16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Sá atburður, sem nú hefur gerst, myndun samsteypustjórnar, held ég að ég verði að kalla það, Alþfl. og Sjálfstfl., skilur æðimargt eftir ósvarað. Að vísu þarf ekki lengur að spyrja að því, hvers vegna Alþfl. hljóp brott úr ríkisstj. Það liggur ljóst fyrir, að það var ekki af málefnalegum ágreiningi. Það liggur ljóst fyrir, að það var ekki vegna ágreinings um fjárlög. Alþfl. lét bóka það, þegar umr. hófust um gerð þessara fjárl., að tekjuöflunin mætti ekki fara yfir 28–29% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessu er fullnægt.

Að vísu lét hæstv. sjútvrh. síðar bóka að tekjuöflunin mætti ekki verða yfir 28.5%. En trúir því nokkur maður að Alþfl. hafi hlaupið út vegna 0.5%? Við vítum einnig að ekki hefur Alþfl. getað hlaupið út vegna ágreinings um efnahagsmálin. Það er margupplýst að þau mál voru til umr. í ríkisstj. og þeirri umr. var alls ekki lokið. Sú umr. hófst fyrir um það bil einum og hálfum mánuði undir forustu forsrh., og margt benti til þess að samstaða gæti þar náðst um hertar aðgerðir í efnahagsmálum sem byggðar eru á því frv. um stjórn efnahagsmála sem samþ. var hér á hinu háa Alþingi 10. apríl s.l. Og í raun og veru er ákaflega erfitt að sjá að þeir hafi hlaupið út vegna verðbólgunnar, sem ég tek áð vísu undir að er allt of mikil. Hún var um það bil 9 prósentustigum hærri á síðasta ári síðustu ríkisstj. Og ef menn vilja vera að leita að metum á þessu sviði, þá er það víst frá 1942 hjá Sjálfstfl., þegar verðbólgan jókst á 7 mánuðum um 49%. Nei, ég hygg að það liggi nú fyrir að Alþfl. hljóp út af taugaveiklun einni saman.

Innan ríkisstj. eða réttara sagt milli Alþfl. og Alþb. var, eins og allir vita, mikil togstreita og ágreiningur, og niðurstaðan varð sú, að Lúðvík Jósepsson og mennirnir hans höfðu sterkari taugar en þeir Alþfl.- menn. Að vísu er að heyra það nú á hæstv. menntmrh. að þeir hafi kannske hlaupið út vegna skattsvikamála og alls konar slíkra hluta. Ég vil leyfa mér að sannfæra hann um það, að þegar hann fer nú að kíkja í möppurnar í dómsmrn. mun hann finna mikinn fjölda mála sem er æðilangt kominn í undirbúningi, unnið af starfsmönnum dómsmrn. og ágætum starfsmönnum dómskerfisins, og hann mun finna þar t.d. tilbúið frv. til l. um hraðvirkari meðferð skattamála. Þetta er skráð í því fskj., sem fylgir stefnuræðu fyrrv. forsrh. Hann mun auðveldlega geta aflað sér upplýsinga um það og fjölmörg önnur mál sem þar hefur verið unnið að.

Vitanlega á það ákaflega stóran þátt í því sem hefur gerst, að innan Alþfl. hefur stöðugt starfað, alveg frá upphafi, hópur manna sem leynt og ljóst hefur unnið að því að ná samstöðu og samstarfi við Sjálfstfl. Ég man ekki betur en frá slíkum hóp hafi verið greint í Morgunblaðinu s.l. vor, hóp sem stefndi að því að rjúfa stjórnarsamstarfið. En það sorglega í þessu er vitanlega það, að Sjálfstfl. hefur tekist enn einu sinni í gegnum slíka óeiningu að reka fleyg inn í samstarf vinstri manna.

Um stjórnarmyndunina er hins vegar margt að spyrja. Hvers konar stjórn er þetta? Er þetta minnihlutastjórn? Er þetta samsteypustjórn? Það er viðurkennd lýðræðisleg regla að leita fyrst eftir myndun meirihlutastjórnar. Ég fæ satt að segja ekki séð að það hafi verið gert, nema hér sé um samsteypustjórn að ræða. Sá hringur var aldrei til hlítar farinn. Fyrir lá strax stjórnarmyndun þegar rætt hafði verið við formann Sjálfstfl. og formann Alþfl. Ég hlýt því að úrskurða að hér sé fyrst og fremst og reyndar ekkert annað orð yfir þessa stjórn heldur en samsteypustjórn Alþfl. og Sjálfstfl., þar sem Sjálfstfl. hefur að vísu afhent öll ráðherrasætin Alþfl., en fengið í staðinn forseta sameinaðs þings. En þjóðin á heimtingu á því að fá mörgu öðru svarað. Okkur skilst að þetta hafi ekki gerst ágreiningslaust. Mér skilst t.d. að hv. 1. þm. Vestf. hafi skellt hurðum og gengið út, og ég vildi gjarnan fá að vita hvort hann styður þessa ríkisstj. (Gripið fram í: Hann var að flýta sér í símann). Var hann að flýta sér í símann? Já, hann fór víst með hávaða miklum í símann. Ég hefði einnig gaman af að vita hvort hv. þm. Gunnar Thoroddsen, fyrrv. lagaprófessor, styður þann dómsmrh. sem situr. Formaður Sjálfstfl. sagði áðan að Sjálfstfl. gerði engan ágreining um menn. Ég veit að Sjálfstfl. ákveður ekki — eða einn flokkur fyrir annan — hver skuli skipa ráðherrasæti. En menn taka að sjálfsögðu afstöðu til ríkisstj. eftir því hverjir skipa hana, ég trúi ekki öðru. Þetta er auðvitað mikilvægt að vita einnig í sambandi við landbúnaðarmálin. Boðað er að Alþfl. ætli að breyta ýmsu þar, m.a. ekki að veita bændum þann rétt 1. des. n.k. sem þeir eiga samkv. því vísitölukerfi sem við búum víð. Styðja t.d. hv. þm. eins og Eggert Haukdal eða Pálmi Jónsson þær fyrirætlanir? Eða hvað með brbl. sem þarf nú að ákveða að nýju af þessari ríkisstj.? Slíkt er ekki unnt að gera nema slík lög hafi öruggan meiri hl. á þingi. Styðja hv. sjálfstæðismenn nú þessi brbl. um skattheimtur o.fl.? Þannig er ákaflega mörgu ósvarað og satt að segja væri ástæða til þess að fá hér umr. um vantrauststillögu á þessa hæstv. ríkisstj. og atkvgr.

En þingrofið er nú að sjálfsögðu orðin staðreynd. Hér er því haldið fram að við framsóknarmenn höfum á einhvern mála viljað koma í veg fyrir þetta þingrof. Með hvaða rökum geta menn haldið slíku fram? Geta menn haldið því fram að síðasta ríkisstj. hafi ekki sagt af sér eins fljótt og frekast var unnt, því að það gerði hún? Hitt er svo alveg rétt, að við framsóknarmenn teljum það óráð hið mesta, eins og nú er háttað fjölmörgum málefnum þessarar þjóðar, óreynt á það hvort ná má samstöðu í efnahagsmálum o.fl., og í mesta skammdeginu, þegar a.m.k. þeir, sem í dreifbýli búa, hafa áhyggjur af því hvort þeir komist á kjörstað, t.d. veikt fólk og gamalt, — við teljum það hið mesta óráð að hafa kosningar um þetta leyti. En við töldum okkur ekki fært á nokkurn máta að standa gegn því að þeir rjúfi þing og efni til kosninga sem meiri hl. hafa til þess.

Staðreyndin er vitanlega sú, að þeir bera ábyrgð á þessu, Alþfl. og Sjálfstfl. Við framsóknarmenn höfum unnið í þessari ríkisstj. af fullkominni ábyrgð og heilindum og við göngum til kosninga undir því kjörorði.

Hér hefur verið nokkuð um það talað, að nú sé kveðinn upp endanlegur dauðadómur yfir vinstri stjórn í þessu landi. Vinstri stjórnirnar eru reyndar fleiri en þrjár. Það var hér vinstri stjórn einnig á áratugnum frá 1930–1940, eða frá 1934–1937, og staðreyndin et vitanlega sú, að þessar vinstri stjórnir allar hafa lyft Grettistaki. Allt framfaraskeið þessarar þjóðar er tengt vinstri stjórnum, og við framsóknarmenn erum ákaflega stoltir af því, að þessi síðasti árangur er kenndur við okkar fyrrv. forsrh. Annars verð ég að segja það fyrir mitt leyti, að heldur finnst mér nú lítill orðinn hlutur formanns Sjálfstfl., Geirs Hallgrímssonar, þegar allur þessi síðasti áratugur er kenndur við fyrrv. forsrh., eins og síðasti ræðumaður gerði. Eða hafa menn gleymt því, að formaður Sjálfstfl. var forsrh. í 4 ár á þessum áratug?

Ég hygg að þjóðin muni minnast þess og gera samanburð á áratug eins og þeim, sem nú er við okkur kenndur, sem einkennist af framförum sem hófust 1971 um allt land, sem einkennist af togarakaupum um allt land, sem einkennist af byggingu frystihúsa, lagningu vega o.s.frv., — ég hygg, að þjóðin muni gera samanburð á slíku og áratugnum á undan, sem þjóðin man best af. Atvinnuleysinu 1966–1967 og flóttanum frá dreifbýlinu til þéttbýlisins, atvinnuleysi sem sannarlega gekk yfir þjóðina alla.

Í þeim kosningum, sem nú eru fram undan, verður kosið um efnahagsmálin. Við framsóknarmenn höfum í þessari ríkisstj. lagt fram ýtarlegar tillögur um efnahagsmálin. Við gerðum það bæði í janúar og um s.l. áramót, og þau lög um stjórn efnahagsmála o.fl., sem samþ. voru 10. apríl, eru í veigamestu þáttum á þessum tillögum byggð. Við höfum með tilliti til vaxandi erfiðleika í efnahagsmálum, m.a. vegna tvöföldunar og þreföldunar á olíuverði, sem hverri þjóð hefði sannarlega sviðið undan, lagt fram endurnýjaðar og hertar tillögur í efnahagsmálum. Við leggjum áherslu á það að allir endar verði nú festir. Það er ekki kostur á öðru. Við leggjum áherslu á að ríkisstj. setji sér markmið og skuldbindi sig til þess að standa við það. (Gripið fram í: Þeir hafa verið lausir.) Já, þeir hafa verið lausir, svo sannarlega. Við leggjum áherslu á það, að að þessu verði unnið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, launþega og atvinnurekendur. Ríkisstj. byggir á þeim grundvelli, og ég vil taka skýrt fram að við framsóknarmenn metum ákaflega mikils þann opinbera og ákveðna stuðning sem launþegar þessa lands hafa veitt fyrrv, ríkisstj. Og það er sannfæring okkar, að við þessi mál verði aldrei ráðið nema í samvinnu við þessa aðila. Á því verður að byggja. Á því byggjast þær tillögur sem við höfum lagt fram og eru grundvallaðar á því sem Norðmenn hafa gert með ágætum árangri, eins og ég sagði, að festa alla enda, að stíga á bremsuna og ná verðbólgunni niður í ákveðnum áföngum. Mér er reyndar ekki kunnugt um að nokkur ágreiningur sé um þetta, örugglega ekki frá Alþfl. Ég spurði um það á fundi nýlega, hvort þeir hefðu ágreining um þær áætlanir sem gerðar hafa verið um hjöðnun verðbólgunnar í ákveðnum áföngum. Og því var svarað þar af hv. þm. Eiði Guðnasyni, mjög ákveðið nei. Það er von að menn leiti að ágreiningi Alþfl.

Á þessu byggist vitanlega okkar kosningabarátta og um þetta verður kosið annars vegar og hins vegar um þá stefnu sem hin nýja viðreisn hefur lýst, stefnu sem er að sjálfsögðu kennd við Sjálfstfl., stefnu sem þeir kalla „viðreisn í anda frjálshyggju“, hygg ég, stefnu sem er vitanlega ekkert annað en markaðsstefna sú sem íhaldsöflin víða í Evrópu hafa fylgt, og það er rétt, þau hafa sannarlega náð niður verðbólgunni. Þau gerðu það á Ítalíu, en þau uppskáru 10–20% atvinnuleysi. Við framsóknarmenn leggjum á það höfuðáherslu, að verðbólgu hér verður að ná niður án þess að stofna til atvinnuleysis. Þá er verið að fara úr öskunni í eldinn ef atvinnuleysi á að vera meðalið til þess að ná niður verðbólgunni. En þetta er sú kreppustefna sem nú er boðuð, en formaður Sjálfstfl. fór að vísu hér áðan ákaflega fáum orðum eða kannske engum um.

Um þessa stefnu verður slegist, m.a. einnig um það, hvort leysa eigi launamálin og jafnvel efnahagsmálin á vígvelli kjaradeilna, hvort á að ganga svo til veiks sem núv. hæstv. menntmrh. lýsti þegar farmannaverkfallið stóð sem hæst, að þarna ætti ríkisstj. engin afskipti að hafa af, en láta deiluna ganga sina leið. Við framsóknarmenn viljum ekki byggja nýtt efnahagslíf á rústum. Við vitum að það er engin þörf á því. Og ég vil segja það, að ég vona að í þeim kosningum, sem eru fram undan, vitkist þeir flokkar, sem hafa staðið í deilum innan þessarar vinstri stjórnar, og geri sér grein fyrir þeirri staðreynd, að vissulega verður vinstri stjórn aldrei farsæl nema þeir flokkar, sem að henni standa, starfi heilir. Ég vona að ný vinstri stjórn verði mynduð. Ég vona það þjóðarinnar vegna. Ég vona þjóðarinnar vegna að afturhalds- og íhaldsöfl nái ekki undirtökum í þessu þjóðfélagi.