13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég átti ekki von á að umr. tækju þá stefnu, sem hér hefur orðið í dag. Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í mikil svör í sambandi við þær umr.

Ég verð að segja það, að ég held að alveg ljóst sé að við hv. alþm. almennt gerum okkur grein fyrir því, að það er nú algerlega óljóst hvernig hin nýju lög um tekjuskatt og eignarskatt koma út eftir álagningu og þar með talið tekjustofnar sveitarfélaga. Ég vil benda á að skattalögin, sem samþ. voru 1978, voru miðuð við allt annað kerfi en við erum að færa þau í í dag. Skattalögin voru byggða upp á staðgreiðslukerfi skatta, og því miður hefur sá tími, sem liðinn er frá því að þau skattalög voru samþykkt, ekki verið nýttur til þess að undirbúa þann megintilgang skattalaganna, eins og þau voru samþ. 1978. Það var lagt fram frv. um staðgreiðslukerfi skatta sem aldrei varð útrætt og hefur ekki verið rætt út enn í dag.

Í sambandi við þessi lög hafa umr. frá því fyrir jól miðast við að reyna að samræma skattalögin frá 1978 öðrum aðstæðum en gert var ráð fyrir við setningu þeirra laga og þar með tekjuskattalögin. Því hefur verið lýst yfir af hæstv. fjmrh. við afgreiðslu breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, að nauðsynlegt væri að taka lögin til endurskoðunar strax á næsta Alþ., miðað við þá reynslu sem fæst við fyrstu álagningu eftir lögunum. Ég taldi ástæðu til þess í dag, þegar ég flutti framsögu fyrir áliti félmn. Nd. um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, að þannig yrði að sjálfsögðu einnig að farið í sambandi við þau mál. Þetta vil ég endurtaka hér, vegna þess að ég held að allir þm. séu sammála um að hér sé um svo stórt og mikilvægt mál að ræða að það verði að gera ráð fyrir því að taka það til gaumgæfilegrar athugunar miðað við þá reynslu sem fæst.

Mér virðist sumir hv. alþm. misskilja tilgang brtt. á þskj. 191. Hér er um það að ræða að halda enn í tekjuskattslögum heimildarákvæði fyrir sveitarfélögin í landinu. Það hefur verið í tekjuskattslögum alla tíð og hefur í aukinni verðbólgu á síðustu árum bjargað því sem bjarga hefur verið hægt fyrir sveitarfélögin í landinu, sem flestöll hafa orðið að nýta sér þessa heimild. Hér er aðeins verið að fá heimild til að sækja um leyfi til hækkunar álagningar ef fjárhagserfiðleikar vegna rekstrar og ákveðinna verkefna knýja á um slíkar aðgerðir þar sem aðrir tekjustofnar duga ekki til. Halda menn virkilega að sveitarstjórnarmenn almennt fari út í það að biðja um slíka heimild til aukaálagningar nema af brýnni nauðsyn? Halda menn að þeir hinir sömu stjórnendur sveitarfélaga muni eiga traust kjósenda áfram ef þeir fara ógætilega með álögur án röksemda um brýna nauðsyn? Ég held ekki. Heldur hv. alþm. Birgir Ísl. Gunnarsson, fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík, að meiri hlutinn í Reykjavík muni ná endurkjöri ef hann sýnir jafnmikið ábyrgðarleysi og græðgi í álögum á borgarana og hv. þm. vildi halda fram áðan? Halda menn virkilega að þeir, sem taka á sig þá ábyrgð að stjórna sveitarfélagi, séu að gera slíkt sem þetta að gamni sínu? Samkv. sveitarstjórnarlögum, ef menn hafa kynnt sér þau, taka þeir á sig ákveðna ábyrgð sem þeir verða að standa við til þess að æta hagsmuna íbúa á hverju svæði fyrir sig.

Ég hjó eftir því, að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson fullyrti hér, orðrétt, að vel væri hægt að stjórna sveitarfélagi með óbreyttum tekjustofnalögum. Veit hv, þm. um stöðu sveitarfélaga víðs vegar um landið? Veit hann um mismunandi þörf þeirra til tekna miðað við verkefni í hafnamálum, í skólamálum, í heilbrigðismálum, gatnagerð og mörgu fleira? Ég held að hann hafi ekki hugmynd um þetta.

Ég sagði í dag, að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefði á undanförnum árum og misserum barist fyrir því og reynt að sjá til þess að sveitarfélögin í landinu gætu haldið velli, gætu sinnt þeirri þjónustu, sem þau eru skyldug til að inna af hendi við íbúana, með því að fara fram á ýmsar leiðréttingar í sambandi við tekjustofna sveitarfélaga og margs konar önnur mál sem heyra undir ríkisvaldið. (Forseti: Mætti ég spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Örstutt, herra forseti.

Ég ætla svo að lokum að segja nokkur orð við hv. 10. landsk. þm. Hún vildi halda því fram í ræðu sinni áðan, að till. á þskj. 191 hefði ekki verið lögð fram á nefndarfundum. Ég ætla að láta hv. þm. vita að hún var í upphaflegri till. sem n. fékk fyrst til umfjöllunar, ekki aðeins félmn. Nd., heldur einnig félmn. Ed., þar sem gert var ráð fyrir að ákvæðin í gildandi lögum yrðu tekin upp. Á þeim fyrsta fundi lýstum við yfir að við mundum þá flytja sértill., og það kom til umr. á öllum næstu fundum á eftir.

Einnig ætla ég að láta hv. þm. vita það, sem ég var svolítið undrandi yfir, vegna fullyrðinga hv. þm., að till. hv. þm. Sjálfstfl., þeirra Steinþórs Gestssonar og Friðriks Sophussonar, kom til umr. á tveimur fundum n. í fyrradag og var rædd þar ítarlega. Niðurstaðan af því varð sú, að það varð samkomulag um að hafa þetta eina till. frá nefndinni.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að svara hv. 6. landsk. þm. Ég ætla að leiða það hjá mér. Ég ætla aðeins að benda honum á að ég hef verið sveitarstjórnarmaður í 26 ár og ég hef reynt ýmislegt í sambandi við þau störf sem hefur verið mjög lærdómsríkt. Ég vil benda honum á í sambandi við það sem hann er að reyna að drótta að mér, að ég og aðrir ætluðum að fara að hækka álögur á ellilífeyri, örorkubætur og annað slíkt, að þessar bætur verða áfram undanþegnar útsvarsálagningu í landinu sem betur fer, og ég mun heils hugar taka undir allar þær aðgerðir sem tryggja að ekki sé farið illa með það fólk sem verst er sett í þ jóðfélaginu. Ég þori að fullyrða það við hann, að ekki stendur á mér að leggja mitt lið til þess að svo geti orðið.

5. þm. Suðurl. taldi að fjárhagsstaða sveitarfélaga hefði að nokkru verið leiðrétt með hlutdeild í tveimur söluskattsstigum. Ég vil minna hann á að þátttaka sveitarfélaga í útgjöldum vegna laga um eftirlaun aldraðra er stærra framlag en sú leiðrétting sem þarna kom fram, að viðbættu fyrra misræmi.

Staðgreiðslukerfi útsvara þarf ekki að ræða miklu meira. Það var farið fram á það frá hendi stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga við fyrrv. félmrh. að fá í lög staðgreiðslu útsvara, þar sem sýnt var að heildarstaðgreiðslukerfið yrði þyngra í vöfum. Því miður varð ekki af þessu. En ég vonast til þess, að þau áform núv. ríkisstj. að koma á staðgreiðslukerfi skatta innan tveggja ára verði að veruleika.

Ég hef verið um nokkurt skeið í nefnd um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í jan. s.l. var skilað þriðju áfangaskýrslunni um stjórnsýslukerfið, og þegar er hafin vinna við skiptingu tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta er gífurlega stórt mál, og ég vænti þess, að hv. alþm. átti sig á því, að það er mjög brýnt að það verði farið í alvöru að sinna þessum málum, því að um mikilvægi sveitarfélaganna í landinu verður ekki deilt. Ég tel að best sé fyrir alla aðila að þessum málum verði komið sem allra fyrst í það horf, að viðunandi sé, og sveitarfélögin geti verið sjálfstæðar einingar fyrir fólkið í landinu í samskiptum við ríkisvaldið. — Fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga er forsenda framfara í landinu.