26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

116. mál, fjárlög 1980

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það má með sanni segja að fjárlagaafgreiðsla fari fram við óvenjulegar aðstæður nú á hinu háa Alþingi. Þrjú frv. til fjárlaga hafa í raun legið fyrir hv. fjvn. til athugunar og einungis rúmar tvær vikur síðan frv. það, sem hér er til umr. og afgreiðslu við 2. umr., var lagt fram. Fjvn. hefur því haft ærinn starfa. Er raunar útilokað að hún hefði geta búið þetta frv. undir 2. umr. með svo skjótum hætti ef ekki hefði þannig staðið á að n. hafði áður en hið stutta 101. löggjafarþing byrjaði rætt við alla sveitarstjórnarmenn í landinu sem vildu fá viðtalstíma við hana. Ég hygg að þetta sé mettími frá því að fjárlagafrv. er lagt fram og þar til efnt er til 2. umr.

Ég vil fyrir hönd okkar, sem erum í minni hl. n., þakka ágætt samstarf við formann og nm. við þessar óvenjulegu og erfiðu aðstæður. Við flytjum að venju með meiri hl. ýmsar till. á þskj., sem hér hafa komið fram, með venjulegum fyrirvara um að fylgja eða flytja brtt. Í því sambandi vil ég þó taka fram, að við flytjum ekki með meiri hl. till. til hækkunar á framlagi til Verðlagsstofnunar og tökum ekki ábyrgð á því hvernig ríkisstj. fór að því að finna 1800 millj. kr. til að bæta við framkvæmdaframlög á ýmsum sviðum, þar sem að okkar mati var um mjög svo undarlega „fjáröflun“ að ræða. Við unnum hins vegar að venju með meiri hl. að því að skipta þessum fjárhæðum sem gengu til ýmissa gagnmerkra mála, svo sem skólabygginga, hafna, sjúkrahúsa o.s.frv. Ég vil einnig fyrir hönd okkar í minni hl. þakka ritara n. og hagsýslustjóra fyrir umburðarlyndi í okkar garð og góða fyrirgreiðslu.

Það má með sanni segja, að í þessu frv. sé sami rauði þráðurinn og var í fyrsta fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar 1978. Þessi rauði þráður er stóraukin rekstrar- og millifærsluútgjöld ríkissjóðs. Munurinn er einvörðungu sá, að í þessu frv. er gengið mörgum skrefum lengra í útþenslu á ríkisfjármálunum og álagningu skatta en með fjárlagafrumvarpi vinstri stjórnarinnar 1979. Færa má rök að því að rekstrar- og millifærsluútgjöld í þessu frv. séu 40–50 milljörðum kr. hærri en verið hefði ef svipaðri stefnu væri fylgt og gert var með fjárlagafrv. 1978, og það hefur ekki staðið á afleiðingunum. Sú stefna að blása út rekstrar- og millifærsluútgjöld ríkissjóðs hefur haft í för með sér eftirfarandi:

1. Hallarekstur á ríkissjóði og vaxandi verðbólgu.

2. Skattahækkun ár frá ári og oft á ári.

3. Skerðingu markaðra tekjustofna og upptöku þeirra til almennra þarfa ríkissjóðs.

4. Niðurskurð á framlögum til sjóða atvinnuveganna og sjóða sem sinna eiga ýmsum félagslegum verkefnum.

5. Niðurskurð á raungildi framlaga ríkissjóðs til verklegra framkvæmda í höfnum, skólum, sjúkrahúsum, vegagerð o.s.frv.

Öllu þessu er fórnað vegna þess að gegndarlaust er bætt við nýjum útgjöldum á ríkissjóð, bæði með löggjöf og stjórnvaldsákvörðunum.

Um þverbak keyrði þegar vinstri stjórnin tók við 1978, en nú er gengið enn þá lengra og enn þá stærra skref í sömu átt fyrir þessa gegndarlausu útþenslustefnu í ríkisfjármálunum á rekstrar- og millifærsluútgjöldum ríkissjóðs er því fórnað að ríkissjóður er rekinn með halla ár eftir ár og magnar þannig verðbólguna. Því er fórnað að ráðstöfunarfé heimilanna er skert með aukinni skattheimtu. Því er fórnað að dregið er úr ráðstöfunarfé sjóða sem sinna eiga félagslegum viðfangsefnum. Því er fórnað að ráðstöfunarfé ríkissjóðs sjálfs til þess að ráðast í ýmsar framkvæmdir er skert og ráðstöfunarfé sjóða atvinnuveganna og sjóða, sem sinna eiga félagslegum verkefnum, minnkar í stórum stíl miðað við það sem lög segja fyrir um og þau framlög sem áður hafa verið lögð úr ríkissjóði af skatttekjum til þess að styðja þessa sjóði.

Ég held að það verði ekki nægjanlega undirstrikað hver undirrótin er að því að skattahækkun eftir skattahækkun dugir ekki til að reka ríkissjóð hallalaust. Það dugir ekki að skerða markaða tekjustofna, það dugir ekki að skera sífellt niður framlög til sjóða og það dugir ekki að skera niður framlög til ýmissa verklegra framkvæmda. Ég held að það verði aldrei of sterklega undirstrikað, að undirrótin að þessu er sú, að það er sífellt verið að þenja út rekstrar- og millifærsluútgjöld ríkissjóðs, sífellt verið að bæta nýjum pinklum á ríkiskassann, sífellt verið að fá honum ný verkefni með löggjöf og með stjórnvaldsákvörðunum.

Þó oft hafi sjálfsagt eitthvað bjátað á í ríkisfjármálunum á árum áður varð grundvallarstefnubreyting að þessu leyti þegar vinstri stjórnin tók við 1978. Þá var tekinn upp þráðurinn frá fyrri vinstristjórnarárum — sami rauði þráðurinn og ég hef rakið að framan. Gerðar voru margvíslegar ráðstafanir, m.a. margfaldaðar niðurgreiðslur á búvörum og rekstrarútgjöld ríkissjóðs þanin svo út að beinlínis var viðurkennt að stefnt yrði í verulegan greiðsluhalla á árinu 1978 þrátt fyrir geysilega auknar skattálögur sem þá var gripið til, m.a. afturvirka skatta.

Haldið var áfram á sömu braut með fjárlagafrv. 1979 og vinstri stjórnin hafði gert með efnahagsráðstöfunum um haustið. Frv. gerði ráð fyrir stórauknum ríkisumsvifum og gífurlegri hækkun rekstrar- og millifærsluútgjalda ríkissjóðs, svo að augljóst var að endar mundu ekki nást saman þrátt fyrir skattahækkun sem þá var ákveðin. Hæstv. þáv. fjmrh., Tómas Árnason, sagði, þegar hann mælti fyrir þessu frv. með úfblásin ríkis- og millifærsluútgjöld, orðrétt:

„Í fyrsta lagi, og það er höfuðeinkenni þeirrar stefnu sem fjárlagafrv. boðar, er gert ráð fyrir tekjuafgangi að upphæð 8.2 milljarðar kr: eða rúmlega 4% af útgjöldum fjárlaganna.

Í öðru lagi er reiknað með að úr ríkissjóði verði greiddir 4.3 milljarðar kr. upp í skuldir umfram það sem tekið kann að verða að láni. Skuldasöfnun ríkissjóðs verður að stöðva og hefja verður endurgreiðslu samningsbundinna lána.

Í þriðja lagi er það keppikefli ríkisstj. að ríkissjóður verði rekinn hallalaust fyrstu 16 mánuði starfsferils hennar. Það þýðir að sú skuld, sem stofnað var til vegna fyrstu efnahagsaðgerða á þessu hausti, verði greidd upp á næsta ári og ríkissjóður að auki í greiðslujafnvægi.“

En hvað gerðist? Útgjaldahlið fjárlaga reyndist stórlega vanáætluð vegna skefjalausrar útþenslustefnu í rekstrar- og millifærsluútgjöldum ríkissjóðs. Hæstv. fyrrv. fjmrh., Tómas Árnason, reyndi vissulega að klóra í bakkann. Hann tók markaða tekjustofna í ríkissjóð í fyrsta sinn, hann skerti framlög til atvinnuvegasjóða og sjóða sem hafa ýmis félagsleg verkefni á sinni könnu og framkvæmdaframlög, og hann lagði nýja skatta ofan á þá skatta, sem áður höfðu verið á lagðir, og skatta, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. En allt kom fyrir ekki. Ríkissjóður var rekinn með halla, skuldin frá fyrra ári var ekki greidd og staða ríkissjóðs við Seðlabankann og helstu lánardrottna varð 13–14 milljörðum kr. verri en fjárlög hans höfðu gert ráð fyrir samkv. skýrslu sem ríkisendurskoðun hefur nýlega gefið út.

En áfram skal halda út í sömu ófæruna, lengra út í fen aukinna ríkisumsvifa, skattahækkana, hallarekstrar á ríkissjóði og vaxandi verðbólgu. Þetta frv. núv. hæstv. ríkisstj., fyrsta frv. til fjárlaga, felur slíkt því miður í sér. Það felur í sér alla skattbyrði vinstri stjórnarinnar og 20–25 milljarða skattauka til viðbótar. Það felur í sér tvöfalda skerðingu markaðra tekjustofna frá því, sem vinstri stjórnin ákvað, og miklu meiri skerðingu á framlögum til sjóða atvinnuveganna og sjóða, sem sinna ýmsum félagslegum viðfangsefnum, og til verklegra framkvæmda en nokkru sinni fyrr.

Hallareksturinn á ríkissjóði undanfarin tvö ár stafar ekki af því, að ekki væri bætt sköttum á þjóðina. Sama má segja um árið í ár. Eins og ég sagði áðan bætti þetta fjárlagafrv. við alla skattbyrði vinstri stjórnarinnar yfir 20 milljörðum kr. Í fyrrahaust var söluskattur hækkaður um 2% og vörugjald hækkað. Þessar hækkanir voru þá í gildi í nokkra mánuði og gáfu ríkissjóði 2.7 milljarða kr. í tekjur. En á þessu ári munu þessar skattahækkanir leggja 18 milljarða kr. skattbyrði á þjóðina samkv. tekjuáætlun frv. og bæta því við skattbyrðina frá fyrra ári 15 milljörðum kr. Boðaður er orkuskattur, sem leggur á almenning 4–5 mill jarða kr., og auðsætt er á frv. um skattstiga, sem lagt hefur verið fram, að tekju- og eignarskattar muni verða hærri en tekjuáætlun frv. segir til um.

Með þessu er þó ekki öll sagan sögð. Eins og kunnugt er er ákveðið í raun að leyfa sveitarfélögum að leggja 10% ofan á útsvar. Heildarskattbyrði beinna skatta: tekju-og eignarskatta, útsvara, sjúkratryggingagjalds og fasteignaskatta, mun því aukast verulega á þessu ári.

Þjóðhagsstofnun hefur látið okkur fjvn.-mönnum í té töflu yfir álagningu þessara skatta og sýnir hún athyglisverða þróun á undanförnum árum. Ef miðað er við hlutfall af brúttótekjum greiðsluárs hefur þessi skattbyrði aukist um nálægt 4% af öllum brúttótekjum í landinu frá árinu 1977. Þjóðhagsstofnun áætlar brúttótekjur framteljenda á árinu 1980 800 milljarða kr., og hún áætlar að álagðir beinir skattar á þessar brúttótekjur verði 113.7 milljarðar kr., og er þá miðað við að einungis helmingurinn af útsvarsheimildinni verði notaður. Ef íslenskir skattborgarar hefðu greitt sama hlutfall af þeim brúttótekjum, sem þeir hafa í ár, og þeir gerðu 1977 mundu þeir greiða í þessa skatta: tekjuskatt, útsvar, fasteignaskatta og sjúkratryggingagjald, 83 milljarða kr. eða rúmlega 30 milljörðum kr. minna en þeir gera miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar í ár. Samkv. þessum upplýsingum hafa sem sagt beinir skattar þyngst á þjóðinni frá 1977 um 30 milljarða kr. miðað við verðlag ársins í ár. Þessir beinu skattar voru þyngstir á vinstristjórnarárunum 1972. Þá komst hlutfall þeirra af brúttótekjum á greiðsluári upp í 15.4%. Hér er því sama stefnan á ferðinni og var þá.

Nákvæmlega sama þróun hefur átt sér stað á sviði óbeinna skatta í ríkissjóð. Söluskattur hefur verið hækkaður um 2%. Það leggur 10.3 milljarða kr. á almenning. Hækkun vörugjalds leggur 7.7 milljarða kr. á skattborgarana. Gjald á ferðalög til útlanda leggur í ár 1.7 milljarða kr. á almenning, nýbyggingargjald 250 millj. kr., skattur á verslunarhúsnæði 1700 millj., aðlögunargjald 1840 millj., hækkun á verðjöfnunargjaldi raforku 1220 millj., hækkun skatta á bensín umfram verðlagshækkanir 10.1 milljarð kr. og boðaður orkuskattur 4–5 milljarða kr. Samtals nálgast þetta að vera 40 milljarðar kr. Á móti þessu vegur að söluskattur af matvörum var felldur niður haustið 1978 og helst sú ráðstöfun enn og tollar hafa verið lækkaðir vegna aðildar að EFTA. En þótt þessar upphæðir séu dregnar frá er byrði af óbeinum sköttum 25 milljörðum kr. meiri á þessu ári en verið hefði að óbreyttri álagningu fyrir hækkanir 1978.

Í þessu skattafargani er orkuskatturinn kapítuli út af fyrir sig.

Úr þessu frv. eru máðar þrjár stórar tölur sem áður hafa verið í fjárlögum. Hér er um að ræða styrk til að kynda hús manna með olíu, olíustyrkurinn svonefndi, beint framlag úr ríkissjóði sem verið hefur notað til að hraða hitaveituframkvæmdum og beint framlag úr ríkissjóði til að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum. Hér er um bein framlög að ræða úr ríkissjóði sem numið hefðu 4–5 milljörðum kr. á verðlagi ársins í ár. Þessum fjármunum hefur verið varið til ýmissa rekstrar- og millifærsluútgjalda ríkissjóðs. Í stað þeirra á að leggja á nýjan orkuskatt og hann tekinn úr fjárlögum og varið utan fjárlaga til að styrkja fólk sem kyndir hús sín með olíu.

Ég hygg að ekki sé um það neinn ágreiningur á hinu háa Alþingi, að þetta fólk þurfum við að styrkja, það þurfi að jafna kyndikostnaðinn í landinu. Fólk, sem notar olíukyndingu, hefur orðið fyrir sérstöku áfalli vegna orkukreppunnar í heiminum. Það er því í alla staði sanngjarnt og eðlilegt að koma til móts við það fólk þótt best sé að hraða framkvæmdum í hitaveitum og hraða uppbyggingu dreifikerfa í sveitum til þess að það geti sem fyrst notað innlendan orkugjafa til upphitunar.

Þessi aðferð núv. hæstv. ríkisstj. er forkastanleg. Það eru í fyrsta lagi mörg skref stigin aftur á bak í stjórn ríkisfjármála með því að taka slíkan skatt út úr ríkisfjármálum og ráðstafa honum utan fjárlaga. Nóg er nú samt um óstjórnina í ríkisfjármálunum þó Alþ. geti haft heildaryfirsýn yfir þau með gerð fjárlaga og lánsfjáráætlunar hverju sinni.

Orkuskatturinn sjálfur hlýtur í eðli sínu að koma niður á öllum neytendum, allri þjóðinni, vegna þess að hann fer með einum eða öðrum hætti út í verðlagið og leggst því sárast og þyngst á þá sem minnst mega sín.

Það er athyglisvert, að samkv. svonefndum Ólafslögum, lögum um stjórn efnahagsmála, mun hæstv. ríkisstj. geta lagt þennan skatt á a.m.k. að hluta án þess að hann komi fram í verðbótavísitölu, án þess að hann mælist þar sem kjaraskerðing og verði bættur í kaupi. Ég efast ekkert um vilja hæstv. núv. ríkisstj. til að taka mark á Ólafslögum þegar svona stendur á, þó hún geri það yfirleitt ekki. T.d. segir svo í nefndum Ólafslögum að lánsfjáráætlun skuli lögð fram með fjárlagafrv. Það ákvæði hefur núv. hæstv. ríkisstj. virt algerlega að vettugi eins og fleira í þeim lögum.

Það er mín skoðun að það sé fullkomið ábyrgðarleysi — og mætti gjarnan nota það fræga orð siðleysi, að núv. hæstv. ríkisstj. mái þau útgjöld úr fjárlagafrv. sem ég nefndi áðan, sem áttu að ganga m.a. til að styrkja þá sem kynda hús sín með olíu, en ætla síðan að leggja á almennan skatt til að sinna þessu réttlætismáli. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að endurskoða afstöðu sína, og ég skora á hana að falla frá því að leggja á orkuskatt og ganga heldur í að lækka ríkisútgjöldin þannig að greiðsla olíustyrks geti rúmast innan þess ramma sem fjárlagafrv. setur. Við, sem skipum minni hl. fjvn., erum reiðubúnir til að ganga til samstarfs við stjórnarflokkana, við meiri hl. fjvn., um að finna leið til að draga þannig úr útgjöldum ríkissjóðs að eðlilegur olíustyrkur geti rúmast innan þess fjárlagaramma sem settur hefur verið.

Sú skattstefna, sem ég hef lýst hér að framan, hefur að sjálfsögðu skert ráðstöfunartekjur heimilanna feiknalega. Ráðstöfunartekjur heimilanna eru teknar í æ stærri stíl til þess að standa straum af útþenslu ríkisútgjaldanna, rekstrar- og millifærsluútgjalda ríkissjóðs. En það er fleira sem kemur til. Ríkisstj. tók upp á því. 1978 að skerða ýmsa markaða tekjustofna ríkissjóðs — tekjustofna sem ganga áttu til ýmissa þarfa samkv. lögum. Sú skerðing var þó hreinn barnaleikur hjá því sem gerst hefur með þessu fjárlagafrv. Við 1. umr. gerði ég grein fyrir þessum áformum ríkisstj. og að þau væri í raun miklu stórfelldari en kemur fram í grg. frv. Ég skal ekki fjölyrða mikið um það frekar. Þó vil ég í þessu sambandi minna á þrennt.

Frv. gerir ráð fyrir að taka af launaskatti og öðrum mörkuðum tekjum, sem ganga eiga í Byggingarsjóð ríkisins, 3.8 milljarða. Það gerir ráð fyrir að taka til almennra þarfa ríkissjóðs 372 millj. af erfðafjárskatti. Og það gerir ráð fyrir að taka til almennra þarfa ríkissjóðs 518 millj. af bifreiðaskatti. Eins og kunnugt er gengur launaskattur og ýmsir markaðir tekjustofnar til Byggingarsjóðs ríkisins til að lána í íbúðabyggingar o.fl., og Byggingarsjóði ríkisins er ætlað samkv. málefnasamningi ríkisstj. aukið hlutverk. Út af þessari skerðingu hefur húsnæðismálastjórn gert sérstaka ályktun og vil ég lesa hana hér, með leyfi forseta:

„Samkv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1980, sem nú er til meðferðar í hv. Alþingi, er gert ráð fyrir verulegri skerðingu á lögbundnum tekjustofnum til húsnæðismála, sem markaðir eru í lögum Húsnæðismálastofnunar ríkisins frá 1970. Þarna er m.a. um að ræða tekjustofna sem ákveðnir voru í samráði við aðila vinnumarkaðarins til eflingar íbúðarhúsabyggingum, m.a. á félagslegum grundvelli. Sú skerðing á mörkuðum tekjustofnum, sem fram kemur í fjárlagafrv., nemur um 35% eða 3.8 milljörðum kr. Ljóst er að ef af þessari skerðingu verður getur það haft mjög alvarleg áhrif á stöðu Byggingarsjóðs ríkisins því að þessir tekjustofnar hafa stóraukið eigið fé sjóðsins og gert honum mögulegt að halda uppi lögbundinni lánastarfsemi til hinna ýmsu þarfa húsnæðismála. Húsnæðismálastjórn væntir þess, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. íhugi vandlega þetta mál áður en endanleg ákvörðun verður tekin um stórfelldan niðurskurð á mörkuðum tekjustofnum Byggingarsjóðs, sérstaklega þegar til þess er litið að stöðugt er verið að bæta nýjum verkefnum á sjóðinn á sviði lánveitinga.“

Í málefnasamningi ríkisstj. er, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir að bæta því verkefni á Byggingarsjóð ríkisins að hann veiti aukin lán til leiguíbúðabygginga og til bygginga verkamannabústaða m.a., þannig að það sýnist vera full ástæða fyrir samþykkt húsnæðismálastjórnar.

Erfðafjárskatturinn, sem er skertur svo harkalega að tekinn er meira en helmingurinn af honum í ríkissjóð, hefur áður runnið til uppbyggingar endurhæfingarstöðva fyrir öryrkja og hann hefur lánað til elliheimila.

Bifreiðaskatturinn á að ganga til Vegasjóðs. Hann hefur aldrei áður verið skertur og var ekki skertur — og það er athyglisvert — í frv. hæstv. ráðh. Tómasar Árnasonar, en hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds, fyrrum hæstv. samgrh., telur sér fært að skerða þennan tekjustofn Vegasjóðs í fyrsta sinn um hvorki meira né minna en 518 millj. kr.

Eitt þeirra fangaráða, sem vinstri stjórnin og núv. hæstv. ríkisstj. hafa gripið til til að standa undir gegndarlausri útþenslustefnu á ríkisútgjöldunum er að skerða lögbundin framlög til ýmissa sjóða. Ég gerði einnig grein fyrir þessu í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga og skal ekki fjölyrða um þetta mál í heild sinni, en hér er um hvorki meira né minna en 5.7 milljarða kr. að ræða. En ég vil gera að umtalsefni nokkur atriði í þessu sambandi.

Fyrir Alþ. liggur frv. um Bjargráðasjóð og þar er Bjargráðasjóði ætlað nærri 200 milljónum kr. meira en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að fari í framlög til hans. Nú vita flestir hv. þm. að Bjargráðasjóður hefur mjög erfið vandamál á sinni könnu um þessar mundir, ekki síst í kjölfar þess mikla harðæris, sem orðið hefur í landbúnaði, og einnig vegna tjóna, sem urðu af völdum hafíss. Vandséð er því hvernig sú stefna, sem fram kemur í þessu frv. gagnvart Bjargráðasjóði, fær staðist.

Þá er Framkvæmdasjóður öryrkja, sem er nýstofnaður sjóður, skertur í frv. frá því, sem lög gera ráð fyrir, um 445 millj. kr. Ofan í kaupið er ekkert framlag til Styrktarsjóðs vangefinna, sem var í fyrra 150 millj. kr. og er ætlast til að starfi áfram þrátt fyrir lögin um Framkvæmdasjóð. Þótt fjvn. hafi hækkað örlítið framlag til Framkvæmdasjóðs öryrkja er augljóslega um stefnubreytingu að ræða í málum þess fólks sem þarna um ræðir.

Síðast en ekki síst má minna á Byggingarsjóð verkamanna af öllum sjóðum. Framlag hans er skert um 67 millj. kr. miðað við það sem lög gera ráð fyrir, en þó er ætlunin að gera sérstakt átak í byggingu verkamannabústaða samkv. málefnasamningi ríkisstj. Það er athyglisvert að síðustu ár hefur það orðið svo, að framlög til framkvæmda í landinu hafa orðið að afgangsstærð í fjárlagagerðinni. T.d. var það svo, að 1977 voru fjárframlög til framkvæmda 23.4% af fjárlögum, en samkv. þessu frv. eru þau einungis 16.5%. Þetta segir einnig sína sögu í sambandi við það sem ég hef hér talið áður.

Þá vil ég gera að umtalsefni nokkur atriði, eftir að hafa farið orðum um meginstefnu frv.

Fjvn. var mikill vandi á höndum þegar skipta átti þeirri upphæð sem ætluð var til sjúkrahúsa og heilsugæslubygginga í landinu. Hún fékk í hendur lista frá fjárlaga- og hagsýslustofnun og heilbrrn. sem sýndi að þeim 2.2 milljörðum, sem þar voru til ráðstöfunar, var í raun búið að ráðstafa með verksamningum og bindandi ákvörðunum frá fyrra ári. Í þennan lið kom nokkurt viðbótarfjármagn, en ég hygg að það sé víða svo, að verk gangi seint og illa fram og húsin standi hálfköruð í þessum málaflokki. Ástæðan fyrir þessu er sú, að það hefur verið byrjað á allt of mörgum verkefnum í einu til að hægt sé að sinna þeim innan þess ramma sem hverju sinni hefur verið markaður í þessum málaflokki. Það tókst ekki nú frekar en fyrri daginn að fá fram þá stefnu, að ekki yrðu settar af stað nýjar framkvæmdir á þessu sviði meðan verið væri að ljúka því sem komið væri á stað og væri í raun víða svo að nálgaðist neyðarástand að ekki kæmist í gagnið.

Ég vil nefna eitt mál, sem hefur verið mikið brennandi mál fyrir okkur þm. Norðurl. e. í þessu efni, en það er sjúkrahúsið á Akureyri. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir að taka vel í það að tengibyggingu þá, sem um ræddi í máli frsm. n., megi bjóða út á þessu ári. Hún er forsenda þess að hægt sé að nýta þær miklu framkvæmdir sem þar hefur verið ráðist í síðustu árin, en á Akureyri hefur í raun sáralítið verið gert á 25 ára tímabili í því að laga aðstöðuna í Fjórðungssjúkrahúsinu og má segja að þar sé að skapast algert neyðarástand. Ég þakka fjvn. fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Er það nú heimamanna að útvega fé til þess að þetta verkefni geti gengið eðlilega fram, en það skortir á 160–200 millj., miðað við fjárveitingu, að hægt sé að vinna þannig að unnt verði að taka allt húsnæðið í notkun á árinu 1981.

Í framhaldi af þessu vil ég minna svolítið á nokkur önnur einstök mál og byrja á málefnum iðnaðarins.

Í frv. er sérstaklega talað um að málefni iðnaðarins séu tekin föstum tökum og þar sé mörkuð iðnaðarstefna. Eins og hv. þm. er kunnugt var lagt á í fyrra sérstakt tímabundið aðlögunargjald sem átti að ganga til iðnaðarins. Hæstv. fjmrh., sem mælti fyrir því frv., sagði orðrétt, hann var þá hæstv. ráðh. Tómas Árnason: „En tekjum af gjaldinu á árinu 1980 verði hins vegar ráðstafað sérstaklega á fjárlögum til eflingar iðnþróun.“ — Nú er það svo, að þetta fjárlagafrv. ber með sér að einungis 850 millj. kr. af þessu fé á að verja til iðnþróunar á þessu ári. Hitt ætlar ríkissjóður að taka í hítina, og það kemur ekkert fram um hvort ríkissjóður hyggst inna það fé af hendi síðar. Hér er í raun um að ræða að ríkissjóður ætlar að taka til almennra þarfa tæpan milljarð kr. af tekjum af þessu gjaldi í ár og ráðstafa því ekki til iðnaðarins. Við höfum því, þremenningar í fjvn., flutt till. um breytingu á 4. gr., sem kemur fram í sérstakri brtt. á þskj. 236, og sú brtt. er einfaldlega að ríkisstj. standi við loforð ráðh. um að þessi sérstaka skattlagning verði notuð til eflingar iðnaðinum.

Ég get í viðbót við þetta upplýst að þetta gjald var lagt á í nokkra mánuði í fyrra og af því var um áramót óráðstafað 386 millj. kr., þannig að í raun mundi ríkissjóður halda af fé, sem lofað var að nota til iðnþróunar, 1376 millj. kr. ef frv. verður samþ. óbreytt og till. okkar ekki sinnt í þessum efnum.

Ég held að flestir hv. þm. þekki aðstöðu iðnaðarins og alveg sérstaklega ýmissa útflutningsgreina hans og þeirra greina sem búa við að þetta gjald veitir þeim ekki vernd. Fyrrv. hæstv. ríkisstj., ríkisstj. Alþfl., greiddi þessum iðngreinum fé til að bæta upp svo kallað „uppsafnað óhagræði“, sem nefnt hefur verið af hálfu forráðamanna iðnaðarins, en því miður hefur núv. hæstv. ríkisstj. ekki séð sér fært að halda áfram þeirri stefnu. Þessi till. er flutt til þess að ríkisstj. standi við það sem ráðh. hafa áður lofað, að þetta fé renni til iðnaðarins. Við lítum svo til, að með þessu séum við ekki að gera annað í raun en benda á að það er algerlega útilokað að forráðamenn ríkissjóðs hagi sér eins og gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrv. að þessu leyti. Ég minnist þess ekki að ég hafi áður, síðan ég kom í fjvn., flutt brtt. við fjárlög, en nauðsyn brýtur lög og ég flyt þessa till. ásamt félögum mínum.

Þá vil ég koma að vegamálunum. Það er í raun svo, að mörgum málum er ýtt til lánsfjáráætlunar samkv. grg. í frv. Það er svo um vegamál, orkumál og ýmis fleiri atriði. En ég tel mig knúinn til að ræða hér um vegamálin eins og þau birtast í frv., því að svo er brugðið út af markaðri stefnu í vegáætlun með þessu frv. að það gegnir nánast furðu að hæstv. fjmrh. skuli þannig bregðast við þeirri stefnu sem hann sjálfur markaði á Alþ. með vegáætlun fyrir nokkrum mánuðum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að sama krónutala sé til vegamála og gert er ráð fyrir í vegáætlun. Vegagerðarmenn segja okkur í fjvn. að það skorti á 56% til þess að fé til nýbygginga haldi raungildi sínu og 61/2 milljarð kr. vanti upp á til þess að hægt sé að framkvæma þá vegáætlun sem hæstv. fjmrh., þáv. samgrh., fékk samþykkta hér á Alþingi.

Þetta kemur fram með ýmsum hætti. Það er t.d. svo, að skerðing bifreiðaskatts er 518 millj. kr., en hann á að ganga í.Vegasjóð, og síðan er ákveðið með þessu fjárlagafrv., sem aldrei hefur gerst áður, að ekki verði lögð króna úr ríkissjóði til Vegasjóðs. Framlag ríkissjóðs til Vegasjóðs 1978 var 1500 millj. kr. Miðað við verðlag í dag ætti það að vera 3.1 milljarður kr. En það er fleira við þetta að athuga. Á sama tíma sem þetta er gert er ætlunin að hækka bensínskatt, eins og fram hefur komið í umr. á Alþ. og kom fram í gær. Álögur á bensín eru áætlaðar 29 milljarðar kr. í þessu frv. samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, en þessar álögur námu rúmum 9 milljörðum 1978 og nemur þetta 10 milljörðum kr. umfram verðbreytingar á þessu tímabili. Þessar tölur eru mjög athyglisverðar ef það er skoðað að á árinu 1978 fóru 49% af álögum á bensín í Vegasjóð, en núna fara 62% í ríkissjóð og aðeins 38% í Vegasjóð. Þannig er nú staðið að því að framkvæma það sem Alþ. samþykkti að till. hæstv. samgrh. fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Það er sem sagt stórlega þyngd skattbyrðin á umferðina, en á sama tíma gert ráð fyrir að skerða framlög til veganna eins og ég hef hér rakið.

Ég held að við Íslendingar séum að því leyti til komnir út í ófæru í vegamálum, að það er margsannað mál að við getum sparað hundruð millj. ef ekki milljarða með því að gera átak í vegamálum, t.d. að leggja á bundið slitlag þar sem umferð er mest. Við spörum þar bæði fyrir bifreiðaeigendur og líka í vegaviðhaldi. Við verðum því með einhverjum hætti að koma okkur út úr þessum vítahring. Það verður ekki gert með því að standa þannig að þessum málaflokki eins og ég hef tíundað. En þetta er ein afleiðingin af því, sem ég hef verið að ræða aðallega, hvernig menn hafa staðið að því að þenja út rekstrarútgjöld ríkissjóðs að undanförnu. Þá kemur þetta jafnvel niður á málum eins og vegamálunum.

Herra forseti. Þetta fjárlagafrv. mun reynast frv. að verðbólgufjárlögum, ekki síður en frv. fyrir 1979. Í fjárlagafrv., sem Tómas Árnason lagði fyrir Alþ. í haust, var gert ráð fyrir að raunverulegur greiðsluafgangur yrði 8.6 milljarðar kr. Var ætlunin að sú upphæð yrði greidd í Seðlabankann sem afborgun af yfirdráttarskuld þar, sem nú er orðin nálægt 30 milljörðum kr. Þetta var talið höfuðatriði fjárlagastefnunnar. Í þessu frv. er einvörðungu gert ráð fyrir að greiða 3.6 milljarða í Seðlabankann, 5 milljörðum hefur verið ráðstafað í útþenslu ríkisbáknsins og greiðsluafgangurinn á pappírnum samkv. frv. því 3.6 milljarðar. Þessi ráðstöfun ein út af fyrir sig mundi gera ríkisfjármálin að bitlausu vopni gegn verðbólgu, þótt frv. væri raunsætt að öðru leyti, og er því óafsakanleg við þær aðstæður sem við búum nú við í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er fjöldamargt í þessu frv. sem er vanáætlað í útgjöldum og tekjuáætlunin er teygð að ýmsu leyti. T.d. er gert ráð fyrir því í forsendum tekjuáætlunarinnar að áfengi og tóbak hækki á ákveðnum dögum á árinu 1980. Sem dæmi um hversu útgjaldahlið frv. er óraunsæ má minna á að víða í grg. er sagt að frestað sé að taka á málum þar til lánsfjáráætlun verður gerð. Þar má m.a. minnast á ýmis útgjöld til orkumála og vegamála. Í frv. vantar upphæðir til að greiða útgjöld vegna stjfrv., sem þegar liggja fyrir Alþ., um fæðingarorlof t.d. og Bjargráðasjóð. Gert er ráð fyrir að frv. um fæðingarorlof kosti ríkissjóð 1 milljarð á árinu, ef samþ. verður. Menntmrn. álítur að í frv. vanti 1550 millj. kr. til rekstrarkostnaðar ýmissa skóla, og stjórn ríkisspítalanna telur að 700–800 millj. skorti á útgjaldaáætlun frv. til rekstrar ríkisspítalanna á árinu. Þessu til viðbótar ákvað ríkisstj. fyrir skömmu að hækka útgjöld frá frv. til ýmissa framkvæmda um 1800 millj. kr. og í því skyni að auka spariskírteinaútgáfu um 800 millj. og lækka óviss útgjöld um 200 og aðra fjárlagaliði um 800 millj. kr. Allt er þetta á sömu bókina lært og eykur þenslu í ríkisfjármálum. Því er ljóst að ríkissjóður mun á árinu 1980 verða rekinn með miklum greiðsluhalla og verka sem olía á eld verðbólgunnar.

Í þessu frv. er t.d. ekkert tekið á því, að samkv. skýrslu ríkisendurskoðunar skuldaði ríkissjóður um áramót ýmsum aðilum verulegar upphæðir, samtals 4 milljarða 179 millj. kr. Þar voru t.d. ógreidd framlög til mennta- og kennaraskóla 203 millj., Aflatryggingasjóðs 280 millj., Fiskveiðasjóðs 513 millj., Byggingarsjóðs ríkisins 2023 millj., rekstrar sjúkrahúsa 353 millj. og olíustyrkur ógreiddur úr ríkissjóði um áramót var 262 millj. kr. Ótalið er að ríkissjóður mun skulda Tryggingastofnun ríkisins 7 milljarða kr.

Þannig er því miður um þetta frv., að það er algerlega óraunsætt eins og fyrra frv. vinstri stjórnarinnar fyrir 1979, og eru allar líkur á að það fari eins og í þeirri sjóferð.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. munum ekki gera einstakar till. til breytinga á frv. til lækkunar, enda kæmi ekki annað til greina að okkar mati en grundvallarstefnubreyting. Frv. gengur þvert á stefnumið Sjálfstfl. í veigamiklum atriðum og er því allri ábyrgð á gerð fjárlaga lýst á hendur ríkisstj. og stuðningsmanna hennar. Við vörum eindregið við þeim vinnubrögðum sem nú hafa verið tekin upp og lýsa sér í því að veigamiklir útgjaldaliðir eru afgreiddir utan fjárlaga. Eitt af meginmarkmiðum fjárlaganna er einmitt að hafa á einum stað yfirsýn yfir öll svið ríkisfjármálanna.

Þá er þess að geta, að við munum fyrir okkar leyti greiða fyrir því að fjárlög verði afgreidd fyrir páska. Það er þó því skilyrði bundið að lánsfjáráætlun liggi fyrir í tæka tíð. Ég hef áður vitnað til þess, að lög mæla svo fyrir að lánsfjáráætlun skuli lögð fram með fjárlagafrv. Lánsfjáráætlun var fyrst gerð 1976 fyrir tilstuðlan þáv. fjmrh. Matthíasar Á. Mathiesen. Þá var lánsfjáráætlun lögð fram fyrir 3. umr. um fjárlagafrv. 1977 var svo einnig og 1978, en þetta var hins vegar þannig framkvæmt, eftir að vinstri stjórnin tók við, að lánsfjáráætlun var ekki samþykkt fyrr en 16. maí 1979 eða nærri hálfu ári eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt. Við teljum að það sé óforsvaranlegt að standa að afgreiðslu fjárlaga öðrum kosti en fá að sjá þá mikilvægu þætti sem felast í lánsfjáráætluninni. Hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason kallaði frv. að lánsfjáráætlun frv. að lánsfjárlögum og er það réttnefni hjá honum. Við teljum að það verði ekki hægt að standa eðlilega að afgreiðslu fjárlaga öðruvísi en lánsfjáráætlun liggi fyrir. Það skulu vera mín lokaorð.