17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

116. mál, fjárlög 1980

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj., sem hér er til umr., er dæmigert fjárlagafrv. vinstristjórnarstefnu. Ljóst er að ekki er ætlunin að beita ríkisfjármálunum í baráttunni við verðbólguna. Ljóst er að áfram mun stefna í hallarekstur hjá ríkissjóði vegna óraunhæfra útgjaldaáætlana, ef þeim hefur þá ekki verið kippt út til þess að ná endum saman. Ljóst er að skattbyrðin verður meiri 1980 en nokkru sinni fyrr, allir vinstristjórnarskattarnir lagðir á áfram og nýir skattar boðaðir. Ljóst er að stefnt er í aukin ríkisumsvif, áframhaldandi vinstri verðbólgu sem vitaskuld þýðir lífskjaraskerðingu. Útgjaldahlið þessa fjárlagafrv. hækkar frá fjárlögum 1979 um 65.3%, eða meira en nokkru sinni fyrr, sem er bein afleiðing þeirrar vinstri verðbólgu sem varð hvað mest á s.l. ári eða um 61%.

Þegar ríkisfjármálin eru rædd og fjárlagafrv. tekið til afgreiðslu er ekki óeðlilegt að þróun efnahags- og fjármála í landinu sé skoðuð yfir örlítið lengra tímabil en aðeins á líðandi stund. Ég vék að einni tölu áðan, 61% verðbólgu frá upphafi árs til loka 1979. Ef við förum örlítið lengra aftur í tímann og virðum fyrir okkur þróun þessara mála 1960–1970 og 1970–1980 og berum þessa tvo áratugi saman kemur út hrikalegur samanburður. Verðbólga áratugarins 1960–1970, frá upphafi árs 1960 til upphafs árs 1970, var 200% og þá varð þreföldun á verðlagi. Verðbólgan frá upphafi árs 1970 og til upphafs árs 1980 er 1400% og verðlag fimmtánfaldast á þeim tíma.

Það er ekki óeðlilegt, þegar þessi samanburður liggur fyrir, að við veltum því fyrir okkur hvað veldur. Er hér um að ræða eingöngu utanaðkomandi áföll vegna ytri aðstæðna? Er hér eingöngu um að ræða þróun efnahagsmála í viðskiptalöndum okkar á sama tíma? Vitaskuld er um að ræða áföll vegna ytri aðstæðna. Það gerist á báðum þessum tímabilum. Við minnumst verðfalls og efnahagsvandræða 1967 og 1968, við minnumst líka vandamála 1973 og nú 1978, þ.e. olíuvandamálsins, og við skulum ekki gleyma Vestmannaeyjagosinu þegar það átti sér stað.

En skýra utanaðkomandi áföll allt þetta dæmi? Er ekkert sem við getum rakið til þróunar mála innanlands? Að mínum dómi er þar að finna meginorsökina. Ef við berum saman stöðugleika í íslenskum stjórnmálum 1960–1971 og svo frá 1971 til dagsins í dag er mikill munur á. Það liggur í hlutarins eðli, að stöðugleiki í stjórnmálum hlýtur að leiða til stöðugleika í efnahagsmálum, í peningamátum og í þjóðmálunum yfirleitt. Í hverju liggur þá óstöðugleikinn hvað mest? Jú, á árinu 1971 tekur við af viðreisnarstjórninni, sem starfað hafði í 12 ár og veitt íslensku þjóðfélagi forustu, vinstri stjórn, og það varð ekki löng bið á að verðbólgan segði til sín og breyting yrði á þróun efnahagsmálanna. Verðbólguþróunin 1971, 1972 og 1973 sýnir okkur og sannar hvað í raun og veru var að gerast samfara óstöðugleika við forustu í þjóðfélaginu á áratugnum 1971–1980. Þá gætir verulega afleiðinga af vinstristjórnarstefnu. Hér er að mínum dómi að finna orsakir til þess sem gerst hefur og blasir við okkur hrikalegar en nokkru sinni fyrr.

Þá skulum við, eftir að hafa borið saman þessa tvo áratugi og gert okkur grein fyrir því, hvernig málin hafa þróast, víkja aðeins til ársins 1979, sem var að líða, og gera okkur grein fyrir hver sé staða efnahagsmála um áramótin 1979–1980. Þá blasir við, eins og ég gat um, meiri verðbólga frá upphafi árs til loka en nokkru sinni fyrr eða 61%. Viðskiptakjörin höfðu versnað um 11% eða 4% af þjóðarframleiðslu. Halli varð á utanríkisviðskiptum um 2.5 milljarða kr. eða um 0.3% af þjóðarframleiðslunni og hafði versnað um 11 milljarða frá því á árinu 1978. Þjóðartekjur minnkuðu um 2% á mann 1979, enda þótt þjóðarframleiðslan ykist um 2%, sem er minna en meðaltal áranna 1970–1980. Þetta gerist hjá okkur Íslendingum þegar næstu nágrönnum okkar tekst að minnka vandamál sín og ná betri tökum á stjórn efnahagsmála.

Við þessar aðstæður var núv. hæstv. ríkisstj. mynduð. Spurningin hlýtur því að vera: Var það ríkisstj. eins og sú, sem nú situr, sem þjóðin þarfnaðist um síðustu áramót, þegar menn gera sér grein fyrir hver í raun og veru er staða málanna? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki lagt fram neina stefnu, nein stefnumið í efnahags- og peningamálum, atvinnumálum eða launamálum. Hæstv. forsrh. hefur ekki gert Alþ. grein fyrir stefnu ríkisstj., eins og þingsköp þó gera ráð fyrir. En það er svo sem í samræmi við annað, enda sjálfsagt erfitt fyrir hæstv. forsrh., varaformann Sjálfstfl., að semja stefnuræðu byggða á vinstristjórnarsamningi. Það var tvímælalaust erfitt fyrir hann að gera grein fyrir þessum málum, því að af stjórnarsáttmálanum sýnist ekki ætlunin að gera tilraun til að snúa þróuninni við og ná verðbólgunni niður. Allar hugmyndir um lögfestingu verðlags, sem ekki eru í samræmi við raunveruleikann, leiða að sjálfsögðu til óviðráðanlegra erfiðleika hjá atvinnuvegunum og síðan til minnkandi atvinnu.

Af stjórnarsáttmálanum verður ekki séð að ætlunin sé að auka á ný þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur, en það er að sjálfsögðu sú lausn, þegar til lengri tíma er lítið, sem getur unnið bug á þeirri verðbólgu sem mjög hrjáir okkur alla.

Það var ljóst í upphafi, að núv. ríkisstj. var ekki mynduð til þess að takast á við vandamálin, heldur undir yfirskini virðingar Alþingis með sæmd þjóðarinnar á orði, sem litlu skiptir þjóðfélagsþegnana ef aðeins hefur verið um að ræða að aðstoða upplausnaröfl innan þjóðfélagsins til þess að komast í valdastólana. Þetta er vissulega harður dómur, en það fjárlagafrv., sem hér er til umfjöllunar, og annað það, sem fram hefur komið af hálfu hæstv. ríkisstj., staðfestir það sem ég hér vék að. En ekki sýnist hafa verið erfitt fyrir hæstv. forsrh. að setjast í ríkisstj. með þeim aðilum, sem í ríkisstj. hans sitja, með tilliti til þeirrar útkomu sem efnahags- og peningamálin 1979 sýna okkur.

Ég minni á fjárlagaumr. fyrir einu ári. Ég minni á þau varnarorð sem fram komu af hálfu stjórnarandstöðunnar þegar fjárlagafrv. var þá til meðferðar. Á það var bent, að í það frv. skorti ekki milljarða, heldur tug milljarða til þess að hallalaus rekstur gæti orðið á ríkisbúskapnum. Þessu var svarað með því að segja að hér væri um hrakspár að ræða, menn, sem hefðu haldið um stjórnartaumana, væru nú komnir í stjórnarandstöðu og þess vegna líti dæmið svona út í þeirra augum. Þegar líða tók á árið var þetta enn undirstrikað, en á það var ekki hlustað. Það voru að vísu lagðir á nýir skattar, en það dugði ekki til. Það voru tekin viðbótarlán, en það dugði ekki heldur til. Niðurstöður ársins 1979 eru, eins og fram kom áðan, m.a. hjá hæstv. fjmrh., að það eru frávik frá rekstrarjöfnuði upp á 9.5 milljarða. Hann var áætlaður jákvæður upp á 6.6 milljarða, en kom út með halla upp á 2.9 milljarða. Frávik frá greiðslujöfnuði varð enn meira, tæpir 13 milljarðar. Skuldaaukning í Seðlabanka var 2.4 milljarðar í staðinn fyrir skuldalækkun upp á 5 milljarða. Útgjöld samkv. bráðabirgðayfirliti ríkisfjármála sýna að umframgreiðslur á árinu 1979 eru 20%, voru 1978 15%, en 1977 komust þær niður í 10.2%. Tekjur ríkissjóðs jukust hins vegar um 14.3%, og eru þar í allir vinstristjórnarskattarnir sem á árinu 1979 var talið að næmu yfir 20 milljarða kr. Ríkisútgjöldin á greiðslugrunni eru talin verða um 29% af þjóðarframleiðslu, en þegar ríkisreikningurinn verður gerður upp má reikna með að þar verði um að ræða 30% af þjóðarframleiðslu sem ríkið hefur tekið til sín á árinu 1979. Og hvernig lítur svo lánsfjáráætlunin út 1979? Hún reyndist koma út með 43% hækkun þegar gengisbreyting á árinu 1979 nemur 25%, þrátt fyrir að lánsfjáráætlunin 1979 var afgreidd, ef ég man rétt, í aprílmánuði, þegar þriðji hluti var liðinn af árinu og menn gátu miklu betur gert sér grein fyrir, hvernig framvindan yrði í þessum málum, heldur en um áramót. Peningamagn í umferð árið 1979 jókst um 50%, á ákveðnu tímabili um 62%, en hin frægu Ólafslög, efnahagsmálalögin frá því í fyrra, gerðu ráð fyrir að stefnt yrði að 21%.

Niðurstaðan, sem ég hef hér rakið, sýnir okkur hver stjórn var á ríkisfjármálunum á s.l. ári. Það voru vissulega viðhöfð stór og þung orð af þáv. hæstv. fjmrh. um hallalausan ríkisbúskap og að allt yrði gert til að draga úr umframgjöldum hjá ríkissjóði. Ég efast út af fyrir sig ekki um að sú ríkisstj. hafi viljað gera sitt besta, annað hvarflar ekki að mér. Hins vegar er mér ljóst að ráðh. gátu ekki ráðið einir. Það var stjórnarstefnan sem hér var fyrst og fremst um að kenna og hvernig í upphafi var um hnútana búið.

En sýnist mönnum að fjárlagafrv., sem við fjöllum um í dag, sé með þeim hætti, sé þannig úr garði gert að búast megi við breytingu í ríkisfjármálunum á árinu 1980? Skoðun mín er sú, að svo sé ekki, og ég gerði í upphafi máls míns aths. við nokkur atriði úr þessu fjárlagafrv.

Fjárlagafrv. er lagt fram með þeim hætti, að það getur aldrei, eins og að því hefur verið unnið, verið annað en haldlítið pappírsgagn þegar fram í sækir. Það hækkar að vísu meir en nokkurn tíma áður, enda þótt veigamiklir liðir, eins og olíustyrkur sem útgjöld hjá ríkissjóði, séu teknir út og fjármögnun veigamikilla þátta, eins og vegamála, orkumála, iðnaðarmála og landbúnaðarmála, sé ekki inni í þessu dæmi. Þeim vanda á að velta á undan sér. Hann er með öllu óleystur. En gera menn sér ekki grein fyrir því, að hér eru vandamál sem verður að taka ákvörðun um hvernig leysa skuli? Ætla stjórnvöld annað fjármagn til þessara hluta — eða er verið að láta líta svo út að ýmsir þessara þátta verði fjármagnaðir í gegnum lánsfjáráætlun? Ég held að það liggi ljóst fyrir að dæmi ríkissjóðs, eins og hugsað er að hann fjármagni gjaldahliðina í þessu frv., gangi ekki upp.

Skattheimtan í þessu frv. er öll hin sama og hún var á s.l. ári. Allir hinir svokölluðu vinstristjórnarskattar verða lagðir á áfram, og þeir munu ekki nema á árinu 1980 einungis 20 milljörðum. Það má jafnvel gera ráð fyrir að sú upphæð nærri tvöfaldist. Auk þess er gert ráð fyrir nýrri skattheimtu til ríkisins sem getur numið einum tug milljarða. Þegar fjárlagafrv. er hér til meðferðar liggja skattstigarnir ekki enn þá fyrir. Auk þessa keppast stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. við að fá samþykkta á hinu háa Alþingi viðbótarálagningu skatta, þ.e. hækkun á álagningu útsvara, sem talið er að muni nema á milli 4.5 og 5.5 milljarða kr. Það liggur því ljóst fyrir að skattbyrði borgaranna 1980 verður meiri en nokkru sinni fyrr og slær út árið 1979, sem varð þó það versta.

Til þess að ná þessu frv. saman, er, eins og ég gat um áðan, frestað afgreiðslu mála, sleppt úr frv. stórum útgjaldaliðum, gerðar augljósar vanáætlanir og hætt við, miðað við fyrstu útgáfu frv. og ég held 2. útgáfu líka, að greiða umsamdar afborganir af lánum. Eignir eru seldar fyrir 1 milljarð. Það er niðurskurður á framkvæmdaframlögum og framlögum til fjárfestingarsjóða til þess að auka rekstrarútgjöldin. Allt stefnir þetta í yfir 30% sem hlutfall af þjóðarframleiðslu til ríkisumsvifa á árinu 1980.

Á sama tíma og við ræðum um fjárlagafrv. og hæstv. fjmrh. brýnir þm. á því að ljúka afgreiðslu þess fyrir páska liggur ekki fyrir lánsfjáráætlun. Heildarstefnan í peningamálunum hjá ríkisstj. getur því ekki einu sinni legið fyrir Alþ. þegar fjárlagafrv. er til umr. Hæstv. fjmrh. vék að því í ræðu sinni áðan að þetta væri ekki nýtt. Ég held að hann hafi orðað það svo, — hann leiðréttir mig þá, — að lánsfjáráætlun hafi aldrei verið afgreidd á sama tíma og fjárlög. Þetta er ekki rétt. Þegar lánsfjáráætlun fyrst var lögð fram, haustið 1975, var hún ekki lögð fram fyrr en á milli 2. og 3. urrir. fjárl., það er alveg rétt, en lög, sem samþ. þurfti vegna lánsfjáráætlunar, voru samþ. fyrir þau áramót. Mér var fullkomlega ljóst, þegar ég vann að þessari fyrstu lánsfjáráætlun og lagði hana fram, að þetta væri of seint, og það tókst haustið 1977 að leggja hana fram þó nokkuð fyrr. En lánsfjáráætlun og þau lög, sem þurfti að samþ. í samræmi við hana, voru ævinlega samþ. á sama tíma og fjárlögin. Það gerðist hins vegar á s.l. ári, að lánsfjáráætlun var ekki samþ. fyrr en nokkrir mánuðir voru liðnir frá því að fjárlög höfðu verið afgreidd. Það kom þá í ljós, hvers vegna nauðsynlegt er fyrir þá, sem vilja hafa stjórn á ríkisfjármálunum, efnahagsmálunum og peningamálunum, að lánsfjáráætlun liggi fyrir Alþ. og sé afgreidd á sama tíma og fjárlög. Lánsfjáráætlunin á s.l. ári var lögð fram með þeim hætti að inn voru komnir viðbótarliðir. liðir um útgjöld ríkissjóðs sem fjvn. hafði fellt niður úr fjárlagafrv. og Alþ. hafði ekki viljað samþ. við afgreiðslu fjárl. Þá var farið inn um bakdyrnar til að ná fjármagni til framkvæmda. Þá skipti engu máli um öll stefnumiðin í efnahagslögunum. Þá var aðalatriðið að ná í peninga. Fjárlög voru ekki til umr., fjárveitingavaldið ekki til að skipta fjármagninu, heldur ríkisstj. með sitt vald til þess að ná fjármagni og halda uppi ákveðnum framkvæmdum.

Ég held að þetta sýni okkur, og ég er viss um að þm. eru allir sammála um það, að lánsfjáráætlunin á að liggja fyrir eins tímanlega og mögulegt er eftir að fjárlagafrv. hefur verið lagt fram á þingi. Reynslan frá s.l. ári sýnir okkur betur en nokkuð annað með hvaða hætti fer um fjármát ríkisins, þegar afgreiðsla er ekki samtímis á fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun.

Ég held að hæstv. fjmrh. hafi vikið að því áðan, að það yrði ekki fyrr en einhvern tíma eftir páska sem lánsfjáráætlun kæmi á borð þm. og leitað yrði eftir samþykkt Alþingis á þeim lögum sem lánsfjáráætlun nauðsynlega verður að fara eftir. Það má vel vera að afgreiðsla þessa frv. eigi að vera með þeim hætti, að lánsfjáráætlun eigi með einum eða öðrum hætti að brúa það bil sem bersýnilega er og verður í ríkisfjármálunum samkv. frv. Ég hafði búist við því, að í þessari viku ættu þm. von á að lánsfjáráætlun yrði lögð á borð þeirra og áður en lokaumr. fjárlagafrv. færi fram og fjárlög yrðu samþ. hefðu menn fengið tækifæri til að gera sér grein fyrir þeim áformum sem þar eru.

Ég hef áður vakið athygli á því, að við Íslendingar eigum ekki einir þjóða í erfiðri glímu við viðskiptahalla og verðbólgu. Slík vandamál hafa verið meginviðfangsefni víðast hvar í heiminum á undanförnum árum, jafnvel í þeim löndum sem áður höfðu náð mestum stöðugleika og bestum árangri í stjórn efnahagsmála. Þróun efnahagsmála á undanförnum árum hefur leitt í fjós mikilvægar staðreyndir sem þeir, er með stjórn efnahagsmála fara, verða að taka tillit til. Þessar staðreyndir skipta okkur Íslendinga einnig miklu máli og við hljótum að taka mið af þeim í stjórn eigin mála.

Í fyrsta lagi virðist ekki unnt að ná helstu markmiðum í efnahagsmálum, svo að eitthvað vari, nema takist að ná þeim öllum í senn að verulegu leyti. Það er ekki unnt að tryggja atvinnu til langframa ef ekki tekst að vinna bug á viðskiptahallanum og verðbólgunni. Á hinn bóginn stoðar lítið að halda verðbólgunni í skefjum og eyða viðskiptahallanum ef þessum markmiðum verður ekki náð nema með atvinnuleysi. Þess vegna verður að ná þeirri samræmingu í stjórn efnahagsmála og þeirri samstöðu á milli stétta og hagsmunahópa að komist verði sem næst öllum þeim efnahagslegu markmiðum sem stefnt er að.

Í öðru lagi er áframhaldandi vöxtur framleiðslu mikilsvert markmið í efnahagsmálum, og svo mun enn verða um langt skeið. Þótt mönnum séu nú ljósari en áður ýmsir fylgikvillar hagvaxtar og reynt sé að varast þá, verður margvíslegum þörfum manna og þjóða ekki sinnt nema með tilstyrk aukinnar framleiðslu. Slíkar þarfir, sem enn er ekki sinnt sem skyldi, verða til í ríkum mæli, jafnvel í þeim löndum sem lengst eru komin á framfarabraut. Enn meira máli skiptir þó að úr fátæktinni í heiminum verður ekki dregið nema með meiri framleiðslu, ekki aðeins þar sem fátæktin er landlæg, heldur einnig í velmegunarlöndum sem þá gætu í vaxandi mæli miðlað öðrum af auðlegð sinni. Eigi vaxandi framleiðsla hins vegar að vera meginmarkmiðið í efnahagsmálum, eins og verið hefur, verður að halda við réttum skilyrðum til þeirrar aukningar. Þau skilyrði eru ekki síst heilbrigt atvinnulíf, þar sem vinnusemi og framtak fá að njóta sín og eðlileg arðsemi nýtur viðurkenningar.

Í þriðja lagi verður að gæta hófs í útgjöldum ríkisins og í skattlagningu þegnana. Ekki er unnt að líta svo á að leiðin til að leysa hvers konar vanda sé að einbeita ríkiskerfinu að þeim og auka útgjöld ríkisins. Tilraunir í þessa átt víða um heim hafa sennilega átt drjúgan þátt í aukinni verðbólgu undanfarin ár, án þess að sá árangur hafi náðst sem menn höfðu vænst. Það verður því að leita hagkvæmari og ódýrari leiða en sífelldrar eflingar ríkisvaldsins. Það er ekki heldur unnt að líta svo á, að stöðugt megi jafna vaxandi ríkisútgjöld með hækkandi sköttum. Í sumum tilfellum má telja að í raun geti háir skattar verið uppspretta verðbólgu, auk þess sem þeir kunna að draga úr vilja manna til starfa og framtaks. Þegar svo er komið eru skattamálin á villigötum.

Það er skoðun mín, að ekki verði hjá því komist að taka tillit til þeirra staðreynda, sem ég hef nú lýst, við mótun efnahagsstefnunnar hér á landi, og þá ekki síst við mótun stefnunnar í ríkisfjármálum. Það fjárlagafrv., sem hér er til umr., gengur þvert á þessi meginsjónarmið, enda fjárlagafrv. ríkisstj. vinstri stefnu. Það er því ekki von úrbóta, því miður.