09.04.1980
Neðri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Örstutt aths. — Ég get að vísu ekki lýst undrun minni á því, að erfiðlega gengur stundum að koma því til skila við hv. þm. sem rétt og satt er. Ég sagði áðan að formaður sjómannasamtakanna Óskar Vigfússon, gekk á minn fund. Hann er ekki fulltrúi ASÍ. Og ég vil ráðleggja hv. þm. að tala við Óskar. Ég veit að Óskar getur endurtekið þau harðorðu mótmæli sem hann hafði við mig. Það er langbest að hafa það þannig, og ég vil hér með skora á hv. þm. að gera það. Með honum voru jafnframt Snorri Jónsson, Ásmundur Stefánsson o. fl. Ég vil því eindregið beina því til hv. þm., að hann geri það. Þá þurfum við ekki að deila um það hér úr þessum ræðustól. En þetta voru hinar hörðustu aths. og vöktu undrun mína og vonbrigði, — veruleg vonbrigði.

Um samráðið ætla ég ekki að tala meira, nema segja þetta: Vitanlega er víðtækt samráð haft. Það segir hvergi í lögunum að ráðh. eigi endilega að vera í því. Samráð er haft í gegnum fulltrúa ríkisstj. í hinum ýmsu nefndum, ekki síst í því sem hér er um að ræða, og mjög víðtækt. Ráðh. á fyrst og fremst að standa að baki og vera til aðstoðar þeim manni sem er fulltrúi ríkisvaldsins. Læt ég útrætt um það.