24.03.1980
Efri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, 2. þm. Reykn., að þau vinnubrögð, sem hér eru viðhöfð og hæstv. forseti vék að eru náttúrlega þess eðlis, að það er naumast hægt að þola þau. Ég vil benda á í sambandi við það sem kom fram hjá hæstv. forseta, að oft hefur það verið svo einmitt um mál eins og skattamál, alveg sérstaklega þegar verið er að fjalla um flókna skattstiga, að þá hefur einstökum nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. verið gerð grein fyrir slíkum málum, hvort sem þeir væru í stjórnarandstöðu eða fylgja ríkisstj., áður en slík mál voru lögð fram á Alþ. Hér er því náttúrlega ekki einasta brugðið út af venju með því, að málið er tekið með afbrigðum á dagskrá um leið og það er lagt fram, heldur líka þeirri venju, sem ég hygg hafa verið a.m.k. hin síðari ár, þegar ég hef átt sæti á Alþ., að þá hafa einstökum nm. í hv. fjh.- og viðskn. verið kynnt slík mál áður en þau hafa verið lögð fram. Ég vil því taka mjög undir gagnrýni hv. þm. Kjartans Jó­hannssonar í þessu efni.

Um þetta mál efnislega er örðugt að ræða við þær aðstæður sem það er lagt hér fram. Ég skal þó aðeins benda á það og undirstrika það rækilega, að bersýnilegt er að þetta mál er einn liður í því að þyngja skattbyrði á þjóðinni. Það er beinlínis sagt í grg. með frv., að talið sé að þessir skattstigar gefi ívið meiri innheimtan skatt en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og álagðir skattar verða miklu hærri en ráð er fyrir gert. Hæstv. ráðh. hefði átt að viðurkenna þetta, að hann er hér að leggja fram frv. sem gengur lengra í skattheimtu en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og er þó sú forsenda fyrir tekjuáætlun fjár­lagafrv., að allar þær viðbótarálögur, sem fyrri vinstri stjórn stóð að í sambandi við tekju- og eignarskatt, voru þar innifaldar.

Ég hef hér í höndunum áætlun frá Þjóðhagsstofnun sem gerir grein fyrir því, hvernig skattbyrði hefur breyst á undanförnum árum miðað við tekjur á greiðsluári. Þetta eru í heild tekju- og eignarskattar, útsvör, al­mannatryggingagjald, sjúkrasamlagsgjald, sjúkratrygg­ingagjald og fasteignaskattur. Þegar tölur þessar eru skoðaðar sést að nú þegar búið er að heimila — eða svo til búið að heimila 10% viðbótarálag á útsvar, og þegar þetta frv. er hér rætt, sem eins og stendur hér í grg. mun gefa ívið meiri innheimtan skatt, þyngja skattbyrðina á sviði tekjuskatts og eignarskatts, þá hefur þessi skatt­heimta hækkað í prósentum af tekjum greiðsluárs um nærri 4% frá því 1977, þ.e. 4% af brúttótekjum í land­inu, sem þýðir hvorki meira né minna en um 30 milljarða kr. á þessu ári.

Hér er ég með plagg fyrir framan mig. Það er frá Þjóðhagsstofnun. Hér stendur að á árinu 1980 séu brúttótekjur skattgreiðenda áætlaðar 800 milljarðar kr. Og það er sagt, að skattbyrðin á þessu ári verði yfir 14% af þessari upphæð, en hún var 10,6% 1977. Á þessum tölum geta menn ljóslega séð hvert stefnt er. Það er ekki nóg að menn hækki söluskatt og vörugjald, helst á hverju ári. Það er líka verið stórkostlega að þyngja þessa beinu tekju- og eignarskatta. Og svo langt er nú gengið, að það er að nálgast það met sem vinstri stjórnin setti 1972, en þá var þessi byrði ívið meiri en hún verður í ár.

Þetta þýðir það í raun og veru, að fimm manna fjöl­skylda þarf að horfast í augu við það nú á þessu ári, 1980, að greiða í þessa skatta sem ég nefndi áðan u. þ. b. 700–­800 þús. kr. meira en ef hún hefði greitt sama hlutfall af brúttótekjum 1977.

Ég sé að hæstv. ráðh. lyftir brúnum. Ég held að hann ætti að kynna sér hvað þarna hangir á spýtunni.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frv. í einstökum at­riðum. Það verður að sjálfsögðu skoðað í hv. fjh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Það er allt rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni um einstök atriði sem í fljótu bragði má lesa út úr þessu frv. En langalvarlegasta hliðin á frv. er þessi, að það er gegndarlaust á öllum sviðum, bæði í tekju- og eignarsköttum til ríkisins, í útsvarsinnheimtu og á öðrum sviðum skattheimtu, alltaf verið að spenna bogann hærra og hærra, fara dýpra og dýpra í vasa skattborgaranna, þannig að ríkið er þá að taka ráðstöfunartekjur af einstaklingunum, af heimilun­um og nota til misjafnlega góðra hluta. Þetta leiðir til þess, að í raun — fyrir utan þá kaup- og kjaraskerðingu sem gert er ráð fyrir að menn verði fyrir á þessu ári — er ríkið að stórauka þá raunverulegu kjaraskerðingu sem menn verða fyrir.