30.11.1978
Neðri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að þreyta neinar kappræður út af þessu frv., en vil þó segja mína skoðun á því og sérstaklega þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ástæðan til þess, að ég tel að nauðsyn sé á einhverjum biðlaunum þm., er einmitt sú hin sama og hér kom fram við umr. um kaup og kjör þm., að það er nauðsynlegt að Alþ. eigi kost á því að hæfir menn sæki eftir að komast inn á Alþ. En þessir menn verða að taka tillit til aðstæðna, fjölskyldu sinnar og annars þess háttar, sem gerir það að verkum að þeir geta ekki farið út í framboð og þingmennsku umhugsunarlaust.

Mér er t.d. minnisstætt að einn af félögum okkar, sem hefur setið alllengi á Alþ., var áður en hann kom hingað orðinn stýrimaður á farskipum. Það orkaði ekki tvímælis frá sjónarmiði okkar, sem kynntumst manninum. að hann var þegar kominn á þá braut að eiga vísan frama í sinni stétt og verða það, sem hann hefur vafalaust stefnt að, skipstjóri síðar meir. Nú hefur hann fljótlega farið út af Alþ., án þess að það væri ósk hans að svo yrði. — Hér er ég að ræða um Pétur Sigurðsson, svo að það fari ekkert á milli mála. — En sú braut, sem hann fór út af vegna þingmennskunnar, er honum ófær nú. Hann á engan möguleika til þess að komast á skip sem slíkur og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, því að inn á það svið eru svo margir aðrir komnir að það er óhugsandi að hann gæti komist að, og yrði mikill hávaði gerður ef hann nyti slíkra forréttinda. — Nú var það skoðun mín og annarra hér á hv. Alþ., þó að þessi maður væri ekki minn samflokksmaður, enda tel ég að hv. þm. verði að hafa víðtækara sjónarmið en að líta eingöngu á samherja sína, að mikils virði væri að fá mann úr þessari stétt til starfa á hv. Alþ. Ég álít að þingið verði þeim mun betur skipað sem menn úr fleiri stéttum koma til starfa hér á hv. Alþ. Á þessu þingi er m.a. s. fyrir liggjandi frv. um að menn, sem verða alþm., hætti öllum öðrum störfum og vinni bara sem þm. Þetta gerir það að verkum. að þingmannsstarfið verður ennþá áhættusamara en það hefur áður verið.

Nú vil ég líka geta þess, að á þeim rúmum 20 árum, sem ég hef setið hér á hv. Alþ., hefur orðið allmikil breyting á launakjörum alþm. eins og annarra þegna í þjóðfélaginu. Ég álít að óvissan um setu á Alþ. sé orðin miklu meiri núna en hún var þegar ég kom hér fyrst inn á hv. Alþ. Þá sátu hér menn sem höfðu verið lengi þm., miklu lengur en nú er orðið. Það var meðfram vegna þess að þá var hið svokallaða persónukjör og þegar einmenningskjördæmin voru þurftu menn ekki að fara í gegnum marga hreinsunarelda eins og nú er orðið til þess að berjast fyrir þingsæti sínu, og líka það, að það reyndi þá á þá sjálfa hvort þeir gátu haldið þingsætinn eða ekki. T.d. var það svo með þáv. þm. Borgfirðinga, sem hafði setið á þingi frá 1916, að þó að við þær kosningar, sem ég var kjörinn, væri teflt á móti honum þingmannsefni, sem þá var, en nú er orðinn formaður Alþfl. og utanrrh., er naut stuðnings tveggja flokka, þá var öllum ljóst að Pétur Ottesen mundi halda þingsæti sínu. Slíkt er ekki hægt að ákveða með jafnmikilli vissu nú, m.a. vegna þess að prófkjör og undirbúningur alþingiskosninga getur orðið það mikill eða erfiður að menn eiga þess ekki kost að komast hingað aftur, jafnvel þótt þeir séu á besta aldri, — og sumir eru þeir þá komnir út úr þeim störfum sem þeir hafa áður sinnt.

Í ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, sem ég hef mestu mætur á, fannst mér kenna veilu miðað við hans eigið frv., þar sem hann leggur til að þm. hætti öðrum störfum, að þeir, sem t.d. lentu í því að sitja ekki heilt kjörtímabil, ættu að hafa meiri tryggingu en hinir, sem hafa þó setið eitt k,örtímabil eða mörg. Þetta finnst mér ekki falla saman. Ég tel að ég hafi líka heyrt það í ræðu hans, að það gæti verið erfitt fyrir menn, sem væru búnir að sitja hér lengi á þingi, að komast í önnur störf. Það er rétt.

Nú er mér fullkomlega ljóst, að biðlaun skipta í þessu tilfelli ekki meginmáli, t.d. í dæminu sem ég tók hér áðan um Pétur Sigurðsson. Hann ætti að eiga eftir sem áður kost á því að verða stýrimaður eða skipstjóri á millilandaskipi, sem hann hefði haft tækifæri til að verða áður. En það gerir það að verkum, að þessir menn fá þó möguleika til þess að vinna tíma til þess að reyna að ná sér í annað starf. Það er þess vegna sem sú regla gildir um aðra opinbera starfsmenn, að ef þeir hætta störfum, þá eigi þeir biðlaun einhvern tíma til þess að hafa vistaskipti án þess að vera í vandræðum. Þetta er grundvallaratriðið í þessu frv., skiptir meginmáli.

Nú vil ég vekja athygli á einu í sambandi við þetta frv. Ef þm. eru komnir á þann aldur að þeir eiga lífeyrisréttindi, en taka biðlaun, þá geta þeir ekki notið lífeyrisréttindanna fyrr en að þeim tíma loknum. ef þeir ættu þá kost á, eða það yrði þá dregið frá biðlaununum. Það skilst mér sé ekki hugsunin, að þeir eigi að hafa hærri laun en ef þeir væru þm. áfram. Þetta er minn skilningur. Þegar menn eru komnir á þann aldur, að þeir fá lífeyrisréttindi, verður það dregið frá biðlaunatímanum.

Það er svo, að við erum farnir að taka meira tillit til biðlauna í almennum samningum, og svo hitt, að þau eru almennt hjá ríkinu, og einnig það, að óvissan um þingsetu er orðin miklu meiri en hún var fyrir 20–30 árum, hvað þá áður fyrr, enda fór nú þannig á þeim tíma að þm. féllu út af launum daginn eftir að þingi var hætt. Þetta er breyting, sem á hefur orðið, og þess vegna er framhaldið þetta. Ástæðan fyrir því, að þm., sem áttu hér setu á síðasta þingi, en ekki eru hér nú, eru teknir með, byggist m.a. á því, að þfkn., sem ætlaði að flytja frv. í fyrra, var búin að ákveða þetta þá. Hefði frv. þá verið flutt og orðið að lögum hefði þetta ekki orkað neins tvímælis. Frv, var hins vegar ekki flutt af því að of seint var orðið. Almennt gáfu flokkarnir þá yfirlýsingu, að frv. mundi ná til þeirra sem á þingi voru þá. Ég hygg að það sé í bókun þfkn. Þetta er atriði sem ég tel að þessi afturvirkni byggist á, að ef ekki hefði orðið svo áliðið þings hefði frv. farið í gegnum Alþ. í fyrra. Ég verð að segja eins og er, að ekki fyndist mér nein ánægja að því að fara að njóta biðlauna þegar ég hætti þingsetu,en félagi minn, sem sat hér lengur og var með mér allan tímann sem ég hef verið fram að þessu, mætti ekki njóta slíks hins sama. Mér fyndist það í raun og veru fráleitt eða óhugsandi miðað við það, sem hér var um rætt s.l. vor. Mér er náttúrlega ljóst að hv. þm., sem ekki áttu setu hér þá, vita ekki um það, en var það þó tekið fram áðan.

Ég vil svo líka segja það, að þetta er hliðstætt því sem ráðh. njóta. Mér finnst ósköp eðlilegt að þm. njóti einnig biðlauna og séu þau bæði miðuð við hina almennu reglu og svo það, hvað óróleikinn í þessum efnum er mikill.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta. Ég tel að hér sé um sanngirnismál að ræða. Ég tel líka að við, sem vorum hér á síðasta Alþ. og stóðum að afgreiðslu innan þingflokka um að svo skyldi með málið farið, værum að bregðast því, sem við þá gáfum fyrirheit um, ef við létum þetta ekki gilda um þá þm. sem þá sátu hér.