06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Upphaflega var það ætlun mín, þegar ég bað um orðið á sínum tíma, að fjalla nokkuð um ýmis þau efnisatriði sem Halldór Blöndal, sem þá sat hér sem varamaður Jóns G. Sólness, setti fram í mjög athyglisverðri ræðu. En þar eð hann hefur nú vikið af þingi ætla ég mér ekki að taka langan tíma í þessum umr., en tvær síðustu ræður gefa mér þó tilefni til þess að fara nokkrum orðum um efnisatriði sem þar komu fram.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, að við Jón G. Sólnes eða Halldór Blöndal séum einhverjir bandamenn í þessu máli, og ég veit að hv. þm. er það fyllilega ljóst. Hins vegar er það rétt, að hv. þm. Halldór Blöndal og Jón G. Sólnes voru sönnunargögn í mínu máli, þ.e.a.s. þeir sönnuðu hér í umr. nákvæmlega þá hættu sem ég benti á á sínum tíma, að þegar frv. væri lagt upp á þann veg sem hér er gert, þá kæmi strax fram krafan um að atvinnurekendur ættu jafna aðild að skólanum. Ég vil í því sambandi vekja athygli hv. flm. þessa frv. á ýmsum frv. sem þm. Alþb. fluttu á síðasta áratug um þetta efni, þar sem fyrirkomulagi og stjórnsýslulegri stöðu slíks skóla var ætlað að vera háttað á annan veg.

Félagsmálaskóli alþýðu er ekkert nýtt mál hér í þingsölum. (Gripið ham í: Alþb. hefur aldrei flutt mál um þetta.Ég er að vísu ekki með hér eintök af frv., en ég vil benda hv. þm. á till. sem þm. eins og Björn Jónsson, Alfreð Gíslason, Hannibal Valdimarsson, Finnbogi Valdimarsson og fleiri þm. Alþb. fluttu. (KSG: Þetta er sams konar frv.) Nei, það er ekki rétt hjá hv. þm. að hér sé um nákvæmlega sams konar frv. að ræða. Hann hefur þá ekki farið nógu langt aftur í sögunni til að kynna sér þennan málflutning. En um það skulum við ekki deila hér, ég úr ræðustól og hann úr sæti sínu. Ég skal einfaldlega láta hann fá eintök af þessum frv. eða hann flettir þeim upp í þskj. til þess að sjá að þarna er þó nokkur munur á.

Hitt finnst mér athyglisvert, að Halldór Blöndal, sem fyrst í sinni ræðu gerði því skóna að hann væri einn af launþegafulltrúum Sjálfstfl., skyldi síðan andmæla ákvæðum í þessum frv., sem þó einn af forsvarsmönnum Sjálfstfl. í hreyfingu launafólks, Guðmundur H. Garðarsson, er flm. að. En nóg um það.

Aðalatriðið, sem ég vildi benda hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni á, er það, að umr. hér, 1. umr. í deildinni, hefur þegar sannað ótta minn sem ég lét í ljós við 1. umr., að upp kæmi mjög sterk krafa um að atvinnurekendur ættu aðild að stjórn þessa skóla, þegar honum væri skipuð stjórnsýsluleg staða á vegum félmrn. Mér er ljóst að verkalýðshreyfingin hlýtur að taka áhættu hverju sinni um það, hvort hún fær fjármagn til starfsemi af þessu tagi. En ég tel að sú áhætta sé minni en við að reyrast með sína menntastofnun inn í stjórnsýslukerfi sem atvinnurekendum yrði e.t.v. veitt aðild að. Og mér er ekki grunlaust um að það kunni að vera ástæða að baki þessarar tryggingar, sem hv. flm. telur sig hafa, að Alþfl. hefur oft og tíðum farið með félmrn. á Íslandi og menn hafa haft tilhneigingu til að líta á þetta sem eitt og hið sama: flokkinn og rn., og þess vegna væri sú trygging þar fengin. En út frá því er ekki hægt að ganga og aðstæður hér á landi eru allt aðrar en annars staðar á Norðurlöndum í þessu efni.

Það hefði svo sem ekki verið tilefni til þess að koma þessu á framfæri hér í ræðustól og standa hér upp ef ekki hefði verið ræða hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar. Mér fannst hún sláandi dæmi um það, hve Framsfl. er langt kominn frá uppruna sínum. Það er löng leiðin frá Brekku í upphafi þessarar aldar til þeirrar ræðu sem hér var flutt áðan. Mér varð hugsað undir þessari ræðu til tímarits sem ég fékk í hendurnar í gær, sem er hefti af Samvinnunni, málgagni samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi, þar sem er fjallað um afmæli Samvinnuskólans, birtar ræður og viðtöl við skólastjóra: Jónas Jónsson frá Hriflu, Guðmund Sveinsson og núv. skólastjóra, nemendur skólans o.fl. Það kom fram í þessu efni tímaritsins, að Samvinnuskólanum hefur alltaf verið ætlað að vera baráttutæki samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi til þess að ala upp starfskrafta hennar, til þess að kynda hugsjónaelda samvinnuhreyfingarinnar. En kannske er ekki lengur þörf á því að kynda þá elda, kannske eru þeir slokknaðir að eilífu í þeim herbúðum. Kannske er hægt að láta bara fullorðinsfræðsluna sjá um að róta í öskunni. Það kann vel að vera.

En Jónas Jónsson frá Hriflu hefði skilið skóla sem baráttutæki fyrir félagsmálahreyfingu. Hann hefði ekki flutt slíka ræðu eins og hér var flutt áðan. Hann hefði skilið að félagsmálahreyfing fólksins í landinu, sem ætlar sér að breyta þjóðfélaginu, gerir aldrei neitt að marki nema hafa sinn skóla; sína uppeldissveit til að koma hugsjónaeldinum frá einni kynslóð til annarrar, til að þjálfa þá baráttusveit sem stendur í eldlínunni allt í kringum landið.

Það er löng leiðin frá Brekku í upphafi þessarar aldar til þessarar tæðu. Og það er löng leiðin frá forustumönnum Framsfl. fyrr á þessari öld til þeirrar forustu sem nú segir að það þurfi enga skóla til þess að kynda hugsjónaelda félagsmálahreyfingar, og virðist beinlínis ekkert botna í málflutningi eins og þeim, að félagsmálahreyfingar fólksins í landinu, sem er ætlað að breyta þjóðfélaginu, eins og samvinnuhreyfingunni og verkalýðshreyfingunni, þurfi á sínum baráttutækjum að halda. Kannske er það einmitt þetta sem hefur skilið á milli mín og hv. síðasta ræðumanns hér áður fyrr, að annar taldi nóg komið af breytingum þjóðfélagsins og nú væri hægt að vísa öllu inn í menntmrn., en við hinir vildum halda áfram að breyta þjóðfélaginu.

Hér er líklegast, ef dæma má af síðustu ræðu, um grundvallarágreining að ræða, — þann grundvallarágreining sem m.a. fólst í því, hvar Framsfl. og samvinnuhreyfingin ættu að skipa sér í íslensku þjóðfélagi, hvort hún ætti að skipa sér í baráttusveit breytinganna eða hvort hún ætti að skipa sér í sveit hinna grunnmúruðu íhaldsafla sem ekki telja lengur þörf á neinum baráttutækjum og engu vilja breyta. Að þessu leyti er ég þakklátur hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni fyrir að sýna svona glögglega í þingtíðindum hvar skilur á milli og hvar skildi á milli áður fyrr.

Þróun íslensks þjóðfélags á þessari öld, þess þjóðfélags sem við búum nú við, er fyrst og fremst árangur þess félagsmálastarfs sem alþýða til sjávar og sveita í gegnum verkalýðshreyfinguna og samvinnuhreyfinguna setti á oddinn, verk þeirra manna sem skólaðir voru í félagsmálasamtökum samvinnuhreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar áður fyrr, og ég veit að hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson þekkir þá sögu. Ég þarf ekki að rifja hana upp hér. (VH: Hann hefur kannske komið nálægt henni.) Vissulega er það rétt, að hann hefur komið nálægt henni. En eins og ég sagði áðan, það er þá til marks um hverjir telja nóg komið af breytingunum og hverjir vilja halda áfram að breyta, hverjir telja þörf á slíkum baráttutækjum áfram og hverjir ekki.

Það segir sig sjálft, að félagsmálahreyfing alþýðu þessa lands þarf á sérstakri skólun að halda fyrir sitt forustufólk. Hún getur aldrei treyst á almenna fullorðinsfræðslu í landinu til þess að annast það. Hún getur ekki sett upp hlutlausar skólastofnanir í þá veru, enda hefur Samvinnuskólinn aldrei verið hlutlaus, og það veit ég að hv. þm. veit. Þar hafa verið fluttar áratugum saman í kennslustundum útlistanir á ágæti samvinnuhreyfingarinnar fram yfir einkaframtakið á Íslandi, og Jónas Jónsson frá Hriflu, eins og kom fram í þessu ágæta afmælisriti og ég veit að hv. þm. þekkir, varði 1–2 klukkustundum hvern dag til þess að brýna fyrir mönnum mismuninn á einkafyrirtækjunum eins og Garðari Gíslasyni og H. Ben. & Co. annars vegar og samvinnufyrirtækjunum hins vegar. Þær kennslustundir, sá áróður varð til þess að skerpa baráttutækin. Og ég er ekki viss um að samvinnuhreyfingin eða Framsfl. hefðu náð eins langt og þau hafa þó náð, ef Jónas Jónsson hefði ekki flutt þann boðskap í því baráttutæki sem Samvinnuskólinn var þá samvinnuhreyfingunni.

Félagsmálaskóli alþýðu, það félagsmálastarf sem hefur verið unnið á vegum alþýðusamtakanna, hefur verið hliðstætt baráttutæki. Og það, sem skilur á milli okkar hv. 2. þm. Austurl., er það, að auðvitað þarf að efla og styrkja fullorðinsfræðsluna í landinu, en henni er ætlað að sinna, eins og öðrum almennum menntastofnunum í landinu frá grunnskóla og upp úr, hinni almennu fræðslu fyrir þegna þessa þjóðfélags og þeirri sérhæfðu menntun sem þetta þjóðfélag telur sig þurfa hverju sinni. En síðan er það verkefni félagsmálahreyfinga og fjöldahreyfinga í landinu að annast sjálfar þá sérstöku baráttumenntun sem þær telja sig þurfa á að halda. Það eru fjölmörg önnur fjöldasamtök en þau, sem ég hef hér vikið að, sem er fyllilega eðlilegt að annist slíka starfsemi. Mín lýðræðissýn er nú einu sinni fólgin í því, að það eigi ekki bara að vera ríkið sjálft sem annist alla menntun í landinu, sem kannske er skoðun hv. þm., heldur sé líka í okkar lýðræðiskerfi fullt og breitt rúm og fjölþætt fyrir margvíslega menntunarstarfsemi hagsmunasamtaka og fjöldasamtaka sem taka þátt í okkar lýðræðislega veruleika, bæði bændasamtaka, samtaka verslunarinnar, samtaka samvinnuhreyfingarinnar og samtaka verkalýðshreyfingarinnar. Og ég sé ekkert óeðlilegt við það, þótt Alþ. samþykki styrk til slíkra fjöldasamtaka. Alþ. samþykkir styrk til stjórnmálaflokka, og því hefur hv. þm. greitt atkv. Eru stjórnmálaflokkar hluti af menntakerfi? Eru þeir hluti af stjórnsýslubákninu? Nei, þeir eru fjöldasamtök, þeir eru lýðræðisleg samtök, og þeir eru styrktir. Og hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson veit það jafnvel og ég, að Samvinnuskólinn er líka styrktur. Og sú upphæð, sem ég nefndi, 100 millj. kr., og hv. þm. greinilega ofbauð, hvað var hún há? Það vill nú svo til að hún er hin sama og Samvinnuskólinn fær. (Gripið fram í: Það eru sérstök lög til um hann.) Það er vissulega rétt. (VH: Þetta eru ekkert sambærilegir skólar.) Eru þeir ekki sambærilegir? Vegna hvers eru þeir ekki sambærilegir? Vill hv. þm. svara því, vegna hvers þeir eru ekki sambærilegir? Hann gerir það hér úr ræðustól á eftir. Þeir eru sambærilegir að því leyti, að báðum er ætlað að berjast og skerpa baráttustöðu fyrir þeim þjóðfélagslega grundvelli sem hvor félagsmálahreyfingin um sig stendur á. Það liggur ekkert fyrir um það, hv, þm., að samvinnuhreyfingin á Íslandi sé búin að afnema samvinnufræðsluna í Samvinnuskólanum, þvert á móti. Hún er enn þá virkur þáttur í kennslu þar. Þar eru enn þá kennslustundir þar sem er útlistað ágæti samvinnuframtaksins fram yfir einkaframtakið, og að því leyti er þessi starfsemi vissulega sambærileg. Það kemur greinilega fram í þessu afmælisriti, sem er nýlega út komið um Samvinnuskólann, að forustumenn samvinnuhreyfingarinnar líta enn þá á Samvinnuskólann sem baráttutæki. Fyrrv. samþm. Vilhjálms Hjálmarssonar, Eysteinn Jónsson, sem hér sat á þingi árum saman, var meira að segja fyrir nokkrum mánuðum í sérstökum starfshópi á vegum samvinnuhreyfingarinnar sem lagði fram tillögur um hvernig Samvinnuskólinn gæti gegnt betur sínu hlutverki að vera baráttutæki samvinnuhreyfingarinnar.

Ætli það skilji ekki á milli í afstöðunni til þessa máls, annars vegar þeirra, sem telja nú orðið harla gott með þær breytingar sem gerðar hafa verið á þjóðfélaginu á því sem liðið er af þessari öld og vilja nú setjast í helgan stein og ganga í sveit með íhaldsöflunum, og okkar hinna sem teljum nauðsynlegt að bæði verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin haldi áfram með sinni menntastarfsemi að manna svo sína forustusveit að hún geti náð umtalsverðum árangri í því að umskapa íslenskt þjóðfélag á líkan hátt á þeim tíma sem eftir er af þessari öld eins og þeir, sem aldir voru upp í þessum skóla fyrr á þessari öld, umsköpuðu íslenskt þjóðfélag? Halda menn að samvinnuhreyfingin hefði náð jafngóðum árangri í baráttunni gegn Garðari Gíslasyni, H. Ben. & Co. og öðrum ágætisfyrirtækjum í þessu landi, sem Jónas Jónsson frá Hriflu beindi samvinnuhreyfingunni gegn, ef slíkt fræðslustarf hefði ekki komið til? Halda menn að Framsfl. hefði verið — sem að vísu er ekki lengur næststærsti stjórnmálaflokkur landsins, ef ekki hefði í Samvinnuskólanum farið fram uppeldi á forustusveit Framsfl., mörgum hennar bestu mönnum? Þess vegna vil ég mælast til þess, að þeir menn, sem enn telja sig rótfasta í samvinnuhreyfingu þessa lands og telja sig hluta hennar sögu, eins og kom fram í frammítöku hv. þm. áðan, reyni að sjá samhengið á milli Samvinnuskólans og verkalýðsskólans. Okkur getur greint á um form þess skóla, eins og mig greinir nokkuð á við hv. þm. Karl Steinar Guðnason. En það er aukaatriði í þessu máli. Hitt verður aðalatriði, ef það á að vera grundvöllur stuðnings hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar við þetta frv., að slíkur skóli eigi ekki og megi ekki vera baráttutæki alþýðustéttanna í landinu. Alþýðustéttirnar þurfa á slíku baráttutæki að halda, mjög sterku og öflugu baráttutæki, eins og reynsla síðustu fjögurra ára og sérstaklega fyrri hluta þessa árs sýnir glöggt.