19.12.1979
Neðri deild: 5. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

7. mál, söluskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Við munum að sjálfsögðu taka þetta mál til meðferðar í fjh.- og viðskn. Nd. En ég vil taka fram að það eru meira en lítið furðuleg vinnubrögð að mínu mati hér á haustdögum, þegar Alþ. kom saman og þessi brbl. höfðu verið gefin út í sept., að Alþ. skyldi ekki afgreiða þetta mál. Ég held að það hafi aldrei gerst áður í íslenskri sögu áð gefin hafi verið út brbl., Alþ. komið saman og í reynd hafnað þeim brbl. og ekki tekið á málinu, síðan sé þing rofið og ríkisstj. gefi út ný brbl. Ég vil leyfa mér að efast um að slík meðferð mála standist, og ég vil átelja slík vinnubrögð. Það hefði verið lágmarkskrafa að það Alþ., sem sat á haustdögum, hefði tekið á þeim málum sem gefin voru út með brbl. af fyrrv. ríkisstj. Þau brbl., sem gefin voru út siðar, eru að mínu mati ekki á ábyrgð Framsfl., þau eru á ábyrgð þeirrar stjórnar sem þá tók við með stuðningi Sjálfstfl.

Ég er ekki að segja með þessum orðum að ég muni ekki fyrir mitt leyti skoða þetta mál með velvilja, en ég lít svo á að þau brbl., sem gefin voru út, séu gefin út af þeirri stjórn sem mynduð var af Alþfl. með stuðningi Sjálfstfl. og mál þetta sé allt á ábyrgð þeirra flokka.