19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð við þessa umræðu.

Ég hrökk allt í einu upp við það að vera kominn á framboðsfund í Vesturlandskjördæmi. Þessa sögu fengum við að heyra næstum því á hverjum fundi í síðustu kosningum. Það má vel vera að hún sé dagsönn. Ég skal ekki á þessum vettvangi draga það í efa. Þetta sýnir okkur vitanlega, þó að við drögum eitthvað frá, að hér er vandi á ferðum. Ég hygg að í þessum efnum séum við allir, hv. alþm., nokkuð miklir jafnaðarmenn — þ.e.a.s. við viljum jafna húshitunarkostnaðinn og viðurkennum að þetta er mikið byggðamál. Hitt er annað mál, að það eru kannske ekki allir sammála um hvernig á að lagfæra þetta. Það er hægt að gera með ýmsu móti. Þegar vitnað er í afstöðu manna til þessara mála verður hún ekki eingöngu skýrð mönnum í hag eða óhag eftir því hvernig atkv. féllu hér á næstsíðasta Alþ. um þessi efni. Þetta er miklu stærra mál en svo.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar á þessu stigi. Ljóst er að þessi mál eru öll mjög íhugunarverð. Ég dreg ekki í efa að við séum allir, hvar sem við erum búsettir á landinu, það miklir jafnaðarmenn að við viljum kryfja þessi mál rækilega til mergjar og finna á þeim þá lausn sem flestir geta við unað.