25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Mér var unnt í raun að falla frá orðinu eftir ræðu hv. síðasta þm., Þorv. Garð­ars Kristjánssonar. Aðalatriði málsins er auðvitað að þingið sjálft hefur samþykkt með atkvgr. að fresta stefnuræðu forsrh. og þess vegna verður hún ekki felld niður með úrskurði hæstv. forseta Sþ., heldur eingöngu með ákvörðun þingsins í heild. Ég veit að hæstv. forseta Sþ. er annt um heiður og veg Alþingis, og ég treysti honum vel í hans ábyrgðarmiklu stöðu og lýsi því enn fremur yfir, að ég er reiðubúinn til að fallast á þá ósk hæstv. forsrh. og hæstv. forseta Sþ. að fella niður stefnuræðu forsrh. En ég tel einsýnt að það skuli gert með atkvgr. hér á þingi, annað væri að skapa hættulegt fordæmi. Því vil ég eingöngu beina því til hæstv. forseta að hann taki sér umhugsunarfrest, hann má gjarnan sofa á þessu máli svo sem eina nótt, en t.d. á morgun eða hinn daginn léti hann fara fram atkvgr. og fengi fram vilja þingsins að þessu leyti.

Ég tel ekki rétt að blanda inn í þetta mál fyrirkomulagi á umræðum um stefnuræðu forsrh. og því síður að blanda inn í þetta mál framkvæmd á ákvæðum þingskapa um venjulegar eldhúsdagsumræður. Það er mál út af fyrir sig sem verður að leysa sjálfstætt. Efast ég ekki um að það sé unnt með sómasamlegum hætti.

Ég ítreka áskorun mína til hæstv. forseta í trausti þess að hann beri fyrir brjósti virðingu, heiður og sæmd þingsins.