04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

90. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál er fram komið vegna brýnnar þarfar á byggingu fleiri dagvistarheimila en nú eru til í landinu, og kom þetta raunar fram í máli hv. frsm. þessa frv. Ég vil minna á, að lög um dagvistarheimili frá því 1973 gerðu ráð fyrir því, að ríkið tæki þátt í kostnaði við bæði byggingu og rekstur þessara heimila um land allt. Þessi lög höfðu þau áhrif, að dagvistarheimilum fjölgaði meir en nokkurn tíma áður á jafnskömmum tíma á landinu. Hins vegar var Adam ekki lengi í Paradís, því árið 1976 svipti þáv. ríkisstj. sveitarfélögin aðild ríkisins að rekstrinum, og eru afleiðingar þess nú að koma í ljós þar sem mikill afturkippur hefur orðið í þessum málum. Það er því afskaplega skiljanlegt, að menn leiti leiða til þess að bæta hér úr. Ég lít svo á að þetta frv. sé þess vegna fram komið.

Þetta frv. mun ég styðja. En ég vil þó benda á að ég tel að þessi leið muni ekki veita neina varanlega úrlausn á þessum málum. Ég minni á, að það er m.a. vegna fátæktar sveitarfélaga sem þau hafa kippt að sér hendinni í uppbyggingu þessara mála á allra síðustu árum, og þó þeim verði veitt heimild til þess að taka lán hjá húsnæðismálastjórn eiga þau eftir sem áður eftir að endurgreiða þau lán. Kostnaðarþunginn hvílir því eftir sem áður að öllu leyti á sveitarfélögunum.

Ég minni á að fyrir Alþ. liggur frv. til l. um breyt. á l. um byggingu og rekstur dagvistarheimila, þar sem lagt er til að tekin verði aftur upp sá háttur, sem ákveðinn var með lögum árið 1973. Þetta frv. flytja þrír þm. Alþb. 1. flm. var Soffía Guðmundsdóttir, en meðflm. eru Kjartan Ólafsson og Eðvarð Sigurðsson. Ég bendi á að það, sem þm. Alþb. leggja til í sínu frv., sem er 67, mál, þskj. 73, er að mínu viti eina raunhæfa lausnin, sem gæti varað til frambúðar. Þess vegna legg ég áherslu á að Alþ. beini kröftum sínum að því frv. og þeirri lausn, sem þar er lögð til. Ekki er þar með sagt að ég telji þetta frv., sem hér er til umr., óþarft. Það gæti verið ágætt að hafa slíka heimild sem frv. gerir ráð fyrir í bakhöndinni ef eitthvað gengi úrskeiðis, en ég held að það sé fráleitt að það geti talist varanleg lausn fyrir sveitarfélögin.