20.12.1979
Neðri deild: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

9. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál á fundi sínum. Að vísu urðu þar ekki mjög ítarlegar umr. um málið, en um það hefur verið talað mikið áður og allir gera sér ljóst að þar sem þessu ári er alveg að ljúka er erfitt fyrir n. að breyta þessum brbl. og ekki annað að gera en að samþykkja frv., jafnvel þó að,menn hafi misjafnar skoðanir á ýmsum atriðum málsins. Ég held að menn séu sammála um að nauðsynlegt sé að þetta frv. fái afgreiðslu, þó að ýmsir nm. hafi sitthvað við ýmis efnisatriði frv. að athuga.

Í stuttu máli sagt náðist ekki samkomulag í n. Meiri hl. skilar nál. á þskj. 48, en að því standa Garðar Sigurðsson, Karvel Pálmason, Steingrímur Hermannsson og Páll Pétursson, og nál. hljóðar einfaldlega svona:

„Nefndin hefur rætt frv. á fundi sínum 19. des., og mælir meiri hl. n. með samþykkt frv. óbreytts.“