29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það hefur nú verið beint til mín fsp. í ræðu hv. 4. þm. Vestf., og skal ég leitast við að gera grein fyrir því sem þm. spurði um.

Út af almennu umræðunni hér vil ég aðeins segja það, að að sjálfsögðu hef ég heyrt af því, sem blöðin hafa haft að segja um þetta mál eða flutt fréttir af, og lesið þau mótmæli sem fram hafa komið hjá 46 rithöfundum gagnvart síðustu úthlutun úr Launasjóði rithöfunda. En ég vil segja það almennt talað, að það er ekkert nýtt að deilur verði um úthlutun opinbers fjár til listamanna. Það er orðin nokkuð gömul saga. Og nú er komin hér upp ein deilan enn og hún beinist nokkuð harkalega gegn stjórn eða gegn úthlutunarnefnd Launasjóðs rithöfunda, eins og hefur komið fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf. og menn hafa verið að lesa í blöðunum. En ég vil nú ekki á þessu stigi a. m. k. og að óþörfu fara að blanda mér mikið í þessar deilur, en ég finn ekki heldur að það sé neitt við það að athuga þó að þetta mál sé rætt á Alþ., þ. e. að athygli alþm. sé vakin á þessari deilu og að uppi séu meðal allmargra rithöfunda ásakanir á hendur sjóðsstjórninni um hlutdræga úthlutun. Ég held, að það sé ekkert á móti því að þetta berist hér inn á Alþ., og ég tel, að það sé ekki saknaðarefni þó að einstöku sinnum sé rætt hér um málefni listamanna og um menningarmál yfirleitt, jafnvel þó að tilefnið kunni kannske að vera eins og það er að þessu sinni.

Í þessari ádeilu og í þessari yfirlýsingu, sem hér liggur fyrir okkur frá 46 rithöfundum, er um mjög alvarlega ásökun að ræða í garð þeirra sem fara með úthlutun úr sjóðnum. Ég held að það sé ljóst, að þeir, sem bera fram slíka ásökun, verði líka að rökstyðja mál sitt vel. Því vil ég beina til hv. alþm. að lesa þetta plagg og kynna sér allar hliðar þessa máls, m. a. með tilliti til þess, hvort það sé sérstaklega vel rökstudd ásökun sem hér er um að ræða.

Og hvert skyldi þá ásökunarefnið vera? Ásökunarefnið er það, að hæstu starfslaunum úr Launasjóði rithöfunda sé úthlutað eftir flokkspólitísku sjónarmiði, eins og segir í yfirlýsingunni.

Nú kemur það reyndar ekki fram í þessu plaggi, ef maður les það eitt sér, í hvaða flokks þágu sé verið að vinna. Það kemur ekki fram. Það er enginn ákveðinn flokkur nefndur á nafn í þessu plaggi. En mönnum er auðvitað ætlað að gefa sér það og það er alveg augljóst mál af ræðu hv. 4. þm. Vestf. hvað við er átt. Og það er út af fyrir sig ágætt að hún segir það skýrum orðum, hv. þm., að hér sé átt við Alþb., og það sé með þessari úthlutun verið að hygla Alþb.-mönnum. Þetta er náttúrlega atriði sem maður á að gefa sér, en ég held að það hefði verið miklu betra ef þessir menn, sem flytja þessa ásökun, hefðu sagt það hreint út, að þarna væri átt við Alþb., svo að menn þurfi ekki að vera að stúdera það sérstaklega hvað við er átt.

Satt að segja hef ég talsverðar efasemdir um að þessi ásökun, eins og hún er borin fram, sé rétt, eins og hún er borin fram a. m. k. Það kann vel að vera að þessi sjóðsstjórn eða þessir úthlutunarmenn séu hlutdrægir. Það má vel vera að þeir séu hlutdrægir, ég skal ekkert um það dæma, því að það veit ég ekki. En mér sýnist hins vegar að það sé hægt að efast um að þessi nefnd sé „flokkspólitískt'` hlutdræg, og á því er dálítill munur.

Það má vel vera að Sveinn Skorri sé hlutdrægur, það má vel vera að Björn Teitsson sé hlutdrægur og Fríða Sigurðardóttir sé hlutdræg o. s. frv. En ég ætla nú samt að athuga svolítið betur hvort það sé ekki einhver annmarki á þeirri röksemd, að þessi nefnd sem heild sé flokkspólitískt hlutdræg. Ef það á að standast þarf það auðvitað að fara saman, að nefndin sé skipuð Alþb.-mönnum, ég nefndi þá, og að þeir, sem starfslaunin fá, séu Alþb. menn. En ég ætla að leyfa mér að spyrja: Liggur það alveg ljóst fyrir að nefndarmennirnir, sem hér um ræðir, séu Alþb.-menn? Liggur það alveg ljóst fyrir? Ég spyr t. d.: Er Sveinn Skorri Höskuldsson Alþb.-maður, liggur það ljóst fyrir? Er Björn Teitsson Alþb.-maður? Og er Fríða Sigurðardóttir Alþb.-maður? Um þetta get ég ekkert fullyrt, ég veit það ekki. Þó er það nú svo, að tveir af þeim mönnum, sem hér um ræðir, eru ákaflega góðir kunningjar mínir. Þeir eru reyndar fornkunningjar mínir og enn í dag ágætir málvinir mínir, sem ég satt að segja umgengst alloft og hitti og spjalla við um alla skapaða hluti. Skoðun mín er nú sú um þessa ágætu vina mína, að þeir séu óflokksbundnir menn, þeir séu ekki Alþb. menn, með einhvern flokksstimpil þar eða þeir séu á skrá í einhverju Alþb.-félagi. Ég held að þeir séu það ekki. Og mér er það mjög til efs að þessir menn séu kjósendur Alþb. Mér er það mjög til efs að þeir séu það, auðvitað veit ég ekkert um það því að ég fylgi þeim ekki inn í kjörklefann og kíki ekki á hvað þeir kjósa.

Þess vegna segi ég það að mér finnst frá venjulegu skynsamlegu sjónarmiði dálítið vafasamt að halda því fram, að hlutdrægni þessara manna, ef um slíkt er að ræða, sé flokkspólitísk, að hér sé um að ræða flokkspólitíska hlutdrægni. Ég segi því, að ef þessir menn eru hlutdrægir, þá er það ekki flokkspólitísk hlutdrægni, heldur er það einhvers konar önnur hlutdrægni.

Þetta er það sem ég vildi segja almennt um þetta plagg sem hér liggur fyrir okkur og hefur verið gert að umræðuefni. Og ég vil segja aftur eins og ég hefur áður sagt, að ég hef ekkert á móti því að þessi deila meðal rithöfunda sé kynnt og rædd á Alþ. Þetta er mál sem varðar alþm. og varðar almenning. Samt held ég að deiluatriðin og ásökunarefnin séu tæpast nógu vel upplýst til þess að raunverulegur umræðugrundvöllur sé um þetta mál meðal alþm. enn sem komið er.

Mér sýnist nú að þetta mál sé fyrst og fremst dálítið flókið deilumál, kannske tilfinningamál meðal rithöfunda og innan Rithöfundasambandsins. Ég held að það væri mjög heppilegt um sinn að bíða og sjá hvort þessar deilur verða ekki jafnaðar innan Rithöfundasambandsins, hvort rithöfundar hafi ekki möguleika á því að jafna þetta, og ef þeir eru óánægðir með úthlutunarnefndina og með það hvernig hún er skipuð og hvernig hún vinnur, hvort þeir geti ekki innan félags síns komið á breytingum sem viðunandi eru og eru þá í samræmi við vilja — við skulum segja: meiri hlutans, ef um það er að ræða að það sé verið að ganga á rétt hans og það sé einhver tiltekin minnihlutaklíka sem þarna ræður.

En sem sagt, ég hef ekkert á móti því að þetta sé rætt hér. En ég vil samt, og ég held að það sé mjög mikil nauðsyn, að menn kynni sér alla málavexti og sjái á þessu máli fleiri hliðar en fram hafa komið til þessa. Og alveg sérstaklega finnst mér að þetta plagg frá 46 rithöfundum sé þannig að það sé ákaflega auðvelt að hrekja þá staðhæfingu, að þarna sé unnið frá flokkspólitísku sjónarmiði. En hitt, hvort einhver önnur sjónarmið, kannske annarleg, ráða, ætla ég ekkert um að dæma, vona þó að það sé ekki.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég mun, ef það kemur til minna kasta sem menntmrh., sem vel má vera, að hafa einhver afskipti af því að reglunum verði breytt, þá mun ég sinna því máli. Ég mun leggja mig fram um það að setja mig inn í málið og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin, og ef ég finn að þau eiga við rök að styðjast þá mun ég vissulega taka tillit til þeirra. En ég vil nú ekki hlaupa eftir hvaða sögu sem upp kemur eða út er borin.

Hv. 4. þm. Vestf. beindi til mín sérstakri fsp., sem fjallaði um tiltekna nefnd sem Vilhjálmur Hjálmarsson, sem menntmrh. var á árunum 1974–78, mun hafa sett á laggirnar og hann gerði að umtalsefni eitt sinn í sinni ráðherratíð hér í hv. Alþ. Hv. 4. þm. Vestf. var svo elskulegur að hafa samband við mig í tæka tíð, þannig að ég gat kynnt mér sögu þessa máls og fann nokkur skjöl varðandi þá nefnd sem ég hygg að hv. þm. eigi við. Að því komst ég, þegar ég fór að athuga skjalasafn rn., að það mun hafa verið 19. og 21. apríl 1975 sem menntmrh. skipaði þriggja manna nefnd til þess að gera yfirlit um hverju væri varið af opinberri hálfu til listastarfsemi í landinu. Í nefndina voru eftirtaldir menn skipaðir: Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur, sem var formaður, Andrés Björnsson, útvarpsstjóri og Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri. Og til er skipunarbréf fyrir n. sem ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa að þessu gefna tilefni:

„Ráðuneytið telur æskilegt að gert verði glöggt yfirlit yfir hverju er varið af opinberri hálfu til listastarfsemi í landinu og hver aðstaða þeirri menningarstarfsemi er búin í þjóðfélaginu. Vafalaust er ýmsu ábótavant í þessu efni, en rn. telur nauðsynlegt að hafa traust yfirlit um það, hvernig þessum málum er háttað, til þess að unnt sé að gera umbætur á traustum grundvelli og með heildaryfirsýn um hvernig þjóðfélagið býr að listamönnum sínum, bæði til listsköpunar og listflutnings.

Til þess að gera framangreinda könnun skipar ráðuneytið yður, herra rithófundur, í nefnd ásamt þeim Andrési Björnssyni útvarpsstjóra og Vigdísi Finnbogadóttur leikhússtjóra, og eruð þér formaður nefndarinnar. Æskilegt er að n. ljúki störfum innan eins árs, og mun rn. sjá n. fyrir starfsaðstoð samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun, sem rn. og n. koma sér saman um.“

Undir þetta ritar Vilhjálmur Hjálmarsson, þá menntmrh., en þetta bréf er skrifað til Indriða G. Þorsteinssonar rithöfundar. Sams konar bréf bárust svo aftur hinum tveimur nm. (Félmrh.: Hvenær var þetta?) Þetta skeði 1975, í aprílmánuði 1975.

Svo er hægt að rekja söguna nokkuð, að svo för að þessi ágæta n. skilaði ekki áliti. U. þ. b. þremur árum eftir að n. var skipuð og hún hafði engu nál. skilað og ekki var vitað neitt um störf hennar, þá tók ráðh. sig til, að því er virðist, og leysti n. frá störfum með bréfi sem er dagsett 3. mars 1978. Ekki veit ég hvort ég á að fara að lesa þetta bréf. Það er efni þess, að ráðh. leysir þessa n. frá störfum. Hitt er annað mál, að nefndarformaðurinn, Indriði G. Þorsteinsson, sem er röskleikamaður, taldi sig reyndar hafa verið að vinna allan tímann og hefði verið að bíða eftir upplýsingum sem tveir menn, sem hann hafði beðið um upplýsingar hjá, skiluðu af sér. En af því varð ekki að þeir skiluðu af sér og n. beið eftir því, að þessir ágætu menn sendu upplýsingar til n., þannig að lítið varð úr starfi hennar, af hvaða ástæðum sem það nú kann að vera.

Ég ætla ekki að fara að lesa það bréf sem Indriði Þorsteinsson skrifaði, það er langt, en þar gerir hann grein fyrir því, af hverju nál. var ekki komið fram, og höfuðatriðið er það að hann taldi sig eiga von á upplýsingum frá tilteknum starfsmönnum hjá Framkvæmdastofnun og menntmrn., en þessar upplýsingar hefðu ekki borist. Síðan sættist hann á það, formaður n., að verða leystur frá störfum.

Þetta er nú um þessa n. að segja og síður en svo að ég reki þetta til þess að ásaka nm. á nokkurn hátt. En þetta sýnir hversu stundum getur farið um nefndarstörf þó að þau séu hafin í góðu og eigi að gegna miklu og góðu hlutverki.

En ég vil geta þess, að nú að undanförnu hefur verið unnið að því innan menntmrn. sjálfs og af hálfu menntmrn., — ég hygg að þetta starf hafi byrjað nokkru áður en ég kom til starfa í rn., — en nú hefur verið unnið að því með fullri vitund minni og í samráði við mig að safna saman gögnum um framlög til lista og menningarstarfsemi og gera það út frá ýmsum forsendum, sem er of langt mál að rekja hér. En ég held að það sé ákaflega gagnlegt að slíkum upplýsingum sé safnað og samin skýrsla byggð á þeim. Og það er von á því að það líði ekki mjög langur tími áður en þessi skýrsla liggur fyrir. Ýmis drög eru til að henni, og ég vona að sú skýrsla geti legið fyrir áður en langt um líður. Hún verður þá birt með einhverjum hætti opinberlega. En að þessu máli er unnið og það er í raun og veru að nokkru það verkefni sem sú n. átti að sinna sem hv. 4. þm. Vestf. var að spyrja mig um og ég var að gera hér grein fyrir.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég endurtek það, að mér þykir í sjálfu sér leitt að svona deila skuli koma upp. En það er ekki alveg nýtt að listamenn deili innbyrðis og séu óánægðir, og þá er auðvitað gripið til ýmissa raka um ástæður fyrir deilunum. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir því af minni hálfu, að ég sé ástæðu til að efast um meginásökunarefnið eins og það er fram sett, þó að vel megi vera að það megi finna einhverjar aðrar ástæður fyrir því eða sýna fram á það með öðrum rökum að þeir, sem standa að þessari úthlutun, séu hlutdrægir eða að einhverju leyti hallir undir einhverja tiltekna menn öðrum fremur. En ég held sem sagt, að það sé ákaflega erfitt að ætla að gera þetta upp í ræðu á Alþ., og mun ekki gera það fyrir mína parta, en veilur sé ég á rökstuðningi þeirra sem ásakanirnar hafa borið fram.