29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Nokkrir af þm. Sjálfstfl., þ. á m. hv. þm. Sverrir Hermannsson og Matthías Bjarnason, hafa enn gert það að umtalsefni að við þm. Alþfl., sem ætlum að hjálpa til með að gera þetta frv. að lögum, séum sjálfum okkur ósamkvæmir. Það hefur margoft verið útskýrt með hvaða rökum þetta er gert. Stundum er engu líkara en skilningarvitin á þessum mönnum séu öðruvísi en á venjulegu fólki. Þeim hefur verið sagt, að valkostirnir séu tveir: Annar er að styðja þetta frv. og þá fara ekki nema 6% út í kaupgjaldið og þaðan strax í verðlagið. Hinn möguleikinn er sá, að 14% færu út með sama hætti. Þeim möguleika hafa talsmenn Sjálfstfl. sjálfir lýst þannig, og það réttilega, að efnahagslífið mundi verða gersamlega óbærilegt og óstjórnanlegt hér á næsta ári ef af yrði.

Það hefur alltaf verið sagt af okkar hálfu, að af tveimur vondum valkostum er sá skárri valinn. Gagnrýni okkar á þetta frv. og allan málatilbúnaðinn í kringum það byggist á allt öðrum forsendum. Hún byggist á þeim forsendum, að þrátt fyrir það, sem við höfum lagt til og lagt á áherslu, er hér ekki um að ræða heildstæða áætlun sem taki til langs tíma, heldur er hér um að ræða skammtímaráðstafanir sem ná til þriggja mánaða og bjóða sennilega heim enn verri efnahagslegum sprengingum og enn meiri átökum að þremur mánuðum liðnum. Gagnrýni okkar byggist á þessu. Það er að vísu margbúið að reyna að koma þessu til skila úr þessum ræðustól, en það er eins og skilningarvitin á mörgum talsmönnum Sjálfstfl., — þar undanskil ég þó hv. 4. þm. Reykv. því að hann hefur fjallað af meiri hófsemi um þessa hluti, — en það er eins og á mörgum af hans mönnum hafi skilningarvitin gersamlega frosið saman.

Það er alveg ljóst, af hverju við gerum þetta, og ég segi fyrir mig, að hvert einasta orð í gagnrýni minni, ekki aðeins á þetta frv., heldur á allan málatilbúnaðinn í kringum það, stendur. En þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun, þá erum við ábyrgir: Þetta er þó það skárra, möguleikar eru á að hægt verði að halda áfram efnahagsstjórn út frá þessu frv., — þeir möguleikar eru reifaðir í grg. með því sem vissulega hefur ekki lagagildi, — að öðrum kosti yrði efnahagslífið hér rjúkandi rúst á næsta ári. Auðvitað erum við að taka þátt í því, eins og hér hefur verið margsagt, að reyna að flétta Alþb. út úr loforðaglamrinu fyrir síðustu kosningar. Við drögum enga dul á það, að svona er þetta. Því hefur verið rækilega lýst. Þetta eru hreinskilnislegar umr. sem mér sýnist að talsmenn Sjálfstfl. kunni ekki almennilega skil á. Svona er þetta — og samt sem áður munum við hjálpa til að gera þetta frv. að lögum.

Sverrir Hermannsson ræddi um stöðu Alþfl. í þessum málum og af hverju hann leitaði ekki á önnur mið með úrræði sín. Það er satt, að það er vont að stjórna með Lúðvík, enn sem komið er a.m.k., en mér sýnist nú satt að segja að valkostirnir séu ekki öllu meiri hinum megin. Ég lýsti því í gær, að hægt væri að berjast gegn verðbólgu á fleiri sviðum en nákvæmlega þeim sem hér eru til umr. Á einu sviði eru vaxtamálin. Í þessari d. liggur frammi frv, stutt af öllum — ég undirstrika: öllum þm. Alþfl. því hefur verið lýst með hverjum hætti sú áætlun á að vinna bug á öðrum þáttum verðbólgunnar. Það kom hins vegar í ljóst í ræðu Sverris Hermannssonar, að hann er ekki stuðningsmaður þess frv. Hann er stuðningsmaður hugmynda Lúðvíks Jósepssonar. Hann vill raunvexti. Hann vill gera það með því að koma verðbólgunni verulega niður. Og hann vill auðvitað halda áfram að sitja uppi í Framkvæmdastofnun og lána með sem allra neikvæðustum vöxtum til að styrkja atvinnulífið í landinu, en skekkja allt efnahagslífið. Nákvæmlega þessi rök hefur Lúðvík Jósepsson flutt hér. Auðvitað segist Lúðvík vera raunvaxtamaður, en hann segir: Ég ætla að koma verðbólgunni niður og þá komi raunvextir. — Samt talar hann um 50–60% vexti hér á næstu 2–3 árum. Ég veit vel að Sverrir Hermannsson, sem gerþekkir útgerðina í landinu, og aðrir slíkir sjálfstæðismenn eru talsmenn neikvæðra vaxta, mér er fullkunnugt um það, hversu mjög sem það gengur á alla heilbrigða efnahagsstefnu. En þarna sýnist mér málið einfaldlega vera það, að það er ekkert lið í íhaldinu, íhaldið er liðónýtt, hvað svo sem Geir Hallgrímsson hefur sagt hér skynsamlegt, hvað svo sem í leiðurum Morgunblaðsins hefur staðið um þessi mál, sem hefur verið skynsamlegt, það er engin stjórn á þingflokki Sjálfstfl. í þessum efnum. Og ég vil segja það til varnar 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepssyni, að það er ekki honum að kenna að þetta frv. hefur nú tafist allnokkuð í fjh.- og viðskn. Við vorum sammála um að koma þessu frv. sem allra fyrst frá. Það voru talsmenn Sjálfstfl. sem báðu um umsagnir um staðreyndir sem allir þekkja. Hér þurfti að taka pólitíska ákvörðun, og þá strandaði ekki á Lúðvík Jósepssyni, það strandaði á öðrum mönnum. Afstaða Sjálfstfl, í þessum vaxtamálum er ný og óljós. Ég efast um að þeir dugi til þess að gera raunvexti hér að veruleika, vegna þess að hagsmunir a.m.k. stórs hluta sjálfstæðismanna eru allt, allt aðrir. Ég efast um að þeir dugi. Og ef þeir duga ekki þarna, hvar duga þeir þá?

Þessir menn hafa notað hér upphrópanir um Alþfl. vegna þess að hann þrátt fyrir allt stendur að ráðstöfunum sem af tveimur slæmum kostum eru sá skárri sem í boði er. Mér sýnist satt að segja að það, sem að baki þessum málflutningi stendur, sé heldur innantómt. Mér sýnist þingflokkur Sjálfstfl. vera svo margbrotinn í allri sinni afstöðu, eins og dæmið um vextina sannar mála best, að á þennan þingflokk sé lítt eða ekki að treysta.

Vitaskuld er það svo, að mikill hluti þeirra umr., sem hér hafa farið fram, hefur farið í innantómt pex um það, hvor hafi framið meira kauprán, íhaldið í febr. eða Alþb. nú. Auðvitað er það satt, að þetta er innantómt pex. Vandi okkar er sá, og það skal endurtekið hér enn og aftur, að þessi ríkisstj. er fangi kosningaglamuryrða Alþb. s.l. vor. Það er kannske núna verið að reyna að flétta sig út úr þessum yfirlýsingum, það er verið að reyna að flétta sig út úr þeim og láta svo heita sem nú séu samningarnir enn í gildi, sem samkv, þeirri skilgreiningu, sem notuð var fyrir kosningar, er auðvitað alls ekki. Þessu hefur verið lýst hér nákvæmlega, það hefur ekkert verið dregið undan, og við höfðum flutt mál okkar af hreinskilni. Við höfum lýst því engu að síður, hvers vegna við munum styðja þetta frv., þó að það hafi gengið illa að koma því inn fyrir skilningarvitin á hv. þm. Sjálfstfl. Þetta er fullkomlega ábyrg afstaða. Í þessum efnum erum við með vandræðabarn í aftursætinu, ef svo má að orði komast. Auðvitað gerir þetta enn um sinn heilbrigðri efnahagsstefnu erfitt fyrir. Það má þó vera að þeir vitkist. En þetta skulum við segja og þetta skulum við segja hreinskilnislega. Okkar afstaða er samt skýr, og þessu frv. munum við hjálpa til að verða að lögum.