22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

42. mál, upplýsingaskylda banka

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er mikið í tísku um þessar mundir að krefjast upplýsinga um hvað eina, bera þær á torg og fjalla helst um í fjölmiðlum af ýmsu tagi. Sagt er að með þessu móti eigi að gefa almenningi kost á að fylgjast sem best og nákvæmast með öllu sem gerist. Vissulega er fróðleiksfýsnin góðra gjalda verð og nauðsynlegur hvati til hvers konar framfara og þróunar, en forvitnin og hnýsnin hafa á hinn bóginn þótt heldur hvimleiðar kindur hér á landi.

Hér er fjallað um frv. til l. um upplýsingaskyldu banka og annarra lánastofnana, flutt af hv. 3. þm. Vestf. Hann hefur nú rakið efni frv. svo að það er ekki þörf á að fara um það mörgum orðum. Þeim fáu áheyrendum, sem hér eru staddir, hefur gefist kostur á að heyra útskýringar hans að því er efni frv. varðar. En mér skilst að megintilgangur með flutningi frv. sé að gefa almenningi kost á að fylgjast með allri meiri háttar útlánastarfsemi í landinu, eins og frsm. tók raunar fram í ræðu sinni sem hann var að ljúka. Ég vek athygli á því, að hér er ekki verið að tala um neina reglu sem eigi að gilda í undantekningartilvikum. Hér er frv. til l. sem hefur það að meginmarkmiði að skapa aðalreglu. Það er verið að setja hér almenna reglu sem á að gilda hvernig sem á stendur.

Það er að vísu svo, að það eru aðeins tiltekin lán, sem á að birta opinberlega lista yfir, og lán, sem nema ákveðinni fjárhæð. En ef maður les frv. yfir og heyrir auk þess útskýringar flm., þá dylst engum að hér er aðeins verið að stíga fyrsta skrefið. Takmarkið er að láta sem allra mest af slíkum upplýsingum liggja fyrir augum almennings. Það má vel vera að útgáfa útlánalista þess, sem rætt er um í 3. gr. frv., verði ekki mjög kostnaðarsöm, því að ég get vel trúað að ýmsir mundu vilja kaupa slíkan lista gegn hæfilegri þóknun, a.m.k. fyrst í stað. Þess vegna vonast flm. til þess, að hægt sé að sleppa vel frá prentkostnaði þess lista.

Ef vikið er ögn að grg. og litið á þetta frv. nánar án þess að fara um það mörgum orðum, þá segir í upphafi grg. að frv. sama efnis hafi verið flutt af Ragnari Arnalds, núv. menntmrh., á síðasta þingi, en varð ekki útrætt. Hæstv. ráðh. virðist vera þetta mál mjög hugleikið, a.m.k. heyrði ég hann síðast minnast á það í sjónvarpi í gærkvöld. Hann virðist því telja mikið sáluhjálparatriði að koma þessu máli fram. Og nú hefur hv. 3. þm. Vestf. borið þetta frv. á borð og tekið við það ástfóstri eins og heyra mátti af ræðu hans.

Ég ætla ekki að rekja grg. í mörgum orðum, þó að það mætti gera. Að mínum dómi er talsvert í henni af firrum og a.m.k. röngum ályktunum. En ég vil víkja hér sérstaklega að einu atriði, og það er það sem nefnt er bankaleynd og virðist fara ákaflega mikið fyrir brjóstið á þessum hv. þm. Hvað er bankaleynd? Ég hygg að í því orði fellst fyrst og fremst trúnaðarsamband bankans og forráðamanna hans annars vegar og viðskiptamanna hans hins vegar. Með henni er lögð áhersla á að virða bæði rétt þess, sem leggur inn, sparifjáreigandans, og hins, sem þarf að fá lán, skuldarans. Ég hygg að bankaleynd að einhverju marki tíðkist alls staðar á byggðu bóli þar sem þjóðir eru á annað borð á einhverju menningarstigi.

Frsm. segir að það sé nauðsynlegt að veita stjórnendum lánastofnana aðhald, og vissulega er það rétt, að það er nauðsynlegt. En það er líka reynt með ýmsum ráðum, og þarf ekki annað en virða fyrir sér löggjöf ríkisbankanna til þess að komast að raun um það, að reynt er að búa svo um hnútana að ráðamenn bankanna fari ekki einförum hvað sem það kostar. Bankaráð ríkisbankanna eru kjörin af Alþ., og bankarnir eru háðir margs konar eftirliti. Endurskoðendur eru kjörnir af Alþ., ársreikningar bankanna birtir og annað þar fram eftir götunum. Það er að vísu aldrei hægt að búa svo um hnútana, þó að slíkir fyrirvarar séu á hafðir, að ekki geti einhverjir hlaupið út undan sér. Jafnvel þó að endurskoðendur séu settir á endurskoðendur ofan, þá kann alltaf eitthvert misferli að eiga sér stað, sem ég hygg að sé afar erfitt að komast alfarið hjá. En það er reynt á margan hátt og alls staðar í löggjöfinni skín það í gegn, að verið er að fara með málefni manna sem trúnaðarmál. Þeir eiga að geta treyst því, að farið sé með málefni þeirra og viðskipti við bankann sem trúnaðarmál. Þannig er öllum starfsmönnum bankanna skylt að vinna þagnar-og trúnaðarheit áður en þeir hefja störf við banka. Ég er hér með sýnishorn, lög um Búnaðarbanka Íslands, sem samþ. voru á Alþ. 6. maí 1976. Þar segir í 17. gr., að bankaráðsmenn, bankastjórar og allir starfsmenn séu bundnir þagnarskyldu um allt það er snertir hag viðskiptamanna bankans og þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þessi regla er talin alveg sjálfsögð.

Það má svo auðvitað endalaust skrafa og skeggræða um það, hvaða hluti eigi að birta og hverja ekki. Það má t.d. spyrja um í þessu sambandi, ef aðeins er farið út fyrir þetta svið sem frv. fjallar um, hvort eigi að birta skrá yfir alla þá sem verður það á að gefa út ávísun sem ekki er innistæða til fyrir. Á að birta skrá í dagblöðunum yfir alla þá sem fara yfir á ávísanareikningi sínum í bönkunum? Ef farið er enn þá lengra, þá má spyrja: Á að semja skrá og birta í blöðum yfir alla þá sem fremja lögbrot af einhverju tagi? Þessi regla hefur verið mjög umdeild í refsiréttinum, um nafnbirtingu brotamanna. Þannig mætti lengi áfram telja.

Það er vikið að því í grg. ásamt mörgu öðru, að afnám bankaleyndar í þessum efnum hljóti augljóslega að draga úr þeirri hættu sem annars er fyrir hendi á mismunun og geðþóttaákvörðunum, ekki verði séð að nokkur lánveiting eigi rétt á sér sem þoli ekki dagsins ljós. Það má að vísu vel segja og setja fram þessa reglu. Bankastjóri á auðvitað ekki að lána neitt sem ekki þolir dagsins ljós. Á hinn bóginn er það gömul siðaregla meðal okkar, að margur má sannleikur kyrr liggja, og það á við, hversu sem sannleikurinn er háleitur og dýrmætur. Það á ekki alls staðar við að bera hann fram, hvernig sem á stendur.

Það er minnt á það í grg. og talið mikið til fyrirmyndar, að Framkvæmdastofnun ríkisins og Byggðasjóður birti skrá yfir allar lánveitingar. Ég verð nú að segja að þarna er ekki að öllu leyti saman að jafna. Þarna er ekki um að ræða innlánsstofnun, og fleira mætti telja. Ég lít á þessa reglu sem undantekningarreglu í löggjöfinni sem sannar aðalregluna um almenna bankaleynd í meðferð mála.

Það má svo geta þess, að þó að þetta frv. verði ekki að lögum hafa menn, sem eru fróðleiksfúsir á þessu sviði, ýmis ráð til þess að afla sér upplýsinga um inneignir eða skuldir manna. Það eru t.d. gefin út Kaupsýslutíðindi. Skjölum er bæði þinglýst og aflýst, meira að segja meiri háttar lánveitingum. Menn geta mætt á manntalsþingi og hafa mætt á manntalsþingum á undanfarandi árum og hlustað þar á lesna skrá yfir allar lánveitingar, bæði þinglýst kjöl og aflýst frá því að manntalsþing var síðast haldið. Það er að vísu svo, að menn eru mjög misjafnlega fíknir í þetta. Mér er sagt t.d. að á manntalsþingi hér í Reykjavík, sem reyndar er aflagt fyrir mörgum árum, hafi gengið svo til mörg síðustu árin sem það var haldið, að þingið sótti einungis einn einasti maður. Síðan geta menn farið og fengið sér veðbókarvottorð í veðmálabókum. Menn geta lesið Lögbirtingablaðið og ýmislegt annað. Á hinn bóginn talar það sínu máli, að löggjöfin hefur frá fornu fari verndað menn fyrir hnýsni og forvitni á vissum sviðum. Svo er t.d. með skattframtöl manna, og engir hafa getað komist í skattanefnd á liðnum árum eða fjallað almennt um skattframtöl manna án þess að undirrita eiðstaf eða drengskaparheit, að ég ætla. Allir þeir, sem vinna á skattstofum eða að slíkum málum. Svo eru og um margháttaðar upplýsingar þar sem löggjöf siðaðra þjóða hefur talið sjálfsagt að vernda persónurétt einstaklingsins. Nýtt í því efni er það, að mönnum er ekki um það gefið, að upplýsingum um þá sé safnað í tölvu t.d.

En af máli flm. kom einnig fram, að hann telur nauðsynlegt og æskilegt að vita um bankainnstæður manna, a.m.k. fyrir skattayfirvöld undir vissum kringumstæðum. Og mér finnst að það megi raunar ráða það af ýmsu sem fram kemur í frv. og grg., að flm. brenna raunar í skinninu að fá að renna augunum yfir bankainnstæður manna. Það gæti e.t.v. haft einhver áhrif á sparifé og sparimyndun ef farið væri að skoða innlán nánast af hverjum sem er. En sparifjármyndun er mjög nauðsynleg, a.m.k. fyrir alla þá, sem ætla sér að stjórna löndum og lýðum og láta eitthvað skynsamlegt af sér leiða.

Ég held að ég fari ekki fleiri orðum um þetta frv. á þessu stigi. Það er sagt í grg., að mál þessi séu nú í athugun á vegum viðskrn., en með flutningi þessa frv. sé lögð áhersla á að hér þurfi að taka upp breytta hætti. Ég hygg að starfsmenn viðskrn. komist að raun um það, þegar þeir fara að kryfja þessi mál til mergjar, að þar er æði margt sem athuga þarf. Það þyrfti að umbylta ýmsum meginreglum í íslenskri löggjöf og réttarkerfi. Það mætti segja mér, að þeir gerðu ekki annað á meðan þeir væru að athuga þessi mál og gerbreyta þar um meginreglur.

Við lifum á mikilli upplýsingaöld, sérstaklega að því er varðar kröfugerð til margháttaðra upplýsinga, eins og ég sagði áðan. Það er gott eitt um það að segja, ef slíkt gengur ekki út í öfgar og nýtist einstaklingum og almenningi til góðs. En það er ekki þar með sagt, að víðtæk og almenn upplýsingaskylda eigi við hvar og hvenær sem er, síst af öllu lögboðin, ef aðrir og meiri hagsmunir eru í húfi. Þar kemur til greina réttur einstaklingsins sem virða ber umfram það sem aðrir kunna að vilja vita um hann.