10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið.

Hv. 11. landsk. þm., Egill Jónsson, spurði hvenær afgreitt yrði og hvenær greitt það fé, sem í raun og veru tapaðist vegna þess að verðákvörðun 1. sept. var frestað um 17 daga. Ég vil segja frá því hér, að um þetta hefur engin ákvörðun verið tekin af núv. ríkisstj. Það er rétt, að hér er um verulega fjárhæð að ræða, 400–500 millj. kr., sem talið er að bændur hafi beint tapað vegna þess að verðákvörðun var frestað að þessu sinni í rúman hálfan mánuð. En ákvörðun um það hefur ekki verið tekin af ríkisstj. Ég vil enda segja það, að það er álitamál hvort núv. ríkisstj. nær því að greiða úr öllum þeim erfðasyndum sem hún tók við frá hv. ríkisstj. Alþfl. og hv. vinstri stjórn sem sat að völdum 1. sept. Ég vil ekki fullyrða neitt frekar um þetta mál á þessu stigi, en vænti þess, að þetta sé eftir atvikum nægilegt svar til hv. 11. landsk. þm.

Að svo mæltu gæti ég að sjálfsögðu látið máli mínu lokið. Ég skal ekki fara mörgum orðum um ræður hv. þm. Alþfl., sem hér hafa komið hver á fætur öðrum í þennan ræðustól. Þeir höfðu, eins og ég vitnaði til, lýst yfir að þeir vildu greiða fyrir framgangi þessa máls, en mér sýnist að þeir hafi nú þegar stefnt því í tvísýnu að það verði afgreitt héðan úr þessari hv. d. í dag, a.m.k. ef svo heldur fram sem horfir. En ég vil aðeins segja það, að það kemur engum á óvart að hv. þm. Alþfl. séu andvígir þessu máli. Afstaða þingflokka til þessa máls hefur legið fyrir frá því á miðju s.l. sumri. Það hefur legið fyrir að þrír stjórnmálaflokkar í landinu vildu afgreiða það efnislega með þeim hætti sem hér liggur fyrir frv. um, en Alþfl. var því andvígur. Ég vil aðeins segja það, að þeir hafa þrásagt hér að ég væri sérstaklega stoltur af ástandi landbúnaðarmála. Ég held að það sé of mikið sagt að telja að ég sé eitthvað sérstaklega stoltur af því, enda hef ég ekkert tilefni til þess, því að það er harla stutt síðan ég kom í það starf sem ég gegni nú og fékk þar með verulega aðstöðu til þess að móta stefnu í þessum málum.

Það er sannarlega margt sem þarf athugunar við í landbúnaðarmálum. Það er margt sem þarf að bæta og breyta þeirri stefnu sem ríkt hefur. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að tíunda það í smáatriðum og hef tekið það fram að þessi mál eru í vinnslu hjá ríkisstj. og þau verða rædd á þeim tíma sem þau koma hingað til Alþingis.

Ég get vel unnt þeim hv. þm. Alþfl. að eiga þá skoðun, að afgreiðsla þessa frv. með þeim hætti, sem meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. gerir till. um, boði áframhaldandi ógæfu og vaxandi óreiðu, og ég skal ekki vera neitt að finna að því þó að þetta sé þeirra skoðun. Það kemur aðeins heim og saman við það sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði í fyrri ræðu sinni og. ég sneri upp á hv. þm. Alþfl., að þeir væru að herða á vitleysunni í málflutningi sínum.

Ég vil svo aðeins beina því til hv. d., að það er von mín að það takist að afgreiða þetta mál héðan úr deildinni í dag. Ég tel að það sé í samræmi við yfirlýsingar, sem gengið hafa, og ég skal ekki gera fleiri aths. við umr., þó að ærin ástæða væri til, svo að þetta megi þá takast. Ég vonast eftir því, að unnt verði að afgreiða þetta mál frá Alþ. í þessari viku eða a.m.k. þegar eftir helgi. Í trausti þess, að svo megi verða, ætla ég að leiða hjá mér að gera fleiri aths. við þann sérkennilega málflutning sem hér hefur verið hafður í frammi.