31.03.1980
Neðri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

135. mál, orkujöfnunargjald

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hér mun vera til umr. frv. til l. um orkujöfnunargjald og mun ég halda mig við það, þótt þeir, sem hér hafa talað af stjórnarandstöðunnar hálfu, hafi ekki gert það. Ég vil gera grein fyrir afstöðu Framsfl. til þessa gjalds.

Ég vil leggja á það ríka áherslu, að Framsfl. styður eindregið að leitað sé leiða til að jafna meira en gert hefur verið þann gífurlega ójöfnuð sem í því felst að hita upp annars vegar með olíu og hins vegar með hitaveitu, einkum á þéttbýlissvæðinu hér suðvestanlands. Við höfum í því sambandi lítið mjög á orkuskatt, sem tillaga hefur verið gerð um, og m.a. liggur hér fyrir frv. frá hv. Alþfl.-mönnum um slíkan orkuskatt sem felur í sér verulega skattlagningu á þjóðina, eins og fram kom í orðum hv. síðasta ræðumanns, þótt hann telji Alþfl. í hinu orðinu ekki skattlagningarflokk. Við höfum skoðað þennan orkuskatt mjög vandlega, og ég verð að segja að við höfum horfið frá honum við nánari athugun. Skal ég nefna örfá atriði sem einkum hafa ráðið því.

Í orkuskatti er gert ráð fyrir að leggja á olíu, bæði gasolíu og svartolíu til útgerðar, 7–10 kr. á hvern lítra gasolíu og 7–10 þús. á hvert tonn svartolíu. Þetta samsvarar um það bil 2% hækkun á fiskverði, ef bæta á útgerðinni þennan gjaldaauka. Ég held að menn geti flestir verið sammála um að það er vægast sagt undarleg ráðstöfun að leggja slíkt á útgerðina til að greiða niður upphitunarkostnað í landi, þótt gott sé það málefni út af fyrir sig, á sama tíma og olía til útgerðar er seld á mjög svo miklu lægra verði víða um lönd og orðið keppikefli, þó að það sé ekki nema af þeirri ástæðu, að sigla og geta náð í ódýrari olíu. Ég hygg, að slíkur skattur væri óþekktur nokkurs staðar. Þetta er ein meginástæðan fyrir því, að við lögðumst gegn slíkum skatti. Og ég get bætt því við, að ég hygg að mönnum muni jafnframt vera ljóst að hækkun fiskverðs um 2% yrði ekki borin bótalaust af fiskvinnslunni eins og nú er ástatt.

Þá sýnist okkur framsóknarmönnum einnig vafasamt að leggja gjald á bensín til niðurgreiðslu á upphitunarkostnaði á sama tíma og mjög er gagnrýnt, og vissulega að mörgu leyti með réttu, að aðeins hluti af opinberum gjöldum á bensíni rennur til vegagerðar þar sem þörfin er ákaflega mikil. Til að standa við þá vegáætlun að raungildi, sem samþykkt var hér fyrir ári, þarf hátt í 7 milljarða viðbótarfjárútvegun. Því hygg ég að það yrði gagnrýnisvert að leggja gjald á bensínið í þessu skyni, á sama tíma og Vegasjóður er sveltur eða a.m.k. þörf hans miklu meiri en fullnægt verður með þeim mörkuðu tekjustofnum sem til hans renna nú.

Þá vil ég segja að okkur hefur að sumu leyti sýnst umhugsunarvert að leggja á olíu, sem notuð er til upphitunar í húsum, til að endurgreiða það svo aftur. Eins og þessi hugmynd liggur fyrir í frv. Alþfl. hygg ég að hún feli í sér um 36 þús. kr. aukin útgjöld hjá meðalfjölskyldu í meðalhúsnæði vegna þess gjalds sem á olíuna er lagt. Svo á að endurgreiða þetta í mynd olíustyrks með um það bil 48–50 þús. kr. Er það ekki yfirleitt vafasöm aðferð að heimta þannig fé og láta renna í gegnum ríkissjóð og greiða svo út aftur?

Þannig eru það ýmis atriði sem urðu til þess að við hurfum frá því, sem margir okkar höfðu þó áður talið athyglisverða hugmynd, að taka upp þennan orkuskatt.

Ég viðurkenni að söluskattshækkun er vandamál, m.a. vegna innheimtu o.fl., og mætti skoða aðrar leiðir, eins og hækkun á vörugjaldi. En á því eru einnig vankantar og enginn vafi á því að það háa vörugjald, sem nú er, veldur mörgum erfiðleikum í samanburði á milli vöruflokka í verði. Niðurstaðan varð því söluskattur. Út af fyrir sig undirstrikar það þá nauðsyn, að við lítum sem fyrst á virðisaukaskatt í stað söluskatts. Ég vil láta það koma hér fram, að ég tel að því máli beri að hraða.

Hvaða aðrar leiðir koma til greina? Ég nefni þá skoðun mína hér og tek fram að hún er alls ekki samþykkt skoðun þingflokks Framsfl., en mér sýnist vel koma til greina að jafna fremur í gegnum tekjuskattinn, t.d. með meiri persónuafslætti þar sem upphitunarkostnaður er mikill, og mér sýnist að það eigi að nota tímann til að kanna slíkar leiðir.

En aðalatriðið til frambúðar er þó vitanlega að ráðstafa fjármagni til varanlegra aðgerða, stórbæta einangrun þeirra húsa sem nota olíu. Hitaveita komi að sjálfsögðu alls staðar þar sem það er fært og varmaveitur sem sýna sig að vera ólíkt hagkvæmari en bein olíuhitun, ekki síst þar sem nýta má afgangsorku.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að að okkar mati er langt frá því að þetta vandræðamál, sá ójöfnuður sem hlýst af miklum olíukostnaði, sé til lykta leitt. Það þarf að halda áfram athugun á því hvernig verður ráðin bót á því þegar til lengri tíma er lítið.