30.11.1978
Neðri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

91. mál, biðlaun alþingismanna

(Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 102 leyfi ég mér að flytja ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni, Geir Gunnarssyni, Ingvari Gíslasyni, Friðjóni Þórðarsyni og Árna Gunnarssyni frv. til l. um biðlaun alþm. Eins og hv. þm. geta séð eru flm. þeir, sem ég nefndi áðan, allir í þfkn. Alþ. Þar vantar að vísu einn nm. af þeirri einföldu ástæðu að sá nm. situr í Ed.

Ástæðan til þess, að við í þfkn. flytjum nú þetta mál, er sú, að að undanförnu og þ. á m. á síðasta þingi komu þessi mál nokkuð til umr., hvort alþm. ættu að hafa nokkuð sem gæti kallast uppsagnarfrestur eins og flestir aðrir í þjóðfélaginu — a.m.k. hafa mjög margir launþegar þetta nú þegar í samningum sínum. Á síðasta þingi var þetta rætt í þfkn, og var þar gerð samþykkt um að flytja slíkt frv. og gert að því uppkast. Þar sem það mál var ekki lagt fram og því ekki afgreitt á síðasta þingi voru menn sammála um að koma því áfram á þessu þingi. Þess vegna er þetta mál flutt.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv., það er einfalt að gerð og stutt, en ég vil þó leyfa mér að lesa efnisgr. frv., sem eru tvær.

1. gr. er svo hljóðandi:

Alþm., sem setið hefur á Alþ. eitt kjörtímabil eða lengur, á rétt á biðlaunum er hann hættir þingmennsku. Biðlaun skal greiða í þrjá mánuði eftir eins kjörtímabils þingsetu, en í sex mánuði eftir þingsetu í 10 ár eða lengur.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda þau einnig um þá sem létu af þingmennsku við síðustu alþingiskosningar.“

Fleiri eru greinarnar ekki.

Herra forseti. Mér er skylt að geta þess, að tveir hv. flm. þessa frv. hafa ákveðinn fyrirvara. Sá fyrirvari er ekki um annað en það, að í 1. gr. verði aðeins um þrjá mánuði að ræða og aldrei sex. Um efnisatriði öll önnur eru þeir okkur hinum flm. sammála. Við erum sem sagt sammála um meginefni og tilgang þessa frv., en þeir hafa hins vegar sérstöðu í því, að aðeins verði um þriggja mánaða biðlaun að ræða, en ekki sex, í öllum tilfellum. hvort sem menn hafa setið á þingi lengri eða skemmri tíma.