04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Hv. frsm. sagði réttilega, að við framsóknarmenn værum ekki hlynntir þessari lausn á þessu vandamáli. Mér fannst koma nokkuð fram í þeim orðum hans að skilja mætti afstöðu okkar svo, að við vildum ekki taka á þessu máli af fullkominni hörku. Ég vil fyrirbyggja slíkan misskilning. Við teljum að á þessu beri að taka af fullkominni hörku. En við teljum að þetta mál þurfi að skoða betur, og það þarf ekki að taka langan tíma að skoða það til þess að komast að því, hvaða leið er farsælust. Ég tek undir það, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði áðan, að þarna eru ýmsir þættir sem þarf að athuga betur.

Ég hygg sjálfur, að þessum 75 millj. kr. væri betur varið til þess að styrkja frumstig skattamálanna, þ.e.a.s. skattstofurnar, þannig að rannsókn geti hafist þar fyrr, og ekki síður, eins og kom fram í ræðu hv. þm., til að auka leiðbeiningar til framteljenda, sem er áreiðanlega mjög ábótavant nú. Mér virðist einnig koma til greina, og það er nú í athugun, að styrkja skattalögregluna. Ég hef einnig sett fram þá hugmynd, að það kæmi til greina að veita forstöðumanni hennar eða ríkisskattstjóra eða sérstökum manni við þá stofnun ákæruheimild, þannig að þessir aðilar geti farið með skattamálin beint fyrir dómstóla og þau þurfi ekki að fara um hendur saksóknara ríkisins. Þetta eru allt saman atriði, sem þarf að skoða að mínu mati áður en niðurstaða og endanleg lausn er ákveðin.

Ég hlýt einnig að varpa fram þeirri spurningu, ef svona lausn yrði ákveðin, sérstakur dómstóll og rannsóknardeild, hver sé þá ætlun manna um skattalögreglu ríkisins og ríkisskattanefnd, sem eins og hér hefur komið fram er dómstóll í þessum málum. Hvað á að verða um þessa aðila? Það kemur ekki fram í þessu frv. Þetta þyrfti jafnframt að athuga.

Að lokum, eins og ég sagði áðan, er það skoðun mín, að þessu máli megi sinna betur en nú er gert fyrir dómstólum með því að fjölga dómendum í þeim dómstólum, sem fyrir eru, og velja þá menn með sérþekkingu á þessu sviði. Þá væri að verulegu leyti komist fram hjá þeim erfiðleikum. sem drepið er á að ég hygg, í 4, gr. frv., þegar um samtengd mál er að ræða. Þar er gert ráð fyrir því, að saksóknari ríkisins úrskurði í slíkum málum. Þess yrði ekki þörf ef einn dómstóll færi með sakamálin, bæði þessi og önnur.

Ég stend upp aðeins til þess að undirstrika að það er fullur hugur í okkur að taka þessi mál föstum tökum.