09.04.1980
Efri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

135. mál, orkujöfnunargjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir páska var lagt fram í Nd. stjfrv. um orkujöfnunargjald. Frv. þetta gerði ráð fyrir að greitt yrði 2% gjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lögin um söluskatt gera ráð fyrir, og var þó sá munur á þessu gjaldi og almennum söluskatti, að gjaldið skyldi renna óskipt í ríkissjóð. Frv. þetta hefur nú verið afgreitt frá Nd. með þeirri breytingu, að í stað þess að gjaldið sé 2% hefur það nú verið lækkað í 1.5%.

Í fjárlögum ársins 1979 var gert ráð fyrir útgjöldum til greiðslu olíustyrks í þágu þeirra, sem hita hús sín með olíu, sem nemur 900 millj. kr. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að olíustyrkur til heimila, sem enn kynda hús sín með olíu, muni nema um 4 milljörðum, 4000 millj. kr. Gert er ráð fyrir að olíustyrkur, sem hækkaði verulega á síðari hluta seinasta árs, hækki enn og verði um 20 þús. kr. að jafnaði, en hækki síðan í hlutfalli við þær breytingar á olíuverði, sem verða kunna á árinu, eða lækki ef því verður að skipta.

Í þessu frv. er fyrst og fremst fjallað um tekjuöflunina, en gert er ráð fyrir að frv. um ráðstöfun þessa fjár verði lagt fram í þinginu innan fárra daga. Þar verður væntanlega gert ráð fyrir að nokkur breyting verði á greiðslu olíustyrks, þannig að þar sem búa fáir í íbúð verði um að ræða hlutfallslega hærri styrk en þar sem eru margir saman í sömu íbúð eða sams konar íbúð, það verði sem sagt tekið meira tillit til fjölskylduaðstæðna en gert hefur verið. En að jafnaði yrði þarna um að ræða 20 þús. kr. styrk á einstakling, þó hann yrði hlutfallslega hærri þegar einn eða tveir eða þrír búa í íbúð en þegar 5, 6 eða 7 búa í íbúð.

Eins og kunnugt er eru það fleiri aðilar, sem njóta olíustyrks og þurfa á olíustyrk að halda, en heimili ein. Er sérstök ástæða til að nefna heimavistarskóla og aðra staði þar sem einstaklingar dvelja í hópum. Með hliðsjón af útgjöldum í þessu sambandi og með tilliti til frekari orkusparandi aðgerða, sem áformaðar eru, hefur ríkisstj. gert ráð fyrir að verja a. m. k. 500 millj. kr. til viðbótar þessum 4000 millj. í tengslum við þá olíukreppu, sem gengið hefur yfir, í því skyni að vinna gegn áhrifum hennar. Það verður sem sagt samtals 4500 millj. varið af þessari tekjuöflun til að vinna gegn áhrifum olíuhækkunarinnar.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að allir stjórnmálaflokkar og allir alþm. hafi verið á einu máli um að greiðsla af þessu tagi sé óhjákvæmileg eins og á stendur, þótt að vísu hafi heyrst aðrar raddir annars staðar frá, og má nefna þar samþykkt Verslunarráðs Íslands, þar sem beinlínis er dregið í efa að styrkir af þessu tagi eigi nokkurn rétt á sér. Ég held að óhætt sé að fullyrða að hér á Alþ. hefur verið ríkur og almennur skilningur á því að styrkir af þessu tagi séu óhjákvæmilegir. Því hafa allir stjórnmálaflokkar gengið út frá því sem gefnu að afla þurfi fjár í þessu skyni.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig skynsamlegast og eðlilegast sé að afla fjár til að standa undir stórauknum kostnaði af þessum ástæðum. Er sérstök ástæða til að nefna hér frumkvæði Alþfl. í þessum efnum, því að fyrrv. iðnrh. starfsstjórnar Alþfl., Bragi Sigurjónsson, flutti fyrir hönd Alþfl. frv. sem gerði ráð fyrir tekjuöflun að upphæð 4.5 milljarðar á þessu ári eða um 9 milljarða á ársgrundvelli og átti að verja því fé í nákvæmlega sama tilgangi og hér er áformað. Í frv. Alþfl. var gert ráð fyrir að lagður væri sérstakur orkuskattur á allt selt rafmagn, 1 kr. á hverja kwst. Á hvern rúmmetra hitaveituvatns átti að leggja skatt sem nam frá 15 kr. upp í 30 kr. eftir hitastigi vatnsins. Hærri talan hefði sjálfsagt verið meginreglan, en lægri talan undantekning. Einnig átti að leggja 10 kr. skatt á hvern bensínlítra og 10 kr. skatt á hvern svartolíu- og dísilolíulítra. Ég held að Alþfl. hafi ekki um langt skeið lagt fram jafnviturlegar og vel samdar tillögur og fólust í þessu frv. Og ég held að hann hafi þarna vísað veginn, enda þótt niðurstaðan hafi orðið að önnur leið var valin.

Tekjuöflunin, sem Alþfl. gerði tillögu um, eins og sjá má á þskj. sem merkt er sem 151. mál Ed., yrði framkvæmd með verulegri skattlagningu á hvers konar orkusölu í landinu. Vissulega tel ég persónulega og minn flokkur að sú leið hefði á margan hátt verið eðlileg miðað við allar aðstæður. Því er ekkert að leyna að þessi leið var vandlega rædd meðal samstarfsaðila þessarar ríkisstj. Hins vegar er auðvelt að gagnrýna skatt af slíku tagi. Hann hækkar mjög verulega verð á heitu vatni, og hann leggst með talsverðum þunga á gasolíu, sem mundi hækka verulega útgerðarkostnað fiskiskipa, og einnig á bensínverð, sem þykir því miður nokkuð hátt. Það vantar því ekki að mjög auðvelt er að gagnrýna þá tekjuöflun og benda á að hún hefur margvíslega ókosti í för með sér. Það gildir að sjálfsögðu nákvæmlega sama um þá tekjuöflun sem að lokum varð fyrir valinu, að ná þessu með sérstökum söluskatti, orkujöfnunargjaldi, sem rennur óskipt í ríkissjóð og er sérstaklega tengt þessum útgjöldum ríkissjóðs. Vissulega er illt að þurfa að hækka vöruverð í landinu með þessum hætti, en hér er það nauðsynin sem kallar á. Menn eru ósköp einfaldlega að stinga höfðinu í sandinn ef þeir neita því að afla þurfi tekna í þessu skyni. Alþfl. og forustumenn hans neituðu ekki þessari nauðsyn meðan þeir báru ábyrgðina. Þó að þeir hafi talið sér henta að breyta um afstöðu eftir að þeir fóru úr ríkisstj. breytir það engu um þá afstöðu sem menn taka að sjálfsögðu meira mark á en síðari afstöðu þeirra í þessu máli.

Í grg. frv., þegar það var lagt fram, var gert ráð fyrir að skattur þessi aflaði ríkissjóði tekna á þessu ári sem næmi 7 milljörðum kr., að 2% söluskattur skilaði ríkissjóði tekjum sem næmu 7 milljörðum á þessu ári. Sú upphæð var þannig reiknuð af starfsmönnum fjmrn. og í samráði við forustumenn Þjóðhagsstofnunar, að áætlað var, hvað söluskattur gæfi á ársgrundvelli, og síðan reiknað út, hvað 2% viðbót gæfi á 7 mánuðum og 20 dögum, þ. e. frá 20. maí til ársloka, eða öllu heldur frá 10. apríl til 1. des., vegna þess að tekjur af söluskatti á seinasta mánuði ársins skila sér ekki í ríkissjóð á þessu ári. Þess vegna er reiknað með 7 mánuðum og 20 dögum, en ekki 8 mánuðum og 20 dögum, eins og mönnum kynni kannske að þykja liggja beinast við ef einungis er horft á dagsetningarnar. Útkoman úr þessu reikningsdæmi er og var 7 milljarðar, hvernig sem það er reiknað. Hitt er annað mál, að ef dæmið er reiknað á annan veg og reynt er að áætla hugsanlegar verðhækkanir á þessu ári og rekja sig fram til niðurstöðu um hversu miklu meira skattbyrðin skilar á síðari hluta ársins en á fyrra hluta ársins vegna verðbólgu komast menn að þeirri niðurstöðu að skatturinn skili meiri tekjum en hér var gert ráð fyrir. Þær upplýsingar komu fram við meðferð málsins í fjh.- og viðskn. Þar kom fram, að skatturinn mundi líklega gefa liðlega 8 milljarða ef reiknað væri með nokkurri verðbólguaukningu á þessu ári, eins og er auðvitað raunhæft að gera.

Einhver kynni nú að segja að orkujöfnunargjald sé rangnefni á þetta frv., vegna þess að ekki sé ætlunin að verja nema hluta þess, þó að það sé að vísu rúmlega helmingur þess, til þeirra verkefna sem ég hef hér getið um. En eins og kemur fram í grg. eru full rök fyrir því að gjaldið sé nefnt orkujöfnunargjald, ef tillit er tekið til þess að framlög til Rafmagnsveitna ríkisins og annarra verkefna á sviði orkumála hafa stóraukist á þessu ári í kjölfar orkukreppunnar. Þessi framlög eru framlög til orkuverðs jöfnunar. Framlög til Rafmagnsveitna ríkisins eru t. d. til þess fallin að halda niðri verði á raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins, sem hafa orðið að kynda undir kötlunum með talsvert dýrari olíu á seinasta ári en áður var. Hér er um að ræða upphæðir sem skipta mörgum milljörðum. Með það í huga að ríkissjóður hefur orðið að taka á sig stærri bagga af þessum sökum en áður var og að breyting til hins verra í orkukostnaði hefur orðið til þess að gera fjárhagsstöðu ríkissjóðs erfiðari en áður var, minnka það svigrúm sem ella hefði verið fyrir hendi hjá ríkissjóði, þótti eðlilegt að kenna þennan skatt allan við orkuverðsjöfnun. Það má sannarlega til sanns vegar færa, þótt ekki sé um að ræða útgjaldaaukningu í svipinn frá því fjárlagafrv., sem lagt var fram fyrir mánuði, nema sem nemur 4.5 milljörðum. Hitt var komið áður á reikning ríkissjóðs og þar er um að ræða upphæðir sem eru talsvert hærri en þeir 6–7 milljarðar sem gert er ráð fyrir að skattur þessi skili. Það varð hins vegar niðurstaðan við meðferð málsins í Nd. og með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem bárust eftir að frv. var lagt fram, að lækka gjaldið úr 2% í 1.5%, og er nú gert ráð fyrir því í nýafgreiddum fjárlögum að gjaldið skili ríkissjóði 6 milljörðum kr.

Eins og hv. þm. vita var það nokkurt átak fyrir hv. Nd. að afgreiða þetta mál og tók dálitinn tíma, þótt ekki sé æskilegt að mál af þessu tagi séu að vefjast mjög lengi fyrir þm. Þegar í óefni var komið miðvikudag fyrir páska var um það samið milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu að fella niður frekari umr. um málið, svo að þm. kæmust á skikkanlegum tíma í páskaleyfi, en taka málið upp að nýju eftir páska og afgreiða málið á miðvikudegi og fimmtudegi eftir páska. Ég verð því að biðja hv. þm. í Ed. þingsins að hafa frekar hraðan á og tryggja afgreiðslu málsins, svo að unnt verði að láta þessa breytingu ganga yfir um helgina. Það þarf óhjákvæmilega nokkurn aðdraganda að því að hægt sé að leggja gjald af þessu tagi á og óhjákvæmilegt að nokkrir klukkutímar lifi enn af skrifstofutíma föstudags, eftir að málið hefur verið afgreitt, til þess yfirleitt að breytingin geti átt sér stað á mánudagsmorgni. Það nægir ekki að samþ. þessi lög í þinginu, heldur þarf einnig að birta þau með formlegum hætti. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að málið verði afgreitt í dag — og ef það tekst ekki þá í allra seinasta lagi fyrir klukkan þrjú á morgun. Það væri hugsanlegt að láta athuga málið í dag og að það kæmi þá til atkvgr. við 2. umr. klukkan tvö á morgun og til 3. umr. strax á eftir. Ég vildi gera öllum þdm. grein fyrir þessum tímatakmörkunum, því að það mun koma sér ákaflega illa fyrir þá sem eiga að innheimta þetta gjald ef breytingin tengist ekki helginni. Þess vegna þarf d. að hafa lokið afgreiðslu málsins helst í kvöld, en þó í allra seinasta lagi fyrir klukkan þrjú á morgun. Ég tel að um þetta hafi verið samið milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég minni aðeins á að í Nd. hafa þegar verið gerðar breytingar á frv. sem að því lúta að það taki gildi á mánudagsmorgni.

Ég vil að lokum leyfa mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.