11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt og var sagt af síðasta ræðumanni, að hér er um að ræða frv. sem flutt er að ósk Stéttarsambands bænda, samtaka bændanna í landinu. Það eru þeir sem óska eftir því að fá það vald sem í þessu frv. felst. En ég hugsa að þótt málið liggi þannig fyrir, þá sé nokkurn veginn víst að bændur landsins séu ekki fyllilega sammála um að fara þá leið sem gert er ráð fyrir að farin verði með heimildum þessa frv. Það er sem sagt talsverður ágreiningur í þeirra hópi um það, hvað gera skuli. Og í rauninni þarf enginn að undrast þó að svipaður ágreiningur um það, hvaða leið skuli velja, komi líka upp á hv. Alþ. þegar um slíkt stórmál er að ræða sem það sem hér liggur fyrir. En undir það get ég tekið, að vissulega ber að taka mikið tillit til þess þegar samtök bændanna óska eftir því að fá aðstöðu til þess að skipa málefnum landbúnaðarins með ákveðnum hætti, jafnvel þó að þar sé farið inn á braut sem ég er ekki fyllilega ásáttur með. Taka ber verulegt tillit til þessa.

En það eru nokkur atriði í sambandi við þetta mál sem mig langar til þess að víkja að. Í þessu sambandi er rætt allmikið um þann vanda sem við okkur öllum blasir í landbúnaðarmálum, þar sem framleiðslan er allmiklu meiri en þörf er fyrir á innlendum markaði og þarf að flytja nokkurn hluta framleiðslunnar á erlendan markað, sem ekki gefur það verð sem bændur eiga að fá samkv. því kerfi sem þeir búa við. Af þessu leiðir síðan það, sem við þekkjum og hefur tíðkast hjá okkur um alllangt skeið, að það þarf að greiða sérstakar útflutningsuppbætur, svonefnda styrki með þessari framleiðslu. Þessar útflutningsuppbætur hafa verið óvenjumiklar nú síðustu árin, þar sem útflutningurinn hefur farið vaxandi, og allar horfur eru á því að vandamál í sambandi við þessa framleiðslu, sem verður að fara á erlendan markað, fari vaxandi. Þetta er sá vandi sem við er að eiga í þessum efnum.

Nú held ég að það sé alveg nauðsynlegt, þegar á að fara að marka stefnu eins og þá sem kemur fram í þessu frv., að menn reyni að gera sér sem allra besta grein fyrir því, hvers eðlis þessi vandi er í raun og veru og hvernig hann er, hversu mikill vandi þetta er. Þegar um það er að ræða að velja þá leið í sambandi við þetta vandamál að stefna að því að draga verulega saman í íslenskum landbúnaði og leysa vandann þannig að framleiðslan verði minni, þá er verið að fara inn á nýja braut. Það er verið að fara inn á braut, sem getur haft miklar afleiðingar. Á því er enginn vafi. Í þessum umr. hefur verið sagt af einum hv. alþm.,

Pálma Jónssyni, að hann teldi að sá vandi, sem fyrir lægi varðandi sauðfjárframleiðsluna, þ.e.a.s. aðallega útflutning á kindakjöti, væri ekki mjög mikill þegar betur væri að gáð. Í rauninni væri ekki miklu meiri vandi í þeim efnum en hefði verið um langan tíma. Ég er á þessari skoðun líka. Ég tel að það, sem sumpart kemur fram í þessu frv. og grg. með því, sé talsvert villandi einmitt varðandi þennan þýðingarmikla þátt í málinu. Þetta frv. verður varla skilið á annan hátt en þann, að nú stöndum við frammi fyrir því að kindakjötsframleiðslan á þessu framleiðsluári verði í kringum 15400 tonn og af því þurfi að flytja úr landi rúmlega 5000 tonn, því að innanlandsneyslan muni verða í kringum 10 þús. tonn, sem sagt fullan þriðja part eða — eins og kom fram í ræðu hæstv. landbrh. — um 35%. Þetta eru atriði sem koma fram í grg. og komu fram í máli hæstv. ráðh. Þetta tel ég fyrir mitt leyti mjög villandi, þegar betur er að gáð hvernig þessi mál liggja.

Í fyrsta lagi er það svo, að það liggur fyrir í skýrslum að á kindakjötsframleiðslunni hafa ekki orðið miklar breytingar í mörg ár. Ein mesta breytingin hefur orðið í slátrun nú á þessu hausti, en hún er líka mjög skýranleg. Það kemur í ljós, þegar litið er á skýrslur, að árið 1973 var kindakjötsframleiðslan 13 355 tonn. Árið 1974 var kindakjötsframleiðslan 13 501 tonn, árið 1975 var hún 14 715 tonn, árið 1976 var hún 13 978 tonn og árið 1977 var hún 13 964 tonn, en talið er að á þessu framleiðsluári muni hún verða um 15 400 tonn. Það má því segja, þegar litið er á þetta tímabil, að árleg framleiðsla á kindakjöti hafi legið mjög nærri því að vera 14 000 tonn á ári, enda er það sú tala sem flestir af forustumönnum bænda hafa talað um opinberlega og miðað við yfirleitt þegar rætt hefur verið um kindakjötsframleiðslu. Það er í rauninni ekkert sem bendir til þess, þegar litið er á þessa framleiðslu, að þarna hafi verið um framleiðsluaukningu að ræða, að búfjárstofninn væri að aukast og þannig mætti búast við verulegri aukningu. Hitt hefur auðvitað alltaf legið fyrir, að það getur verið nokkur munur á því frá ári til árs, hvað fallþunginn verður mikill. Nú vill svo til, að á þessu ári var fallþunginn með mesta móti og vex þessi framleiðsla í kringum 400 tonn eingöngu af því. Einnig kemur í ljós að í þetta skipti er gengið á stofninn, slátrað er meira af fullorðnu fé en hafði verið um nokkurt skeið, 17–18 þús. kindum meira. Það er skýringin á um 400 tonna meiri heildarframleiðslu nú. Það er því alveg augljóst, að á þessu ári er ekki um neina stóra sveiflu að ræða. Hér er því ekki um það að ræða, að við stöndum frammi fyrir einhverju sérstöku vandamáli vegna hratt vaxandi framleiðslu og vaxandi vandamáli af þeim ástæðum.

En það er annað sem hefur verið að gerast hjá okkur nú í nokkur ár. Það hefur dregið út innanlandsneyslunni á kindakjöti. Hún hefur heldur farið minnkandi. Tölur um það efni eru m.a. á þessa leið: Á árinu 1973 var innanlandssalan 9404 tonn, árið 1974 10 662 tonn, árið 1975 9976 tonn, árið 1976 9601 tonn og árið 1977 9029 tonn. Það er því alveg augljóst mál, að nú í nokkur ár hefur neyslan eða innanlandssalan minnkað. Það eru líka mjög skýranlegar ástæður fyrir því, hvernig á þessu stendur. Þetta hefur m.a. komið fram — ég hef gert það hér að umtalsefni áður — í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, þar sem hún bendir á að einkum og sérstaklega dregur úr innanlandsneyslunni á árunum 1976 og 1977, m.a. vegna þess að bæði var á þessu tímabili um heldur rýrnandi kaupmátt að ræða, allt fram að því að nýir kjarasamningar komu til, og einnig hitt, að verðlagið á þessari vöru hafði breyst í hlutfalli við ýmsar aðrar neysluvörur þessari framleiðslugrein í óhag, af því að niðurgreiðslur á vöruverðinu höfðu farið minnkandi hlutfallslega við söluverð. Nú gerist það, þegar niðurgreiðslur eru verulega auknar á þessu ári, fyrst í tíð fyrrv. ríkisstj. á miðju ári og síðan aftur í haust, að salan vex aftur umtalsvert, og nú er ætlað að salan á þessu ári verði um 10 þús. tonn. Hún fer sem sagt greinilega upp núna miðað við þær tölur sem er helst hægt að miða við. Mér er sagt af þeim, sem fylgjast þarna best með, að það liggi að vísu ekki fyrir tölur enn, sem geti sagt með nokkurri nákvæmni hve mikið salan hefur aukist eftir að niðurgreiðslurnar jukust verulega, en þó sagði formaður Stéttarsambands bænda mér í dag, að hann teldi, eftir athugunum sem gerðar hefðu verið á ýmsum sölustöðum, að hér hefði verið um aukningu að ræða í kringum 10%, nokkuð örugglega um 8–10%, á þessu tímabili. Við tökum líka eftir því, að í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að greiða niður á næsta ári 10 200 tonn af kindakjöti. Miðað er við það. Ef hins vegar væri reiknað með því, sem kom einnig fram í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar og nokkrum sinnum hefur heyrst, að gerðar væru áætlanir um að á næsta ári mætti jafnvel búast við söluaukningu frá því, sem orðið var, í kringum 16%, þá er alveg augljóst að þá ætti salan á næsta ári að fara allmyndarlega yfir 10 þús. tonn, í 10 500 tonn, kannske 11 þús. tonn, sem væri siður en svo mikið borið saman við það sem hafði verið hér um árabil.

Þegar reynt er að gera sér grein fyrir sölunni og áætla þó varlega, þá sýnist mér allt benda til þess, a.m.k. við þær aðstæður sem við búum við nú, þær niðurgreiðslur sem eru ráðgerðar á næsta ári, að salan innanlands verði örugglega á milli 10 og 11 þús. tonn. Auðvitað er eðlilegt að gera ráð fyrir því, að neyslan á næstu árum komandi 2, 3, 4 árum, fari fremur vaxandi en minnkandi. Ég get því ekki séð, þar sem mestar líkur benda til þess, að árleg framleiðsla á kindakjöti sé um 14 þús. tonn, en nokkuð eðlileg neysla innanlands ætti að vera 10–11 þús. tonn, að um miklu meira vandamál sé að ræða í þessum efnum en það sem við höfum búið við um áraskeið. Útflutningurinn gæti þannig verið 3–4 þús. tonn, sé miðað við þessar tölur sem ég nefndi. En það er rétt, að ef við reiknum með því að eðlileg árssala haldi í sífellu áfram að vera um 9000 tonn, og ég tala nú ekki um ef við reiknum síðan með tiltölulega eða jafnvel óvenjulega hagstæðu ári miðað við allar aðstæður eða miðað við slátrun, þá auðvitað geta menn fengið út að það þurfi að flytja út 5000 tonn eða 5500 tonn, og þykir þá meira en nóg.

Ég held að það sé nauðsynlegt, án þess að ég vilji á nokkurn hátt draga úr því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum, að samt beri að athuga þetta mál raunhæft. Ef við gerum ráðstafanir til þess og menn ná því marki að draga verulega úr þessari framleiðslu, auðvitað með fækkun bænda, því að þetta gerist ekki með öðrum hætti, — það sjá allir að þeim tilgangi verður ekki náð, sem þetta frv. stefnir að, án þess að bændum fækki, — þá held ég að það sé rétt fyrir okkur að hafa í huga hvernig við stöndum þá varðandi þessa búgrein okkar t.d. eftir 5 eða 10 ár. En ég tel að okkur beri skylda til að meta mál eins og málefni íslensks landbúnaðar á þann hátt að horfa svolítið fram í tímann, því að það verður, eins og hefur stundum áður verið sagt, ekkert hlaupið að því að snúa fólki úr fjölbýlinu aftur upp í sveitir landsins til þess að taka upp þessa framleiðslu, þegar menn telja hana aftur vera orðna of nauma. Ég verð því að segja, að ég tel, þó að ég játi að hér sé um talsvert vandamál að ræða í svipinn, bæði á því ári, sem er rétt að líða, og á næsta ári, við þurfum að flytja út meira af landbúnaðarvörum en góðu hófi gegnir, að þetta sé frekar tímabundið vandamál en það gefi tilefni til þess að grípa til ráðstafana, sem eru býsna harkalegar og hafa þær afleiðingar í þessari grein sem er vafasamt að verði til hags fyrir þjóðarbúið þegar á allt er litið.

Nú hefur það verið dregið inn í þessar umr. á eðlilegan hátt, að ef um það væri að ræða, sem ég veit að sumir telja ákaflega mikinn vinning, að menn stefndu að því að draga saman sauðfjárframleiðsluna í landinu sem næmi um 1/3, til þess að við þyrftum ekki að vera að basla við útflutning, þá er auðvitað alveg augljóst mál að ekki er hægt að gera það án þess að við sköðum verulega þýðingarmikinn útflutningsiðnað okkar bæði skinnaiðnaðinn og ullariðnaðinn. Mér sýnist á þeim tölum, sem ég hef litið á í þeim efnum, að útflutningsverðmæti skinnavara og ullarvara á þessu ári muni verða um 6 milljarða kr. Það er ekki nokkur vafi á því, að ef farið yrði í samdrátt í þessum efnum, eins og þarna er verið að gefa í skyn, þá yrði verulegt skarð fyrir skildi í sambandi við þessa framleiðslugrein, atvinnu við hana og gjaldeyrisöflun. Að sjálfsögðu má ekki heldur gleyma því, að við fáum þó nokkurt verð fyrir það sem við flytjum út af kindakjöti. Það mun þó alltaf vera um 3 milljarða kr. Ég verð því að segja, að þegar ég legg þessi atriði saman, reyni að gera mér grein fyrir því, hvort verulegar líkur séu til þess, að kindakjötsframleiðslan fari verulega vaxandi á næstu árum, og hvað geti talist eðlilegt í sambandi við innanlandssölu og hvað annað hangir á þessari sömu spýtu í sambandi við þær hliðargreinar sem hér eru tengdar, þá sýnist mér vægast sagt óráðlegt að ætla að grípa til ráðstafana sem gætu þýtt verulegan samdrátt. Ég held að það sé rétt, sem kom fram hjá hæstv. landbrh. og oft hefur verið bent á af ýmsum, að staðreynd er að það hefur farið fram og er að fara fram fækkun í bændastéttinni í landinu. Ýmsar jarðir, sem eru nokkuð aftur úr af ýmsum ástæðum, virðast fara úr ábúð og framleiðslu þar er hætt. Ég held því, að við ættum að fara okkur hægt í því að gera í þessum efnum ráðstafanir sem gætu þýtt verulegar breytingar frá því sem nú er.

Ég játa hins vegar og tek þar undir með hv. þm. Pálma Jónssyni, ég er honum þar alveg sammála, að vandinn í þessum efnum er miklu meiri í sambandi við mjólkurframleiðsluna. Þar er hvort tveggja, að útflutningsverðið, sem við verðum að búa við, er miklum mun óhagstæðara fyrir umframframleiðsluna á mjólk, og mér sýnist líka, þó að í rauninni hafi ekki verið um tiltakanlega framleiðsluaukningu að ræða í innlagðri mjólk til mjólkurbúanna nú í mörg ár, ekki neitt sem er orð á gerandi, af því að þar er alltaf um sveiflur að ræða, fer mjög eftir árferði, — þá sýnist mér að ýmis rök mæli með því, að það geti farið svo, að heildarframleiðslan af mjólk og mjólkurvörum muni fara vaxandi á næstu árum. Þar er greinilega um talsvert meiri framleiðslu að ræða nú en hagstætt er, sem auðvitað veldur vissum vanda. Það er því talsvert meiri ástæða til þess að gera einhverjar ráðstafanir til þess a.m.k. að hamla þar gegn allri aukningu.

Ég skil mætavel að það komi fram tillögur í þá átt sem hér er um að ræða og ætlaðar til þess að draga nokkuð úr mjólkurframleiðslu. En þó er skoðun mín sú, að líka sé gert of mikið úr þessum vanda nú.1 þeim efnum er rétt að hafa í huga þær sveiflur, sem verða í þessari framleiðslu, sem við stóðum frammi fyrir fyrir ekki alllöngu, þar sem það ástand kom upp að við urðum að flytja mjólkurvörur á milli landshluta með ærnum kostnaði vegna þess að óhagstætt árferði gekk yfir á Suðvesturlandi. Það hafði slík áhrif á heildarframleiðsluna hér.

Ég vil þá koma aðeins að þessum tillögum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að beita. Hér er gert ráð fyrir að beita fyrst og fremst fóðurbætisskatti, sem mikið hefur verið rætt um í langan tíma og bændur eru greinilega ekki ásáttir um. Ég er í hópi þeirra sem telja að sá skattur sé mjög óhagkvæmur skattur og sé allvafasamt að beita honum nema þá á nokkuð sérstakan hátt. Ég er t.d. á þeirri skoðun, að miklu betra væri að ná tilætluðum árangri með skatti byggðum á þeim grundvelli sem kom fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar, þ.e.a.s. að skattleggja með verulega háum skatti þann hluta af fóðurbæti sem segja má að sé keyptur til notkunar umfram það sem telja má nokkuð eðlilegt miðað við bústærð. En mér er ljóst, að skattur af þeirri tegund, sem hér er rætt um, mun koma mjög misjafnlega við og fjarri því á réttlátan hátt. Mér er t.d. mjög ógeðfellt að hugsa til slíks skatts, þegar svo fer sem æðioft fer í landi okkar, að árferði reynist mjög óhagstætt í einhverjum landshluta, þar er t.d. rigningatíð eða slík áföll, heyöflun verður lítil og léleg og menn lenda í vissum vanda af þeim ástæðum. Það hefur alltaf sýnt sig að þegar svo ber undir, þá neyðast menn til þess af ýmsum ástæðum að kaupa eitthvað meira af fóðurbæti en þeir höfðu gert allajafna áður. Eftir kerfi eins og þessu mundu aðilar, sem verða fyrir slíkum áföllum, verða sérstakur skattstofn, þá ætti sérstaklega að láta borga sem yrðu fyrir slíku. Ég verð að segja, að þetta er mér ekki geðfellt. Mér sýnist að þetta kæmi mjög illa út. Að vísu sé ég að talað er um að það megi víkja frá reglunum í ýmsum tilfellum, en það er, eins og við vitum, með alla svona skatta, afar erfitt að vera með alls konar undantekningar fram og til baka, ef menn ætla sér að beita svona skatti á annað borð.

Hér hefur einnig verið bent á það, sem ég hygg að sé rétt, að á þeim bændum, sem eru í greiðsluörðugleikum og vantar yfirleitt rekstrarfé, mundi það bitna allharkalega að bæta við sig þessum skatti, á sama tíma sem hinir, sem upp úr standa og hafa miklu rýmri fjárráð, mundu ekki setja skattinn mikið fyrir sig og þannig hefði skatturinn varla tilætluð áhrif hjá þeim. Ég dreg því nokkuð í efa réttmæti þess að fara þessa leið.

Af þessu, sem ég hef verið að segja, má auðvitað draga þá ályktun, sem rétt er, að ég er andvígur þeim leiðum sem lagðar eru til í þessu frv. Ég tel hér vera um neyðarráðstafanir að ræða og af því tagi sem ég get ekki stutt út af fyrir sig. En eins og ég sagði í upphafi míns máls: Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Mér er ljóst að hér er um talsvert mikinn vanda að ræða, jafnvel þó að hann sé að sumu leyti tímabundinn. Samtök bændanna í landinu koma og biðja um heimildir sér til handa að mega beita ákveðnum ráðstöfunum. Ég treysti mér því ekki til þess að segja nei við þessari beiðni, ég játa það. Ég mun því ekki standa gegn því, að þeir fái þessar heimildir. En ég mun ekki heldur greiða því atkv., af því að ég trúi ekki á þessar ráðstafanir. Satt að segja þætti mér miklu líklegra að þó að bændasamtökin fengju þessar heimildir, þá yrðu þær ekki til mjög mikils í þá átt sem stefnt er að.

En það, sem mér finnst verulega einkenna þessar umr. og ég sætti mig ekki heldur við, er sá málflutningur, sem mjög kemur fram hjá hæstv. landbrh. og reyndar ýmsum þeirra, sem hafa staðið að því að biðja um þær heimildir sem í þessu frv. felast. Þeir segja: Markmiðið er að tryggja tekjur bænda. Þær má ekki skerða. Annað markmið: Það má ekki fækka bændum, m.a. með byggðasjónarmið í huga. — En samt á að ná þeirri útkomu, að um verulegan samdrátt í framleiðslu sé að ræða til þess að leysa vandann. Ég held að það sé enginn vafi á því, sem mér fannst ég heyra í máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, að þetta dæmi gangi aldrei upp. Ef heimildirnar í þessu frv. verða notaðar og ef menn ná þeim árangri sem að er stefnt með þessu frv., þ.e.a.s. að draga verulega úr framleiðslunni, þannig að útflutningsvandamálið minnki eitthvað verulega, þá verða bændur vitanlega fyrir verulegu tekjufalli, tekjur þeirra minnka, og að einhverju leyti verður þetta auðvitað til þess að bændum fækkar, fleiri gefast upp. Dæmið verður leyst á þann hátt. Þetta leysist auðvitað ekki bara með því að hver og einn bóndi búi miklu skynsamlegar en hann hefur gert. Ég held að það hefði líka verið hægt að ná því fram með öðrum hætti, með allri þeirri leiðbeiningarstarfsemi og ráðunautastarfi, sem við búum við í íslenskum landbúnaði, og þeirri miklu yfirstjórn, sem þar er um að ræða. Það hefði vitanlega verið miklu nær að reyna að leiðbeina mönnum og beina þeim inn á réttari brautir, fremur en vera að eyða peningum í gagnslitla hluti í sambandi við framleiðsluna. Ég held því að menn verði að gera sér ljóst, að ef það frv., sem hér er um að ræða, verður samþ. og gert að lögum og ef menn ætla sér að ná þeim tilgangi, sem hér er að stefnt, þá þýðir þetta að tekjur bænda koma til með að lækka verulega í hlutfalli við aðrar stéttir í landinu, það verður ekki hægt að komast fram hjá því, og þetta þýðir einnig samdrátt í bændastétt um leið og það þýðir samdrátt í framleiðslu landbúnaðarvara.

Ég vil svo einnig segja það, að ég er ekki heldur ásáttur með þær kenningar, sem þessar tillögur eru byggðar á, að það er mjög látið að því liggja að til sé ákveðin bústærð, sem sé heimilisbú, sem sé hæfileg fyrir meðalheimili, það sé fyrst og fremst hagstæðasta búið og eigi að reyna að taka fram fyrir hendur manna í sambandi við það að hafa ekki meiri framleiðslu en sem hæfir þessu búi, eins og orðað er í grg. Það er eins og segir í grg. efst á bls. 4:

„Með heimildarákvæði um mismunandi hátt verð á búvöru er gert ráð fyrir að leggja stighækkandi gjald á framleiðslu umfram það sem hæfir fjölskyldubúrekstri“. Ég er ekki í neinum vafa um að við höfum mörg dæmi um það, að bú, sem skila mjög hagstæðri úfkomu, eru mun stærri en það bú, sem hér er lagt til grundvallar í sambandi við þessa skattlagningu. Ég held að það verði ekki til neins góðs í sambandi við frambúðarstefnu í landbúnaðarmálum að ætla sér að marka það að skattleggja skuli alveg sérstaklega bú sem verða eitthvað stærri en það sem hér er lagt til grundvallar. Slíkt held ég að verði að teljast mjög vafasamt. Auðvitað getur komið til mála að taka upp skatt, sem hvert annað neyðarúrræði og skattleggja þá meira stóru búin til hjálpar hinum, en slíkt væri vitanlega tímabundið skattgjald og hugsað á allt annan hátt en skattgjald sem menn ætla að leiði til þess að afmá tiltekna bústærð. Ég er sannfærður um fyrir mitt leyti að því er ranglega haldið fram, að sannað hafi verið að til sé sú eina rétta bústærð.

Það er auðvitað eðlilegt, að í framhaldi af því, sem ég hef sagt, sé um það spurt, hvað ég hefði þá t.d. helst viljað gera við þessum vanda sem við stöndum frammi fyrir. Í fyrsta lagi segi ég: Við höfum staðið frammi fyrir ekki ósvipuðum vanda oft áður í sambandi við landbúnaðarframleiðslu. En ég hef líka sagt það, þegar við höfum verið að ræða um efnahagsmál, að mér finnst alltaf bera sérstaklega mikið á því, að þegar menn eru komnir í strand í efnahagsmálum þurfi að finna einhvern sökudólg: Það er einmitt landbúnaðurinn, það er skipulagsleysið þar, það er útflutningurinn á landbúnaðarafurðum, sem veldur öllum ósköpunum. — Það er að mínum dómi alveg röng kenning. Þó að þarna sé um vandamál að ræða, þá er það slíkt minni háttar vandamál að því er hvergi líkjandi við margt annað, ef við vildum drepa niður annars staðar. Menn eru t.d. að óskapast yfir því, að við skulum borga í útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 4.5 milljarða samkv. því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir. Vissulega er það nokkuð mikil upphæð, þó að talsvert komi þar á móti, eins og ég hef minnst á, og hér sé ekki eingöngu um tapað fé að ræða. En eigum við að nefna aðrar upphæðir annars staðar í þjóðfélaginu? Við skulum t.d. líta á bílainnflutning okkar á þessu ári. Ég sé að nú til októberloka, á 10 mánuðum, erum við búnir að eyða í innflutning á bílum, reyndar eru það bílar af öllum tegundum, 11.4 milljörðum. Ætli það mætti ekki taka þessa eyðslu okkar til endurskoðunar eða leita að einhverri annarri upphæð, sem gæti bjargað efnahag þjóðarinnar, ef það er slík leið sem er á ferðinni? Þetta gætum við auðvitað tekið í ótalmörgum öðrum greinum.

Ég held líka, að jafnvel þó að tækist að fækka allverulega í bændastéttinni, þá yrðum við að standa frammi fyrir því að koma þeim, sem þaðan fara, í einhver hagnýtari störf annars staðar. Það kostar líka fé og það kostar líka tíma. Málið er ekki svo einfalt, að menn skuli halda að jafnvel þó að við gætum gert eitthvað í þessum efnum, sem drægi verulega úr landbúnaðarframleiðslunni, þá leysti það allan vandann. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að við hefðum fyrir löngu átt að taka upp dálítið meiri skipulagningu í landbúnaðarframleiðslu. Mér finnst að þar hafi ríkt mikið skipulagsleysi. Við höfum í rauninni látið þetta þróast næstum að segja eftir hendinni. Ég held að það hefði verið miklu nær hjá okkur að fara að grípa inn í þróunina, fyrst auðvitað með veitingu stofnlána og síðan með ýmsum öðrum ráðum. Þá hefðum við þurft að hafa áhrif á það, hvernig staðið væri að framleiðslunni, þannig að það yrði greinilegur samdráttur t.d. í sauðfjárframleiðslu á vissum svæðum á landinu frá því sem nú er, og það eru mörg rök sem mæla með því að draga úr henni á vissum svæðum. Það sama má segja um mjólkurframleiðsluna. Það má sveigja framleiðsluna frá framleiðsluaukningu á vissum svæðum á landinu, þar sem framleiðslan fer að yfirgnæfandi meirihluta í tiltölulega óhagkvæma vinnslu. Við hefðum átt að fara inn á þessa braut fyrir löngu. Það hefði verið meiri ástæða til þess að grípa til þessara ráða núna en þess sem lagt er til í þessu frv.

Ég segi það líka, af því að ég held að það séu nær allir sammála um það, að við Íslendingarverðum að reyna að haga málum okkar þannig, að við eigum nokkuð traustan og góðan landbúnað, sem geti framleitt þær landbúnaðarvörur sem við þurfum á að halda. Af því þurfum við auðvitað að gæta nokkuð að rekstri landbúnaðar almennt séð. En út frá því segi ég líka, að það er ekki endilega vist að við eigum að láta öll þau hlunnindi, sem við veitum á óbeinan eða beinan hátt og nú ganga til landbúnaðarvöruframleiðslunnar, ganga til allra þeirra sem framleiða landbúnaðarvörur, hvar svo sem þeir eru staddir og hvernig svo sem þeirra atvinnuhættir eru að öðru leyti. Ég hef verið á þeirri skoðun og er á þeirri skoðun enn, að við eigum t.d. ekki að verðlauna þá, sem stunda sauðfjárframleiðslu í kaupstöðum landsins eða stærri þorpum landsins, með því að þeir njóti allra sömu hlunninda og kjara og bændur á lögbýlum. Ég vil ekki banna þessum mönnum, svo lengi sem það grípur ekki inn í rekstur bæjarmála að öðru leyti, að stunda þessa framleiðslu. En þurfum við að hafa skipulagið þannig, að þeir njóti hlunninda af niðurgreiðslum eða þeir njóti hlunninda af útflutningsuppbótum? Ég held ekki. Ég held að það væri full ástæða til þess, enda er þarna um að ræða aðila, sem flestir hafa ágæta atvinnu aðra, hafa aðra möguleika, að gera verulegan greinarmun á þessum aðilum og þeim sem búa í sveitum landsins og stunda einvörðungu landbúnað. Mér sýnist að það hefði verið meiri ástæða til þess að spara eitthvert fé þarna og grípa inn í þetta en gera sumt af því sem lagt er til í þessu frv.

Þá legg ég einnig áherslu á það nú eins og áður, að ég tel að það hefði átt að taka upp fyrir löngu og við ættum ekki að láta standa á okkur í þessari ríkisstj. að taka upp það skipulag, að hafnir séu samningar beint við ríkisvaldið sjálft, ekki aðeins um verðlagningu landbúnaðarvara, eins og nú fer fram í sex manna nefnd, heldur einnig um stefnuna í landbúnaðarmálum, stefnuna í framleiðslumálum landbúnaðarins og um margvísleg hagsmuna- og réttindamál bændastéttarinnar. Ég álít að það verði illa náð tökum á þessum málum fyrr en farið er inn á þessa braut.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. að þessu sinni verulega frá því sem orðið er. Niðurstaða mín er sú, að ég tek undir með þeim, sem hafa sagt að í rauninni sé óráð að reyna að afgreiða þetta stórmál á þeim fáu dögum sem eftir eru sem starfsdagar til jóla. Ég tel það óeðlilegt. Þetta er slíkt stórmál, að það er eðlilegt að það fái góða afgreiðslu á Alþ. og viðbrögð bænda fái að koma fram til viðbótar við það sem þegar hefur komið fram. Ég tel að þó að hér sé vissulega um vandamál að ræða, þá sé það ekki þannig að það ráði úrslitum að þetta frv. verði orðið að lögum fyrir áramót. Ef það t.d. yrði að lögum annað hvort í janúarlok eða febrúarlok, þá tel ég að það skipti ekki öllu máli. Ég tel að hyggilegra væri að standa þannig að málum heldur en ætla sér að reyna að koma þessu fram við þau skilyrði sem við búum nú við. Reyndar hefði ég óskað eftir því, að efni frv. hefði verið verulega á annan veg. En hitt er mér alveg ljóst, að hæstv. landbrh. er að flytja mál eftir beiðni bændasamtakanna, og eflaust er það skoðun hans, að ekki sé rétt að standa gegn því, að bændasamtökin fái það vald sem þau biðja um í þessu frv.

Það verður líka niðurstaða mín, að þó að ég sé engan veginn hlynntur þeim ráðum, sem lagt er til í þessu frv, að viðhafa, þá mun ég ekki greiða atkv. gegn frv., fyrst og fremst vegna þess að bændasamtökin vilja fá þetta vald. Ég treysti mér ekki til þess að segja nei við þau. En ég læt það hiklaust uppi, að ég er á annarri skoðun en þarna kemur fram. Satt að segja undrast ég mjög, að forustumenn í bændasamtökunum í landinu skuli bera fram þessar tillögur. Ég á líka von á því, að þegar betur verður að þessu hugað komi í ljós, að þeir haldi því fram, að þetta séu neyðarráðstafanir sem þeir hafi verið hraktir út í. Ég trúi því ekki að þessi mál liggi raunverulega þannig fyrir, — það hefur ekki reynt á það, hvorki á Alþ. né annars staðar, — að menn þurfi að lúta að slíkum neyðarráðstöfunum, jafnvel þó að hér sé um verulegt vandamál að ræða, vandamál sem þarf að reyna að leysa og það á þann hátt að það sé a.m.k. ekki farið verr með bændastéttina en aðrar stéttir í landinu. Ég held að það væri út af fyrir sig hægt.