29.04.1980
Sameinað þing: 50. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

Umræður utan dagskrár

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, væntanlega í lok þessara umræðna. — Umr. um þetta mál hafa farið nokkuð út og suður, út fyrir efnið og lent út í óþarfasnakki og skætingi og stóryrðum og brigslyrðum. Ég vil að lokum leggja megináherslu á það sem ég tel merg málsins, og það er þetta: að hvorki ég né aðrir hv. þm. eða hæstv. ráðh. eru þess umkomnir að gera sig að dómurum í þessu máli. Við erum ekki að ræða um þetta hér til þess að fella dóm yfir einum eða neinum. Það, sem við erum að gera, er að benda á mál og ákæru þessara 46 rithöfunda sem hafa mótmælt ráðstöfun fjár, ráðstöfun í máli sem snertir þá alla jafnt og þeir, þessir rithöfundar, eiga kröfu á að þetta mál sé tekið fyrir á Alþingi.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og kom raunar fram hjá mér líka, að við hljótum að afla upplýsinga um þetta mál, afla okkur kannana á því, hvort ákæran á við rök að styðjast. Ég tel að það sé óþarfi að slá því framan í þessa 46 rithöfunda, að þeir hafi ekki rökstutt sitt mál. Ef menn hafa hlustað á fjölmiðla og lesið fjölmiðla, þá hafa þeir komið með fjölmörg veigamikil rök sem ekki er hægt að hrekja.

Hæstv. menntmrh. svaraði af ljúfmennsku sem honum er lagin. Mér þótti hann óákveðinn, óljós þó í sínum svörum. Ráðh. verður stundum að taka af skarið, og ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem það á við.

Ég vona að þessi umr. þó að margt hefði mátt vera ósagt kannske, verði ekki til þess að sundra meira en orðið er þessum hópi listamanna í okkar landi, heldur verða til þess, að leiðrétting fáist og sættir náist milli þessara hópa sem nú standa í stríði.