19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

124. mál, söluskattur

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég kem í ræðustólinn öðru sinni fyrst og fremst til að þakka þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, og mjög svo jákvæða og skilningsríka afstöðu sem komið hefur fram.

Ég get ekki látið ógert að þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. alveg sérstaklega fyrir hans fallegu orð í minn garð. Ég vissi aldrei að ég væri ekki það jarðbundin að mönnum dyttu vængir í hug þegar ég stigi í ræðustól, og allra síst um jafnjarðbundið og leiðinlegt mál og þessi blessaði söluskattur er. En sem sagt, ég vil þakka eindregið fyrir. Það gefur mér vonir um að jafnvel þó að ég sé þannig sett núna að ég tilheyri ekki stjórnarliðinu, sem kallað er, fái þetta mál framgang.

Það er vissulega til umhugsunar sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði um stjórnarandstöðuna. Ég hef oft sagt það, bæði í mínum flokkshópi og annars staðar, að það, sem ég held að hafi hvað mest stuðlað að því að draga úr trausti og virðingu almennings á Alþ. og stjórnmálamönnum, sé einmitt hvernig menn snúast í skoðunum sínum, afstöðu og ákvörðunum eftir því hvorum megin þeir sitja við borðið, hvort þeir eru í stjórnarandstöðu eða í stjórnaraðstöðu. Þetta er öruggt mál að þyrfti að breytast ef íslensk stjórnmál eiga að ná þeirri festu og því trausti fólksins í landinu sem það þarf og við þurfum að njóta sem erum að fást við stjórnmál.

Ég verð nú að hryggja hv. þm. Stefán Jónsson með því, að litlar líkur eru til þess að ég gangi úr berginu og verði bergnumin á vinstri vængnum, þó að margt sé auðvitað gott og þarft sem andstöðuflokkarnir hafa á stefnuskrá sinni. Þegar allt kemur til alls viljum við auðvitað flest okkar í meginatriðum það sama; réttlæti til handa samborgurum okkar, jafnvægi í landinu, misræmi og glundroða sem lengst frá okkur. En þetta er stærra vandamál en svo að ég fari að gera því nánari skil.

Hv. 3. þm. Vesturl. drap á staðsetningu þessarar brtt. Hann benti á að hugsanlega ætti brtt. við lögin fremur heima í 9. gr. Sannleikurinn er sá, að upphaflega hafði ég sett hana þar inn, en fyrir ábendingu frá manni, sem ég tók mark á, breytti ég því og fór yfir í 7, gr. En ef einhver er hér úr fjh.- og viðskn., sem fær málið til umfjöllunar, er mér það að sjálfsögðu ekkert atriði í hvaða grein breytingin kemur inn. Ef það sýndist jákvæðara fyrir málið að setja hana inn í 9. gr. er það sannarlega mér að meinalausu. Það er annað atriði sem í uninni væri ástæða til að benda á í sambandi við þetta mál allt, þ.e. þann óeðlilega stóra hlut sem Reykjavík hefur í innflutningsversluninni. Lausnin hlýtur að hluta til að koma með því að flytja vöruna beint frá útlöndum til fleiri innflutningshafna á landinu — (StJ: Íhaldið mundi aldrei fallast á það.) — og stofna heildsöluverslanir úti um land. Þetta er góðu heilli komið á nokkurn rekspöl. Ég veit til þess í mínu kjördæmi, að þar er nú rekin á Ísafirði blómleg heildsöluverslun sem nágrannakaupmennirnir nota sér óspart. Að sjálfsögðu verður hagkvæmara að reka heildsöluverslunina með þeim hætti að koma henni ekki allri fyrir hér í Reykjavík, heldur dreifa henni eins mikið og unnt er um landið.

Það var annað atriði líka sem ég vildi aðeims minnast á í þessu sambandi. Það hefur lengi verið talað um það undanfarin ár að leggja söluskattinn, þetta vandræðabarn, niður og taka upp virðisaukaskatt. Þetta hefur hingað til ekki orðið nema orðin tóm. Það er eitt af þeim álitamálum sem koma til í sambandi við flutning þessa máls, sem mér hefur ekki tekist að finna fullnægjandi svar við, hvort þetta flutningsgjald kæmi hugsanlega undir virðisaukaskatt. Fróðir menn, sem ég hef spurt um þetta, hafa ekki verið vissir um hvort svo væri. En mér finnst að það þurfi engan veginn að hræða okkur frá því að hreyfa þessu máli og reyna að fylgja því eftir.

Ég vil eindregið taka undir það, sem hefur komið hér almennt fram, að þetta er fyrst og fremst réttlætismál fremur en það sé stórt fjárhagsmál. Og eftir þær undirtektir, sem málið hefur fengið við 1. umr. er ég bjartsýn um að farið verði um þetta mál nærgætnum, skilningsríkum höndum í hv. fjh.- og viðskn. og við komum málinu í gegn á þeim grundvelli að hér sé um réttlætismál að ræða.