05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í það flokkspólitíska karp hv. þm. Suðurnesjamanna sem hér hefur nú hafist, hvorki þá lofræðu, sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson flutti um sjútvrh., né heldur það sem Eiríkur Alexandersson sagði. Ég vildi þó láta það koma hér skýrt fram af minni hálfu, að ég verð því miður að segja það, að þau svör, sem voru gefin við þessari fsp., eru ekki nægilega skýr og nægilega tæmandi. Vonandi er það skriflega svar, sem mér skildist á hæstv. ráðh. að væri í undirbúningi, skýrara. Ef svo er ekki, þá er þörf á að þetta mál verði tekið fyrir á þann hátt að það fái betri og ítarlegri efnislega meðferð.

Hér er um að ræða hluta af mjög stóru vandamáli, — vandamáli sem felst fyrst og fremst í því hvort verið er að verja því fé, sem hefur verið markað að eigi að fara til hagræðingar í sjávarútvegi, þannig að sjávarútvegur landsmanna sé betur í stakk búinn til frambúðar. Er verið að verja þessu fé í raun og veru til slíkra framkvæmda? Eða er í reynd verið að verja því fé, sem skapast hefur með gengismun á þessu ári, í það að bjarga vanskilaskuldum, lausaskuldum og ýmsum öðrum atriðum í fjárhagsstöðu fyrirtækjanna hverju sinni, en alls ekki verið að styrkja grundvöllinn þannig til frambúðar að þessi fyrirtæki séu lífvænlegar rekstrareiningar.

Ég verð að segja það, að mér hefur fundist meðferð þessa máls hingað til af hálfu rn. gefa tilefni til þess, að menn vörpuðu fram fleiri spurningum en svör hafa fengist við hingað til um það, hvort þarna væri rétt að verki staðið. Ég vil taka það fram, að í fjh.- og viðskn. Ed. var óskað eftir því fyrir þremur vikum að fá þá áfangaskýrslu sem hér var gerð að umræðuefni, og ég vona að það verði orðið við þeirri ósk, þótt af hálfu ráðuneytisstjórans væru taldir ýmsir annmarkar á því. Það kom jafnframt fram í n., að könnun á öðrum frystihúsum í öðrum hlutum landsins yrði lokið fyrir 10. þ.m., en nú skilst mér á hæstv. ráðh. að það sé mun lengra í land með það starf. Ég tel það algera forsendu, áður en hægt sé að hefjast handa, eins og ráðh. lýsti hér yfir, að framkvæma tillögur þessa starfshóps hvað snertir að breyta lausaskuldum fyrirtækjanna á Suðurnesjum í föst lán, að þessi heildarúttekt liggi fyrir, vegna þess að ég geri ráð fyrir að sú bakhjarl þeirra fjármagnsráðstafana, sem þarna eru á ferðinni, sé einmitt það hagræðingarfé sem verið er að fjalla um hvernig eigi að ráðstafa. Þessi mál þurfa að liggja miklu skýrar og ljósar fyrir í heild sinni áður en hægt er að byggja umfangsmiklar fjármunaráðstafanir til þessara fyrirtækja sem og annarra á tillögugerð.