22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

14. mál, tekjuskipting og launakjör

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Mér finnst nokkuð hafa ræst úr frá því sem áður var. Á ég þar við að það kom mér mjög á óvart þegar ég las um það, að í tíð stjórnar hinna vinnandi stétta, þegar þessi till. var fyrst flutt, fengust ekki aðrir til þess að ræða þetta mál en 1. flm., og svo mun einnig hafa verið við fyrri hluta þessarar umr. sem nú stendur yfir. Að vísu voru þá menn á mælendaskrá sem gátu ekki notað sér þann rétt sem þá gafst og vildu ekki tefja fyrir að málið færi til n. En nú hefur nokkuð lagast og áhugamenn aðrir en — eins og við erum stundum kallaðir af fjölmiðlum — verkalýðsrekendur, sem flm. þessarar till. verða að teljast til, hafa lýst skoðun sinni á þessu máli og ýmsum öngum þess. Frammíköll gáfu til kynna að það væri lítil trú á því að senda hluta þessarar till. til rannsóknar í félagsfræðideild Háskólans. Ég er hjartanlega sammála þeim sem komu fram með þá aths., tel að þá, sem þar stunda nám, ætti heldur að senda út á þennan sama vinnumarkað til nokkurs lærdóms þar.

Það hlýtur samt sem áður að vekja furðu manna — og þá sérstaklega þeirra sem hafa tekið þátt í stjórnmálaumræðum á undanförnum árum, hvar meginhluti allrar umræðu snýst um efnahagsmál og þar undir launamál sem einn stærsta og þýðingarmesta lið þeirra — að till. þessi skuli ekki hafa vakið meiri athygli en hér er bent á og raun ber vitni um. Ég hélt satt að segja að það mundi heyrast meira frá þeim mönnum sem nú sitja á Alþ. og hafa unnið að þessum málum árum og áratugum saman. Það má vera að þeir séu orðnir leiðir á þessari umr. og þreyttir, hafi nóg að gera á eigin vígstöðvum, og lái ég þeim það ekki, að þurfa kannske ekki að standa öllum atriðum þessara fjölþættu mála, hvernig málin í raun eru. En það er svo annað mál og er þeirra að skýra frá því annars staðar þar sem þeir halda að skoðanir þeirra nái betri árangri.

En það, sem mér finnst vera einna merkilegast við þessa till., er að henni er ætlað að hjálpa til þess að árangri verði náð í ítrekuðum tilraunum stjórnvalda, margra stjórnvalda, til þess að bæta hag þeirra sem teljast láglaunafólk. Þessar tilraunir hafa verið gerðar af aðilum um margra ára skeið. Þær hafa stundum eyðilagst af óviðráðanlegum áhrifum, stundum hafa þær verið vísvitandi eyðilagðar vegna pólitískra aðgerða í þjóðfélaginu. Þetta þekkjum við. Við vitum líka að þetta hefur mistekist m. a. vegna þess, að það hefur verið djúpstæður skoðanaágreiningur innan raða launþegasamtakanna og reyndar vinnuveitenda líka, ekki síst um ýmsar greiðslur og mat á greiðslum sem sótt er eftir að fá til launþega. Getum við t. d. bent á verðbæturnar sem virðast ætla að verða að eilífðartali og samningsefni milli þessara aðila. En alls staðar og alltaf — sama hvort spurt er um og talað um verðbætur og fyrirkomulag þeirra, hvort talað er um láglaunafólk eða einhverja aðra — þá stönsum við alltaf við þessa sömu meginspurningu: Hvað á að leggja til grundvallar í þessu mati? Þetta hefur komið inn í umr. að undanförnu í sambandi við íslenska fiskimenn, og ég hjó eftir því, þegar hv. síðasti ræðumaður benti á 7. lið þessarar till., að hann gat einmitt um vinnuaðstæðurnar. Það er kannske það sem ég sakna mest í till. þeirra félaganna, að það hefði þurft að taka og telja betur upp ýmsa þætti sem meta ætti þegar aðstæður eru metnar og áður en gengið er til samninga t. d. um launastiga.

Ég ætla ekki að teygja lopann vegna till. En ég verð þó að koma fram þeirri aths. minni sem rak mig upp í ræðustólinn að þessu sinni. Ég hef lýst því yfir áður, að ég muni styðja þessa till., og ætla að gera það, jafnvel þó ég sé ekki alls kostar ánægður með hana. Ég held að með samþykkt þessarar till. séum við komin nokkuð á leið að opna umr. um þetta vandamál, og við erum að leita með samþykkt hennar að leiðum til þess að ná fram ýmsum markmiðum, sem t. d. láglaunahópar þessa þjóðfélags hafa verið að leita eftir. Hitt er svo annað, að aftur kemur upp sama eilífðarspurningin: Hvað er láglaunahópur? Um það höfum við líka rætt hér á Alþ. að undanförnu.

Það sem ég hef aðallega við þessa till. að athuga, er um framkvæmd hennar. Tillögumenn ætla sér að láta ríkisstj., annaðhvort núverandi, líklega fyrrv. þegar till. var flutt, — en ríkisstj. á hverjum tíma á að framfylgja og sjá um framkvæmd þessarar till. Það hefur þegar komið fram og undir það tek ég, að það er langtímaframkvæmd að ráða fram úr og svara, leita og finna svör við öllum þeim spurningum sem hér eru lagðar fram. En það, sem veldur því, að ég dreg í efa að rétt sé að fela ríkisstj. á hverjum tíma að gera þetta, er m. a. sú staðreynd, að allir þrír hv. flm. sem þessa till. flytja — þ. á m. annar guðfaðir eða guðmóðir, ef svo á að kalla, fyrrv. vinstri stjórnar — studdu vinstri stjórnina síðustu og studdu þ. á m. að sjálfsögðu félmrh. sem átti sæti í þeirri stjórn. Sú stjórn setti með stuðningi allrar ríkisstj. og stuðningsflokka sinna brbl., en samkv. þeim átti að taka m. a. til rannsóknar ýmis af þeim þýðingarmiklu málum sem varða aðila sem um er getið í þessari þáltill.

Nú gekk dómur um sum ákvæði brbl. Brbl. voru efnislega á þann veg, að einstök atriði áttu að ganga til dóms, sem og varð. En varðandi hina félagslegu hlið, sem var eitt meginmál brbl., og varðaði m. a. fjarvistir frá heimili og einangrun á vinnustað o. fl., o. fl., þá treysti dómurinn sér ekki til þess að kveða upp dóm. Í dómsorði hans segir m. a. á þessa leið, með leyfi forseta:

„Dóminum var snemma ljóst, að á þeim skamma tíma, sem honum var ætlaður til verksins, var honum ofviða að framkvæma viðeigandi mat á störfum farmanna, en þeir áttu hlut í þessu tilfelli. Hér er um að ræða viðamikið starfsmat, sem ekki hefði verið gert nema með aðstoð sérfróðra manna og að undangenginni öflun margvíslegra gagna umfram það sem þegar liggur fyrir. Hefur dómurinn því ekki treyst sér til að gera verulegar breytingar á því mati á þessum atriðum, sem felst í samningum aðila frá fyrri tíð.“

Hér er auðvitað mergur málsins: Hér verða ekki kallaðir til leikmenn. Hér þarf til sérfræðinga eða menn sem hafa aflað sér sérfræðilegrar þekkingar til þess að meta þessa og aðra hluti. Þess vegna verður ekki kveðinn upp dómur eða samið á milli tveggja aðila öðruvísi en báðum aðilum sé kunnugt um hvað liggi að baki. Og því segi ég enn, að ég tel að þetta mál eigi ekki að vera hjá ríkisstj., alveg sama hverjir eiga sæti í þeirri ríkisstj., heldur eigi þetta að vera hjá öðrum aðila, — aðila sem viðkomandi samningsaðilar, þeir sem að vinnumarkaðinum standa, bera fullt traust til. Og það er m. a. þess vegna sem ég persónulega gladdist við að sjá þessa þáltill. flutta, því að hér er um gamalt áhugamál mitt að ræða, sem að vísu hefur ekki komið inn á Alþ. áður, en er nú komið fram í formi þáltill.

Það mun hafa verið fyrir nær tveimur áratugum, í byr;un svokallaðra viðreisnarára, sem ég hreyfði þessu máli oftar en einu sinni opinberlega, en sérstaklega þó í tímariti sem fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík gaf út um tíma. Fjallaði grein mín um hagstofnun vinnumarkaðarins. Allt það, sem hér hefur verið drepið á — og reyndar fleira sem ég gat um þá, held ég að eigi heima hjá slíkri stofnun sem aðilar vinnumarkaðarins eiga aðild að, fylgjast með að staðreyndum sé safnað saman eftir þeim leiðum sem þeir telja ekki aðeins skynsamlegar, heldur og réttar. Þar sé oddaaðili, sem vonandi gæti orðið sambærilegur núv. hagstofustjóra, en það sé meginmarkmið að slík stofnun öðlist sams konar traust og Hagstofa Íslands hefur náð í huga þjóðarinnar. Ég held að í tíð núv. og reyndar fyrrv. hagstofustjóra hafi aldrei komið fram neinar efasemdir um það, að þeir, sem þar vinna, vinni samviskusamlega og á þann veg sem embættismenn eiga og ættu að vinna. Og ég þekki til slíkra stofnana erlendis, þar sem hið sama hefur gerst. Það hefur tekist að skapa slíkt traust á slíkum vinnumarkaðsstofnunum m. a. vegna þess að þær voru í tengslum við hagstofur viðkomandi landa.

Nú veit ég að hvorki flm. þessarar till. né aðrir, og allra síst ég, mæla með stofnun nýs bákns innan okkar þjóðfélags. En svo vill til, að við eigum slíka stofnun nú þegar sem við getum unnið betur upp og látið vinna að slíkum verkefnum. Og það gerum við auðvitað með því að fjölga þar starfsmönnum og láta meira fé renna til hennar. En guði sé lof, þá hefur það fé, sem þegar hefur runnið til þess aðila sem ég er hér að ræða um, sem er Kjararannsóknarnefnd, ekki komið úr ríkissjóði, heldur úr sjóðum sem byggjast upp af aðilum vinnumarkaðarins sjálfum. Ég held nefnilega að varðandi mikið af þessu starfi, alla vega því starfi sem varðar hin hagfræðilegu rök eða efnahagslegu, sé rétt að fela slíkum aðila að vinna að rannsókn og úrvinnslu þess sem við erum að leita að á því sviði. Og ég er sannfærður um það, sem hér er verið að benda á og reyndar fleiri aðilar hafa bent á nú upp á síðkastið, að ef við getum fetað okkur áfram á þessari leið, þá erum við á réttri leið. Ég minnist mjög skynsamlegrar greinar eftir Harald Steinþórsson, sem er einn af ráðamönnum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þar sem hann bendir réttilega á það, að við þurfum að brjóta út af þeim venjum, sem við höfum fylgt. Formaður þeirra samtaka vakti máls á því — að vísu löngu eftir að ég var með þessa hugmynd innan Alþýðusambandsins — að nauðsyn væri á stofnun sem ynni að slíkri gagnaöflun og staðreyndavinnslu. Og ég geri ráð fyrir því, að þegar menn fara að hugsa málið verði fleiri sammála okkur um að það sé nauðsyn á þessu, því að það er enginn vafi að til þess að við getum fundið út samanburð, sem alltaf verður til í öllum okkar launasamningum hér á landi, til þess að við finnum eitthvað sameiginlegt til að standa á, þá verðum við að meta hver vinnufórnin er að baki krafnanna og þeirra launa sem upp er svo staðið með að lokum. Sú fórn getur komið fram í mörgum myndum. Hún getur verið í því forminu, að viðkomandi aðili hafi þurft að skila löngu námi, hann getur borið mikla ábyrgð, hann getur staðið í hættulegu starfi, hann getur verið í starfi sem fylgir mikil vosbúð o. s. frv. En þetta verður ekki að mínu mati gert á vegum ríkisstj., hvorki núv. hæstv. né annarra. Samt sem áður greiði ég atkv. með þessari till. og tel að með því séum við a. m. k. að koma málinu á hreyfingu og að samþykkt þessarar till. geti orðið til þess, að við getum komið þessum málum áleiðis, í farveg sem við getum unað við, og geti orðið til farsældar fyrir þá sem málið stefnir að, en það eru sérstaklega launþegar þessa lands sem við hin lægri kjör búa.