30.11.1978
Neðri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. formaður þeirrar n., sem hefur lagt þetta frv. fram. sagði, að fleiri af flm. hefðu gert fyrirvara við 1. gr., þ.e.a.s. greinina um að biðlaun skuli greiða í þrjá mánuði eftir aðeins eins kjörtímabils þingsetu, en í sex mánuði eftir þingsetu í 10 ár eða lengur. Báðir gerðum við fyrirvara um, að þarna yrði um að ræða aðeins þrjá mánuði, hversu lögn sem þingsetan yrði.

Þá gerði ég auk þess fyrirvara um 2. gr., sem ég tel að eigi ekki heima í þessu frv. En ég taldi þó eðlilegt, að allir nm. væru flm. að þessu frv. Með fullri samúð með þeim þm., sem féllu út af þingi í síðustu kosningum og mér er kunnugt um að margir hverjir eiga við erfiðleika að etja vegna peningaskorts og af ýmsum öðrum ástæðum, sem ég mun ekki rekja hér, þá held ég, og það er mín eindregin skoðun, að slík afturvirkni sé óeðlileg, nákvæmlega eins og ég er andsnúinn — og það mun koma fram í umr, hér síðar á þingi — þeim brbl., sem sett voru fyrir nokkru og kveða á um afturvirkni í skattálagningu. Ég tel slíkt óeðlilegt og get ekki verið fylgjandi því.

Ég vona að í þeim umr., sem hér fara fram, og nái þetta frv. fram að ganga, sem í sjálfu sér er ekki óeðlilegt, og þm. njóti sömu kjara og t.d. opinberir starfsmenn, þá aukist skilningur hv. þm. á ýmsum hagsmunamálum félaga í verkalýðshreyfingunni sem ekki njóta mikilla biðlauna. Er mér þá kannske efst í huga það fólk sem vinnur við fiskvinnslu og hægt er að segja upp með viku fyrirvara og fær vikubiðlaun. Það væri kannske að skilningur deildarinnar og hins háa Alþingis ykist á kjörum þessa fólks við þá umr. sem hér fer fram. Þm. óska eftir því að fá þriggja mánaða biðlaun greidd. Þá er ekki óeðlilegt, að þeir geti tekið tillit til óska verkalýðshreyfingarinnar um eitthvað svipað.