11.12.1978
Efri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Það er víst eins með mig og hv. 2. þm. Austurl., að ég er búinn að tala tvisvar, þannig að ég er víst búinn að tala mig dauðan í þessu máli. Ég vil þó fá tækifæri til þess rétt að gefnu tilefni út af þeim staðhæfingum sem komu fram í ræðu hv. 3. landsk. þm. hér á dögunum þar sem hann — (Forseti: Mér virðist að hv. þm. sé ekki búinn að tala nema einu sinni.) Jæja, en þetta verður stutt fyrir því.

Ég vísa til ræðu hv. 3. landsk. þm., þar sem hann tók fram í ræðu um daginn og lagði á það mikla áherslu, þunga áherslu, að hlutverk þess skóla, sem rætt er um í því frv. sem hér er til umr., væri fyrst og fremst að ala upp hóp baráttumanna sem hefðu það að meginstefnu að breyta þjóðfélaginu. Í öðru lagi sagði þessi sami hv. þm. í sömu ræðu að skólinn ætti að vera baráttutæki fyrir verkalýðinn. Að fengnum slíkum yfirlýsingum vil ég leyfa mér að mælast til þess, að menn gætu mætt með skilningi því sjónarmiði, að maður sé frekar tregur til að fara að samþykkja að slíkur skóli sé alfarið kostaður af almannafé, en hins vegar ekki undir stjórn hins veglega menntamálakerfis þjóðarinnar, þó að í stjórn eigi að vera, eins og hér er gert ráð fyrir, menn frá Alþýðusambandi Íslands og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu. Nú hefur það víst einhvern veginn verið þannig, að Alþfl. hefur átt meiri hluta í stjórn Menningar- og fræðslusambands alþýðu. Nú efast ég ekki um að á einhverju stigi gæti Alþb. hugsað sér að hafa vinsamlegt samband við Alþfl., af því að það gæti brúkað hann til einhverra hluta síðar. En um það, hvernig áframhaldið yrði, hefur reynslan verið ólygnust eftir síðustu alþingiskosningar. Og ég segi fyrir mitt leyti, að hafi ég verið ákveðinn í því að vera á móti þessu ákvæði um stjórn skólans, sem felst í ákvæðum 5. gr., við fyrri aths. mínar í sambandi við þetta frv., þá er ég enn harðari í þeirri andstöðu eftir þau ummæli sem við hlýddum á í ræðu hv. 3. landsk. þm. á dögunum. – Þetta vildi ég láta koma fram.