12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður taldi að frv. þetta væri byggt á röngum forsendum og að fréttaflutningur af þessu máli væri til þess gerður að gera gys að skattgreiðendum í landinu. Hann sagði að hér væri ekki um lán að ræða, heldur um bein framlög úr ríkissjóði. Auðvitað er þetta misskilningur hjá þessum hv. þm. Það er gert ráð fyrir því að taka lán. Það er gert ráð fyrir því, að Framleiðsluráð landbúnaðarins taki lán, þetta lán verði síðan endurgreitt á nokkrum árum væntanlega. Og það er gert ráð fyrir því, að Byggðasjóður endurgreiði sem svarar 500 millj. kr. á ári í þrjú ár, en ríkissjóður standi undir öðrum greiðslum af láninu. (VG:.Hver borgar í Byggðasjóð?) Ríkissjóður leggur fram fé til Byggðasjóðs og Byggðasjóður hefur einnig eigin tekjur. En misskilningur hv. þm. er sérkennilegur, vegna þess að hann hefði átt að átta sig á því, að þar sem er um að ræða beinar greiðslur úr ríkissjóði, þá eru það útlagðir fjármunir úr ríkissjóði þegar í stað. Hér er því um lán að ræða, eins og frv. greinir. Hér er um það að ræða, að það lán verði endurgreitt, hvort tveggja af Byggðasjóði og ríkissjóði, og ríkissjóður annast allan kostnað af töku lánsins svo og greiðslu vaxta, verðbóta og annars kostnaðar. (EG: En af hverju tekur þá Framleiðsluráðið lánið?) Það getur verið allt eðlilegt með það. (Gripið fram í.) Ég vænti þess að þessum fundi verði stjórnað þannig að hér verði ekki bara samtal. (Gripið fram í: En þú svarar ekki þessu.)

Ég vil segja það hér út af þessu máli, að það er rétt, sem fram hefur komið, að það hefur dregist lengur en æskilegt væri að þetta mál væri afgreitt. Ég skal ekki rekja þá sögu, en það er rétt sem fram kom í máli eins ræðumanns hér áðan, að þetta frv. hefur verið hér í sölum Alþingis a.m.k. nálægt einu ári. Þó að svo færi, að þetta frv. væri ekki afgreitt fyrir þingfrestun fyrir rúmum hálfum mánuði, þá hefur það ekki efnislega áhrif á afgreiðslu þessa máls, vegna þess að í millitíðinni hefur verið unnið nokkuð, eins og gefin voru fyrirheit um, að því að undirbúa lántöku. Þess vegna ætti þetta atriði ekki að verða til þess að tefja afgreiðslu þessa máls.

Ég vil segja það í sambandi við ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar, að ég tel að þetta mál sé þegar komið á góðan rekspöl hjá ríkisstj. og þessi lög, sem verða afgreidd væntanlega innan fárra daga úr þessari hv. d., verði ekki pappírsgagn eitt, heldur komi að fullum notum.

Það er einnig ástæðulaust að vera að tala um það hér, að einhver gosumbrot hafi átt sér stað í hv. stjórnarliði út af þessu máli. Þau gosumbrot urðu aðeins til í hugarheimi hv. stjórnarandstæðinga.

Ég vil að þessum orðum loknum mælast til þess við þessa hv. d., að hún reyni að haga svo sínum störfum að þetta mál verði afgreitt áður en margir dagar líða, helst í þessari viku, en í síðasta lagi þegar eftir næstu helgi.

Hér mætti flytja langt mál um þá umr., sem hér hefur verið hafin af til að mynda hv. þm. Árna Gunnarssyni. Hann sagði margt vel, en annað miður. Hann sagði t.a.m. að umræða um landbúnaðarmál hefði tíðum á síðustu árum verið um of ofsafengin. Þetta var alveg hárrétt hjá þessum hv. þm. En mér hefur virst það svo, að þeir hv. þm. Alþfl og talsmenn Alþfl. í blöðum hafi átt hvað mestan þátt í því að gera þessa umræðu ofsafengna. Þeir eru í hópi þeirra manna sem hafa farið með mestar fjarstæður um þessi efni, og kemur það ekki alveg heim og saman við málflutning hv. þm. Árna Gunnarssonar, sem virtist í öðru orðinu a.m.k. vilja lægja þessar öldur.

Það er rétt, að það þarf ýmislegt að athuga í sambandi við landbúnaðarstefnuna, og það verður ekki gert á einum degi. Núv. ríkisstj. hefur sett sér það mark að á þessu þingi verði lögð fram till. til þál. um landbúnaðarstefnu, og væntanlega tekst að afgreiða slíka till. Það er því ekki ástæða til þess af minni hálfu, að fara hér að ræða þá stefnu, sem mótuð verður, í eimstökum atriðum eða mjög ítarlega. Ég tel hins vegar að við blasi að það er hin mesta nauðsyn, miðað við framleiðslu og markaðsaðstæður, að samdráttur verði í mjólkurframleiðslu í landinu, vegna þess að erlendir markaðir bjóða verð sem gerir ekki miklu meira en að greiða vinnslukostnað af framleiðsluvörum mjólkurbúanna. Þessum samdrætti þarf að ná í áföngum á nokkrum árum, og það þarf að hjálpa til á því aðlögunarskeiði til þess að of snögg framleiðsluminnkun verði ekki til þess að kollvarpa fjárhag bæði framleiðenda og mjólkurbúa.

Ég hef látið það í ljós, að ég tel að fara þurfi fram á því ítarleg könnun, hvort ekki sé hagkvæmt fyrir þjóðfélagið að halda áfram að framleiða meira af sauðfjárafurðum en þjóðin neytir af kindakjöti. Þessa athugun tel ég að sé nauðsynlegt að gera, til þess að menn fái eitthvað til þess að standa á í þeirri landbúnaðarumræðu sem t.a.m. hv. þm. Alþfl. vilja tíðum heyja hér á hv. Alþ., þar sem þeir fullyrða æ ofan í æ að nauðsynlegt sé að ná landbúnaðarframleiðslunni niður í það mark sem neytt er innanlands, án þess að hafa í raun og veru nokkuð við að styðjast í fullyrðingum sínum. Þeir ættu að fagna því, hv. þm. Alþfl., að slík úttekt væri gerð, þannig að hægt væri að sýna fram á með efnislegum rökum hvað þjóðinni sé hagstætt í þessum efnum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að ef við drögum saman landbúnaðarframleiðsluna í það mark sem neysla búvara leyfir innanlands, þá verður að sjá fram úr því hvað á við að taka fyrir það fólk sem í mörgum greinum verður þá að hætta í þessari atvinnugrein. Við þurfum að gæta þess, að þá þarf að byggja upp atvinnu fyrir þetta fólk annars staðar. Það þarf líka fjármuni til þess að það geti komið sér upp híbýlum annars staðar. Það mundi kannske valda spennu á húsnæðismarkaði og jafnvel hafa í för með sér verðbólguáhrif o.s.frv. Við skulu ekki gleyma því, að framleiðsla sauðfjárafurða hefur í för með sér mjög mikla vinnu. Henni fylgir það, að víðs vegar um þjóðfélagið hafa menn atvinnu af margþáttaðri þjónustu í sambandi við þessa atvinnugrein, og þessu fylgir hráefni, sem er undirstaða fyrir aðalstofn iðnaðarins í landinu sem framleiðir fyrir erlendan markað. Þess vegna má ekki líta á það aðeins einhliða, að um leið og verið sé að skera niður þessa framleiðslugrein sé verið að spara útgjöld úr ríkissjóði.

Ekkert land í V-Evrópu eða í nágrenni okkar rekur landbúnað með þeim hætti að þar sé ekki um stuðning hins opinbera að ræða. Í ýmsum löndum er sá stuðningur miklu víðtækari en hér gerist, og er það til marks um kosti okkar ágæta lands hér norður við heimsskautsbaug. Það er líka til marks um dugnað og úrræðasemi íslenskra bænda.

Hv. þm. Árni Gunnarsson sagði réttilega, að niðurgreiðslur á búvörur væru ekki alfarið styrkur til landbúnaðarins. Þetta er auðvitað hárrétt. Niðurgreiðslur vöruverðs eru framlög sem ríkisstj. á hverjum tíma ver til að halda niðri vöruverði til þess að hafa áhrif á efnahagsþróun í landinu. En hitt var alrangt, sem þessi hv. þm. sagði, að niðurgreiðslurnar væru til þess að þeir högnuðust á þeim sem ættu fjármuni. Þetta er að mínum dómi algerlega öfugt. Ef ekki væri greitt niður verð á búvörum, þá er ég hræddur um að þeir ættu erfitt með að kaupa þær sem eiga litla fjármuni, hafa litlar tekjur. Þá er ég líka hræddur um að þeir, sem raunverulega eiga fjármunina, væru fyrst og fremst þeir sem hefðu bolmagn til að kaupa þessar vörur að vild sinni. Og við megum ekki heldur gleyma því, að niðurgreiðslu — fjármunirnir eru lagðir fram úr ríkissjóði, þeirra er aflað með sköttum og þeir skattar leggjast þyngra á þá sem hafa miklar tekjur og eiga mikla fjármuni. Þess vegna voru sleggjudómar eða fullyrðingar hv. þm. Árna Gunnarssonar um þetta efni algerlega út í hött og þveröfug.

Hv. þm. Árni Gunnarsson fjargviðraðist yfir nokkrum framlögum til stofnana landbúnaðarins á fjárlögum. Sumpart var þar ekki rétt með farið. Eins voru hjákátlegar spurningar þessa hv. þm., þegar hann spyr hvað sé gert með fé til búfjárræktar til að mynda. Ég vil ráðleggja honum að lesa búfjárræktarlögin. Ef hann les þau, trúi ég ekki öðru en hann sjái hvað verður um þessa fjármuni. Hann sagði: Hvers vegna fer ekki ein einasta króna til votheysgerðar? Hvernig stendur nú á því? Þessi hv. þm. virðist ekki hafa hugmynd um það, að fjármunum er í gegnum jarðræktarframlögin m.a. varið til votheysgerðar, til þess að styrkja votheysgryfjur. (Gripið fram í.) Ég er ekki með þær tölur hér. Það er hægt að afla þeirra fyrir hv. þm., svo að hann geti farið með rétt mál um þessi efni.

Þannig er það um mörg fleiri mál, sem hv. þm. fjallaði hér um. Það væri hægt að taka í það einhvern tíma í góðu tómi að upplýsa hann um það sem hann virðist ekki hafa hugmynd um og veður í algerri villu um. Þetta væri held ég ómaksins vert, því að það yrði kannske til þess að tíma Alþingis væri ekki varið í að flytja ræður af því tagi sem þessi hv. þm. flutti áðan og hefur stundum gert áður.

Hv. þm. nefndi t.a.m. fjárveitingu til mjólkurbúa og nefndi fjárhæð einhvers staðar milli 10 og 20 millj. Það er rétt, að það er fjárlagaliður sem er ætlaður sem stofnframlag til mjólkurbúa. Þessi fjárlagaliður hefur verið í mörg ár 2 millj. kr. en ekki einhver önnur tala. Ég hygg að hann sé enn 2 millj. kr. í því frv. sem nú hefur verið lagt fram af hæstv. fjmrh., og hann var það einnig í því fjárlagafrv., sem lagt var fram hér fyrr á þessu þingi, og eins í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar.

Ég held að ekki sé ástæða til þess að fjalla um þessi mál mikið hér á þessu stigi. Ég hef enda mælst til þess, að afgreiðslu á þessu máli verði hraðað hér í hv. d. eftir því sem deildin treystir sér til. (Gripið fram í: Þú átt ekki að tala svona lengi.) Ég vænti að það geti orðið, og þó að hv. þm. Alþfl. blæði það nokkuð í augum eða eyrum, að ég taki hér til máls, þá verð ég að hugga þá með því, að ég tala vafalaust ekki nema svona eins og þriðjunginn af því sem þeir tala hver um sig.

Ég vil sem sagt láta það koma hér skýrt fram, að ég vonast eftir að núv. ríkisstj. geti birt Alþ. stefnu sína í landbúnaðarmálum á þessu Alþingi. Og ég vonast eftir því, að þá verði hægt að gefa sér góðan tíma til þess að ræða stefnumál í landbúnaði. Það fer betur á því að ræða þau undir slíkum dagskrárlið og ég mun þá ekki spara það, að sú umr. geti staðið lengi hvað mig snertir. Það er auðvitað ljóst, að þar þarf ýmsar breytingar og lagfæringar á að gera. Og ég vonast til að svo megi takast, þær breytingar horfi til bóta.