29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það verður stundum undarleg og andkannaleg blanda sem út kemur þegar Heimdellingar á sextugsaldri fara að tala um menningarmál. Hér á ég t. d. við hv. þm. Halldór Blöndal og að mál sem hann flutti hér áðan.

Ég vil byrja á því að staðfesta það, að það var rétt með farið hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að sú reglugerð, sem hér er verið að tala um að unnið hafi verið eftir, var undirrituð af mér meðan ég sat í menntmrn., nánar tiltekið 19. okt., og það var gert, að ég tel, í fullkominni sátt og samlyndi og án athugasemda frá Rithöfundasambandi Íslands.

Nú hafa hins vegar gerst alvarleg tíðindi. Ég vil taka undir það með þeim ræðumönnum, sem svo hafa sagt, að það eru vissulega alvarleg tíðindi þegar 46 rithöfundar og allir af góðu kunnir telja sig knúna til þess að gera athugasemdir af því tagi sem hér hefur verið gert. Ég er einnig sammála því, að það er auðvitað eðlilegt að þetta sé rætt í þeirri stofnun þar sem fjárveitingavaldið er, og jafnframt með það í huga, að ef hér er um sannar sakir að ræða, þá er sjálfsagt að íhuga vandlega hvort ekki eigi að breyta slíkum reglum. Þetta hygg ég að séu almenn sannindi sem allir mundu vera sammála um.

En þá komum við næst að þessu: Eru þessar ásakanir, sem vissulega eru mjög alvarlegar, eru þær rökréttar og styðjast þær við rök? Þar vil ég hins vegar taka undir með hæstv. menntmrh., að mér þykir mjög skorta á að um slíka röksemdafærslu sé að ræða. Við getum auðvitað vel skilið að það kunni að vera erfitt mál, tilfinningamál, að vera ekki að flagga eða hampa þeim nöfnum sem ekki hafa fengið náð fyrir augum þessarar nefndar. Það var upplýst hér áðan, að það munu vera 64 nöfn sem þar um ræðir. En ég lít svo á að það sé skylda Alþingis að athuga þessa lista annaðhvort sem opinbert plagg eða ef mönnum þykir það ekki hæfa, þá sem trúnaðarmál. Það væri t. d. vel við hæfi að menntmn. þingsins, eða annarrar hvorrar deildarinnar, útvegaði sér slíkan lista og það þá sem trúnaðarmál. Þá fyrst er hægt að gera sér einhverja hugmynd um það, hvort þessar alvarlegu ásakanir hinna 46 rithöfunda styðjast við einhver rök.

Mér þykir þó augljóst hvar sönnunarbyrðin liggur í þessu máli, og þar er ég algjörlega ósammála þeim málflutningi sem t. d. hv, þm. Halldór Blöndal hafði hér uppi áðan. Mér þykir augljóst að sönnunarbyrðin liggur hjá þessum 46. Það getur ekki verið skylda hinna að hreinsa sig af órökstuddum áburði. En slíkar sannanir hafa okkur ekki verið sýndar enn sem komið er.

Fyrir mér er það aukaatriði, hvar þessir þremenningar eru í stjórnmálaflokki. Það er líka aukaatriði, hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafa sem styrkinn hafa fengið, og þá er ég auðvitað kominn að mjög erfiðu og viðkvæmu matsatriði, ef þeir rithöfundar, sem þessa styrki hafa fengið, uppfylla tiltekin listræn skilyrði. Og það kom fram í máli framsögumanns, hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, að það er ekki verið að gera athugasemdir við þá rithöfunda sem þessa styrki hafa fengið.

Það er auðvitað á engan hátt óeðlilegt að bæði þau, sem í þessari valnefnd sitja, og eins forustumenn í Rithöfundasambandi Íslands, t. d. formaður Njörður P. Njarðvík, svari grimmt fyrir sig þegar um slíkar ásakanir sem þessar er að ræða.

Ég held að það sé skylda okkar sem alþm. að hlusta vel eftir þeim röddum sem hér er um að ræða. En jafnframt hljótum við að ætlast til þess, að sönnunarbyrðin sé hjá þeim sem hafið hafa þessar ásakanir. Enn eru þær ekki rökstuddar og verða það ekki fyrr en annars vegar er birtur listinn um þá, sem hann hafa fengið, og hins vegar til samanburðar listi um þá sem hafnað hefur verið. Fyrr en svo er gert svífur þessi umr. auðvitað öll meira og minna í lausu lofti.

Ég er sem sagt að taka upp hanskann fyrir bæði þessa úthlutunarnefnd og fyrir forustumenn í Rithöfundasambandinu. Ég held að það megi krefjast þess, að þeir heiti saklausir þangað til annað er sannað. Sannanir eru ekki komnar fram, hvað sem siðar mun verða. Og það hlýtur að gilda sama regla í máli af þessu tagi og við teljum vera grundvallarreglu í réttarfari, að menn eru saklausir þangað til annað er sannað.

Verði mér leitt fyrir sjónir að hér hafi misnotkun átt sér stað, sem ég engan veginn tel ástæðu til að telja á þessu stigi málsins, — en við eigum að vera þannig, að í ljósi nýrra upplýsinga eigum við að vera tilbúin til að skipta um skoðun, — verði mér leitt fyrir sjónir að hér hafi þrátt fyrir allt átt sér stað misnotkun, þá skal ég verða fyrstur manna til þess að taka þátt í gjörbreytingu þessa kerfis til þess að slíkt endurtaki sig ekki. En fyrst vil ég sjá sannanirnar, og það eru engar sannanir enn sem komið er í þessa veru. Mér þykir málstaður ófullkominn — og ég vísa nú til dólgslegustu ræðunnar sem hér hefur verið flutt um þessi efni, sem er ræða hv. 7. landsk. þm., Halldórs Blöndals. Það er millistríðsáratungutak sem hann notaði hér. Mér finnst hann spilla fyrir málstað sínum, og það er erfitt, held ég, fyrir velviljað áhugafólk um menningarmál að taka undir málflutning af þessu tagi. Mér skildist hann gera sig sekan um nákvæmlega það sem hann þóttist vera að saka hæstv. félmrh. Svavar Gestsson um í þessu efni.

Ég vil svo að lokum taka undir með málshefjanda þessa máls, hv. 4. þm. Vestf., Sigurlaugu Bjarnadóttur, um það, að umbeðnar upplýsingar fáist. Þegar slíkar upplýsingar hafa fengist skulum við setja okkur í dómarasæti. Við erum að vísu að tala um eitthvert erfiðasta dómarasæti sem til er, þ. e. að dæma um val og smekk í bókmenntum, því slíkt getur auðvitað verið bæði breytingum og sviptibyljum undirorpið og jafnvel svo að smekkur manna og heilla kynslóða getur gjörbreyst í einni andrá í slíkum efnum. Engu að síður verðum við að taka svona ákvarðanir, hið háa Alþ., annaðhvort með því að framselja slíkt vald eða taka ákvarðanirnar sjálft, eins og það auðvitað hefur lagalega stöðu til. Ég undirstrika það enn, að ég er tilbúinn að taka þátt í gjörbreytingu þessa kerfis, ef það er sannað fyrir mér að um misnotkun hafi verið að ræða. En þangað til það er sannað krefst ég þess, að það fólk, sem hér er verið að bera á sakir, njóti fyllstu mannréttinda. Þetta fólk er saklaust þangað til annað hefur verið sannað með rökum.