30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það ber vott um sérkennilegar hugmyndir hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, hv. 3. landsk. þm., um þingræði, um vinnubrögð þm., að honum þykir það einkennilegt og ámælisvert að þm. standi upp og skipti sér af starfi þeirrar þd. sem hann situr í. Þetta finnst mér afar einkennileg aths. Í annan stað finnst mér það líka einkennilegt, að hér kemur fram gagnrýni á fjarvist mína af nokkrum fundum þessarar deildar. Mér þykir að vísu hlýlegt af hv. þm. að láta það koma fram, að hann hefur saknað mín. En ég vil geta þess, ef það skyldi mega lina söknuð hans, að ég hef verið fjarverandi vegna skyldustarfa sem ég er kjörin til af Alþingi og hef ekki verið degi lengur — ekki klukkutíma lengur í þeim erindisferðum en mér var algerlega nauðsynlegt.

Hv. þm. lét í ljós mér til mikillar ánægju mikið traust til hv. 5. þm. Vestf., 1. varaforseta þessarar deildar, og undir þá traustsyfirlýsingu vil ég heils hugar taka. Það er vissulega rétt, að honum er vel trúandi til að stjórna störfum þessarar deildar. Þá skulum við líka kjósa hv. 5. þm. Vestf. aðalforseta.

Hv. 3, landsk. þm. segir. „Þetta er ágætt, við höfum tvo varaforseta.“ Hv. 3. landsk. þm. á að kunna betri skil á þingsköpum. Í 7. gr. þingskapa, þar sem talað er um fyrstu fundi deildar, stendur með leyfi hæstv. forseta:

„Síðan setjist þd. niður, efri og neðri. Í hvorri deild gengst elsti þm. fyrir kosningu forseta deildarinnar, en forseti síðan fyrir kosningu tveggja varaforseta, fyrsta og annars, og tveggja skrifara. Um þessar kosningar fer eftir ákvæðum 3. gr. um sams konar kosningu í Sþ.“

Það er ómögulegt að komast fram hjá því, að hvor þd. á að hafa aðalforseta og tvo varaforseta. Þm. geta ekki með hugsunum sínum. hversu hlýlegar sem þær eru í garð varaforseta, breytt þessu þingskapaákvæði. Þetta verðum við að gera, þó að hv. stjórnarflokkar eigi kannske erfitt með að koma sér saman um það.

Ég get fullvissað hv. 3, landsk. þm. um það og ég skil ekki hvernig í ósköpunum er hægt að láta sér detta það í hug, að innanflokksátök sjálfstæðismanna geti legið að baki því, að þm. vilji hafa deildir rétt skipaðar og rétt kjörna embættismenn til starfa. Til þessa liggur einungis sú ástæða, að í Sjálfstfl. eru eindregnar þingræðishugmyndir og við viljum að ákvæðum þingskapa og reglum um rétt störf Alþingis sé fullnægt.