mjög góðra gjalda vert, að núv. hv. formaður þfkn., Garðar Sigurðsson, hv. þm., gerði þessi mál hér að umtalsefni utan dagskrár, eins og minnst hefur verið á. Ég vil út af fyrir sig þakka honum fyrir það. En að það hafi verið brotið í blað í þeim efnum, að menn hafi ekki fengið upplýsingar ef leitað hefur verið eftir, það kannast ég ekki við.

Það hefur líka verið látið að því liggja að við, sem höfum verið hér á þingi, værum eins konar skattsvikarar af því að við hefðum ekki talið fram fríðindi. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að auðvelt ætti að vera fyrir skattyfirvöld að fá upplýsingar um það, hver þessi svokölluðu fríðindi þm. eru. Þau hafa ævinlega verið birt, eins og ég áðan sagði, og er ekki erfitt verk að fá upplýsingar um þau, ef það væru lög í landinu að þau ætti að færa á skattaskýrslu, en það er bara ekki, eins og hefur margsinnis verið dregið fram í dag. Ég er út af fyrir sig alveg samþykkur því, að þm. sé gert að færa á skattaskýrslur bæði tekjur og gjöld sem leiðir af þingmannsstarfi þeirra, og ég mundi ekki hafa á móti því, að lögum væri breytt í þá átt. Þá gæti svo farið, eftir því sem mér heyrist, að ýmsir þm. teldu meira fram af gjöldum en af tekjum, og þá kemur til álita hvort slíkur kostnaður á að vera frádráttarbær. Kannske er það þetta sem verið er að leggja til.

Hér hefur verið minnst á það, að þm. Reykjavíkur hefðu sérstaklega góð kjör samanborið við aðra. Það má vel vera. En ég held að það sé gott að alþjóð viti það, að þm. búsettir í Reykjavík hafa engan húsaleigustyrk, þeir hafa enga dagpeninga, en mér finnst stundum eins og sé verið að gefa það í skyn, að við njótum allra þessara hlunninda fyrir að búa heima hjá okkur, borða þar og sofa. Þetta er ekki þannig. Það, sem hér er verið að tala um, er einfaldlega endurgreiðsla á kostnaði sem þm. búsettir annars staðar hafa af því að stunda atvinnu í Reykjavík alveg á sama hátt og aðrir þegnar þjóðfélagsins fá slíkan kostnað uppi borinn. Á því er enginn munur nema þá e.t.v. sá, að alþm. fá kostnaðinn ekki að fullu uppi borinn. Reykjavíkurþm. hafa nokkurn ferðakostnað, og ég tel það ekkert óeðlilegt, því að hver sá, sem ætlar að stunda þingmennsku af heiðarleika og samviskusemi, getur auðvitað ekki haldið til alla daga allan ársins hring í Reykjavík og nágrenni. Það er nauðsyn hverjum þm. að ferðast um landið, að kynnast aðstæðum annars staðar en hér á höfuðborgarsvæðinu, og enginn getur sett sig inn í vandamál þjóðarinnar í heild án þess að kynnast líka aðstæðum í hinum dreifðu byggðum og í sjávarplássum víðs vegar um land, og til þessa höfum við margir hverjir notað þennan ferðastyrk. Ég hygg að það mundi ekki vera til bóta fyrir störf Alþingis ef þessu væri breytt og þm. búsettir í Reykjavík gerðu ekkert að því að ferðast um landið.

Það er ýmislegt fleira sem ég ætlaði að segja hér, en eins og ég sagði, herra forseti, með hliðsjón af þeim aðstæðum, sem nú eru, og með tilliti til þess, að fleiri mál eru á dagskrá sem æskilegt væri að fá umr. um, ætla ég að láta þessum orðum lokið. Þó er eitt sem hefur vakið nokkra eftirtekt hjá mér, og það er deilan um höfundarrétt þessa frv. Mér kemur hún nokkuð spánskt fyrir sjónir, satt að segja. Í fyrra, held ég að hafi verið, var okkur sagt og við trúðum því að faðirinn væri höfundur. Í ár höfum við staðið í þeirri meiningu að sonurinn væri höfundur, en nú hefur komið í ljós að það er einhver þriðji aðili sem er höfundur. Ég býst ekki við að þess sé að vænta, að það sé sá sem mönnum dettur kannske fyrst í hug, enda hygg ég þá að frv. væri með nokkuð öðru sniði ef svo væri.