24.03.1980
Efri deild: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. er búið að fá mikla umr. bæði í hv. Nd., þar sem það hefur verið til umfjöllunar, og í fjölmiðlum og er það að vonum. Það, sem mesta umræðu og athygli hefur vakið, er breytingin á álagningarprósentunni vegna útsvars, þ.e. heimildin um 10% hækkun til viðbótar þeim 11 sem fyrir voru, þannig að sveitarfélögin gætu nú lagt 12.1% útsvar á brúttótekjur í stað hámarks 11%.

Nú geta allir verið sammála um það, að ekki veitir sveitarfélögunum, mörgum hverjum a.m.k., af að fá rýmkun á tekjumöguleikum, og helst ætti það að gerast með þeim hætti, að slíkar ákvarðanir væru ekki bundnar hámarki með lögum, heldur á valdi einstakra sveitar­stjórna hverju sinni. Það eru heimamenn sem best þekkja þarfir þegna sinna og vita hvar skórinn kreppir hverju sinni, og aðhaldið er heima í héraði. Vel rekin sveitarfélög fá umbun hjá kjósendum sínum á fjögurra ára fresti og illa rekin fá sinn dóm.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur boðað að hún ætli ekki að auka skattaálögur á þegnana, þvert á móti að stefna að skattalækkun. Það sýnist því nokkur þversögn í því, að á sama tíma stuðla stjórnarliðar að aukinni skattbyrði, eins og því miður er nú augljóst að fyrir liggur, bæði hvað varðar skattheimtu ríkissjóðs sjálfs og svo nú með þess­ari heimild til handa sveitarfélögunum, sem ég tel að hefði verið eðlileg og sjálfsögð á þann hátt, að þarna hefði ríkisstj. sýnt alvöru á bak við fyrirheitin og jafn­hliða því að heimila sveitarfélögunum hækkun álagning­arprósentu hefði verið dregið úr skattheimtu ríkisins. Þetta hefði ég talið eðlilega leið, þar til fyrir liggur niðurstaða úr könnun þeirri sem verið er að gera á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hæstv. félmrh. hefur lofað að muni ljúka á þessu ári. Þegar þeirri könn­un er lokið og niðurstöður fengnar verður hlutur sveit­arfélaganna væntanlega bættur, þannig að þau fái leiðréttingu mála sinna með auknu sjálfsforræði um staðbundin verkefni og að tekjustofnar fylgi verkefnun­um.

Ég ætla ekki að ræða frekar efnislega um frv. nú, þar sem tækifæri mun gefast þegar það kemur til félmn. þar sem ég á einnig sæti.