31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að taka undir þau ummæli hæstv. sjútvrh., að þau mál, sem hér um ræðir, eru afskaplega viðkvæm, staðan er afskaplega viðkvæm í þjóðarbúinu núna, í þjóðfélaginu. Við erum að lifa það, að þær tekjur sem við höfum til skipta, þjóðin í heild, eru að minnka jafnt og þétt. Og ein höfuðástæðan fyrir því, að sú þróun er að verða æ hraðari, er sú, að það er nánast sama hvaða ráðstafanir þessi hæstv. ríkisstj. gerir, þær miða allar að því að veikja stöðu atvinnuveganna í landinu. Þetta er greinilegt af því fjárlagafrv., sem verður til 3. umr. á morgun. Það er greinilegt af því frv. sem hér um ræðir, og þeim ummælum sem hæstv. ráðh. hafa haft í þessu sambandi.

Hæstv. viðskrh. lét svo um mælt í útvarpinu í kvöld, ef ég man rétt að það hefði verið að hlaðast upp geymdur vandi í þjóðfélaginu. Og hann sagði að verið væri að gera ráðstafanir gegn þessum geymda vanda. Þetta er að vísu svolítið dularfullt orðalag og ekki beint auðvelt að átta sig á því, hvað hann á við með þessum orðum, fremur en hinu, þegar hann segir við fjölmiðla í morgun að engin gengisfelling sé í farvatninu hjá ríkisstj. Hann auglýsti nú í kvöldfréttunum hvað hann ætti við. Hann sagði að það skipti svo sem engu máli, hvort gengið væri látið síga 1% þessa vikuna og 1% næstu viku og 1% þá þriðju eða hvort það væri bara fellt um 3% í einu lagi, þetta skipti í sjálfu sér engu máli. Það var nú það sem hann hafði um það að segja og vildi með þessum hætti afsaka það, að hann hafði verið staðinn að því að segja í blaðaviðtali rangt til um þá þróun sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hann var að reyna að leyna þeirri gengisfellingu, sem þó var fyrirsjáanlegt að hlaut að sjá dagsins ljós fyrr en varði.

Ég held að í sambandi við þá fiskverðsákvörðun, sem hér er um að ræða, verði menn fyrst og fremst að hafa það í huga, að þau sjávarútvegsfyrirtæki, sem traustust hafa verið hér í landinu, fyrirtæki sem eru með hvort tveggja í senn fiskvinnslu og útgerð, standa nú mjög höllum fæti. Mörg slík fyrirtæki, sem hafa haft mjög traustan fjárhag og ágæta lausafjárstöðu á undanförnum árum, standa nú frammi fyrir vanda sem þau sjá ekki fram úr, geta ekki gert sér grein fyrir hvernig þau ráða við. Og þessi sérstaki vandi, sem sjávarútvegurinn í heild á við að glíma, er einnig í öðrum greinum útflutningsatvinnuveganna, vegna þess að sú ríkisstj. sem nú situr, virðist síst af öllu hafa skilning á því, að það er eitt grundvallaratriðið í þjóðfélagi eins og okkar, sem byggir mikið á viðskiptum við önnur lönd, er háð útflutningi og innflutningi, að hjól útflutningsins nái að snúast með eðlilegum hætti.

Ég vil t.d. í þessu sambandi minna á það, að í beinni línu hjá Vísi var hæstv. forsrh. sérstaklega um það spurður, hvernig hann hygðist taka á vanda ullariðnaðarins. Hann hafði þá fögur orð um það, ef ég man rétt, að þessi mál væru í athugun hjá ríkisstj., ullariðnaðurinn væri sérstaklega þýðingarmikill fyrir okkur Íslendinga, það væru svo margir sem við hann ynnu. En samt sem áður, þrátt fyrir þessi fögru orð höfum við nú séð hver þróunin hefur orðið. Vandi hans hefur vaxið síðan þetta var sagt, og a.m.k. er mér ekki kunnugt um að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar eða fram farið nein alvöruathugun á því, hvernig eigi að snúast gegn þessum vanda. Hið sama á raunar við um sjávarútveginn í heild. Skýringin á þessu er að sjálfsögðu mjög einföld, sama skýringin og á því, hvað landbúnaðurinn stendur illa að vígi gagnvart heimsmarkaðsverði á sínum afurðum í samkeppni við önnur landbúnaðarlönd, sem sé sú, að kostnaðarhækkanirnar hér innanlands hafa orðið meiri en þær tekjur sem útflutningsatvinnuvegurinn getur vænst að fá í staðinn. Þessi þróun var mjög skýr á s.l. ári og heftir orðið enn þá skýrari nú á þessu ári, þar sem segja má að með hverjum mánuðinum sem líður hafi meir sigið á ógæfuhliðina.

Það er kannske ekkert undarlegt að dregist hefur svo vikum skiptir að ákveða fiskverð við þær aðstæður sem hafa verið í landinu upp á síðkastið. Við sjáum þess merki bæði í því frv., sem hér liggur fyrir, og með margvíslegum öðrum hætti, að hvorki launþegar né fulltrúar atvinnuveganna geta lengur treyst þeim loforðum sem þeim eru gefin af stjórnvöldum. Þetta frv. felur í sér að helminga skuli olíugjaldið sem samþ. var samhljóða í janúarmánuði. Við tökum einnig eftir því, að ríkisstj. leggur á það ofurkapp nú að halda sjómönnum niðri, að þeirra kjör batni verulega miklu minna en annarra stétta í þessu þjóðfélagi, á sama tíma og það tekjuskattsfrv., sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, að ég tali nú ekki um tólftu útsvarsprósentuna, sem sjómannafrádrátturinn nær ekki til, þetta veldur náttúrlega því, að ráðstöfunartekjur sjómannanna verða miklu minni en ella. Og ef við hugleiðum það, hvernig sjómenn og launþegar almennt í þessu landi muni bregðast við í þeirri viðkvæmu stöðu sem nú er í þjóðfélaginu, þá er náttúrlega þeirra þolinmæði, þeirra langiundargeð miklu minna en ella af því að þeir finna það, að við völd er ríkisstj. sem skirrist ekki við að leggja fram eitt og jafnvel tvö skattahækkunarfrv. á dag, á sama tíma og ætlast er til að launþegar láti sér nægja minna en áður. Það gefur náttúrlega auga leið, að við þvílíkar aðstæður hlýtur biðlundina fyrr eða síðar að þrjóta.

Það er alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan, að það er auðvitað neyðarúrræði þegar grípa þarf til þess að fella gengið. En það hefur löngum verið svo í okkar landi, að gengið hefur ekki verið annað en verðskráning á okkar útflutningsafurðum. En ef þessi hæstv. ríkisstj. meinar það í alvöru, að henni hafi þótt það mikið óyndisúrræði að fella gengið, þá hafði náttúrlega ríkisstj. aðra leið, og hún var sú að minnka kostnaðinn. Það var t.d. hugsanlegt að létta einhverjum sköttum af atvinnuvegunum.

Ég minnist þess, að á fyrstu árunum sem ég fylgdist með pólitík hafði viðreisnarstjórnin nýtekið við völdum í landinu. Og ég man vel eftir því, að í þeirri áætlun, sem þá var gerð, var lagt mjög mikið upp úr því einmitt, að frumkvæði einstaklingsins í atvinnurekstrinum yrði örvað, að ríkisvaldið réðist með sínum aðgerðum gegn vandanum með jákvæðum hætti og beitti öllum tiltækum ráðum til þess að hvetja fólk til að taka þátt í því, bæði með meiri vinnu og með sparnaði, að byggja upp atvinnutækin á hverjum stað. Og þetta var að sjálfsögðu hægt að gera á þeim tímum þegar fólk gat séð fram úr vandanum, þegar fólk gat átt von á því, að það mundi með einhverjum hætti njóta þess, ef það legði sig fram og ef það verði sparnaði sínum til þess að byggja upp atvinnureksturinn á staðnum. Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar. Sjöundi áratugurinn sýndi okkur að sú stefna var rétt að byggja fyrst og fremst upp með því að efla atvinnureksturinn í landinu, líka hinn smáa rekstur einstaklinganna, hvetja fólk til þess að mynda samtök um hin stærri átök og síðast en ekki síst að brjóta blað í atvinnusögunni vil ég segja, með því að gera meira átak en áður hafði þekkst í virkjunarmálunum og hefja stóriðju hér á landi með álverinu og treysta með þeim hætti undirstöður atvinnulífsins, sem ég satt að segja sakna að ekki skuli vera neinar áætlanir um hjá þeirri ríkisstj. sem nú situr.

Hæstv. sjútvrh. neitaði því hér áðan, að það væri lögbrot þegar meiri hl. Alþingis ætlaði nú að breyta því sem áður hafði verið ákveðið í sambandi við olíugjaldið, að það skyldi verða 5%, eins og samhljóða var ákveðið hér á Alþ. í janúarmánuði. Vitaskuld er það rétt hjá hæstv. ráðh., að Alþ. getur breytt sínum eigin lögum. Það vitum við vel. Hitt er náttúrlega ófremdarástand, þegar á að láta slíka ákvörðun verka aftur fyrir sig eins og hér er gert ráð fyrir. Og við hverju geta menn búist í framtíðinni, ef ekki ein einasta ákvörðun stjórnvalda stendur deginum lengur? Ég ætla ekki að fara fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún standi við það sem heitið var í Vísis-viðtalinu, beinni línu Vísis, af hæstv. forsrh., að skattar mundu ekki hækka. Ég er ekki að fara fram á það, að við það verði staðið. Það væri mikil ósvinna, ef ætlast væri til þess, að þessi ríkisstj. léti sér nægja þá skatta sem fundnir væru upp á árinu 1979. Nýr fjmrh. vill nú sýna hugkvæmni sina og láta sjást að hann geti lagt fleiri pinkla á drógina. Hún er ekki alveg magasigin enn. Hún lafir þó á fjórum fótum enn þá. Það getur verið að einhverju megi bæta á hana. Ég ætla ekki að fara fram á það. En hitt held ég að liggi alveg ljóst fyrir, að í samskiptum aðila vinnumarkaðarins verði orðin að standa frá hinu opinbera. Ég held að menn hljóti að gera sér grein fyrir því.

Það er náttúrlega gott að geta vitnað til þess, að staða hraðfrystiiðnaðarins hafi ekki verið mjög slæm á liðnum árum. Það geti verið gott að reyna að ganga eitthvað á þann atvinnurekstur nú. Það getur verið að það sé hættulegt fyrir okkur, ef einhver atvinnurekstur stendur vel í landinu. Það má vera. Og það má kannske líka vera, að það hafi fiskast vel það sem af er þessu ári. En hitt ætla ég að muni brátt sýna sig: þeir eru nú að fara út í skrapið, togararnir. Við vitum ekki hver eftirköstin verða af verkfallinu fyrir vestan. Við vitum ekki heldur hvernig þróunin verður í olíumálunum, þótt þar virðist verð á niðurleið, eins og hæstv. sjútvrh. sagði. Það getur breyst með skjótum hætti. En sannleikurinn er að sjálfsögðu sá, að það er mikil óvissa fram undan einmitt í sjávarútveginum. Við getum aðeins hugsað okkur það, að álíka vel aflist eftir páska á vertíðinni hér fyrir sunnan og verið hefur. Það getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar gagnvart síðari hluta ársins, þegar halda þarf við þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið í sambandi við fiskveiðarnar, og gæti komið til langvarandi vinnustöðvunar víða. Ég held því að menn verði að gæta sín í þessum efnum.

Hæstv. sjútvrh. boðaði vaxtalækkun Fiskveiðasjóðs. Ég vil í því sambandi spyrja hann hvort þess megi vænta, að þau afarkjör, sem ný fiskiskip voru látin sæta á árinu 1979, verði lagfærð. Ég vil m.a. benda á það, að einn togari íslenskur, Sigurbjörg, er á þessum afarkjörum, og tel það geta ráðið úrslitum um hvernig til tekst um þá útgerð, hvort þetta fæst leiðrétt. Það er fróðlegt að vita hvort vænta megi leiðréttingar hvað það varðar. Þá vil ég einnig fagna þeirri ákvörðun ríkisstj. að breyta stuttum lánum í löng, „konvertera“ lán, eins og kallað er. Það er mjög brýnt einmitt í útgerðinni. Má vera að ekki takist að ganga í þeim efnum jafnlangt og menn kjósa, vegna þess að sá vandi sé svo stór, en eigi síður ber að fagna því að þessa leið eigi að fara og fara þar að tillögum hv. 1: þm. Vestf.

Ég skal ekki segja hvort ástæða er til að orðlengja miklu frekar um þessi mál. Öll afgreiðsla þessa máls á þessu ári sýnir það, að við erum komnir í sjálfheldu í þjóðfélaginu sjálfu. Segja má að þetta þjóðfélag sé orðið eins og illa rekið fyrirtæki. Ríkisstj. hefur ekki önnur ráð en þau að fara dýpra ofan í vasa fólksins í landinu, þrengja meira að atvinnurekstrinum. Og í sjávarútveginum var ástandið þannig, að báðir aðilar töldu að of nærri þeim hefði verið gengið. Það er verið að tala um að það liggi á að koma þessum málum gegnum Alþ. Ég tek undir með þeim mönnum sem hér hafa talað á undan og varað við því. Þessi dráttur hefur orðið svo langur, að það liggur ekki á. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál við þá aðila sem hér eiga hlut að, ekki síst sjómenn. Þeir hafa, eins og ég sagði áðan, orðið að sæta því, að hvað eftir annað hefur verið gengið á þeirra hlut. Og m.a. — eins og við vitum allir — fengu þeir ekkert út úr þeim félagsmálapakka sem þeim var heitið í desembermánuði 1978.