31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

135. mál, orkujöfnunargjald

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Sennilega hefur engin ríkisstj. í samanlagðri Íslandssögunni hafið störf sín af jafnlítilli reisn og núv. hæstv. ríkisstj. Núv. hæstv. forsrh. þekkir Íslandssöguna betur en aðrir þm. og jafnvel betur en flestir aðrir. Hann hefur setið á hv. Alþ. síðan 1934, með nokkrum hléum að vísu, og hann þekkir sögu ríkisstjórna vel aftur fyrir lýðveldisstofnun. Ég fullyrði að núv. hæstv. forsrh. er mætavel ljóst að ríkisstj. er fædd gjaldþrota. Hún er fædd gjaldþrota vegna þess að hún hefur ekki stefnu nema í einu einasta máli og það er að ausa meiri fjármunum inn í landbúnaðinn. Ríkisstj. er mynduð af vondum hvötum vegna þess að fyrir kommum og Framsókn vakir auðvitað ekkert annað en að reka fleyg inn í íhaldið, og frá þeirra bæjardyrum séð er einasta, einasta réttlæting þessarar ríkisstj. að kljúfa ræfils íhaldið. Það hefur tekist. En nú sitjum við uppi með ríkisstj. aðeins nokkurra vikna gamla. Einhvern veginn segir mér svo hugur um, að áður hafi það ævinlega verið svo í íslenskri sögu — og það veit hæstv. forsrh. dr. Gunnar Thororddsen af því að hann hefur setið á þingi síðan 1934 — að ævinlega þegar ríkisstj. hafa verið myndaðar, þá er fyrst í stað reisn yfir þeim, það er ánægja með þær í eigin herbúðum, menn eru stoltir af því að vera að stjórna landinu. Það er ekki nú. Og ríkisstj., sem aðeins eftir nokkrar vikur kann ekki önnur ráð en þau sem nefnd eru í því frv. sem hér er til umr., að hækka söluskatt um tvö stig og vera svo ósvífin að kalla það orkujöfnunargjald, það er gjaldþrota ríkisstj., aðeins nokkrum vikum eftir að hún er sest að völdum. Og ég spyr: Hvernig á líka annað að vera? Auðvitað veit allur þingheimur og öll þjóðin, að þessi ríkisstj. er ekki mynduð í sjálfu sér utan um neitt annað en hina gjaldþrota landbúnaðarstefnu, og fyrir það erum við að borga, fyrir það eru skattgreiðendur að borga nú. Hún er mynduð utan um þessa stefnu eina, að því viðbættu, að þeim tókst að reka fleyg inn í íhaldið, kommum og framsóknarmönnum, og til þess verður stjórnin til. En auðvitað er þetta aum stjórn og auðvitað er þetta dýr stjórn. Eitt af því sem gerir þetta að dýrri stjórn, sem gerir gjaldið hátt sem þarf að greiða, gerir byrðarnar á skattgreiðendur þungar, er það frv. sem við hér erum að ræða. Hér er raunverulega verið að leggja til af þessari hæstv. ríkisstj. að fara með söluskatt úr 22 í 24 stig. Svo hár söluskattur fyrirfinnst varla í nálægum og okkur skyldum ríkjum.

Einn þáttur þessa máls er það, að hér hafa árum saman verið þrúgandi skattsvik með óbærilegum hætti. Hér hefur verið neðanjarðarhagkerfi. Menn hafa komist upp með það í stórum stíl að svíkja undan skatti. Þegar söluskattur er kominn svona hátt, í 24 stig, þá vitum við hvernig framhaldið verður. Við vitum hvernig virðingarleysið eykst. Þetta er orðin óþolandi skattpíning.

Það er vitaskuld svo, að það þarf að jafna verð á orku. Það skal sagt og það skal viðurkennt og það út af fyrir sig er rétt hugsun. Þessa peninga hefði hins vegar vel mátt taka annars staðar frá, og þá vísa ég t.d. til tillagna jafnaðarmanna í sambandi við fjárlagagerðina nú. Við hefðum stig af stigi getað farið að losa okkur út úr útflutningsbótunum, niðurgreiðslunum og þar útvegað fjármagn til þess að jafna verð á orku. En ríkisstj., sem mynduð er utan um stefnuleysið, utan um viljann til að kljúfa vesalings íhaldið, dettur auðvitað ekki neitt slíkt í hug. Hún fer ekki þá leið að færa úr landbúnaði og yfir í orkujöfnuð, svo að dæmi sé nefnt. Hún er ekki mynduð til þess. Þessi ríkisstj. fer allt öðruvísi að. Hún er að leggja til að söluskattur fari í 24 stig. Það er allt of hátt. Það er óbærileg skattpíning sem hér er verið að leggja til.

Mér er það mætavel ljóst, að þetta út af fyrir sig er ekki fyrsta vísbendingin um þessa andvana fæddu ríkisstj. og hvernig hún er gjaldþrota frá fæðingu. Fyrsta vísbendingin var auðvitað tilorðing sjálfrar ríkisstj. Önnur vísbending, uppgjöfin, ræfildómurinn, var ákvörðunin sem ekki var tekin 1. mars, þegar vextir áttu að hækka samkv. skýlausum ákvæðum laga og skuldarar áttu að borga meira og sparendur áttu að fá meira. Það sagði svo ótvírætt í einni af greinum laganna nr. 13 frá 1979, að svo skyldi að farið. Og aldrei hefur verið deilt um það, að ef við værum að vísitölubinda og verðtryggja, hvort sem það væru laun eða eitthvað annað, þá gerðum við það í áföngum. Og við gerum það á þriggja mánaða fresti. Þetta hefur verið óumdeild regla síðan farið var að fikra sig inn á verðtryggingarleiðina. Þessi ríkisstj. brást, og hún braut lög. Það var vond vísbending um það sem koma skyldi, og það er yfirlýsing um að þensluástandinu á ekki að linna, það á að halda áfram og herða ferðina. Þessi ákvörðun, eða ákvörðunin sem ekki var tekin 1. mars, var yfirlýsing um það. Við erum á fullri ferð út í fenið, og dr. Gunnar Thoroddsen, hæstv. forsrh., sem myndaði þessa ríkisstj. í óþökk félaga sinna, maðurinn sem barðist í síðustu kosningum gegn sköttum vinstri stjórnarinnar, eins og það var kallað, og enginn kjósandi vissi um að ætti sökótt við félaga sína með einum eða neinum hætti, hann situr hér yfir líkinu af eigin ríkisstj. aðeins nokkrum vikum eftir að hún hefur verið mynduð. Það gat ekki farið verr, og það átti auðvitað söguglöggur maður eins og dr. Gunnar Thoroddsen að vita, maðurinn sem hefur setið á þingi síðan 1934, að það gat ekki farið verr að mynda ríkisstj. með þessum hætti. Þegar menn eru með kutana í bakinu á vinum sínum, þá gengur það vel um sinn og getur gert það, getur jafnvel verið yfir því glæsibragur um sinn, en það endar í hreinum ógöngum, og það er það sem hefur gerst hér. Þjóðin er að borga fyrir leiki dr. Gunnars og félaga hans. Hvert er gjaldið? 2% söluskattshækkun að þessu sinni.

Það eru margar aðrar leiðir í þjóðfélaginu til þess að færa til þetta fjármagn. Það hefur verið bent hér á skynsamlegri leið, á sama tíma og það skal ítrekað og viðurkennt, að það eru óbærilegar byrðar sem eru lagðar á fólk vegna of hás orkugjalds. En það hefðu verið til aðrar leiðir ef það hefði verið vilji í landinu, vilji hjá stjórnvöldum til þess að fara þær leiðir. Enn nefni ég tilfærslu úr hinni yfirgengilega dýru atvinnugrein, landbúnaði, og til þessa málefnis, til orkujöfnunar. Þetta var leið sem hefði verið hægt að fara og hefði átt að fara og hefði jafnvel getað verið farin, ef ekki hefði komið til drengskapur dr. Gunnars og vinskapur hans við félaga sína og fyrrv. vini. Sem sagt, þetta allt saman mátti sjá. Þetta var mætavel ljóst strax 1. mars. Það voru fyrstu tímamótin og tímamörkin sem reyndi á þessa hæstv. ríkisstj. Mun hún duga eða mun hún drepast? Og það kom í ljós. Þeir skirrtust ekki við að brjóta lög sem meiri hl. Alþingis og til að mynda allur þingflokkur Alþb. og Framsfl. hafði samþ. í byrjun aprílmánaðar á árinu 1979. Þetta eru lög í landinu þangað til öðruvísi verður ákveðið af meiri hl. þessarar virðulegu stofnunar. Og eftir lögum ber að fara.

Ríkisstj., sem er andvana fædd og gjaldþrota gerð á fyrstu vikum, fer öðruvísi að. Allt er þetta sömu náttúru: að vilja fara með útsvarið upp um 10%, að vilja fara með söluskattinn upp um tvö stig og að þora ekki að hafa ávöxtun sparifjár raunverulega. Allt er þetta af sömu náttúru og ber allt að sama brunni. Í raun hefðu kjósendur mátt ætla að loknum síðustu kosningum, að Alþ. væri skynsamlega saman sett. Og ég er sannfærður um það, að ef metnaður dr. Gunnars og félaga hans hefði ekki hlaupið með hann í gönur og búið til þessa vondu ríkisstj., sem nú er að hækka söluskattinn um tvö stig, ef við hefðum beðið lengur, ef við hefðum hugsað þessi mál betur, þá væri ekki verið að leggja þessar byrðar nú á fólkið í þessu landi, því að eins og hér hefur verið sagt og ítrekað, þá er orkujöfnunargjald af hinu góða og það er skiljanlegt, en það eru aðrar leiðir til þess að afla fjár til þess.

Við, sem erum í stjórnarandstöðu, höfum t.d. verið að leggja til, til að nefna dæmi og kenna dr. Gunnari, hæstv. forsrh., hvernig hægt er að hegða sér — við höfum verið að leggja til að vera ekki að snobba fyrir námsfólkinu eins og því miður hefur verið gert um of. Við höfum lagt til sem stjórnarandstöðuflokkur, að þar eigi einnig að taka upp raunveruleg ávöxtunarkjör. Þetta eru nýjar aðferðir sem hér er verið að beita. Sem stjórnarandstöðuflokkur neitum við að fara yfirborðsleiðina, af því að t.d. í þessu máli er hún sannarlega röng. Þetta hefur komið hér skýrt fram í umr. um fjárlög.

Þetta er munurinn annars vegar á því, hvernig á að stjórna og hvernig hægt er að stjórna, og hins vegar á þeim hryllingi í mynd ríkisstj. sem hér situr og er að hækka söluskattinn um tvö stig að þessu sinni. (GJG: Getur andvana og gjaldþrota ríkisstj. nokkuð svikið?) Því miður, andvana og gjaldþrota ríkisstj. virðist hafa furðulegan hæfileika til þess, vegna þess að hvað sem má segja um þá sem í ríkisstj. sitja núna, eins og hæstv. forsrh., dr. Gunnar, þá haggar það ekki því, að mállaus var hann ekki fyrir kosningar, heldur gaf hann þá loforð á báða bóga og í allar áttir, og eitt af loforðunum var að afnema skatta vinstri stjórnarinnar, skattana 19, afnema þá. Hvar er þetta afnám skattanna? Er þetta afnám skattanna: 2%, 2 söluskattsstig? Er það afnám skatta? Hann ferðast hér fyrir kosningar vítt og breitt um landið og segist ætla að afnema skatta vinstri stjórnarinnar, en endurnýjar svo þá sömu stjórn og eykur á vitleysuna, ýkir delluna, eins og þetta plagg er pappír upp á. Hvaða orð notaði hv. þm.? Svik. Þetta eru svik. Það er einmitt það sem það er, því að einhverjar kröfur hljótum við að gera til samræmis á milli orða og efnda. Það verður að vera eitthvert samræmi í því, hvernig menn hegða sér fyrir kosningar og hvað þeir gera eftir kosningar. Og það er það sem er hryggilegt við þessa stjórn, að þar sem kannske hefði mátt vænta slíks samræmis, þar fyrirfinnst það ekki.

Ég gæti talað langt mál um þetta áfram og t.a.m. snúið máli mínu að hv. þm. Albert Guðmundssyni, sem eins og þingheimi er kunnugt um er farinn að skipta um skoðun eins og við hinir skiptum um buxur, eins og hér hefur svo ágætlega verið orðað. En ég vil halda mig við dr. Gunnar að þessu sinni, hæstv. forsrh. (Gripið fram í: Hálftíma eða svo.) Þrjú korter. (Gripið fram í — Forseti: Ekki samtal.) — Þessi maður er í Ed., litli lávarður, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hann er í lávarðadeildinni, herra forseti. Og gæti ég, herra forseti, mælst til þess, að ég fengi vinnufrið hér í Nd. og við öll sem hér erum að starfa. Herra forseti. Litli lávarðurinn á að vera í sinni deild!

Herra forseti. Nú skal þessu máli haldið áfram. Hér hefur verið rætt um að söluskattur hafi hækkað og sé að hækka óeðlilega mikið. Ég ætla að rétt sé að vekja enn sérstaka athygli á einum þætti þessa máls og það er hættan á því, að þegar söluskattur er orðinn svo firnahár sem hér um ræðir, þá fari vaxandi tilhneigingin til þess að svíkja þennan sama skatt undan og greiða hann ekki, þá aukist slík tilhneiging. Það er vitað og það er þekkt kenning í hagfræði, að ofsköttun leiðir af sér slíkar tilhneigingar. Og það er alveg sama um hvers konar ofsköttun við erum að tala, hvort við erum að tala um tolla eða lúxustolla eða í hvaða formi sem þessi sama ofsköttun er. Ég held að rétt sé að vekja kirfilega athygli þeirra á því, sem nú eru að masa fyrir þessari miklu söluskattshækkun, að þessi hætta er orðin mjög veruleg í þessu okkar ágæta landi. Það er vitað og það er mikið vandamál — er Litli lávarðurinn farinn? (Gripið fram í: Ég kem aftur.) Gott. Það er vitað og það er mikið vandamál í þessu landi, að skattsvik hafa verið bæði almenn og útbreidd. Ég get ekki ætlast til að þessi hæstv. ríkisstj. hreyfi legg né lið yfir höfuð að tala gegn þessum vágesti. Hún er ekki þannig saman sett. Persónueinkenni hennar eru ekki þannig Jafnvel gamla vinstri stjórnin, sú síðari hæstv. stjórn Ólafs Jóhannessonar, hefði hugsanlega getað sýnt lit í slíkum efnum. Samsetningin var þannig. En að þessu leyti er þetta hægri stjórn sem nú situr, íhaldssöm stjórn í vondum skilningi þess orðs. Og þegar við sjáum það samsetningarinnar vegna, að svona hlutir verða ekki gerðir, en á hinn bóginn er verið að fara með söluskatt í 24 stig, þá eru þetta mjög alvarleg tíðindi. Ofsköttun leiðir alls staðar til vandræða. Hún hefur gert það í okkur skyldum löndum, löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, löndum sem eru okkur sögulega, menningarlega og með öðrum hætti skyld. Hér er verið að fara út á vondar brautir ofsköttunar.

Svo kórónar það ósvífnina að kalla þetta frv. til l. um orkujöfnunargjald, þótt jafnframt sé viðurkennt að aðeins hluti andvirðisins á að fara til orkujöfnunar. Þó að það skuli enn viðurkennt, að sá málstaður út af fyrir sig er bæði réttmætur og góður, þá skal samt ítrekað að það hefði verið hægt að fara aðra leið og betri. Ríkisstj. hefði getað farið aðra leið að þessu sama marki og í þessum sama tilgangi.

Það má skjóta hér inn aths., vegna þess að til mín var beint orðum hér úr ræðustól áðan af hæstv. ráðh. Steingrími Hermannssyni, sem taldi að ómaklega hefði verið um hans mál fjallað héðan úr ræðustól í síðustu viku, meðan hann var erlendis í opinberum erindagerðum, um yfirlýsingar hans um gengismál. Ég er hér með þá úrklippu sem um er að ræða. Þetta er lítil frétt á baksíðu Dagblaðsins, dags. 10. mars. Í fyrirsögn segir, og ég treysti því að það sé rétt eftir ráðh. haft: „Víst glæpur að segja það, þótt allir viti það.“ Og hvað skyldi hæstv. ráðh. vera að tala um? Hann er að tala um væntanlega gengisfellingu, væntanlegan stórkostlegan flutning fjármagns á milli tveggja póla, tveggja einstaklinga eða tveggja fyrirtækja. Hann er að segja frá því fyrir fram, að svona flutningur standi fyrir dyrum.

Ég sagði sögu hérna í Alþingi í síðustu viku til undirstrikunar þessu, og menn, sem hafa áhuga á mórölskum efnum í sambandi við stjórnmál, skyldu leggja eyrun við þessu. Ég beini þessu t.d. til hæstv. forsrh. Fyrir 30 árum, árið 1949, eða réttum 15 árum eftir að hæstv. núv. forsrh. kom hér inn á Alþingi, þá skeði það í Bretlandi að fjmrh. þar, manni að nafni Dalton, sem var jafnaðarmaður, varð það á nokkrum klukkustundum áður en hann skyldi flytja fjárlagaræðuna að segja ógætileg orð við blaðamenn um lúxustolla sem skyldu leggjast á nokkrar vörutegundir, mig minnir sykur og te og eitthvað slíkt. Í breska jafnaðarmannaflokknum á árinu 1949 var þó nokkurt ris á mönnum. Auðvitað jók þessi uppljóstrun spákaupmennsku. Vegna þess að þetta var ekki orðið að lögum gátu auðvitað einhverjir hlaupið til og náð sér í þær vörur sem lúxustollurinn átti að leggjast á. Og vitið það hvað bresku kratarnir gerðu? (Gripið fram í.) Þú varst nú einu sinni nærri því orðinn krati, svo að við skulum ekki hafa hátt, hv. þm. Albert Guðmundsson. En vitið þið hvað bresku kratarnir gerðu við þennan flokksbróður sinn? Þeir létu hann segja af sér samdægurs. Þessi breski jafnaðarmaður var látinn segja af sér samdægurs. Hann hafði orðið valdur að spákaupmennsku með þessari aths. sinni.

Hér gerist það, í þjóðfélagi sem orðið er brjálað af óstjórn og verðbólgu og virðist varla vera á batavegi nú um sinn vegna einkennilegra pólitískra aðstæðna, — hér gerist það, að valdamaður, formaður í næststærsta stjórnmálaflokknum og ráðh., tilkynnir blaði gengisfellingu og talar satt að segja svo kjánalega að með eindæmum er. Hann segir: „Víst glæpur að segja það, þótt allir viti það.“ Hann er að tala um gengisfellingu sem gæti orðið allt að 15%, að því er segir í fréttinni. Beri menn saman jafnaðarmanninn Dalton í Bretlandi 1949 og framsóknarmanninn Steingrím Hermannsson, hæstv., á Íslandi 1980. Má ég þá heldur biðja um bresku aðferðirnar að þessu leyti. Ég tek nefnilega undir það með hæstv. ráðh. Tómasi Árnasyni, að við vissar efnahagslegar kringumstæður getur verið bæði rétt og móralskt að segja ósatt. Það á t.d. við um svona aðgerðir, jafnvel þó að þær kynnu að standa fyrir dyrum. En svona siðferði kann ekki hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson og svona aðferðir kunna ekki framsóknarmenn yfirleitt — með litlum staf. Er þá átt við og framsóknarmenn í öllum flokkum sem þeir eru í. (Gripið fram í: Eru þeir í Alþfl. líka?) Nei, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ætlar þú að sjá um hann þennan?

Það er með ólíkindum að svona geti gerst. Hér var á föstudag í síðustu viku fjallað um þetta ófyrirgefanlega glappaskot hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar, og ég skírskota til hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens með hans löngu og virðulegu þingreynslu og þingsögu, en sem kunnugt er hefur hann setið hér síðan 1934. Ég skírskota til þess, að ráðh., sem hegðar sér svona, á auðvitað að taka á beinið og skamma eins og barn — og láta hann segja af sér. Það gerðu þeir í Bretlandi 1949. Hér er um svo alvarlega frétt að ræða, vegna þess að hún ýtir undir spákaupmennsku. Hún leiðir til þess, að menn geta hagað efnahagslegum aðgerðum sínum með tilliti til þess sem hæstv. ráðh. er ekki aðeins búinn að gefa í skyn, heldur beinlínis segja berum orðum að sé að eiga sér stað. Þetta vita allir og um þetta eru allir sammála, nema ef vera skyldu fáeinir framsóknarmenn, ég fullyrði það hér við hv. þm. Allt um það, þetta var um hegðun hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar, en svo segir hér í fréttinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Steingrímur bjóst við að aðgerðir ríkisstj. yrðu talsvert gengissig, þótt hann vonaði að það þyrfti ekki að verða 15%.“

Í Bretlandi fóru þeir öðruvísi að árið 1949. Það er oft hollt að horfa til útlanda og læra af útlöndum og útlendingum, ef þar er eitthvað að hafa. Og í þessum efnum getum við lært af jafnaðarmönnum í Bretlandi. En sem sagt, þessi gjaldþrota ríkisstj., hefur á skútunni hæstv. ráðh. sem svona hegða sér, þegar stefnir í óbreytt, aukið og illt fen í landbúnaðarmálum, hún leggur þyngri byrðar á skattgreiðendur af þeim sökum, hefur yfir höfuð að tala enga stefnu aðra neins staðar, — hefur að vísu stefnu í einu máli og þá stefnu kynnti hæstv. fjmrh.: Það eru engar grunnkaupshækkanir fyrir launafólk. — Víst má kalla það stefnu. Það skal sagt með fullri sanngirni, að það er a.m.k. vottur og vísbending um stefnu.

En allt um það, svo kemur þessi ríkisstj., nokkrum vikum eftir að hún er sest að völdum, og það brosir enginn lengur. Hæstv. forsrh. stekkur ekki bros á vör lengur, hann er grafalvartegur yfir þessu öllu saman, sem sýnir þó að hann kann sig. Ríkisstj. er að leggja fram frv. til l. um orkujöfnunargjald, hækka söluskatt í reynd um tvö stig og er að reyna að blekkja þingheim til fylgis við þetta frv. með því að gefa í skyn í nafni frv. að allur ágóði eða allt fé, sem frv. gefur, sé orkujöfnunargjald, og fólkinu í landinu er ætlað að trúa því. En þetta eru ósannindi. Það er ekki nema hluti þeirra fjármuna, sem verið er að taka af skattgreiðendum í landinu, sem á að nota í orkujöfnunarskyni. Hitt á að fara í ríkishítina, í útflutningsbætur, því að það er mætavel ljóst, að hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson, sem er kaþólskari en páfinn, sem er meiri framsóknarmaður en fyrirfinnst í Framsfl., hann á auðvitað eftir að koma á hnjánum fljótlega og biðja um meiri útflutningsbætur, meiri niðurgreiðslur: Ýkjum kerfið, aukum á kerfið, þyngjum byrðarnar á skattgreiðendum.

Það liggur í eðli þessarar ríkisstj. að hegða sér svona. Það liggur í eðli hennar að gera nákvæmlega þetta: hækka söluskattinn, hækka útsvörin, greiða meira niður, auka útflutningsbæturnar. Og það sem er að gerast með þessu — hlusti menn eftir því — það sem er að gerast með þessu er það, að við erum að búa börnum þessa lands lakari lífskjör en fyrirfinnast í sambærilegum löndum í kringum okkur. Á tímum þegar þekkingin eykst stöðugt, þegar fleiri og fleiri halda utan til náms og kynna af erlendum ríkjum, þá erum við komin að mörkum þess mögulega og það er farið að bera á þeirri tilhneigingu, að fólk setjist að erlendis, það hætti að koma heim, vegna þess að hér í kringum okkur — í löndum eins og Bretlandi, Vestur-Þýskalandi og meira að segja einhverjum Norðurlanda — eru orðin svo miklu betri lífskjör að það er alveg ósambærilegt við þetta. Ástæðan er sú dýrtíðarstefna og þær vondu stjórnir sem hér hafa setið á undanförnum árum. Þetta er sennilega sú versta af þeim öllum og er þá langt til jafnað.

Af hverju leyfist hv. þm. að nota svona stór orð? Vegna þess að það frv., sem hér liggur fyrir um þennan háa söluskatt, er ekki aðeins flutt á upplognum forsendum, og þá vísa ég til fyrirsagnar frv., heldur er verið að þyngja skattabyrðina svo og leggja svo miklar byrðar á fólkið í þessu landi að gersamlega ósæmilegt getur talist.

Ég sagði hér áðan að þessi ríkisstj. væri gjaldþrota og andvana fædd. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson greip þá fram í og sagði eitthvað á þá leið, að það væri þó kostur við slíka ríkisstj., gjaldþrota og fædda andvana, að hún gæti ekki svikið neitt. En það er það merkilega, að hún getur það samt. Ég þykist hafa lýst því hér í nokkru máli, að forustu fyrir ríkisstj. er maður, gáfaður maður, viðurkenni ég, sem lofaði fólkinu í landinu því fyrir kosningar — þá var ekki vitað um, að þarna væri klofningur, og þá var ekki vitað um, að þeim vinunum kæmi svona illa saman eins og síðar hefur komið í ljós, maður sem lofaði fólkinu í landinu að afnema skatta vinstri stjórnarinnar, og ég held að ég fari rétt með þá tölu, að þeir voru 19, þessir litlu leiðindaskattar úti um allt. Hann gerði það, hæstv. forsrh. Og þegar maður hefur lofað slíku, þá ættu kannske að vera tilburðir í þá átt að efna það — við skulum ekki taka dýpra í árinni að sinni: tilburðir sjást. Þvert á móti kemur stjórnarliðið nú undir forustu sama hæstv. ráðh., dr. Gunnars Thoroddsens, til að leggja á skatt, og nú engan smáskatt og ekkert flugvallargjald. Nei, tvö stig í söluskatti, takk fyrir! Sami maðurinn og slóst í kosningabaráttu allan nóvembermánuð og barðist vel, veit ég, og fór víða, enda röskur maður og afkastamikill eins og alþekkt er, fór víða og lofaði að afnema skatta vinstri stjórnarinnar. Ég spyr hv. þm.: Er það afnám skatta gömlu vinstri stjórnarinnar, stjórnar hæstv, núv. utanrrh. Ólafs Jóhannessonar, sem hér er verið að leggja til?

Vegna þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson notaði orð, sem er stórt og ég hefði ekki notað, enda heflaður maður, en það var orðið svik, og úr því að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson má nota það, þá má ég nota það líka. Hann taldi að þetta væru svik og á íslensku er þetta auðvitað ekkert annað en með svik. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, þetta eru svik, að lofa svona fyrir kosningar og svíkja það svo gróft sem hér er um að ræða. Við verðum að hafa einhverjar forsendur í lýðræðiskerfi okkar. Það verður að vera eitthvert samhengi í tilverunni yfirleitt. Og það verður að vera eitthvert samhengi í hinni pólitísku tilveru. Þetta er samhengislaust rugl, að lofa að afnema skatta vinstri stjórnarinnar fyrir kosningar og standa hér í dag sem boðberi þessa pakka. Ég veit að hv. þd. er mér sammála um þetta, nema ef vera kynnu nokkrir framsóknarmenn, sem oft hafa ekki verið sammála mér, það skal ég viðurkenna. (SV: Það er það eina rétta í því, að þetta er samhengislaust rugl hjá þér.) Ef hv. þm. Stefán Valgeirsson — sem að vísu finnur nú ekki upp afstæðiskenningu á hverjum degi, er þessarar skoðunar, þá skal ég viðurkenna að það hlýtur að vera eitthvað til í því.

Hér hefur verið rakið nákvæmlega hverjar eru forsendur þessa frv. Forsendur eru þær, að ríkisstj. er ekki fær um að stjórna. Hún er ekki fær um að færa til fjármagn. Allir viðurkenna að málefnið, sem þetta frv. að hluta til og efnislega fjallar um, sem sé orkujöfnun, er af hinu góða. Hvað sem hv. þm. Stefán Valgeirsson segir um það, þá er það af hinu góða. Við deilum ekki um það. Við deilum um hvaðan eigi að flytja fjármagnið. Við deilum um það. Á að sækja það beint í vasa skattgreiðendanna eða á að fara aðra leið til þess? Ég segi enn og aftur og endurtek, að það er hægt að fara aðra leið. Það er það sem við höfum verið að leggja til. Það er hægt að flytja þetta fjármagn t.d. úr sumum geirum landbúnaðarins. Það er hægt að afla fjárins með þeim hætti og það er viturlegri leið. Það er leið sem stuðlar hér að betri lífskjörum, sem gerir okkur sambærileg við okkur skyld lönd. Þessa leið er hægt að fara og þessa leið mundi sú ríkisstj. fárra sem væri ekki aðeins annt um það, að þegnarnir í landinu lifðu góðu lífi, heldur einnig að þjóðin búi við sambærileg kjör við það sem best gerist erlendis, þau kjör sem landið getur skapað ef vel er á málum haldið. Þetta er hægt að gera. Og ég spái því, að innan ekki margra ára komi slík ríkisstj., — ríkisstj. sem getur valdið breytingu og byltingu. Slíkar ríkisstjórnir hafa komið — hér. Ég nefni t.d. viðreisnarstjórnina 1959. Það var ríkisstj. sem hóf feril sinn af mikilli reisn og gjörbylti hér háttum og þjóðfélagsskipan, fór út úr gamla uppbótakerfinu, fór út úr hafta- og spillingarkerfinu. Stundum skil ég ekki að maður eins og dr. Gunnar Thoroddsen, hæstv. ráðh., sem sæti átti í viðreisnarstjórninni, þekkir sögu hennar og átti stóran þátt í þeim miklu breytingum, sem fram fóru, skuli geta setið á toppnum á því stjórnlausa fleyi sem ná á að heita ríkisstj. í landinu. Mér finnst það vera að bera litla virðingu fyrir sjálfum sér og sögu sinni — eigandi þennan feril, hafandi verið fjmrh. framan af í viðreisnarstjórninni og það með reisn, enda gerbreytti sú stjórn hér um þjóðfélagskerfi. Það hygg ég sé nærfellt samdóma álit sögumanna, sem um þetta fjalla, og þá er ég að tala um efnahagsmálin innanlands — hitt er mál sem við getum deilt af meiri tilfinningasemi — að hér var skapað upphaf að nýju þjóðfélagi og nýjum og betri lífskjörum með þeirri miklu breytingu sem þá átti sér stað. Þeir stóðu sig vel sem í þeirri stjórn sátu, og ég skil ekki að menn geti borið svo litla virðingu fyrir sjálfum sér og sögu sinni að leggja út í það botnlausa stjórnleysi og fen sem hér er um að ræða.

Þetta frv. til l., sem heitir um orkujöfnunargjald, er uppgjafarpappír. Þetta er viðurkenning hæstv. ríkisstj. á því, að hún geti ekki stjórnað, vegna þess að það hefur reikningslega verið sýnt fram á það, að þetta fjármagn má taka annars staðar. Það hefur reikningslega verið sýnt fram á að það er hægt. Síðan lýkur reiknilistinni og pólitíkin tekur við. Ætlum við að taka þetta annars staðar frá, eða ætlum við að fara leiðina vondu, leggja þetta á skattgreiðendur?

Þegar reiknilistinni lauk og menn höfðu bunka af valkostum fyrir framan sig og að því kom að taka hina pólitísku ákvörðun, þá gerðist auðvitað nákvæmlega það sem efni stóðu til og við gátum átt von á, að hæstv. ríkisstj. valdi verstu — ég endurtek: verstu leiðina sem hægt var að velja, að velta þessum byrðum yfir á fólkið í landinu í formi söluskatts. Hvernig geta menn, sem tóku þátt í því að gerbreyta Íslandi á árunum 1959 –1960 –1961, tekið þátt í þessu? Hvernig er það hægt? Menn eiga ekki að hegða sér svona, og síst af öllu reyndir menn sem hafa lifað mikla og góða sögu.

Hæstv. ríkisstj., sem nú situr í landinu, hefur gefist upp. Þetta hygg ég að stjórnarherrarnir sjálfir hæstv. viðurkenni. Að öðrum kosti byrjaði hún ekki nokkrum vikum eftir tilorðningu sína á svona vinnubrögðum, síst af öllu stjórn sem gefið hefur verið í skyn að væri einhver sérstakur málsvari fólksins. En hverjir halda menn svo að borgi þennan skatt sem við erum hér að tala um? Það er auðvitað fólkið í þessu landi. Það eru umbjóðendur hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar. Hann leggst sennilega af meiri þunga á það fólk en þá sem betur mega sín, og það er eitt af því grátlega, þessi innbyggða ósanngirni sem í þessu skattakerfi felst. Hv. þm. tekur þátt í þessu, og út af fyrir sig er ekki hægt að segja um hv. þm. Guðmund J., að þar fari saman orð og gerðir. Ég veit að honum er ómótt að sitja undir þessu og taka þátt í því sem hann er að taka þátt í. Ég veit að hann stendur nærri mér og okkar jafnaðarmönnum í landbúnaðarmálum og miklu fleiri málum raunar. En afleiðingin er þessi, m. a. vegna þess að það fylgir því að vera í flokki að þurfa að gera hluti sem kannske eru af misjafnri náttúru, svo að ekki sé meira sagt, og í því lenda menn.

Herra forseti. Við erum hér að ræða um frv. til l. um orkujöfnunargjald. Það er sjaldgæft að það felist ósannindi — ég endurtek: ósannindi í titli frv., en þetta eru ósannindi. Það er ekki nema hluti þessara tekna sem á að nota í þessum tiltekna tilgangi. Það er ekki nema hluti þeirra. Og þar sem það er ekki nema hluti þeirra, þá felast ósannindi í titli frv., fyrirsögn frv. Látum nú vera þó að menn ljúgi svolítið í grg., en er þetta ekki fulllangt gengið? Ég beini þessari spurningu t.d. til hæstv. virðulegs forsrh., Gunnars Thoroddsens. Er það ekki fulllangt gengið? Þetta er ekkert frv. um orkujöfnunargjald. Meginhlutinn af þessari upphæð, sem á hinum margumtalaða ársgrundvelli mun gera um 11 milljarða kr., á að renna í ríkishítina og bakdyramegin þar inn í rn. til hæstv. ráðh. Pálma Jónssonar til þess að borga niður kindakjötið sem útlendingar éta. Þetta er leiðin. Og að flytja peninga til hæstv. ráðh. Pálma Jónssonar með þessum hætti og kalla það orkujöfnunargjald, þykir ekki fleirum en mér það vera ósvífið í meira lagi? Ég sé að til mín kinkar kolli góður vinur minn, hv. 3. þm. Reykv. Albert Guðmundsson, og ég kann því vel. Auðvitað er þetta ósvífni og ekkert annað, — hrein ósvífni.

Sem sagt, þeim tókst að fara með staðlausa stafi og hrein ósannindi í fyrirsögn frv. Ég spyr mér þingreyndari menn, ég spyr t.d. hæstv. forsrh., sem með nokkrum hléum þó hefur setið í þessu virðulega húsi síðan 1934: Er það ekki einsdæmi að logið sé í fyrirsögn frv.? Þekkir hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen nokkurt annað dæmi þess, að logið sé í fyrirsögn frv.? Ég vísa til hans löngu og virðulegu sögu, miklu þingreynslu og allra áratuganna frá 1934 og áfram. Ég kannast ekki við það. Ég mundi að vísu aðeins þekkja það af bókum, ef svo væri, og þrjár eða fjórar bækur um sögu þessa virðulega húss hef ég lesið. Það er ekki í eitt einasta skipti minnst á frv. þar sem logið var í fyrirsögn. (PS: Var ekki logið í blýhólk?) Það er svo annað mál, hv. þm. Pétur Sigurðsson. Það er annað mál og önnur og virðuleg saga, sem ég hef lesið um og aðrir kannske muna eftir.

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessa máls. Einhverjir verða að vera talsmenn skattgreiðenda. Skattgreiðendur eiga líka sinn rétt. T.d. fyndist mér að í hlutarins eðli lægi að þm. eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hv. þm. Vilmundur Gylfason, þessir þrír þm., ættu að eiga það sameiginlegt að meta lífsafstöðu sína, pólitíska skoðun og handauppréttingu á Alþingi ekki með hagsmuni fyrirtækjanna í huga, ekki með hagsmuni vonlausrar ríkisstj. sem er mynduð til þess eins að sprengja Sjálfstfl., sem við vitum auðvitað mætavel. (GHelg: Það er nú dálítið.) Ég þakka viðurkenninguna. Það er rétt, það er nú dálítið. Nei, en við ættum, hv. þm., t.d. við þrjú sem hér vorum nefnd, að vera talsmenn skattgreiðendanna í landinu. Ríkisstj. getur það ekki, því að ríkisstj. með hæstv. ráðh. Pálma Jónsson innanborðs og stefnuna hans getur ekki verið ríkisstj. skattgreiðendanna. Hún er andstæð hagsmunum skattgreiðenda frá upphafi.

Þetta er kjarni málsins. Þetta áttu menn að skilja í febrúar þegar stjórnin var mynduð. Hún kann ekki aðra leið en að færa fjármagnið — færa fjármagnið undir þessu yfirskini og í þessu nafni bakdyramegin úr vösum skattgreiðenda og í rn. hæstv. ráðh. Pálma Jónssonar. Það er það sem hér er um að ræða.

Ég sakna hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í salinn, því að heiður og skír svipur hans er mér alltaf uppljómun. Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar. Þegar mig langar til að hætta hér í ræðustól og hugsa með sjálfum mér að nú sé kominn tími til að fara niður, þá lít ég á skýrt andlit hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og held áfram að tala, held áfram að útskýra betur.

Herra forseti. Efni þessa máls hefur verið rakið. Þingheimi er áreiðanlega ljóst hvað hér er um að ræða. Við skulum spyrja okkur sjálf. Ætlum við að hækka þessa skatta? Viljum við flytja með þessum hætti fjármuni frá skattgreiðendum og í rn. hæstv. ráðh. Pálma Jónssonar? Einhverjir, t.d. íhaldsmennirnir í salnum, hefðu einhvern tíma getað verið á móti þessu vegna þess að þetta ætti að fara í laun til opinberra starfsmanna. En eftir að hinn hæstv. trausti ráðh. Ragnar Arnalds varð fjmrh. — og gaf auðvitað samdægurs út yfirlýsingu um að engar grunnkaupshækkanir skyldu koma til, mér skildist helst alla hans tíð, þá er náttúrlega ekki hætta á að þetta eigi að fara í launagreiðslur, enda á þetta ekki að fara í launagreiðslur, þetta á að fara beinustu leið í rn. hæstv. ráðh. Pálma Jónssonar og málaflokkinn sem að baki honum stendur nú um sinn. Það er það skelfilega, það er það ósvífna að kalla þetta orkujöfnunargjald. Þessi tilfærsla úr vösum launafólksins, t.d. hér í Reykjavík, og inn í gjaldþrota atvinnugreinar sem nú er haldið uppi af gjaldþrota ríkisstj., ríkisstj. sem var andvana fædd, þessi tilfærsla er óréttmæt með öllu.