28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á sama tíma sem Alþfl. deilir á Framsfl. hælir hann sér af því, eða það gerði Kjartan Jóhannsson áðan, að Alþfl. hafi verið að reyna að framkvæma stefnu Framsfl. meðan ráðh. hans sátu í endemisstjórninni í vetur. Auðvitað trúir þessu ekki nokkur lifandi maður.

Alþfl.-menn ríghéldu sér í ráðherrastólana. Karl Steinar Guðnason talaði um flosmjúka ráðherrastóla og leynir sér ekki saknaðarhreimurinn í röddinni.

Alþfl. vann það afrek að tapa nær 1/3 þingliðsins á aðeins 11/2 ári. Það var m. a. vegna skilningsleysis á erfiðri aðstöðu bændastéttarinnar í landinu. Ráðlausir og ringlaðir ráðast Alþfl.-menn nú á Framsfl., sem vann stórsigur í kosningunum í desember, en það var einmitt skýr og glögg stefna Framsfl. í efnahagsmálum sem færði honum aukið traust þjóðarinnar og stórsigur í kosningunum. Það er ekki furða þótt kratarnir séu að reyna að stela þessari stefnu. Það skil ég mætavel.

Eiður Guðnason gerði að umræðuefni ummæli mín þegar ég var spurður um áform í gengismálum hér á dögunum. Allir ættu að skilja það, nema þá e. t. v. Eiður Guðnason, að viðskrh. getur ekki og má ekki stöðu sinnar vegna skýra fyrir fram frá áformum í gengismálum. Það, sem um var að ræða, var annars vegar að fella gengið talsvert verulega í einu stökki eða beita áfram svonefndu gengissigi. Það hefur verið gert. Menn geta svo rifist um hvort 3% gengisbreyting sé í samræmi við gengissigsaðferðina eða mun meiri gengisfellingu í einu. Ég held að Eiður Guðnason hafi verið að slá undir belti í þessu sambandi.

Alþfl. stagast á því, að aðrir flokkar hafi hentistefnu. Ég ætla því að rifja stuttlega upp staðfestu Alþfl. í skattheimtumálum ríkisins og samræmið í málflutningi flokksins í þeim málum.

Samkv. fjárlögum fyrir árið 1980 eru heildartekjur 346 milljarðar kr. Þar sem áætlað er að þjóðarframleiðslan muni nema 1230 milljörðum kr. á þessu ári verða heildartekjur ríkissjóðs 28.1% af þjóðarframleiðslunni. Alþfl. hefur stofnað til þessarar útvarpsumræðu um skattamál, og hann hefur haft mjög hátt um skattpíningu ríkisstj. Við skulum nú rifja upp hver var afstaða Alþfl. til skattamála á seinasta vetri, þegar verið var að undirbúa lög um stjórn efnahagsmála o. fl., sem stundum eru nefnd Ólafslög. Alþfl. lagði fram 5. mars 1979 tillögur um afstöðu þingflokks Alþfl. til hugmynda forsrh. Ólafs Jóhannessonar um breytingar á drögum að frv. um stjórn efnahagsmála o. fl. Í þessum tillögum segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1979 skulu ákvarðanir í ríkisfjármálum við það miðaðar, að heildartekjur og útgjöld á fjárlögum haldist innan marka sem svara til 30% af vergri þjóðarframleiðslu. Á sama markmið skal stefnt á árinu 1980. Frá þessu má þó víkja ef óvæntar og verulegar breytingar verða í þjóðarbúskapnum og sérstaklega ef ætla má að hætta sé á atvinnuleysi.“

Afstaða Alþfl. á s. l. vetri í þessum efnum var sem sé sú, að ákvarðanir í ríkisfjármálum væru miðaðar við að heildartekjur og útgjöld á fjárlögum héldust innan marka sem svöruðu til 30% af þjóðarframleiðslunni. Eins og ég vék að áður eru heildartekjur á fjárlögum, sem núv. ríkisstj. hefur samþ., 28.1% af þjóðarframleiðslu ársins eins og hún er nú áætluð. Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga verður niðurstaðan sú, að ríkisstj., sem nú sætir mikilli gagnrýni af hálfu Alþfl. fyrir skattpíningu, er með heildartekjur ríkisins á fjárlögum sem eru um 1.9% lægri miðað við þjóðarframleiðslu en það hámark sem Alþfl. taldi rétt að setja í lög á þessu ári. Það væri því óhætt að bæta við 23 milljörðum í heildarríkistekjurnar til þess að komast í hámark þess sem Alþfl. taldi rétt að setja í lög varðandi yfirstandandi ár.

Þegar ég var að undirbúa fjárlagafrv. fyrir þetta ár á s. l. sumri fékk ég skriflega afstöðu frá Alþfl. um að hann vildi ekki samþ. hærri heildartekjur ríkissjóðs en sem svaraði 29% af þjóðarframleiðslunni. Þegar svo Alþfl. var búinn að gera það upp við sig að slíta ríkisstj. í fyrrahaust lækkaði hann sig enn frá þessu marki, að mig minnir niður í 28.3%. Núverandi fjárlög, sem voru samþ. fyrir páskana, eru því lægri að þessu leyti til en öll þau mörk sem Alþfl. setti um hámark skatta.

Sjálfstæðismenn, sem talað hafa hér í umræðunum, hafa lagt á það mikla áherslu að verið sé að sökkva fjármálum ríkisins og skattpíningin sé með þeim eindæmum að engu tali taki. Í því sambandi vil ég minna þá á að fyrsta árið sem Sjálfstfl. fór með ríkisfjármálin í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, árið 1975, varð rekstrarhallinn á ríkissjóði 7.5 milljarðar kr., sem mundi svara til a. m. k. 35 milljarða eins og nú er komið málum. Það ár voru heildarútgjöld ríkisins 57.4 milljarðar eða 31.4% af þjóðarframleiðslunni. Nú er stefnt að 28.1% á þessu ári eða sem svarar 40 milljörðum kr. minni útgjöldum. Hvað er stjórnarandstaðan í Sjálfstfl. eiginlega að gapa og geispa? Á einu einasta ári hækkuðu þeir ríkisskuldirnar um 35 milljarða kr. á núverandi verðlagi. Ef þetta er borið saman við ríkisfjármálin á árinu 1979, sem ég bar aðallega ábyrgð á, er rétt að geta þess, að í árslok 1978 námu skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann 26.4 milljörðum kr. eða 15.9% af ríkistekjunum það ár. Í árslok 1979 eða ári síðar námu skuldirnar hins vegar 28.7 milljörðum ísl. kr. eða 12.2% miðað við ríkistekjurnar. Það er því staðreynd sem ekki verður hnekkt, að á árinu 1979 lækkuðu skuldir við Seðlabankann miðað við ríkissjóðstekjurnar um 3.7%.

Ef frammistaða sjálfstæðismanna í ríkisfjármálum er borin saman við fjárlögin í ár eru þau í jafnvægi hvað snertir tekjur og gjöld og þess vegna engin ástæða fyrir Sjálfstfl. — stjórnarandstöðuna — að hafa hátt um þessi málefni. En stjórnarandstaðan í Sjálfstfl. lætur sér ekki segjast í skattamálum. Þess vegna vil ég bæta því við, að á fjögurra ára tímabili, þegar Sjálfstfl. fór seinast með ríkisfjármálin árin 1975–1978, voru ríkisútgjöldin að meðaltali 29.05% af þjóðarframleiðslunni á hverju ári eða meira en 1% hærri miðað við þjóðarframleiðslu en fjárlögin sem núv. ríkisstj. var að enda við að samþykkja. Þetta þarf ekki að þýða að ekki komi til greina að lækka eitthvað skatta eða breyta þeim í tengslum við allsherjarstefnumörkun í efnahagsmálum, en hér er bent á staðreyndir sem hvorki stjórnarandstæðingar í Sjálfstfl. né Alþfl. komast fram hjá.

Góðir hlustendur. Þessum útvarpsumræðum er nú að ljúka. Í þeim hefur það komið fram, að stjórnarandstaðan er bæði ráðvillt og stefnulaus og hefur heldur lítið til mála að leggja nema þvælast fyrir nauðsynlegum aðgerðum í efnahags- og fjármálum og reyna að torvelda lausn þeirra m. a. með málþófi, áróðri og hávaða úr hófi fram hér á Alþingi.

Þann skamma tíma, sem ríkisstj. hefur setið, hefur hún unnið sleitulaust að lausn hinna mörgu vandamála sem við er að fást. Á tveimur mánuðum hefur stjórnin haldið nær 30 stjórnarfundi. Tekist hefur að leysa úr vanda útflutningsatvinnuveganna og landbúnaðarins. Fjárlög hafa verið samþykkt á örskömmum tíma, og verið er að ljúka við setningu skattalaganna. Frv. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar var lagt fram hér á Alþ. í síðustu viku og er nú hjá fjh.- og viðskn. Nd. Fjármagn hefur þegar verið tryggt til jöfnunar og lækkunar upphitunarkostnaðar, samtals 4500 millj. kr. á þessu ári, en til þess var varið á seinasta ári 2 milljörðum kr. Þá er einnig verið að leggja síðustu hönd á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Gífurlega mörg og aðkallandi verkefni knýja á í fjárfestingarmálum, ekki síst á sviði orkumála og vegamála. Það verður að meta hvort þyngra vegur að hraða framkvæmdum, sem spara innflutning olíuvara, eða aðhald í efnahagsmálum.

Að sjálfsögðu eru fjöldamörg önnur mál í undirbúningi og meðferð. Ríkisstj. hefur markað þá stefnu að reyna að vinna á verðbólgunni með því telja niður verðlagið með ákveðnum hætti. Þær staðreyndir um þróun verðlags, sem nú blasa við þegar upplýst er um hinn mikla geymda uppsafnaða vanda, munu ekki breyta stefnu ríkisstj. um niðurtalningu verðbólgunnar í áföngum. Það kann af þessum sökum að verða nauðsynlegt að endurskoða áfanga niðurtalningarinnar, og það mun sennilega taka eitthvað lengri tíma að ná verðbólgunni niður. Þótt svo verði ætti engu að síður að vera hægt að ná umtalsverðum árangri þegar á þessu ári. Slíkur árangur er þó háður því, að engar grunnkaupshækkanir verði eða engar óvæntar innlendar eða erlendar kostnaðarhækkanir eigi sér stað. Á mestu ríður að það takist samvinna milli sterkustu afla þjóðfélagsins um niðurtalningu verðbólgunnar. Á ég þá fyrst og fremst við ríkisvaldið, samtök launamanna og atvinnurekenda. Ef slík samvinna kemst á vona ég að verðbólgan verði á árinu 1982 orðin svipuð hér á landi og gengur og gerist meðal helstu viðskiptalanda okkar Íslendinga.

Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgunni með eðlilegum aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál. Niðurtalning verðbólgunnar þarf að felast í því að setja hámark á verðlag, svo sem alhliða vöruverð, opinbera þjónustu, verð á landbúnaðarvörum og fiskverð. Þá er og mjög áríðandi að kaupgjaldsmálin verði í takt við niðurtalningu verðbólgunnar og hámark verðbóta á laun verði í samræmi við þessi markmið, en kjör hinna tekjulægstu verði bætt með félagslegum aðgerðum.

Þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem taka ákvarðanir varðandi efnahagsmál, verða hver á sínu sviði að taka nauðsynlegt tillit til þeirra heildarhagsmuna þjóðarinnar að sprengja ekki og ofbjóða ekki efnahagskerfinu. Þar við liggur efnaleg framtíð íslensku þjóðarinnar og e. t. v. sjálfstæði þegar tímar liða. Það er mjög áríðandi að gætt sé réttlætis í öllum aðgerðum gegn verðbólgunni, að sem flestir sameinist um nauðsynlegar ráðstafanir, en umfram allt að menn geri sér ljóst að óðaverðbólga og upplausn í efnahagsmálum torveldar framfarir og batnandi lífskjör þjóðarinnar. — Góða nótt.