27.03.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

116. mál, fjárlög 1980

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að ríkisstj. stefni að því að minnka framkvæmdamátt vegáætlunar frá því sem Alþ. hafði áður ákveðið. Enginn vafi leikur á því, að bættar samgöngur hafa hvort tveggja í för með sér fjárhagslegan ávinning fyrir þjóðina í heild og færa saman byggðina, auka þannig réttlæti í þjóðfélaginu og eru eitt hið mesta hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Jafnframt liggur fyrir að hæstv. forsrh. barðist undir því merki fyrir síðustu kosningar að gera mikið átak í vegamálum. Til þess að hjálpa honum til að koma þessu fyrirheiti fram segi ég já.