06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Aðeins örfáar aths. í tilefni af því sem hér hefur verið sagt af þeim sem eru andvígir þessu frv.

Það er að mínu mati mikill misskilningur hjá þeim, sem hafa talað á móti þessu frv., að hér sé um einhverjar launabætur að ræða til alþm. Mér er t.d. ekki kunnugt um að mitt kaup hækki nokkurn skapaðan hlut þó að þetta frv. sé samþ. Hér er ekki um það að ræða. Hér er aðeins um það að ræða, hvort Alþ. treysti sér til þess að samþykkja þau launakjör alþm., að þeir njóti hliðstæðra almennra réttinda á við aðra. Ef menn sjá eftir peningunum, þá eru til miklu handhægari og eðlilegri ráð til þess að spara þessa upphæð, þ.e. að flytja till. um að lækka laun alþm., sem eru að tala á móti þessu frv., og lækka laun mín. Ég skal vera til viðtals um það. En hitt þykir mér miklu eðlilegra að menn þori að standa við það, ef þeir ákveða alþm. ákveðin laun, að þeir skuli hafa svipuð almenn réttindi og aðrir. Menn geta auðvitað slegið sig til riddara á ýmsum hlutum og sagt: Ég vil spara, ég vil ekki vera að sýna svona rausn og eyðslusemi. — En að mínum dómi er þetta heldur smásálarlegur hugsunarháttur ef á annað börð á að viðurkenna að alþm. eigi að hafa laun og launakjör hliðstæð við það sem nú er gert ráð fyrir í lögum um tiltekna opinbera starfsmenn, en við erum í launaflokki með tilteknum opinberum starfsmönnum.

Ég hef ekki heyrt nein rök færð fram fyrir því, að það sé ekki hin almenna regla að opinberir starfsmenn njóti svipaðra réttinda og hér er um að ræða. Það er eins og ég segi: Það getur auðvitað verið matsatriði, hvort á að hafa þessi biðlaun fyrir alla í þrjá mánuði eða í sex mánuði fyrir þá sem hafa verið alþm. í 10 ár eða lengur. Það hafa verið færð hér fram rök fyrir því, það eru að mínum dómi sterk rök, að þeir, sem hafa verið hér í 10 ár eða lengur, njóti nokkru lengri biðlaunatíma. M.a. er það rökstutt út frá þeirri skoðun, og ég er á því að það geti verið eðlilegt, að alþm., sem kemur gjarnan úr einhverju starfi, haldi sínu fyrra starfi opnu í nokkur ár, eins og mjög tíðkast. Ég tel hins vegar mjög óeðlilegt að alþm. haldi fyrra starfi sínu opnu í 10 ár eða lengur. Slíka siði ætti að leggja niður. Ég held líka að ef opinber starfsmaður — við erum að mæla okkur við opinbera starfsmenn, því miður njóta ekki lausráðnir verkamenn allra þeirra réttinda sem við njótum, en það er önnur saga — hefur starfað í sama starfi í 10 ár eða lengur og er í eitthvað svipuðum launastiga og alþm. eru muni 6 mánaða reglan vera algengust.

Ég segi því: Hér er frá sjónarmiði okkar margra um réttindamál að ræða. Það er spurning um það, hvaða réttindi fylgja þeim launakjörum sem alþm. hafa. Ég efast t.d. ekki um það, að ef í þessu tilfelli hefði verið farið inn á kjaradómsleiðina, — sem menn eru mjög áhugsamir um sumir, þ.e.a.s. vísa málinu til háttsettra embættismanna og láta þá úrskurða um það, — þá hefði þetta verið ákveðið handa þm. fljótt og greiðlega. Þá hefðu menn auðvitað sloppið við þann vanda að þora að bera ábyrgð á því sjálfir að setja svona reglu. Ég fyrir mitt leyti hef túlkað þá skoðun, að það sé aðeins eðlileg skylda sem hvílir á þm. að þora að standa við það að ákveða launakjör alþm. Við eigum ekki að þurfa að fara neinar óbeinar leiðir til þess, tilnefna fyrst einhverja embættismenn og segja þeim að ákveða laun okkar, heldur eigum við að ákveða þau sjálfir og standa og falla með því sem við gerum. Og við eigum að þora að ákveða, hvaða réttindi eigi að fylgja launum okkar eins og annarra. Ef menn vilja spara, þá er miklu eðlilegra að lækka launin almennt. Auðvitað er lítill vandi að lækka laun alþm. um einn eða tvo launaflokka, og þannig er hægt að ná í þessa upphæð, og halda síðan sömu réttindum og allir aðrir. En ég fellst ekki á fyrir mitt leyti að gera það á þann hátt að strika út ákveðin réttindi.

Ég verð svo að segja það, eins og ég hafði vikið aðeins að áður, að ég tel að það sé vægast sagt óeðlilegt ef þessi breyting, sem hefur verið á ferðinni í þinginu frá því fyrir síðustu kosningar, er ekki látin gilda fyrir alla þá aðila sem þarna áttu hlut að máli. Það var staðreynd að ýmsir þeirra og við mjög margir alþm. töldum, eins og málin lágu fyrir fyrir kosningar, að alþm. ættu þennan rétt og það væri jafnvel um túlkunaratriði að ræða. Síðan hafa menn komist á þá skoðun, að rétt væri að taka af skarið um þetta með lagasetningu.

Þetta mál á að fá hér afgreiðslu, verða fellt, ef menn eru svo kjarkmiklir að velja þá leið, eða þá samþykkt, ef menn hafa kjark til þess. Ég mæli með því fyrir mitt leyti og við í meiri hl., að frv. verði samþ. óbreytt. Ég er á móti báðum þeim till. sem fluttar eru til breytinga á frv.