17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

116. mál, fjárlög 1980

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þegar vinstri stjórnin kom til valda sumarið 1978 lagði hún fyrir Alþ. um haustið fjárlagafrv. sem hafði hörmulegar afleiðingar fyrir efnahagsþróun og þróun fjármála í landinu. Ríkisumsvif voru stóraukin, einkum rekstrar- og millifærsluútgjöld ríkissjóðs, skattar voru hækkaðar gífurlega í því skyni að þenja út ríkisbáknið, og ekki nóg með það, heldur voru framlög til framkvæmda úti um land og til atvinnuvega skorin niður, ekki til að lækka skatta og ríkisútgjöld, heldur til þess að skapa svigrúm til enn þá meiri hækkunar rekstrar- og millifærsluútgjalda ríkissjóðs. Þetta reyndist auk heldur frv. að mestu verðbólgufjárlögum í sögunni, a.m.k. eftir stríð.

Framfærsluvísitalan hækkaði frá ársbyrjun til ársloka um 61%. Það er því með meiri háttar viðburðum í „akrobatik“ í málflutningi sem við urðum vitni að hér, hv. þm., nú rétt áðan, þegar hæstv. viðskrh., fyrrv. hæstv. fjmrh., flutti tölu sína um skaðsemi verðbólgunnar og var á sama tíma að tala um hvað vel hefði tekist til á því ári sem hann fór með ríkisfjármálin. Ég átti satt að segja von á því, að hæstv. ráðh. viðurkenndi með öðrum hætti en hann gerði núna að ekki tókst vel til með ríkisfjármálin og þróun efnahagsmála í landinu á því ári sem hann átti aðild að því að móta gerð fjárlagafrv.

S.l. haust flutti Tómas Árnason, fyrrv. hæstv. fjmrh. vinstri stjórnarinnar, fjárlagafrv. fyrir árið 1980 sem gekk enn þá lengra í skattahækkun og útþenslu ríkisbáknsins. Þar var gert ráð fyrir stórhækkun söluskatts og vörugjalds til viðbótar þeim auknu skattaálögum sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir strax í byrjun valdaferils síns. Það frv., sem hér er til umr., fyrsta fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj., gengur þó enn þá lengst í átt þeirrar vinstri villu að þenja út ríkisútgjöldin, auka ríkisafskiptin, hækka skattana o.s.frv. Fyrsta fjárlagafrv. fyrri vinstri stjórnarinnar var vont skattahækkunar- og ríkisumsvifafrv., frv. Tómasar Árnasonar í fyrra var verra, en þetta fyrsta frv. núv. hæstv. ríkisstj. er sýnu verst.

Það er einkum fróðlegt að bera saman frv. Tómasar Árnasonar frá því í haust og það frv. sem hér er til umr. Þar ber nokkur meginatriði hæst. Rekstrar- og millifærsluútgjöld ríkissjóðs eru hækkuð í raun um 25 milljarða kr. Þar er að hluta til um breyttar verðlagsforsendur að ræða, en einnig mjög verulega raunverulega útþenslu ríkisbáknsins. til þess að framkvæma þessa meginstefnu um aukin ríkisumsvif er gripið í aðalatriðum til fjögurra ráða:

1. Skattar eru hækkaðir, sumpart vegna verðlagsforsendna, um 10 milljarða, en að auki er nýr orkuskattur boðaður í frv., þó að hann sé ekki í tölum frv., um 5 milljarðar kr.

2. Markaðir tekjustofnar eru teknir í ríkissjóð og framlög til fjárfestingarsjóða og fleira skorin niður sem nemur 5 milljörðum kr.

3. Raungildi fjárveitinga, m.a. til hafna, skóla, sjúkrahúsa, vega o.s.frv., er skert, því að þessar fjárveitingar eru ekki hækkaðar í krónutölu eins og rekstrarútgjöldin í samræmi við breyttar verðlagsforsendur.

4. Lækkuð er áformuð afborgun til Seðlabankans um 5 milljarða.

Þetta er nákvæmlega sama meginstefnan og fólst í fyrsta frv. vinstri stjórnarinnar til fjárl. haustið 1978. Hér er þó gengið mörgum skrefum lengra í sömu átt til aukinnar útþenslu ríkisumsvifa með sömu vinstri úrræðunum. Og teflt er á enn þá tæpara vað um að fjárlög fyrir árið 1980 verði verðbólgufjárlög en var á árinu 1979.

Þegar þessi stefna vinstri stjórnarinnar í ríkisfjármálum var ljós haustið 1978, þá gagnrýndum við sjálfstæðismenn hana harkalega, og ég man ekki betur en við værum alveg sammála um það. Þegar við þremenningar, sem þá áttum sæti í fjvn. fyrir Sjálfstfl., auk mín hæstv. núv. landbrh. Pálmi Jónsson og Ellert B. Schram, þegar við settum saman nál. minni hl. vorum við algerlega sammála um eftirfarandi gagnrýnisatriði:

1. Skattheimta væri aukin gífurlega.

2. Ríkið ráðskaðist þannig með aukinn hluta þjóðarteknanna.

3. Fjármagnstilfærslur væru stórauknar með niðurgreiðslum.

4.Verklegar framkvæmdir á landsbyggðinni væru skornar niður.

5. Ríkisbáknið væri þanið út með auknum rekstrarútgjöldum.

6. Milljarðagjá væri í raun milli útgjalda og tekna, sem yrði líklega brúuð með aukinni skattheimtu.

7. Frv. og fjárlagastefnan væri verðbólguhvetjandi. Því miður er það svo, að þessi skýra og afdráttarlausa gagnrýni okkar þremenninganna á jafnvel enn þá fremur við um fyrsta fjárlagafrv. núv. hæstv. ríkisstj., það sem hér er til umr. Í fyrsta lagi á þessi gagnrýni enn þá fremur við nú, vegna þess að þetta frv. gengur lengra í þá átt, sem við gangrýndum, en frv. vinstri stjórnarinnar fyrir 1979.

Í öðru lagi, og það skiptir ekki minna máli, á þessi gagnrýni enn fremur rétt á sér nú þegar þetta frv. er rætt, vegna þess að þessi gagnrýni okkar reyndist rétt, — mér liggur við að segja óhugnanlega rétt. Fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar fyrir árið 1979 reyndist svo sannarlega verðbólguhvetjandi og þar var í raun gjá milli útgjalda og tekna, sem brúa þurfti með nýjum sköttum, en tókst þó ekki þrátt fyrir góðan vilja hæstv. fjmrh. á þeim tíma til að fara dýpra og dýpra í vasa skattborgaranna. En hvert hefur þessi vinstri stefna í ríkisfjármálum leitt okkur? Ég hef reynt að svara þessari spurningu og fengið til þess eins traustar upplýsingar og unnt er.

Niðurstaðan er sú, að rekstrar- og millifærsluútgjöld séu í þessu frv. 45–50 mill jörðum hærri en verið hefði ef svipaðri stefnu væri fylgt og gert var samkv. fjárl. 1978, þ.e. þegar við sjálfstæðismenn réðum ríkisfjármálastefnunni. Þessi útþensla rekstrar- og millifærsluútgjalda um 45–50 milljarða hefur verið gerð kleif að nokkru leyti með fernum hætti:

1. Skattahækkun ár frá ári og oft á ári.

2. Með því að taka markaða tekjustofna í síauknum mæli til almennra þarfa ríkissjóðs.

3. Með niðurskurði á framlögum til sjóða atvinnuveganna.

4. Með niðurskurði á raungildi framlaga ríkissjóðs til verklegra framkvæmda í höfnum, skólum, sjúkrahúsum, vegagerð o.s.frv.

Þessar fjáröflunarleiðir, ef svo mætti segja, hafa þó hvergi nærri dugað til þess að mæta útþenslu rekstrar- og millifærsluliða ríkissjóðs. Afleiðingin hefur orðið greiðsluhalli á ríkissjóði og óðaverðbólga. Greiðsluafkoma ríkissjóðs var í raun um síðustu áramót 13–14 milljörðum kr. verri en fjárlög gerðu ráð fyrir samkv. nýútkominni skýrslu ríkisendurskoðunar, og samt var búið að leggja á nýja skatta í viðbót við þá skatta sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Þetta kemur fram í þessari ágætu bók. Og hvað sem hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. viðskrh., segir, þá er hér um staðreynd að ræða, að þrátt fyrir nýjar skattálögur á árinu í fyrra umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir varð niðurstaðan sú á hans búskap, að staða ríkissjóðs varð 13–14 milljörðum kr. verri en fjárlög gerðu ráð fyrir um síðustu áramót samkv. nýútkominni skýrslu ríkisendurskoðunar.

Skattahækkun, sem orðið hefur frá haustinu 1978 vegna aðgerða vinstri stjórnarinnar og núv. ríkisstj., leggur hvorki meira né minna en 36–37 milljarða kr. aukna skattbyrði á þjóðina 1980 samkv. tekjuáætlun þess frv. sem við ræðum hér. Þessi aukaskattreikningur sundurliðast þannig:

Í fyrsta lagi eru hækkaðir eignarskattar og hækkaðir tekjuskattar 6.3 milljarðar kr., en eins og menn muna voru þessir skattar hækkaðir haustið 1978 og hafa haldist síðan. Þetta er byggt á upplýsingum sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun um það, hvað þessir skattstofnar gefi meira núna vegna þessarar stefnu. Það eru 6.3 milljarðar. Hækkun söluskatts um 2 prósentustig gefur 10.3 milljarða. Hækkun vörugjalds, sem var hækkað með mörgum ákvörðunum, gefur 7.7 milljarða. Gjald á ferðalög til útlanda er 1700 millj. kr., nýbyggingagjald 250 millj. kr., skattur á verslunarhúsnæði 1700 millj. kr., aðlögunargjald 1840 millj. kr., verðjöfnunargjald af raforku 1220 millj. kr. og hækkun skatta af bensíni umfram verðlagshækkanir 10.1 milljarður kr. Skattar á bensíni voru 9 milljarðar 1978, en eru samkv. tekjuáætlun þessa frv. 29 milljarðar kr. Það gefur umfram verðlagshækkanir 10.1 milljarð í ríkissjóð. Orkuskattur er áætlaður samkv. frv. 4–5 milljarðar, og markaðar tekjur, sem eru teknar í ríkissjóð, eru samkv. frv. 4.7 milljarðar. Samtals eru þetta 50 milljarðar kr. Frá dregst síðan niðurfelling söluskatts af matvælum og tollalækkanir og þá kemur út talan 36–37 milljarðar kr.

Athyglisvert er að núv. hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á verulegum hluta þessarar skattahækkunar. Hún ætlar að viðhalda hækkun söluskatts um 2 prósentustig og vörugjaldshækkuninni allt árið 1980. Þessir skattar lögðust einungis á í nokkra mánuði 1979. Af þeim sökum lögðust einungis 2.7 milljarðar í skattbyrði á almenning í fyrra vegna þessarar skattahækkunar, en á þessu ári greiðum við skattborgarar ríkissjóði 18 milljarða kr. vegna þessarar hækkunar. Orkuskatturinn kemur þar til viðbótar, 5 milljarðar, og útsvarshækkun um 10%, ef að líkum lætur. Núv. hæstv. ríkisstj. verður búin að gera fyrrv. vinstri stjórn að hreinum englabörnum í skattamálum áður en þetta ár er liðið ef þetta gengur allt fram.

Ný fjáröflunarleið var fundin upp fyrir ríkissjóð með fyrsta frv. vinstri stjórnarinnar auk beinna skattahækkana. Tekjustofnar, sem ætlaðir voru samkv. lögum til ákveðinna verkefna, hafa með öðrum lögum verið teknir í ríkissjóð til þess að standa undir útþenslu rekstrar- og millifærsluútgjalda ríkissjóðs eða ríkisumsvifunum. Um þverbak keyrir þó í þessu frv. og er þessi skerðing stóraukin frá frv. Tómasar Árnasonar. Helstu tekjustofnar, sem skertir eru samkv. frv., eru ýmis gjöld og skattar til Byggingarsjóðs ríkisins eða húsnæðismálastjórnar. Þar er skerðingin hvorki meira né minna en um 3.8 milljarða kr., og mætti spyrja hvort þetta eigi að vera til þess að auðvelda Byggingarsjóði ríkisins að standa undir nýjum lánaflokkum sem eru í málefnasamningi ríkisstj., ef ég kann hann rétt, eins og t.d. til dagvistarheimila og elliheimila.

Skemmtanaskattur er skertur í þessu frv. Hann á að ganga til félagsheimila úti um land. Erfðafjárskattur er skertur feiknalega, langtum meira en í frv. Tómasar Árnasonar, en erfðafjárskattur á að ganga til þess að byggja endurhæfingarstöðvar fyrir öryrkja og elliheimili. Þessi skattur er skertur úr 700 millj. kr. um 372 millj. kr. eða meira en helming. Er þetta félagsmálastefna hæstv. ríkisstj. í framkvæmd?

Bifreiðaskattur er skertur um 518 millj. kr. og á sama tíma fellt niður framlag ríkissjóðs í Vegasjóð, en það hefur aldrei skeð áður að ríkissjóður hafi ekki lagt Vegasjóði eitthvað til. Bifreiðaskattur á að ganga í Vegasjóð, þannig að það er ekki einungis að ríkissjóður leggi ekki samkv. þessu frv. Vegasjóði neitt til, hann sé skorinn niður í núll. Hæstv. ráðh., sem lagði hér fram vegáætlun í fyrra, gengur svo langt sem fjmrh., að það er ekki nóg með að hann láti ríkissjóð ekki borga krónu í Vegasjóð, sem er óþekkt fyrirbrigði, heldur skerðir hann markaða tekjustofna Vegasjóðs líka. Það skortir 56% á, segja vegagerðarmenn okkur í fjvn., að vegáætlun verði framkvæmd með raungildi í nýbyggingum, þ.e. það þarf að hækka nýbyggingarfé í vegáætlun um 56% til þess að halda þeim framkvæmdamætti sem hæstv. ráðh. ætlaðist til þegar hann flutti þessa till. í fyrra sem samgrh. En þetta er útúrdúr. Samtals er framangreind skerðing 4.7 milljarðar.

Það eru margir aðrir skattstofnar, sem eru skertir þarna, en það kemur ekki fram nema vel sé leitað í grg. með frv. Það er t.d. hluti aðlögunargjalds. Ríkissjóður ætlar að nota 990 millj. af því til sinna þarfa á árinu, og má kannske spyrja hvort þetta sé sú iðnaðarstefna sem hæstv. ráðh. taldi sig halda fram hér áðan að væri í þessu fjárlagafrv. Það er ekkert tekið á því, að útflutningsiðnaðurinn býr sannanlega við verra gengi en sjávarútvegurinn, og það er ekki ætlunin samkv. þessu frv. að bæta útflutningsiðnaðinum það í einu eða neinu. Á sama tíma ætlar ríkissjóður að hirða 990 millj., sem hann þarf þá væntanlega að skila iðnaðinum á næsta ári, en þá á aðlögunargjaldið að falla niður samkv. lögum. Þarna er hæstv. ráðh. að slá víxil upp á 990 millj. kr. sem hann á að borga á næsta ári og hefur engar tekjur til þess.

Það má halda áfram að telja svona sporslur sem ríkissjóður ætlar að innbyrða, eins og t.d. aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum, sem eru talin gefa einn milljarð. Engu af því á að skila til uppbyggingar fyrir útvarp og sjónvarp. Þá er ekki bara svo, að olíustyrksupphæðin, 2.3 milljarðar, sé skorin út úr frv. — en upphaflega kom þetta framlag inn sem markaður tekjustofn í ríkissjóð — heldur er líka skorið niður það sem gjarnan hefur verið áður í fjárl., þ.e. að hluti af því olíugjaldi, sem lagt var á hér á sínum tíma, fór til þess að lána til hitaveituframkvæmda og til að styrkja dreifikerfi í sveitum. Þessar upphæðir voru 330 millj. til hitaveituframkvæmda og 220 til dreifikerfa í sveitum. Þetta er allt saman skorið niður. Ef þessar tölur eru lagðar saman, þá kemur út úr þessu 9.6 milljarðar kr. Ekki er það til þess að lækka útgjöldin að þetta er nú skorið niður og tekið í ríkissjóð, heldur til þess að þenja rekstrar- og millifærsluútgjöld ríkissjóðs enn meira út.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1979 var lagt til af ríkisstj., vinstri stjórninni, við Alþ. að skera niður framlög ríkissjóðs til fjárfestingarlánasjóða til þess að standa undir útþenslu ríkisútgjalda. Þá voru þessi framlög skorin niður um 5%. Nú er gengið svo langt á þessari braut, að sumir sjóðirnir eru skornir niður um 30–40% og jafnvel meira. Ég skal ekki þreyta hv. þm. á því að lesa þessar tölur upp, en hér er um að ræða Fiskveiðasjóð, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Aflatryggingasjóðs, Byggingarsjóð verkamanna — sem er rangt hjá hæstv. ráðh. að hækki miðað við það sem hann á að fá samkv. lögum. Hann er skorinn niður um 67 millj. kr. Áð vísu hækkaði framlag til hans um 50 millj. frá frv. Tómasar Árnasonar, en þá hafði Tómas skorið hann niður um 117 millj., svo að út kemur niðurskurður upp á 67 millj. — Lánasjóður sveitarfélaga, Bjargráðasjóður. Fyrir Alþ. liggur núna frv., þar sem er lagt til að hækka framlögin til Bjargráðasjóðs, en þá er hann skorinn niður um 61 millj. kr. o.s.frv. Þessi niðurskurður er meira að segja hjá Framkvæmdasjóði öryrkja, Styrktarsjóði vangefinna og Byggðasjóði. Samtals er þessi niðurskurður upp á hvorki meira né minna en 5.7 milljarða kr., þ.e. ef maður reiknar framlög í sjóði eins og Framkvæmdasjóð öryrkja, Styrkfarsjóð vangefinna og Byggðasjóð eins og lög mæla fyrir um.

Þá er ótalið að ár eftir ár, bæði 1979 og 1980, hefur sótt í það horf, að skorið hefur verið niður raungildi framkvæmda á ýmsum sviðum úti um land, við skóla, hafnir, sjúkrahús o.s.frv. Mér reiknast til að samtals þurfi framlög í skóla, hafnagerðir, sjúkrahús, og flugvelli að vera núna um 2 milljörðum kr. hærri ef þessi framlög ættu að vera söm að raungildi og samkv. fjárl. 1978.

Þá vil ég segja það út af ummælum hæstv. núv. viðskrh. um Íþróttasjóð og hans fögru ræðu um íþróttir og útilíf, að báðar þær ríkisstj. sem hann hefur átt sæti í hafa skorið Íþróttasjóð niður að raungildi, og það frv., sem hann flytur nú, markar okkur í fjvn. ramma fyrir Íþróttasjóð sem er 28.8% hærri en var í fjárlögum í fyrra. Sama frv. gerir ráð fyrir að verðlag milli ára hækki um 46.5%, ef ég man rétt, þannig að niðurskurðurinn er stórfelldur á þessum lið eins og öðrum þeim liðum sem brenna nú mest á baki manna úti um land. Þarna er skorið niður á alla enda og kanta og — eins og ég sagði áðan — ekki til þess að lækka skatta, — til þess að lækka fjárlög og lækka skatta, — heldur til þess að þjóna hinni óseðjandi hít ríkissjóðs í því að þenja út rekstrarútgjöld og millifærslur í ríkisfjármálunum.

Þó er sú staðreynd einna alvarlegust um þetta fjárlagafrv., að það er jafnvel óraunhæfara og hættulegra í baráttunni við verðbólguna en frv. fyrir árið 1979. Með því að lækka áætlaðar afborganir til Seðlabankans um 5 milljarða, eins og gert er með þessu frv. miðað við frv. Tómasar Árnasonar, er teflt á enn þá tæpara vað um raunverulegan greiðslujöfnuð ríkissjóðs en gert var í frv. og fjárlögum 1979. Þá var gert ráð fyrir að greiða Seðlabankanum 5.5 milljarða af þáverandi yfirdráttarskuld. Nú þegar skuldahalinn er orðinn enn þá meiri og nálgast 30 milljarða kr., þá eru áætlaðar afborganir aðeins 3.5 milljarðar. En þessi — mér liggur við að segja: fáránlega og óábyrga ákvörðun verður ekki ein til þess að ríkisfjármálin 1980 magna verðbólguna.

Hv. þm. Eiður Guðnason kom hér inn á þetta mál og ég þarf ekki miklu við það að bæta. En hæstv. ráðh. sagði hér, að það þyrfti að horfast í augu við óhjákvæmileg útgjöld og að þau væru áætluð af raunsæi í frv. Ég vil henda hæstv. ráðh. á það, að hans ráðuneyti, sem hann var ráðh. í fyrir nokkrum mánuðum, hefur ritað fjvn. bréf og það telur útgjaldaliði til rekstrar ýmissa skóla, t.d. grunnskóla, tónlistarskóla, menntaskóla og stofnana afbrigðilegra barna, það telur rekstrargjöld í frv. vanáætluð um hvorki meira né minna en 1550 millj. kr. Þetta er bara dæmi. Ég get nefnt annað. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna telur rekstrarútgjöld ríkisspítalanna vanáætluð um 2.3 milljarða. Við þekkjum öll þau mál, sem hæstv. ráðh. hefur skotið á frest til ákvörðunar þegar kemur að afgreiðslu lánsfjáráætlunar. En ég held að þessi dæmi hljóti að sýna að þetta frv. er því miður óraunhæft og það er því miður stórhætta á að þetta frv. verði stórkostlegt verðbólgufrv.

Herra forseti. Með þessu frv. eru rekstrarútgjöld ríkissjóðs þanin út eftir sömu forskrift og gert var með fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar haustið 1978. Hér er þó gengið enn þá lengra í sömu átt. Svo langt er gengið í þessu frv.. eins og ég sagði áðan, að um er að ræða 45 50 milljarða kr. rekstrar- og millifærsluútgjöld miðað við fjárlög 1978. Og þetta má rekja allt til þessarar hugsjónar að þenja út ríkiskerfið. Þetta er gert á kostnað almennings með skattahækkun og lífskjaraskerðingu. Þetta er gert á kostnað atvinnuuppbyggingar í landinu, með niðurskurði á framlögum til sjóða atvinnuveganna. Þetta er gert á kostnað lífsnauðsynlegra framkvæmda um allt land í höfnum, skólum, sjúkrahúsum, vegagerð o.s.frv.

Stefna frv. er því algjörlega andstæð þeirri grundvallarhugsjón sjálfstæðisstefnunnar að stilla skattheimtu ríkisins í hóf og setja ríkisumsvifum skynsamleg takmörk. Afdrifaríkast mun þó við þetta frv., að það er með því marki brennt að vera undanfari nýrra verðbólgufjárlaga.