30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

131. mál, flugvallagjald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka flugvallagjaldið um 60%, og segir í grg. að það sé til samræmis við almenna verðlagsþróun frá 1. jan. 1979. Þetta eru nokkuð aðrar tölur en hæstv. ríkisstj. notar undir öðrum kringumstæðum. Þegar verið er að leggja skatta á þjóðina eru alltaf notaðar hæstu viðmiðanir, en svo aðrar þegar talað er á öðrum nótum, og þá kemur að þeirri áráttu hæstv. ríkisstj. að ná sem mestu til sín af almannafé á sama tíma og ráðstöfunarfé þjóðarinnar dregst saman. Ég vil jafnframt undirstrika það, að með því að hækka flugvallagjaldið meira en réttmætt getur talist er verið að skáka í því skjóli að þetta tekur ekki til verðbótavísitölunnar. Þetta er aðeins eitt dæmi um að níðst sé á landsbyggðinni með opinberum gjöldum sem höfuðborgarsvæðið losnar við. Ástæðurnar fyrir því, að ég get ekki sætt mig við þetta flugvallagjald, eru ekki síst þær, að gjaldið bitnar fyrst og fremst á þeim sem eru úti á landi. Ég vil ekki trúa því að óreyndu, að þm. þeirra kjördæma, sem mest eiga undir flugsamgöngum, geti fallist á að haldið sé á þessum málum með þeim hætti sem hér kemur fram.