15.04.1980
Neðri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

137. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og er á þskj. 255, flyt ég ásamt fimm hv. þm. og er frv. þetta endurflutt. Það var fyrst flutt á 100 löggjafarþinginu, en þá svo seint að það kom ekki til umr. Fyrsti flm. frv. þá var núv. hæstv. forsrh. og meðal meðflm. tveir aðrir ráðh. núv. hæstv. ríkisstj., þeir hæstv. dómsmrh. og hæstv. landbrh. Þótt ég þykist vita að stuðningur þeirra ráði ekki úrslitum um stuðning hæstv. ríkisstj. við frv., þykist ég þó vita að fleiri en þeir úr liði hæstv. ráðh. telji að í þessum sem öðrum opnum hagsmunasamtökum almennings beri að auka lýðræðisleg áhrif hins almenna félagsmanns, um leið og ég veit — og hef raunar sannanir fyrir — að allt slíkt er fjarri vilja sumra, enda andstætt stefnu þeirra að gera neitt sem gæti dregið úr valdaaðstöðu fylgihnatta þeirra innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ég þykist vita, að margir hv, þm. muni spyrja af hverju við flm. séum að hreyfa jafnþýðingarmiklu máli svo seint á þessu þingi, og skal ég skýra það nokkrum orðum.

Allar brtt. við lög þau, sem hér er um að ræða, hafa verið um langan aldur litnar hornauga af meiri hl. verkalýðshreyfingarinnar og í sumum tilfellum sýnd mikil andstaða þótt skynsamlegar hafi verið og þess virði að athugast. Þetta hefur ekki verið að ástæðulausu, því tilfelli hafa komið upp sem hafa gefið ástæðu til slíkra viðbragða. Þeir skammsýnu menn hafa verið til sem ekki hafa borið skynbragð á þann hugsanagang sem ríkir meðal alls þorra almennings í launþegahreyfingunni, að lög um stéttarfélög og vinnudeilur séu þeirra skjöldur og um leið sverð í viðskiptum þeirra við viðsemjendur sína, vinnuveitendur. Er það þveröfugt við það sem forustumenn kommúnista héldu fram þegar lög þessi voru í undirbúningi og til umr. og afgreiðslu hér á Alþ. á sínum tíma. Þess vegna hefur að sjálfsögðu verið snúist til varnar með kjafti og klóm þegar lagðar hafa verið fram till. um einhliða og vanhugsaðar breytingar til skerðingar þess réttar sem í lögum felst á sviði þess sem heyrir til athafna og aðgerða í kjarabaráttunni. Það er jafneðlilegt að viðbragða af þessu tagl gæti í slíkum tilfellum, eins og það er óeðlilegt að löggjöf, sem komin er nokkuð á fimmtugsaldurinn og fjallar um jafnþýðingarmikil atriði og starfsreglur í samskiptum launþega og vinnuveitenda, þurfi ekki endurskoðunar og breytingar við í samræmi við þá stórkostlegu þróun, framfarir og tæknibyltingu sem orðið hafa á öllum sviðum atvinnulífsins á síðustu 3–4 áratugum.

En þessi lög fjalla um meira. Þau fjalla um innri mál verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar, skipulag hennar og réttindi þeirra einstaklinga sem hana skipa. Þótt ég telji að Alþ. geti að sjálfsögðu breytt þessum lögum sem öðrum, sé meiri hl. fyrir hendi, er ég ekki svo skyni skroppinn að ætla slíku máli framgang án umsagnar viðkomandi samtaka sjálfra, efnislegrar umræðu og helst meirihlutavilja innan samtakanna sjálfra um framgang málsins. Ég tel ekki rétt að endanleg afstaða til svo þýðingarmikils máls sé tekin fyrir hönd samtaka með þúsundir eða tugþúsundir félagsmanna á fámennisfundi pólitískra toppmanna þessara samtaka. Ég tel því eðlilegt að þing sem flestra launþegasamtaka fái slíka till. til umsagnar og umræðu.

Nú í ár eru mörg slík þing, bæði einstakra sérsamtaka og heildarsamtaka, haldin, þ. á m. hið langstærsta, þing ASÍ. Mín ósk er sú, að þegar 1. umr. er lokið hér í hv. d. og frv. hefur verið vísað til n. — sem ég tel eðlilegt að verði allshn. hv. d., í samræmi við það sem áður hefur tíðkast, þá verði frv. sent til umsagnar þeim samtökum, sem lög þessi taka til, með þeirri ósk frá Alþ. að þing þessara samtaka, sem haldin verða á þessu ári, taki mál þetta til efnislegrar umr. og segl sitt álit á því. M. a. vegna þessarar skoðunar minnar á meðferð þessa máls hef ég unnið ítarlega að öflun gagna fyrir framsögu málsins svo að þær röksemdir og aðrar, sem fram kunna að koma að sjálfsögðu bæði með og móti, geti orðið hjálpargagn fyrir þá aðila í samtökum launþega sem skoða vilja málið hlutlægt. Fordæmi um meðferð frv. um þetta efni, sem áður hefur verið flutt hér á Alþ., höfum við. Einnig höfum við hér á Alþ. nær árleg dæmi fyrir okkur um að mál, sem hér eru fram borin, séu auk þess að vera skoðuð í n. send þingi viðkomandi hagsmunaaðila. Á ég hér að sjálfsögðu við Búnaðarþing.

Í stuttri grg., sem fylgir með frv. því sem hér er til umr., er skýrt frá þeim hvata sem lá að þessum frv.-flutningi. Segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi verkalýðsráðs Sjálfstfl., sem haldinn var að Hellu á Rangárvöllum 14. og 15. okt. 1978, var gerð eftirfarandi samþykkt:

Ráðstefnan felur stjórn verkalýðsráðs að hefja nú þegar undirbúning að gerð lagafrv. um hlutfallskosningar við stjórnar- og fulltrúakjör í launþegasamtökunum. Stóraukið vald samtaka þessara og beiting þess á sviði efnahags- og atvinnumála þjóðarinnar gerir þá kröfu til Alþingis, að það setji slík lög. Slík löggjöf mun draga úr hættu á því, að valdi samtakanna sé misbeitt í pólitískum tilgangi, og tryggja eftirlit og gagnrýni lýðræðislega kjörins minni hluta.“

Á fundinum var samþykkt að óska eftir því við þingflokk Sjálfstfl. að taka mál þetta til flutnings á Alþ. Nokkru siðar var haldinn sameiginlegur fundur verkalýðsráðs og þingflokks um þetta mál og önnur sem rædd voru á Hellufundinum.

Í febr. 1979 sendi þingflokkur og miðstjórn Sjálfstfl. frá sér ítarlega stefnuyfirlýsingu um efnahagsmál o. fl., og ber hún heitið:

„Endurreisn í anda frjálshyggju.“ Í 8. kafla þessarar stefnuyfirlýsingar er fjallað um kjaramál og skyld atriði. Þar er því lýst yfir, að Sjálfstfl. skuli stuðla að því að koma á hlutfallskosningum í stéttarfélögum.“ — Svo sagði í grg. með frv.

Eins og ég hef þegar tekið fram er óhjákvæmilegt þegar till. um slík stórmál er borin fram eftir að margir áratugir eru liðnir frá umr. þess hér á Alþ. — að skoða þann aðdraganda sem er að slíkum tillöguflutningi og á hverju hann sé grundvallaður. Mál þetta er nefnilega ekki nýtt innan verkalýðshreyfingarinnar þótt því hafi ekki verið hreyft lengi. Síðast mun það hafa verið gert þegar endurskoðun laga og skipulagsreglna ASÍ stóð yfir fyrir nokkrum árum. Ég hreyfði þá máli þessu innan þeirrar nefndar sem að því starfi vann, en í henni átti ég sæti þá. Ekki átti till. mín fylgi að fagna. Má vera að sumir nm. hafi óttast að auglýsa rýrt fylgi sitt innan samtakanna ef þeir þyrftu á þeim vettvangi að ganga til kosninga eftir lýðræðisreglunni um hlutfallskosningar. En mál þetta hefur verið tekið upp af sjálfstæðisfólki og öðrum innan launþegasamtakanna og í framhaldi af því á Alþ., eins og ég mun koma nánar inn á í ræðu minni. M. a. vegna þess flutti Jóhann Hafstein tvívegis frv. á Alþ. um að skylt væri að viðhafa hlutfallskosningar innan stéttarfélaga og við kosningu fulltrúa til stéttarsambands ef 1/5 hluti félagsmanna krefðist þess.

Í hið fyrra sinn flutti hann frv. sitt í Nd. 1946 og í hið síðara 1948, einnig í Nd., og voru þá meðflm. hans allir þm. Sjálfstfl. sem sæti áttu í deildinni, þ. á m. hæstv. núv. forsrh.

Fyrir tilmæli og og vegna góðrar samvinnu við félagasamtök sjálfstæðisverkamanna flutti Bjarni Snæbjörnsson, þáv. þm. Hafnfirðinga, frv. á Alþ. árið 1939, sem fól í sér brtt. við lög um stéttarfélög og vinnudeilur, sem samþ. höfðu verið árið áður á Alþ., árið 1938. Í brtt. Bjarna var lagt til að viðhafðar yrðu hlutfallskosningar innan verkalýðsfélaganna til stjórnar og trúnaðarstarfa ef ákveðinn hluti meðlima félaganna óskaði þess. Í frv. hans voru einnig fleiri brtt, við sömu lög sem miðuðu að því að tryggja jafnrétti meðlima verkalýðsfélaganna.

Nefnt frv. var afgreitt frá Alþ. með samkomulagi þáv. stjórnarflokka, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., er fólst í till. til rökstuddrar dagskrár sem forsrh., Hermann Jónasson, flutti og byggðist á trausti þess, að efni frv. mundi ná fram að ganga með frjálsu samkomulagi og lagaákvæða væri þá ekki þörf. Hin rökstudda dagskrártillaga, eins og hún var samþ., hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að samningar takist milli fulltrúa þeirra verkamanna, sem lýðræðisflokkunum fylgja, er leiði til þess, að einungis eitt félag fyrir hverja stétt verði á hverju félagssvæði og engir geti gerst meðlimir þess aðrir en menn þeirrar stéttar, er félagið er fyrir; enn fremur að hið bráðasta verði gerðar nauðsynlegar breytingar á ASÍ til þess, að það verði óháð öllum stjórnmálaflokkum og tryggt verði, að öllum meðlimum félaga sambandsins verði veitt jafnrétti til allra trúnaðarstarfa innan viðkomandi félags án tillits til stjórnmálaskoðana, þá tekur d. að svo stöddu ekki afstöðu til frv. þessa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Til að skýra dagskrártillögu þessa og forsendu hennar er nauðsynlegt að fara enn aftar í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Frá stofnun Alþýðusambandsins 1916 og allt fram að árinu 1930 voru menn frjálsir að sínum pólitísku skoðunum þótt kjörnir væru á þing þess. Sátu menn þar án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokki þeir fylgdu að málum. Eftir fullveldi okkar 1918 fer skipan stjórnmálaflokka hér á landi að breytast, og þegar Jafnaðarmannaflokkurinn var stofnaður var biðlað markvisst til verkamanna og verkalýðsfélaga, enda stofnendur flokksins margir þeirra sem forustu höfðu innan verkalýðshreyfingarinnar. Þessir menn töldust til þeirra sem höfðu hugsjónir lýðræðis við hún. Þess fór þó fljótlega að gæta, að styrkleiki kommúnista innan þessara raða fór vaxandi. Fljótlega urðu allhörð átök milli þessara aðila: annars vegar þeirra, sem vildu stefna að þjóðfélagsbyltingu, jafnvel vopnaðri, með yfirtöku og alræði öreiganna að kjörorði og markmiði, og hins vegar þeirra, sem ná vildu aukinni velmegun og skilyrðum til betra lífs með hægfara en stöðugri þróun. Þessi ágreiningur, sem fór vaxandi, olli klofningi í röðum Alþfl.-manna, og 1930 er Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður sem deild úr alþjóðasamtökum kommúnista. Þeir hófu þegar hatramma baráttu gegn sínum fyrri félögum, bæði í ræðu og riti, sem hefur staðið æ síðan. Að vísu hafa orðið nokkur hlé á, en sagan hefur endurtekið sig. Samvinnutilboð og fagurgali þeirra við Alþfl. síðari áratugi hefur alltaf verið undanfari nýs klofnings út úr Alþfl., sem markvisst hefur verið unnið að af kommúnistum á bak við tjöldin meðan samvinnan hefur staðið yfir.

Þeim átökum, sem komu fram í dagsljósið 1930, svöruðu Alþfl.-menn með því að misnota meirihlutaaðstöðu sína innan Alþýðusambandsins og breyta lögum þess í þá veru, að aðeins flokksbundnir Alþfl.-menn mættu skipa trúnaðarstöður í verkalýðshreyfingunni og sækja þing Alþýðusambandsins. Þá urðu lög Alþfl. og Alþýðusambandsins sameiginleg og þau sömu.

En þróun verkalýðshreyfingarinnar hélt áfram og styrkur hennar óx, m. a. með því að þeir launþegar gerðust þar félagsmenn sem öðrum fullmótuðum stjórnmálaflokkum fylgdu að málum. Á síðasta sameiginlega þingi þessara aðila, ASÍ og Alþfl., 1940, var skilnaður þessara aðila samþykktur í beinu framhaldi af þeirri samþykkt Alþingis, að í trausti þess að viðkomandi aðilar kæmu sér saman um að framkvæma efnisatriðin úr frv. Bjarna Snæbjörnssonar mundi Alþ. að svo stöddu ekki taka afstöðu til frv.

Sjálfstæðismenn hafa æ síðan viðurkennt að fyrri hluta þessarar till. hafi verið framfylgt á Alþýðusambandsþingi 1940, en síðari hluta hennar, þ. e. jafnrétti til trúnaðarstarfa án pólitískra skoðana, hvorki þá né síðar. Þessi réttarbót fékkst fram fyrst og fremst vegna markvissrar baráttu sjálfstæðismanna. Þeir höfðu forustu á Alþ. um setningu vinnulöggjafarinnar, laga um stéttarfélög og vinnudeilur, sem við ræðum hér, 1938. En þau lög voru af andstæðingum þeirra, kommúnistum og vinstri krötum, kölluð þrælalög, tugthúslöggjöf o. fl. í þeim dúr.

Í þessum lögum hefur þó ekki mátt breyta stafkrók þrátt fyrir þær stórfelldu þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á þeim meira en 40 árum sem liðin eru síðan. Þeir, sem áður notuðu framangreindar lýsingar á lögum þessum, telja þau nú helgasta vé verkalýðshreyfingarinnar og allar breytingar á þeim árás á þá sömu hreyfingu, eins og ég kom inn á í byrjun ræðu minnar.

Til að berjast fyrir lýðræðislegum rétti hins almenna launþega — hvaða stjórnmálaskoðun sem hann hefði — stofnuðu sjálfstæðisverkamenn og sjómenn málfundafélög víðs vegar um land og var hið fyrsta þeirra stofnað í Reykjavík 1937. Þeir hófu þá einnig skipulagt starf innan verkalýðssamtakanna til að mæta misnotkun þeirra og náðu umtalsverðum árangri innan þeirra og utan, m. a. að ná fram framangreindum breytingum á lögum Alþýðusambandsins. Að fenginni þessari réttarbót drógu sjálfstæðismenn úr starfi sínu í verkalýðshreyfingunni. Þeir héldu að með auknu lýðræði og auknu jafnrétti innan þeirra skapaðist friður, en það var öðru nær.

Það er eftirtektarvert að veita athygli þeim sögulegu staðreyndum sem blasa við þegar lítið er til baka nokkra áratugi yfir starf íslenskrar verkalýðshreyfingar. Þegar pólitísk misnotkun þeirra hefur keyrt úr hófi hafa sjálfstæðismenn innan hennar gripið til gagnaðgerða og tekið upp baráttu gegn ofbeldi kommúnista og fylgifiska þeirra þar, sem þeir eru æ ofan í æ staðnir að — þessari misnotkun að segja — sínum pólitísku húsbændum og samtökum til framdráttar. En þegar slík stundarmisnotkun hefur verið knúin á bak aftur og réttlætisáfanga náð hafa sjálfstæðismenn dregið sig í hlé sem pólitískt afl innan samtakanna, trúir þeirri hugsjón sinni að verkalýðshreyfingin eigi að vera lýðræðisleg samtök allra launþega — hvaða pólitíska skoðun sem þeir hafa sem einstaklingar — sem ráði málum sínum sjálf og vinni á faglegum grundvelli að hag allra félagsmanna sinna og þjóðarinnar í heild.

Þessum áföngum hefur verið náð með þrotlausri vinnu og baráttu og því sem alltaf verður sterkasta vopnið, réttlætiskennd hins almenna félagsmanns innan verkalýðshreyfingarinnar.

Á stríðsárunum stórjuku kommúnistar fylgi sitt, — ég veit að sumir munu telja það helgispjöll að nota þetta nafn áfram eftir að fram á þetta árabil er komið, en ég mun samt nota það, því eðlið er eitt og hið sama, — þá náðu þeir sæti í miðstjórn Alþýðusambandsins 1942 og þeir náðu meiri hluta þar 1944. Og á þinginu 1946 höfðu kommúnistar næstum 2/3 af fulltrúunum á þingi Alþýðusambandsins. Þessum meiri hluta var m. a. náð með því ólýðræðislega kosningafyrirkomulagi sem þá gilti og gildir enn innan verkalýðshreyfingarinnar og var þá sem nú notað til hins ýtrasta af kommúnistum. Á því tímabili, sem fór í hönd eftir stjórnaryfirtöku þeirra, hófst pólitísk misnotkun samtakanna á ný og hefur æ síðan verið þegar þeir hafa verið í hreinum meiri hluta eða stjórnað með sínum tryggu meðreiðarsveinum. Misnotkunin hefur komið fram á margan hátt: í pólitískum verkföllum og ýmsum ofbeldisaðgerðum. Má benda þar t. d. á a. m. k. tvo milliríkjasamninga sem Alþ. hefur beitt sér fyrir og gert, en þá hafa þessi samtök gert tilraun til þess að hafa áhrif á gerðir Alþingis með ofbeldi. Þau hafa verið með pólitískar samþykktir og aðgerðir gegn löglega kjörnum stjórnvöldum, sem túlkaðar hafa verið sem samhljóða vilji allra félagsmanna. Og hjá þeim hefur verið ríkjandi sú gegndarlausa misnotkun síðari ára sem öllum er kunnugt um og best sést á algerum sinnaskiptum á fáum mánuðum þegar þeir taka við stöðu húskarla hjá pólitískum húsbændum sinum.

Strax árið 1945 var svo komið, að sjálfstæðisverkamenn og sjómenn höfðu gert sér grein fyrir því, í hverju þessi möguleiki til misnotkunar var fólginn. Á landsfundi þeirra það ár var eftirfarandi ályktun samþykkt, með leyfi forseta:

„Landsfundur sjálfstæðisverkamanna og sjómanna, haldinn í júní 1945, skorar á þm. Sjálfstfl. að beita sér fyrir því á Alþ., að komið verði á hlutfallskosningu til stjórnar og annarra trúnaðarstarfa í öllum stéttarsamtökum landsmanna, svo sem verkalýðsfélögum, iðnaðarmannafélögum, búnaðarfélögum og samböndum stéttarfélaga.“

Þá þegar hafði þetta kosningafyrirkomutag verið tekið upp í kosningum til Búnaðarþings og hefur gilt þar síðan. — Hér er rétt að skjóta inn í til frekari áherslu smákafla sem fylgdi því frv., með leyfi forseta:

„Með þessu kosningafyrirkomulagi er bændum gefinn kostur á að hafa áhrif á skipun Búnaðarþingsins eftir því sem þeir hafa vilja og aðstöðu til. Einmitt með þessari skipun Búnaðarþings ætti það að vera tryggt, að það væri nokkurn veginn rétt mynd af því viðhorfi er bændurnir hafa til helstu áhugamála sinnar stéttar og reyndar þjóðmála yfirleitt. Líklegt er að öllum þyki vænt um þessi lagafyrirmæli. Þau svipta engan bónda réttindum, heldur þvert á móti veita bændunum mikilsverð réttindi sem þeim að sjálfsögðu ber og hefðu átt að vera búnir að fá fyrir löngu, en hefur þó dregist til þessa. Nú mun þeim af öllum frjálshuga mönnum fagnað.“

Þess má geta, að þegar Stéttarsamband bænda var stofnað var ákveðið að viðhafa þar hlutfallskosningar. Í framhaldi af fyrrnefndri samþykkt sjálfstæðisverkamanna og sjómanna 1945 tók landsfundur Sjálfstfl., sem haldinn var sama ár, þetta mál til umr. og í ályktun fundarins er m. a. þessi kafli, með leyfi forseta:

„Fundurinn telur að tryggja beri að ópólitísk félagasamtök til almenningsheilla, svo sem samvinnufélög, búnaðarfélög, verkalýðsfélög og önnur stéttarsamtök, séu eigi misnotuð til framdráttar einstökum pólitískum flokkum og því sé skylt að viðhafa lýðræðislegar reglur í stjórnarháttum þeirra, svo sem hlutfallskosningar til allra trúnaðarstarfa. Mælist fundurinn eindregið til þess, að þm. Sjálfstfl. beiti sér fyrir framkvæmd þess á Alþingi.“

Þegar hér var komið þessari sögu ákvað Jóhann Hafstein, þá ungur að árum, nýkjörinn á Alþ., að flytja frv. í samræmi við þær viljayfirlýsingar sem hér hefur verið greint frá. Árið 1946 flytur hann fyrra frv. sitt, en hið síðara 1948, eins og áður segir. Voru þau í bæði skiptin samhljóða og voru á þá leið efnislega, að skylt væri að viðhafa hlutfallskosningu innan stéttarfélaga til stjórnar og trúnaðarstarfa, svo sem við kosningu fulltrúa stéttarfélaga til stéttarsambands, ef 1/5 hluti félaganna krefst þess.

Miklar umr. urðu um frv. þetta strax við 1. umr. hér á Alþ. En að henni lokinni var málinu vísað til allshn. Nd. Þá var fram undan 19. þing Alþýðusambandsins. Þótti rétt að óska eftir umsögn þess um málið og bíða með afgreiðslu þess frá nefnd á meðan.

Með það í huga, sem hér er áður sagt um styrkleika kommúnista á þessu þingi, þykir mér ekki undarleg sú umsögn sem Alþýðusambandsþing sendi Alþ. um frv. þetta. Í henni kom fram þá strax sú helgislepjugríma sem kommúnistar setja alltaf upp ef þeir telja að eitthvað eigi að gera sem hróflað geti við völdum þeirra. Breytir þá engu þótt þeir geri kröfur um sams konar eða skyldar breytingar annars staðar þar sem þeir telja sig ekki njóta lýðræðislegra áhrifa um stjórn í samræmi við fylgi sitt, sbr. afstöðu Sigurjóns Péturssonar, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, á landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga í sept. 1978.

Jóhann Hafstein og Garðar Þorsteinsson lentu í minni hl. í allshn., en þeir gáfu út mjög ítarlegt nál. og hröktu þar lið fyrir lið þær fullyrðingar sem komið höfðu fram í umsögn þessa Alþýðusambandsþings, enda allsérstæðar eins og fleira sem frá kommúnistum kemur þegar valdið er þeirra.

Ég mun nú í mjög stuttu máli draga fram þau rök, sem komu fram gegn frv., bæði í umsögn þessari og í umr. á Alþ., og notuð eru enn í dag, og þau gagnrök sem á móti eru færð. (Forseti: Mætti ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni?) Já, töluvert, ég er kominn nokkuð fram yfir miðjan fimmta áratuginn, en það er nokkuð eftir af ræðunni. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að gefa kaffihlé í hálftíma.) Ég gæti lokið ræðunni á hálftíma. (Forseti: Það eru ýmis mál eftir.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég var farinn að minnast á þau rök, sem voru færð gegn þeim frv.-flutningi sem ég vitnaði til, og eins þau rök, sem færð voru með málinu, bæði frá Alþýðusambandinu sjálfu og eins hér á Alþingi.

Í umsögn frá 19. þingi Alþýðusambandsins segir svo orðrétt, með leyfi forseta: „Á frv. þetta má líta sem árás á félagafrelsið í landinu, óskammfeilna tilraun til þess að skerða óumdeilanlegan rétt verkalýðsfélaganna og annarra samtaka til að ráða sínum innri málum,“ eins og það var orðað í umsögninni.

Í þessu felst ásökun um það, að frv. sé brot á stjórnarskránni sem verndar félagafrelsið í landinu. En það fær að sjálfsögðu á engan hátt staðist, enda um breyt. á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, 3. gr. þeirra, en þar segir svo: „Stéttarfélög ráða málefnum sínum sjálf með þeim takmörkunum sem sett eru í lögum þessum.“ Það er gert ráð fyrir því í löggjöfinni sjálfri að setja takmörk á starf þessara félaga. Það kemur þarna fram, að löggjafinn ráðgerir vissar takmarkanir á því að stéttarfélög ráði málefnum sínum sjálf, og mundi frv. það, sem hér greinir frá, heyra undir eina slíka takmörkun.

Þá er enn fremur sagt, með leyfi forseta, að „frv., ef að lögum yrði, mundi beinlínis lögfesta pólitíska sundrungu innan samtakanna og lögfesta stjórnmálaerjur í verkalýðssamtökunum,“ eins og sagt var orðrétt. Þetta byggist á misskilningi, þar sem ekkert ákvæði frv. hneig að lögfestingu sundrungar í þá tíð né heldur gerir mitt frv. og samflm. minna það nú. Það er hvergi ýjað þar að pólitískum eða ópólitískum áhrifum frv.-flutningsins.

Saga verkalýðshreyfingarinnar í þau 33 ár, sem liðin eru síðan þetta frv. var flutt, hefur margsannað, en þó aldrei jafnáþreifanlega og síðustu misserin, að pólitísk sundrung og pólitísk misnotkun, sem komin er út í hreinar öfgar, hafa fært samtökin á barm klofnings. Eiga hlutfallskosningar engan þátt í slíku, en gætu hins vegar að mínu mati hindrað að sú óhamingja hendi þau.

Í umsögn þessa 19. þings Alþýðusambandsins sagði einnig, með leyfi forseta, að „slík lagasetning mundi stöðugt verða uppspretta ófriðar meðal verkamanna og verka lamandi á starfsemi verkalýðsfélaganna, en gera lýðræðið að skrípamynd“. Þetta verður að telja einstæða ályktun eða skoðun í lýðræðislandi, að hlutfallskosningafyrirkomulag, í stað kosningafyrirkomutags þar sem einfaldur meiri hl. ræður úrslitum, geti gert lýðræðið að skrípamynd, þar sem hlutfallskosningafyrirkomulag bæði hér á landi og annars staðar í heiminum er einmitt fram komið og framkvæmt til þess að fullnægja betur en hitt kosningafyrirkomulagið hugsjónum og kröfum lýðræðisins. Ég endurtek þetta sem ég sagði: Það er sett fram til þess að fullnægja betur en hitt kosningafyrirkomulagið hugsjónum og kröfum lýðræðisins.

Það komu einnig fram í umsögnum þá — og reyndar hef ég heyrt slíkar umsagnir síðan hjá mönnum sem spurðir hafa verið á götu um þetta mál — ýmsir sleggjudómar um það, að með samþykkt slíks frv. væri verið að löghelga afskipti stjórnmálaflokka af innri málefnum verkalýðssamtakanna. Eins og ég gat um áðan hefur ekkert komið fram — hvorki áður fyrr í frv. sem flutt voru né nú hjá mér og meðflm. mínum — í þá átt, og þeir, sem hafa aðallega talað gegn þessu fyrirkomulagi, bæði kommúnistar og aðrir, hafa alltaf sniðgengið þá staðreynd, að hlutfallskosningafyrirkomulagið er það lýðræðislegasta sem þekkist og um leið það réttlátasta og þeim þekkilegt ef þeir telja sig sjálfa hafa pólitískan hag af, eins og ég gat um áðan, sbr. landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga og ummæli forseta bæjarstjórnar Reykjavíkur á því þingi eða eftir það.

Í umr. á þessu sögufræga þingi mæddi mjög á þáv. forseta Alþýðusambandsins, Hermanni Guðmundssyni, en þá sat hann hér á Alþ. fyrir kommúnista og var framsögumaður meiri hl. allshn. er málið kom til 2. umr. Það er eftirtektarvert, hve hann og fleiri andmælendur frv. lögðu mikla áherslu á að undirstrika hve ólýðræðislegt það væri, að minni hl., 1/5 félagsmanna, gæti gert kröfu um hlutfallskosningafyrirkomulag ef hann óskaði þess. Er ekki annað að sjá en verið sé að læða því inn, að verið sé að rýra hlut þeirra 4/5 félagsmanna, sem vilja hreina meirihlutakosningu. Þetta er auðvitað argasta fölsun því þessir aðilar, eins og allir félagsmenn, munu njóta kosningarréttarins jafnt með hlutfallskosningum áfram. Það mun að sjálfsögðu áfram vera meiri og minni hl. nema samkomulag sé um annað. Breytingin er sú, ef slíkt frv. yrði samþykkt, að meiri hl., ef hann skapast, fer ekki lengur með skoðanir minni hl. sem sínar. Allir fá sama lýðræðislega réttinn til að koma skoðunum sínum á framfæri, ef vissum skilyrðum er fullnægt, sem nú er loku fyrir skotið allt of víða.

Sú röksemd, sem þarna kom fram, verður beinlínis hlægileg þegar haft er í huga að einmitt á næsta þingi Alþýðusambandsins, 1948, voru samþykktar reglur um allsherjaratkvæðagreiðslu við kosningu stjórnar trúnaðarmannaráðs og fulltrúa til sambandsþings í félögum Alþýðusambandsins. Og í 1. gr. reglugerðarinnar, sem samþ. var af þessum sömu gagnrýnendum frv., eru ákvæði þess efnis, að allsherjaratkvæðagreiðsla skuli fara fram ef minnst 1/5 hluti fullgildra félagsmanna krefst þess skriflega. Hvar er þá réttur meiri hl.? Þetta finnst mér vera einn þáttur í þessari svokölluðu sýndarmennsku sem ríður húsum ekki aðeins hér á Alþ. heldur og innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ég hef í þessu máli mínu vitnað nokkuð til umr. sem urðu á Alþ. um áðurnefnt frv. Jóhanns Hafsteins 1948, og eins og ég hef þegar bent á geri ég það vegna þess að mörg rök, sem þá voru notuð málinu til framdráttar, gilda enn í dag. Sama er að segja um gagnrök. Þau eru hin sömu sem notuð eru nú þótt að sjálfsögðu sé af meiru að taka nú 32 árum síðar. En til viðbótar vil ég draga fram enn eitt atriði.

Í umr. 1948 hafði Gylfi Þ. Gíslason sig allnokkuð í frammi sem andmælandi frv., og vitnaði hann m. a. í harða andstöðu sjálfstæðismanna gegn lagaákvæðum um hlutfallskosningar til Búnaðarþings á sínum tíma. Jón Sigurðsson, 2. þm. Skagfirðinga og einn af meðflm. Jóhanns Hafsteins, svaraði Gylfa og skýrði frá því, hvers vegna þessi lagaákvæði voru tekin út síðar. Það var gert með samkomulagi Búnaðarþings og ríkisstjórnar, enda áfram ákveðið að hafa ákvæðið um hlutfallskosningar bundið í lögum Búnaðarfélagsins, og þarf þar 2/3 þingfulltrúa til að breyta þeim. Síðan sagði Jón Sigurðsson fyrrum alþm. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kem ég að því, sem ég tel mest vert í þessu sambandi. Hvernig hefur þessi skipun reynst? Ég held að mér sé óhætt að segja, að það sé samróma álit allra, að hún hafi reynst vel. Ég segl það jafnt þó að ég hafi á sínum tíma verið henni andvígur. Þetta fyrirkomulag varð m. a. til þess að auka að miklum mun samstarf milli þeirra sem eiga að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum. Áður fyrr, meðan einn og sami flokkur fékk annaðhvort alla fulltrúana eða engan, myndaðist oft óeðlilegt kapp sem hjá þeim, sem töldu sig afskipta, olli oft sársauka sem torveldaði alla samvinnu milli þeirra sem saman þurftu að vinna. Þetta hefur horfið mikið. Ég fullyrði að samstarfið hefur orðið miklu betra síðan þessi breyting komst á. Þetta var orsökin til þess, að þegar Stéttarsamband bænda var stofnað, sem er að sumu leyti hliðstæðara verkalýðssamtökunum en Búnaðarfélag Íslands, þá var þar ákveðin hlutfallskosning, eða menn hafa rétt til að hafa hana sé þess óskað. Það sýnir hvernig þetta fyrirkomulag hefur gefist. Það er stundum svo, að það þarf nokkuð til að vekja athygli manna á hvað sé heppilegast, og ég fyrirverð mig ekki neitt fyrir það,“ sagði Jón Sigurðsson, „þó að ég nú líti öðruvísi á þessi mál en ég gerði fyrir 12 árum. Ég tel skyldu mína, ef ég kemst að því að ég hafi ekki á réttu að standa, að breyta um og fylgja því sem réttara eða betra reynist, hver sem afstaða mín kann að hafa verið áður fyrr. Þetta er sú regla sem ég hef fylgt, og samkvæmt þessari reglu og samanborið við þá reynslu sem ég tel að bændastéttin hafi hér fengið, þá hikaði ég ekki við að gerast meðflm. að þessu frv. þó ég telji eðlilegast að upp úr þessu kæmi það, að verkalýðsfélögin hyrfu sjálfkrafa að þessu ráði og ákvæðu það fyrirkomulag sem hér er lagt til, og ég gæti vel trúað að þessi tilraun, sem hér er gerð, yrði til þess, að verkalýðsfélögin tækju þetta fyrirkomulag upp í lög sín, eins og Búnaðarfélagið gerði á sínum tíma, og þar með er þá líka okkar tilgangi náð.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð,“ sagði Jón Sigurðsson enn fremur. „Það er sannfæring mín, að slík breyting yrði verkalýðsfélögunum aðeins til góðs. Þess vegna tel ég rétt að fylgja málinu og stuðla þannig að því að það geti komist á rekspöl.“

Ég tek þessa tilvitnun fram af ásettu ráði, vegna þess hugsanagangs sem kemur fram hjá þessum þá reynda þm. Og mig langar að lokum að vitna í aðra ræðu, nokkrar málsgreinar úr ræðu Ólafs Thors við sömu umr., með leyfi forseta. Ólafur Thors sagði:

„Ég get látið mér nægja í þessu máli þau rök sem flutt voru fram af þessum unga manni Sjálfstfl.“ — þ. e. Jóhanni Hafstein —„sem þessi ungi maður Alþfl.“— þ. e. Gylfi Þ. Gíslason — „talaði um með svo miklu yfirlæti og kenndi hann í þeim tilgangi við æsku. Þessu litla sem var ósvarað af því sem hv. þm. Reykv. talaði um“ — þ. e. Jóhann Hafstein — „hefur hv. 2. þm. Skagf.“— þ. e. Jón Sigurðsson — „gert full skil. Hann stakk svolitlum prjóni í belginn, svo að út fór allur vindurinn. Það kom mér engan veginn á óvart og þarf engum að koma á óvart, þannig eru ræður þessa hv. þm.“— og þar átti Ólafur við sinn síðari vin, Gylfa Þ. Gíslason. Síðan hélt hann áfram:

„Mig undrar hins vegar hvað þetta mál sætir miklum andmælum hér í d., því að þetta getur í hæsta lagi verið álitamál, hvort hér sé um réttlætismál að ræða. Ég held að það sé ekki hægt fyrir neinn mann, sem nokkra reynslu hefur fengið í lýðræðislegum eða félagslegum efnum, að mæla gegn slíku frv. með þeim ofsa sem hér hefur verið gert. Þeir munu sanna það, þessir hv. þm., að þeir munu síðar iðrast þessara orða sinna og skilja að þetta er eitt af þeim málum sem lífið ber fram til sigurs. En þeirra framkoma er ekki verri en annarra sem gert hafa slíkt. Ég hef líka stritast á móti málum, sem lífið hefur síðan kennt mér að var skammsýni að vera ekki með frá öndverðu, eins og togaravökulögunum. Þetta er ekkert einsdæmi. Menn spyrna á móti góðum málum, en bað er engum til ánægju og ekki heldur til sóma.

Ég get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ég mundi helst kjósa að þessi ákvæði gætu náð fram að ganga á þann hátt, að verkalýðsfélögin samþykktu þetta fyrirkomulag hjá sér sjálf, og ef þetta frv. gæti orðið til þess að tryggja þessa skipan þannig, eða skapa líkur fyrir því, þá yrðum við flm. ánægðir með það.“

Frá því að þetta mál var rætt á Alþ. fyrir rúmum þrem áratugum hafa orðið stórkostlegar breytingar í framfaraátt í okkar þjóðfélagi. Tækni, vísindi og almenn verkmenning er talið til hins sjálfsagða hjá atvinnuvegum okkar. Fátækt hefur verið útrýmt að mestu leyti og sífellt fleiri þegnar verða eignafólk í hinum eiginlega skilningi þessa orðs. Atvinnuleysi þekkist vart nema vegna sérstakra óhappa eða aflabrests, en tryggingar gegn því, slysum, veikindum, örorku og elli eru til staðar auk margs konar samhjálpar við þá sem bágstaddir eru af einni eða annarri ástæðu.

Íslensk launþegasamtök hafa átt aðild að og sinn þátt í þessari framþróun. Þetta hefur æ oftar verið viðurkennt af löggjafanum, og með lögum frá Alþ. hefur samtökum launþega verið sýndur trúnaður til starfa í ráðum, stjórnum og nefndum, sem hafa ótrúlega mikið vald í þjóðfélaginu, og þar eru iðulega teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á gerðir stjórnvalda til stuðnings — og hindrunar einnig. Jafnframt hafa samtökin fengið til ráðstöfunar stórar upphæðir af fé skattborgaranna til ráðstöfunar að hagsmunamálum félagsmanna sinna. Með kjarasamningum sinum hafa launþegasamtökin náð til ráðstöfunar gífurlegum fjármunum beint og óbeint. Félagsgjöld eru víðast í formi launaskatts, 0.75% til 1%, þar við bætast margvíslegir sjóðir, t. d. sjúkra- og styrktarsjóðir og Atvinnuleysistryggingasjóður, sem löggjöf stendur að vísu að baki. En mest munar þó um lífeyrissjóðina. Til þeirra renna 10% af launum, þar af 4% frá launþegunum sjálfum. Þá má benda á bankastofnun, sparisjóði, húseignir, orlofshús o. fl., og er hér um milljarðaverðmæti að ræða sé í krónum talið.

Það getur naumast verið álitamál, að hinn almenna launþega varðar það miklu, hvernig þessu mikla fjármagni sé varið, og hann á kröfu til þess, að réttur minni hl. sé tryggður í þeim efnum. Það hefur naumast farið fram hjá neinum, að sum verkalýðsfélög hafa notað sjóði sína og eigur í pólitískum tilgangi, og nægir í þeim efnum að skírskota til þeirra útvarpsauglýsinga sem dundu í eyrum manna út af pólitískum deilumálum fyrir aðeins nokkrum misserum. Með hlutfallskosningum í þessum samtökum er ekki verið að leggja til að óviðkomandi aðilar fái rétt til óþarfahnýsni eða valda innan þeirra, heldur að eigendurnir sjálfir fái meðaðild að ráðstöfun þessara verðmæta, að þeir fái rétt til að gagnrýna ef þeim finnst að misfara eigi eða fara á rangan hátt með eigur félagsmanna.

Hlutfallskosningafyrirkomulagið er að sjálfsögðu hægt að nota til annars en pólitískrar ákvarðanatöku, t. d. innan ASÍ til að gæta hins faglega réttar minnihlutahópa. En réttur þeirra til tjáningar og áhrifa innan samtakanna er nú æ oftar fótum troðinn af pólitískum yfirtroðslumönnum, sem nota fjölmenn landssambönd sín til pólitískra viðskipta í nafni heildarasamtakanna, stundum þvert ofan í hagsmuni félagsmanna, en til framdráttar pólitískum húsbændum ráðamanna sinna. Slík löggjöf mundi tvímælalaust draga úr því, að hluta launþegasamtakanna yrði misbeitt í pólitískum tilgangi, um leið og réttur lýðræðislega kjörins minni hl. til gagnrýni og eftirlits verður tryggður. Það á að vera liðin tíð, að félagsmenn launþegasamtaka fái ekki að fylgjast með hvernig og hvers vegna ákvarðanir séu teknar, hvað þá að hafa áhrif á ákvarðanatökuna nema í orði kveðnu. Ljósasta dæmið um þetta var kúvending verkalýðshreyfingarinnar gagnvart núv. eða fyrrv. ríkisstj., þar sem skýringarlaust var fallið frá kröfunni um samningana í gildi og fallist á að samningsrétturinn sé nánast tekinn af verkalýðshreyfingunni og settur í hendur pólitískra fámennishópa.

Dæmi sama eðlis er það, að grundvöllur kaupgjaldsvísitölunnar er til endurskoðunar. Verkalýðshreyfingin forðast það eins og heitan eldinn að taka það mál til opinberrar umr., heldur eiga launþegar að bíða þess aðgerðalausir, hverjar málslyktir verða, og sætta sig síðan við þá niðurstöðu umyrðalaust. Vinnubrögð af þessu tagi heyra til liðinni tíð og eru í hróplegri mótsögn við þá kröfu sem uppi er í þjóðfélaginu um opna umr. og rétt minni hl. til að fylgjast með og hafa áhrif á gang mála.

Þau pólitísku öfl, sem mestu ráða nú innan launþegasamtakanna, kommúnistar og kratar, hafa það að opinberri stefnu að beita þeim fyrir sitt pólitíska tvíeyki og telja verkalýðsfélögin vera tæki í hinni pólitísku baráttu.

Stór hluti félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar er á móti þessari stefnu. Ef hlutfallskosningar kæmust á í samtökunum er því ekki verið að innleiða pólitíska starfsemi í þau, heldur að fyrirbyggja misnotkun þeirra í þessum tilgangi. Má í því sambandi minna á hvatningu þm. kommúnista, sem enn er í minni, um að beita samtökum verkalýðsins í pólitískum tilgangi gegn löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Mín skoðun er sú, að nú hafi verið tímabært að endurflytja þetta frv., sem Jóhann Hafstein og fleiri sjálfstæðismenn fluttu á sínum tíma, með nokkrum breytingum í samræmi við breytt skipulag Alþýðusambandsins, til þess að fá fram umr. um málið innan verkalýðshreyfingarinnar. Það má vera að þessi leið verði til þess að næsta Alþýðusambandsþing taki þessa ákvörðun sjálft án aðstoðar löggjafans, en alla vega hefur málinu verið hreyft hér, og vonandi verður orðið við þeirri ósk minni að senda málið til umsagnar næsta Alþýðusambandsþingi og vonandi fleiri þingum sem haldin verða á þessu ári.

Um frumvarpsgreinina sjálfa er þetta að segja: Minnstu félögin eru samkv. ákvæðum hennar undanþegin þessari skyldu þótt skilyrðum væri fullnægt. Er þetta m. a. vegna þess, að minni félögin hafa í flestum tilfellum ekki á að skipa starfskröftum til að vinna að framkvæmd málsins, enda vankantar þeir, sem áður eru upp taldir, frekar til staðar hjá hinum stærri félagseiningum, en þó öllu helst hjá landssamböndum og heildarsamtökum. Þess vegna eru ákvæðin skilyrðislaus um hlutfallskosningu til stjórnar landssambandanna og heildarsamtakanna. En þær stjórnir fara með hið raunverulega vald milli þinganna, ekki aðeins sambandanna sjálfra, heldur einnig einstakra félaga innan þeirra.

Það skal tekið fram, að kosningafyrirkomulag er breytilegt hjá félögum einstakra heildarsamtaka. Þar á ég við auk Alþýðusambandsins bæði BSRB og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, og er sums staðar viðhöfð mjög lýðræðisleg kosning, sem ég hef þó ekki haft aðstöðu til að kynna mér mjög ítarlega.

Ég minntist á það í upphafi ræðu minnar, að samkvæmt gamalli hefð ætti mál þetta heima í allshn., en við nánari athugun í kaffihléi finnst mér — og reyndar forseta líka-að málið eigi fullt eins heima í félmn., sem þá mun ekki hafa verið til á Alþingi. Ég legg því til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til félmn. hv. d., og ég endurtek þá ósk mína, að Alþýðusambandsþing á næsta hausti verði beðið að tjá sig um mál þetta.