02.04.1980
Sameinað þing: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

116. mál, fjárlög 1980

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á mjög stuttum tíma hefur þrívegis verið gerð sérfræðileg úttekt á málefnum þessa fyrirtækis, fyrst á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðan á vegum sérstakrar vinnunefndar, sem fór ofan í sauma fyrirtækisins á vegum ríkisstj., og loks í þriðja lagi á vegum fjmrn. Skriflegar skýrslur eru til um allar þessar athuganir, sem eru nýjar af nálinni. Frekari skoðun mundi engu þar við bæta. Ef hv. þm. hafa áhuga á að kynna sér niðurstöður þessara athugana, þá gætu þeir gert það með einfaldri fsp. til hæstv. fjmrh. hér í þinginu, því að ég er sannfærður um að hæstv. fjmrh. mundi, ef hann væri spurður, skýra þingheimi frá þeim upplýsingum sem eru í hv. fjmrn. um þessi mál. Vegna þess að ég hef kynnt mér efni þessara skýrslna og fylgst með gerð þeirra segi ég nei.