11.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ef tilkynning hæstv. forsrh. hefði aðeins lotið að niðurlagsorðum hans og yfirlýsingu um afsögn ríkisstj., þá gæti ræða mín verið stutt. Ég tel eðlilegt að hæstv. forsrh. hefur tekið þá ákvörðun að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt í heild. Þessi ríkisstj. hefur misst meiri hl. sinn á Alþingi Íslendinga og samkvæmt þingræðisreglum ber henni að segja af sér. Um það er enginn ágreiningur og um það hefði ég ætlað á þessu stigi að ræður okkar gætu fjallað, en við síðan tekið upp þann ágreining sem upp hefur komið og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. og ég þar af leiðandi get ekki látið ósvarað.

Sjálfstfl. er þeirrar skoðunar, að þegar svo er komið að ríkisstj. hefur misst meiri hl. sinn með þeim aðdraganda, sem hér hefur orðið, og við það ástand, sem nú hefur skapast í íslensku efnahagslífi og þjóðlífi, m.a. vegna aðgerða þessarar sömu stjórnar, þá sé ekki um annað að ræða og annað sé raunar ábyrgðarleysi en að þing verði rofið og til kosninga efnt, kjósendum gefinn kostur á að kveða upp sinn dóm og mynda nýjan ábyrgan meiri hl. á Alþingi Íslendinga. Það er óhjákvæmilegt að gefnu tilefni að fara nokkrum orðum um þau rök hæstv. forsrh., sem ég tel ekki vera rök, að ábyrgðarleysi sé að efna til kosninga nú þegar fyrir miðjan desembermánuð. Vissulega getum við ekki spáð neinu um veður á þeim tíma. En samgöngum er nú með öðrum hætti háttað en áður og heimilt er að hafa kjördaga fleiri en einn. Rýmka má heimildir ef þörf þætti að fresta kosningum í þeim kjördæmum, þar sem kjörsókn yrði torvelduð af völdum veðurfars eða samgönguerfiðleika, og fresta þar með talningu almennt í þeim kosningum, sem þá færu fram, til þess að gefa öllum landsmönnum kost á að láta vilja sinn í ljós við kjörborðið. Þetta er því ekki réttmæt mótbára gegn því að kosningar fari fram.

Þá nefndi hæstv. forsrh. að fjárlög væru ekki afgreidd, að kjarasamningar væru lausir og ýmis viðfangsefni og vandamál óleyst. Allt er þetta rétt. En allt eru þetta rök fyrir því að efna til kosninga sem allra fyrst. Ekkert af þessu eru rök fyrir því að fresta kosningum.

Fjárlög hafa áður — og mörg eru þess dæmi í þingsögunni — ekki verið afgreidd fyrr en í byrjun þess árs sem þau eiga að gilda fyrir, og ég tel betra að svo verði nú, þegar sérstaklega stendur á, heldur en að standa með algerri óvissu um þingmeirihluta að umræðum og gerð fjárlaga án kosninga. Það eru meiri líkur til þess, að fjárlög að afstöðnum kosningum og með þingmeirihluta geti orðið vopn í baráttunni gegn verðbólgunni, en eins og nú stendur um samstöðu á Alþingi Íslendinga.

Varðandi lánsfjáráætlun má á það benda, að lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár var ekki afgreidd fyrr en í maímánuði s.l.

Ef rætt er um lausa kjarasamninga, þá hygg ég að starfandi ríkisstj., sem hefur ekki þingmeirihluta á bak við sig, sé ekki þess megnug, valdi ekki því verkefni að vera í umboði almannavaldsins gagnvart aðilum vinnumarkaðarins þannig að vel fari á og gæfulega takist til um lausn kjaramála.

Segja má að æskilegt væri að þingmeirihluti skapaðist á Alþingi Íslendinga. En samkv. forsögu málsins og eins og málum þjóðarinnar er nú komið er það skoðun Sjálfstfl., að það væri ábyrgðarleysi að standa að slíkum þingmeirihluta, er myndaði nýja stjórn, án þess að kjósendur fengju áður tækifæri til að kveða upp sinn dóm og mynda ábyrgan meiri hl. á Alþingi Íslendinga. Og því mun Sjálfstfl. ekki standa að því, heldur er það markmið flokksins og þm. hans að þingrof fari fram og nýjar kosningar svo fljótt sem verða má og í samræmi við þá till. til þál., sem við höfum lagt fram, fyrir miðjan des. n.k.

Mér þykir miður að við þurfum hér e.t.v. meira en skyldi að deila um formsatriði. Það er réttari mynd og ábyrgari afstaða að deila um efnisatriði þar sem okkur greinir á um úrlausn mála. Ég hefði haldið að eftir að þm. hafa gen grein fyrir skoðunum sínum á því, hvort unnt væri að halda kosningar fyrir miðjan des. eða ekki fyrr en næsta vor, gætum við sætt okkur við það að meiri hl. þingsins réði að þessu leyti, en síðan tækjum við auðvitað upp málflutning til sóknar og varnar þeim skoðunum sem við fylgjum við úrlausn mála. Þetta er hin ábyrga afstaða sem ég hygg að þ jóðin ætlist til af okkur, og með þeim orðum læt ég máli mínu lokið.